Greinasafn fyrir merki: vatn

Lífslind

Þú, sem ert höfundur vatnsins, höfundur lífs,
– þú hefur mótað jarðarkringluna fagurlega og
sveipað líkama hennar vatnsklæðum,
sem blakta í golu, bylgjast – rísa og hníga.
Þú ert vatnaskáldið mikla,
sem yrkir af hita svo vatn svífur upp í himininn.

Þú leikur þér í baði veraldar

og veitir vatni í hringrás heimsins.
Þú veitir því í blóðrás lífsins,
tyllir því á fjallatoppa.

Svo stikla bunur niður stalla, kvíslast milli steina,
faðma aðrar lænur, sameinast,
endurvarpa ljós þitt í morgunsólinni,
dreyma hádegisdrauma
og hverfa í hafið, faðm þinn.

Vatni ausa, með fögnuði…
Þú gefur vatn fyrir lífið, fyrir gleðina.
Veitir vatni um líkama hvala og fjalldrapa,
og í smásyngjandi lyfjagras og dýjamosa,
fíla, apa, ær og menn –
í frumur og örverur,
í stóra keðju, sem þú gefur og mylkir.

Mig þyrstir – þú vökvar.
Ég er grænþörungur á steini – þú ert haf kærleikans.

Þú umspennir allan heiminn blessun,
Þú gefur vatn fyrir lífið.

Ég er ausinn vatni ….. þitt vatn þrýtur ekki.

En gefur þú fögnuð Guð?

Hvaða lindir eru lindir fagnaðar?
Hvað svalar nístandi þorsta hið innra?
Hvaða rekja sefar þegar kvíðinn sækir að?
Hvað endurreisir þegar sektin nagar?
Hvað græðir brotið fólk og marðar fjölskyldur?
Hvað bætir fyrir orð hryllings, illvilja, morð og mein?

Vatn umlykur allt.

Vatn af himni – vatni er hellt í font.

Barn hjalar við sólbroti vatnsins,
í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.
Kross á enni, kross á brjóst,
vatn á höfuð.

Bros í augum.

Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
Þú, sem gefur vatn af himni, vatn í jörðu, haf,
kemur svo sjálfur með lífsins vatn.
Þú ert vatnsveitan eina – lindin lífs.

Þegar geimar gliðna, heimur riðlast,
menn æða og sál engist – þá gefur þú gott vatn.
Þorstinn er minn en þú ert lind lífsvatnsins.

(Bæn á kyrrðarstund – Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Jesaja 12:3)

Vatnið og lífsréttur

Við Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, séra Elínborg Sturludóttir, Dómkirkjuprestur og Einar Karl Haraldsson, Hallgrímskirkju, sátum í stúdíói í Borgarbókasafninu og ræddum um vatn og tuttugustu og þyrstu öldina. Skapa þarf nýjan rétt, lífsrétt. Samtalið, þ.e. hljóðskáin er meðfylgjandi.

Fleiri þættir eru aðgengilegir að baki þessari smellu. Einar Karl Haraldsson stýrir þessum þáttum.

Samtal um vatn: Konan og Kristur

Fyrir nokkrum árum var ég á ferð með fjölskyldu minni í Austur-Afríku. Í Eþíópíu og Keníu sá ég margar konur á ferð með vatnsbrúsa á höfðum. Margar þurftu að ganga langa leið og burðast með mikið vatn. Ef konurnar voru einhleypar þurftu þær ekki að fara nema eina ferð á dag en ef þær áttu fyrir heimili að sjá urðu þær að fara fleiri en eina ferð og taka jafnvel börnin með sér til að fækka ferðunum. Konur um allan heim fara langar leiðir í vatnsöflun. Það er því hagnýtt að Hjálparstarf kirkjunnar bendi þeim sem vilja styðja fólk í fátækari hluta heimsins að borga fyrir brunndælur. Brunnar eru lífsnauðsyn og koma að beinum notum.

Konan og vatnssamtalið

Sagan um samversku konuna sem Jesús talaði við er ein af ástsælustu sögum Biblíunnar. Um aldir hefur fólk hugsað um þennan fund og samtal við Jakobsbrunn, sem sagt er frá í fjórða kafla Jóhannesarguðsjalls. Jesús var þyrstur og ávarpaði konuna og bað um vatn. Af hverju náði hann ekki í vatnið sjálfur? Svo ræddu þau saman, konan og hann. Þetta varð kostulegt samtal og guðspjallshöfundurinn hefur greinilega haft gaman af að segja söguna og rita því hún er á mörgum plönum, þvers og kruss og upp og niður. Konan og Jesús tala í kross. Einföld beiðni þyrsts manns varð mikið drama, sem endaði með því að konan rauk öskrandi inn í nærliggjandi þorp. Í sögunni um Jesú og konuna flæðir yfir allar brúnir. Það er ofgnóttin í frásögunni sem er svo áhrifarík. Í sögunni er merkingarplús sem vert er að vitja. Fólk hefur skilið þessa sögu með ýmsu móti en flestum sem hafa íhugað frásögnina hefur verið ljóst, eins og Ágústínusi kirkjuföður, að sagan væri afar leyndardómsfull og þrungin af táknrænni merkingu.

Fræðin og fordómarnir

Biblíufræði nútímans eru ekki bara um að endurraða því sem kirkjufeðurnir, Lúther, Calvin og síðari fræðimenn hafa sagt eða hugsað. Biblíufræði nútímans eru nútímafræði. Fjöldi fræðigreina nýtast við gagnrýnið endurmat texta Biblíunnar. Allt það sem kemur að notum, t.d. málvísindi, fornleifafræði og klassísk fræði, er nýtt til að greina samhengi, inntak og merkingu biblíutextanna. Jafnvel jarðfræði, veðurfræði, líffræði og jöklafræði koma við sögu ef þarf að greina einhver sértæk atriði.

Og hvað merkir svona gamall texti í fjórða guðspjallinu? Agústínus kirkjufaðir varaði við og minnti tilheyrendur sína á að konan í sögunni hafi verið vafasöm kvenpersóna. Ástalíf hennar hefði verið ansi skrautlegt því hún hafði átt marga menn. Sem sé, ekki góð siðferðisfyrirmynd! Strax þegar safaríkar sögur eru tjáðar fer ímyndun tilheyrenda af stað. Var þetta daðurdrós á karlaveiðum! Hún var ekki að sækja vatn á sama tíma og allar hinar konurnar sem fóru á morgnana eða á kvöldin í vatnsburðinn. Hvað var hún að gera? Varð hún að fara á öðrum tímum en hinar siðsömu? Hafði hún orðið fyrir aðkasti kvennanna í þorpinu? Vildu þær ekki leyfa henni að vera í kvennahópnum? Fékk hún ekki að fara með þeim? Eða var skömm hennar svo mikil að sjálf vildi hún ekki vera í samfloti með öllum hinum? Var hún úrhrak samfélagsins? Var henni hafnað af því hún var brotleg kynferðislega og hafði lent utan við ramman þess vegna? Það eru þessi stef eða þættir sem höfundar og prédikarar aldanna hafa einkum staldrað við, útmálað og skrifað um með mörgum orðum og litríkum hætti.

Samkvæmt forsendum hins gyðinglega samfélags var konan talin útlensk. Hún var samversk. Hún var ekki hluti hins viðurkennda hóps innvígðra og réttborinna Gyðinga. Hún var því sniðgengin af öllum rétttrúðum og rétthugsandi – nema af Jesú. Hann hlýddi ekki alltaf reglunum og oft, jafnvel óþægilega oft, gerði hann eitthvað sem var öðru vísi en fólk átti von á og óskrifuðu reglurnar sögðu að væri rétt hegðun. Svo var þessi kona búin að eiga fimm eiginmenn og var með sjötta karlinum. Það er mikið flóð í ástarsögum konunnar, nánast efni í heila sápuþáttaröð. Var þessi kona framhjáhaldari? Var hún hóra? Var hún kynóð? Hafði hún lent á grensunni eðan utan hrings fyrir hömluleysi? Biblíulesendur aldanna hafa undrast og furðað sig á ístöðuleysi hennar og reynt að finna hliðstæður í dramatískum konum eigin samtíðar. Þessi undarlega kona hefur verið uppteiknuð sem öðru vísi og óútreiknanleg, femme fatale. Hún sótti vatn á öðrum tíma en allar hinar konurnar. Á undarlegum tíma. Samkvæmt föstum samfélagsviðmiðum var hún neðar í goggunarröðinni, alla vega vatnsföturöðinni, en hinar konurnar. Það var ekki gæfuleg staða sem hún var í þegar hún kom að brunninum og hitti Jesú sem þekkti allar samfélagsreglur brunnasóknar og vatnsmála þjóðar sinnar og nágranna líka. Hann vissi að kona sem kæmi á þesum tíma að brunninum væri utan við heiminn. Hún væri kona í vondum málum.

Og beiðni Jesú Krists er einföld: „Gefðu mér að drekka.“ Svo fara þau að skiptast á orðum og setningum sem ekki tengjast. Þau tala þvers og kruss. Þegar Jesús býður konunni lifandi vatn bregst hún við með tækniábendingu. Hann hafi ekkert til að ausa með. Brunnurinn væri djúpur. Hvaðan fengi hann þetta lifandi vatn? Konan er á ská við orð og merkingu Jesú allt þar til þetta með lifandi vatnið skvettist inn í vitund hennar og síast inn í hana. Hvað átti maðurinn við? Gat verið að þetta væri hann? Hann vissi svo margt. Gæti verið að loksins, loksins væri eitthvað að gerast? Konan vissi auðvitað að brunnurinn var kenndur við Jakob, sem var ofurkarl, erkihetja hebreskrar sögu, hálfguðlegur forfaðir íbúanna í Palestínu. Brunnurinn hafði því mikilvægu táknrænu hlutverki að gegna. Í konunni kviknaði neisti, spratt fram hugsun, spurning, kenning, grunur. Gæti verið að þetta væri framtíðarleiðtoginn sem beðið væri eftir? Messías. En hvað um mig? Það var djúpspurning hennar. Yfirfljótandi samtal, margþrungið merkingu, margvísandi og svo var þessi útlendingur, margbrotna konan, utan marka – gat það verið?

Um aldir var þessi biblíutexti túlkaður sem tvennutexti, saga með hreinum andstæðum. Jesús var túlkaður sem lausnari, hann bauð vatn lífsins, hafði öll svör á hreinu, vissi allt um konuna og las hana eins og opna bók. Hann gat allt og olli fullkomnu uppnámi hjá henni, sem var öðru vísi en hinar konurnar, fór á skrítnum tíma að brunninum, á versta tíma og í mesta hita dagsins. Sem sé þarna voru skv. túlkun aldanna hinn mikli og hin aumkunarverðasta. Hann gat fært konunni vatn lífsins – en hún honum aðeins skítugt brunnvatn. Þau voru á sitt hvorum enda gilda og virðingar-stigans. Hann á toppnum og hún á botninum. Hann var hreinn en hún skítug, hann andlegur en hún líkamsskepna. Þannig flokkaði tvíhyggja aldanna samtal þeirra tveggja. Konan var eins og tæki til að sýna hvað Jesús væri æðislega klár. Konan var flekkuð á mannlífsbotninum. Hún var sorinn en hann sonur Guðs.

Er þetta það sem textinn segir okkur? Konan bara kvensnift, víti til varnaðar og hann ofurhetja? Eða er kannski eitthvað meira í þessum texta en tjáning á að karlar eru á toppnum og konur á botninum? Er eitthvað sem við sjáum ekki og kannski getum ekki séð vegna þess að gleraugu okkar brengla? Hindra fordómar dýpri skilning okkar? Þarf að þrífa sjónglerin, skúra allt upp á nýtt til að skilja betur?

Skilningur á textum breytist – túlkun

Um aldir hafa klassískir textar verið túlkaðir í samræmi við viðurkenndar skýringarreglur. Þannig hefur það verið með flesta bókmenntatexta, heimspekitexta og að sjálfsögðu einnig biblíutexta. Á tímum ólæsis var Biblían ekki á allra færi. Því voru sögur Biblíunnar oft myndgerðar. Fólk hafði í guðshúsunum aðgang að að myndum af biblíuatburðum, sem var svonefnd biblia pauperum. Í öllum hefðum skapast menning og kenningakerfi sem stýra hvernig eigi að tjá hið mikilvæga, megi túlka og þar með skilja. Allt verður séð með hjálp hefðar og túlkunarlykla. Biblíutúlkun var með slíku móti og mótaði hvernig ætti að skilja og miðla. Svo komu reglulega fram öflugir greinendur sem bentu á veilur og hvað væri betri skilningur, hvað væri líklegra og hvað væri rangt. Marteinn Lúther var einn slíkra ritrýnenda Biblíunnar. Hann hafði lagt á sig að læra klassísk mál. Hann las texta Biblíunnar á frummálum og gat því borið saman upprunatextann, þýðingar og túlkanir. Í tilviki Lúthers og fjölda annarra kom í ljós stöðugt þyrfti að rýna í textana því forsendur síðari tíma voru gjarnan til hindrunar og leyfðu ekki Biblíutextunum að hljóma eða skiljast í samræmi við eigin forsendur. Síðari tíma forsendur eru oftast grisjandi fordómar og skilningurinn sem fæst er rangur miðað við forsendur biblíutextanna.

Biblíurannsóknir, eins og aðrar rannsóknir fornra texta, breyttust og bötnuðu á tuttugustu öld. Fræðimennirnir nýttu fornleifarannsóknir, bætta þekkingu á menningu, náttúru, trúarbrögðum og pólitík Rómaveldis og þjóðanna sem þeir réðu. Þar með breyttust hugmyndir fræðimannanna um merkingu margra biblíutextanna og stundum opnuðust þessir textar. Textatúlkun síðustu ára hefur m.a. bent á hvernig fólk hefur lesið og skilið textana með mismunandi móti á mismunandi tímum. Viðbrögð lesara og viðbrögð þeirra hafa fengið gildi í nútímatextafræði. Hlutverk biblíufræðanna er ekki aðeins það að kreista fram einhverjar staðreyndir og óumbreytanleg algildi eða stórasannleika úr ritum eða af blöðum Biblíunnar. Sandra M. Schneider skrifaði með þessa þróun í huga: „… frá átjándu öld til miðrar tuttugustu aldar var aðalnálgun og túlkun sögu og texta fyrst og fremst hlut-túlkun (ojbect-centered). Lesendur texta voru sjaldnast spurðir. Og ef viðtakendur biblíutextans komu í ljós urðu ritskýrendurnir tortryggnir.”[i] Þá var eins þeir yrðu hræddir við að biblíufrásögurnar yrðu ekki eins trúverðugar og vera ætti, ekki eins hlutlægar og keppt væri að. Hvernig getur vitni sagt satt? Er tilveran minna trúverðug í frásögn vitnis? Hvað er satt, hvernig og frá hvaða sjónarhóli?

Biblíufræðin hafa haldið til haga þekkingu á fjölmörgum menningarkimum Biblíunnar. Á síðari áratugum hafa Biblíufræðingarnir þorað að skoða betur upplifun og túlkun fólksins sem kom við sögu í ritum Biblíunnar, hópum þeirra og hvernig menningarforsendur stýrðu upplifun þeirra og nálgun. Hvaða hugmyndir stýrðu, hvaða hagsmunum var þjónað í þessum textum og við ritun þeirra? Hvaða hópar st tókust á, hvaða hugmyndir urðu ofan á og hverjar voru bældar eða strokaðar út? Með svona nálgun var leit Biblíulesara og fræðimanna ekki lengur að því hvernig hin eina rétta túlkun texta ætti að vera. Ekki var lengur reynt að komast að því hvernig ætti að skilja forna texta og kreista út kórrétta túlkun, kjarnann sem væri hið guðlega aðalatriði gilt fyrir allar aldir, alla menn og alltaf. Margt breytist við svona nálgun. Allt verður opnara og líflegra ef viðurkennt er að textar helgiritasafns Biblíunnar eru marglaga, segja margar sögur, túlka alls konar tilfinningar, einstaklinga, fordóma, visku, tengsl, hagsmuni, vonir og hópa sem koma við sögu. Fortíð kemur við sögu hvers texta, samtíð. Framtíðin kyssir þá líka. Í stað einhæfrar túlkunar hafa nútíma biblíufræði opnað fyrir margræðni og ýmsa túlkunarmöguleika. Það merkir einfaldlega að það sem allir hafa verið sammála um í nálgun Biblíunnar er ekki svo sjálfsagt og einfalt. Í Biblíunni eru margar uppsprettur og margra alda. Í henni er sírennsli merkingar og líka ástarkossar eilífðar. Einstakir hópar, kirkjudeildir og fræðimenn hafa haft skoðanir á að þessi kvísl flóðsins væri hin eina nytsamlega og heilnæma og því hafnað öðru, ekki vilja af því vita og kúgað. Biblían hefur verið notuð sem vopn í baráttu og því verið túlkuð til að berja á þeim sem hafa farið aðrar leiðir en valdhafar, andlegir eða veraldlegir, hafa boðað og skipað.

Þolum við fjölbreytni, margræðni og mismunandi skoðanir? Biblían er stór og úr henni flæða margar merkingarkvíslar en þær geta þó tengst á mismunandi tímum og í samræmi við þarfir tímanna. Á einum tíma tók Lúther eftir að Guð biblíunnar er guð elsku og gleði. Á öðrum tíma uppgötvuðu vitrir menn í kirkjum Suður Ameríku að í Biblíunni er mikið talað um réttlæti. Og síðar uppgötvuðu margir, t.d. kvennaguðfræðingar, raddir kvenna í þessu mikla ritasafni. Sagan um konuna við Jakobsbrunn hefur verið opnuð og ritskýringarforsendurnar hafa breyst. Konan hafði rödd og tjáði sig. Jesús Kristur hlustaði á hana.

Konan við brunninn

Sagan um konuna sem hitti Jesú við brunninn er frábært dæmi um marglaga og margvídda texta, sem nálgast má með ólíku og margbreytilegu móti. Í greiningu á þessum texta í fortíðinni varð konan oftast túlkuð sem kynlífsvera fremur en manneskja. Hvernig samfélagið skilgreindi kynlíf, stöðu og samskipti kynjanna stýrði nálguninni. Tvíhyggja réði för túlkunar og Jesús Kristur var fyrst og fremst túlkaður sem andlegur snillingur. En konan var túlkuð sem jarðbundin holdgerving lostans. Andstæður túlkunarinnar, andstæðu-tvenndirnar voru;

andi og fýsnir;

lifandi vatn og brunnvatn;

karl og kona;

yfirstétt og undirstétt;

hinn réttborni og útlendingurinn;

við og þið.

Hvað gerist ef þessir lyklar eru hvíldir við túlkunina, teknir út og geymdir? Hvað gerist ef sagan er skoðuð með nýjum hætti og án þessara túlkunarforsendna? Hvað ef konunni er gefinn séns? Getur verið að við heyrum kannski í Jesú með nýjum hætti? Verður hann nær okkur en handan við tvö þúsund ára hljóðtjöld, fordóma og túlkunarkór?

Hið eftirtektarverða og merkilega er að konan reyndi Jesú. Hún lagði próf fyrir hann. Hún hlýddi honum yfir, þorði að spyrja hann lykilspurninga og gaf ekki færi á klisjum og gervilausnum. Hún þorði að hlusta, hrífast og bregðast við. Hún greindi að mál og viðfangsefni með greind hins skarpa hugar, raðaði síðan saman öllum brotunum og komst að viturlegri niðurstöðu. Hún dró ályktanir út frá forsendum og rökum. Hún þorði að treysta lífsreynslu sinni, gáfum sínum, þorði að hugsa og komst að niðurstöðu um það sem hún sá, heyrði og upplifði. Útkoman var sú að hún skildi Jesú eftir við brunninn og hljóp inn í bæ til að segja fréttir. Hún var kannski ekki í þeirri stöðu í samfélaginu að mega hafa miklar skoðanir eða tjá þær. En þegar hún komst að niðurstöðu um stærstu mál lífs og samfélags hennar þá var ekki neitt hik. Samfélagsreglurnar í smábæjarsamfélaginu giltu ekki um risamál. Konan gat ekki þagað um stórmál. Hún hljóp inn í bæ og varð boðberi Jesú, lærisveinn, kona sem þorði jafnvel gegn öllum fordómum, valdaaðilum og hæðni samfélagsins. Þegar hún talaði af svo mikilli undrun og sannfæringu og sagði fáheyrð tíðindi var hlustað.

Ef við nálgumst söguna um konuna við brunninn með opnu móti verður boðskapurinn dramtískur og sláandi. Útlend kona af lægstu stétt, úrkast úrhrakanna naut boðskapar um lífið í heiminum. Hún sem allir töldu óverðuga var verðug að heyra, skilja, trúa og síðan bera fram boðskapinn. Hún en ekki einhver góður karl varð ótrúlegt nokk postuli Samverja. Lærisveinn Jesú kom úr hópi kvennanna, hinna lægstu meðal lágra. Konan sem þorði. Hún mótmælti ekki aðeins Jesú, heldur benti honum á staðreyndir brunnmálanna. Hún þorði líka að segja tortryggnu fólki ótrúlega sögu. Hún talaði þar sem hún vildi, brást við, hugsaði og notaði skýra dómgreind.

Sagan um konuna við brunnin lýsir að kona í ómögulegum aðstæðum verður að nýrri mannveru, færist úr því að vera týnd og fávís yfir í að finna og fara síðan áfram með unna sögu, skýra merkingu og boðskap. Þetta er tilfærsla konunnar úr heimi fordóma, fortíðar og lágkúru til konu með hlutverk himins í heimi. Hún er í sögunni rétt við úr lægð og túlkuð sem skilningsríkari og vitrari en flestir aðrir í návist Jesú. Hún var ekki bara þögguð og falin heldur lyft upp sem hetju, ofurmanneskju.

Þegar sagan um konuna við brunninn er skoðuð í samhengi alls guðspjallsins er samanburðurinn áhugaverður. Í kaflanum á undan var sagt frá öðrum fundi Jesú. Yfirstéttarmaður, ráðherra, kom til meistarans til að ræða við hann. Hann hét Nikódemus og var innvígður og innmúraður Gyðingur, sem hafði hrifist af boðskap Jesú og vildi fara yfir trúmálin með Jesú. Hann naut sömu athygli Jesú, nándar og djúpsamtals og konan við Jakobsbrunn. Hann hafði svipuð tækifæri og konan til að greina og tengja. En hann þorði ekki. Hann var gunga sem hætti ekki stöðu og orðspori. Hann fór og hvarf því og kom ekki fram að nýju í Jesúsögunni fyrr en hann lagði til gröf fyrir hinn krossfesta. Afstaða gungunnar Nikódemusar skapar andstöðu við þorafstöðu konunnar, hetjunnar. Milli hans og hennar er innrím andstæðu. Lærisveinar Jesú voru stundum flónslegir, skildu ekki, náðu ekki hugsun, speki eða meiningu Jesú Krists en í samanburðinum við þá var samverska konan fljót að greina að aðalatriði og aukaatriði, greina hismi frá kjarna. Hún átti ekki í vandræðum með að skilja. Hún var einfaldlega klók og skörp. Þau Jesús töluðu ekki lengi þvers og kruss og í kross. Það var bara í byrjun. Þau tengdu og skildu fljótt hvort annað.

Trú og ljós

Myndmálið í sögunni um konuna við brunninn er áhugavert. Hún kom um hádegisbil sem var ekki brunntími kvenna í þorpinu. Vert er að muna að í Jóhannesarguðspjalli er mikið af táknum og táknmáli. Að konan kom um hádegið segir okkur jafnvel síður nokkuð um stund og tíma heldur meira um innri getu og trú. Konan kom til að taka við ljósi lífs. Ferðir hennar voru ekki bara hefðbundnar. Hún hafði getu til að fara og sækja í lífsgæði sem aðrir áttuðu sig ekki á, skildu ekki, höfðu ekki döngun í sér til að nýta og njóta. Konan hafði hins vegar getuna til að taka við lífsvatninu en ekki bara gamla, fúla brunnvatninu.[ii] Konan ræddi opinskátt við Jesú, hlustaði, bar fram andmæli og benti á staðreyndir. Hún heyrði rök, greindi víddirnar, komst sjálf að merkilegri niðurstöðu og tjáði hana öllum sem vildu heyra. Það varð síðan til að allt þorpið hitti Jesú. Samverska konan varð eins og samtímaútgáfa af Móse sem barði í steininn og fram spratt vatn til að gefa hinum þyrstu að drekka. Hún var sem Jóhannes skírari sínu fólki, spámaður, lærisveinn og postuli!

Samverska konan við brunn var margslungin vera. Þegar fordómum er sleppt og ekki reynt að strípa samversku konuna getur nálgunin opnað. Þá kemur í ljós að það er flóð í þessum biblíutexta, margar kvíslir túlkunar eru möglegar.[iii]Grunur vaknar að kannski hafi konan alls ekki verið auli og úrhrak. Kannski var hún klár og vissi hvað hún söng og sagði. Kannski var hún jafnvel skarpari en hinir lærisveinarnir, betri guðfræðingur og kunnáttusamari manneskja en flestir, með himin í hjarta? Kannski var hún frjálsari, opnari, styrkari og meiri leiðtogi en aðrir? Hvað ef hún var slík? Hvað eigum við þá að gera við þennan texta og hvernig eigum við að túlka hann? Hvernig talar hann til okkar? Er kannski næring í þessu vatni, flóði textans, sem konan býður okkur? Lifandi vatn hennar og lifandi vatn Jesú?

Vatnið í Jóhannesarguðspjalli

Svo er það vatnið í fjórða guðspjallinu. Vatn kemur víð við sögu og er stef í guðspjalli Jóhannesar. Nýja testamenntisfræðingurinn Stephen Moore benti á að þessa brunnsögu og samtalssögu megi tengja við þorstafrásögn krossfestingarinnar. Í dauðastríðinu þyrsti Jesú og bað um vatn að drekka. Moore skrifaði: „Öllu er snúið við og teygt í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.“[iv] Frá krossþorstanum er fólki beint til sögunnar um lífsvatnið. Báðar kvíslarnar eða flaumarnir renna saman. Hið andlega þarfnast hins efnislega. Og svo gagnvirkt líka: Hið efnislega þarfnast hins andlega í lífi fólks í heiminum. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. En allt það, sem er að auki, lifir ekki án vatns. Vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það að vernda vatnið í veröldinni. Konan og Jesús hafa lykilhlutverkum að gegna. Sagan við Jakobsbrunn er ríkuleg. Við þörfnumst vatns. Konan og Jesús voru bæði í vatnsleit, bæði þyrst. Við eigum auðvitað að virða forsendur fortíðar þegar við nálgumst textann. En við megum nálgast hann með opnum huga og prufa merkingarvíddirnar.

Við sem búum við þann lúxus að fá vatnið hreint og ómengað úr pípunum gleymum oft að vatn er ekki sjálfsagt. Það veit ég ekki aðeins af ferðum í Afríku heldur af langri æfi og vinnu við vatnsveitur. Í sveitinni í gamla daga var ég oft að hreinsa slý og óhreinindi úr túðunni þar sem vatnið var tekið úr bæjarlæknum. Þetta þekkja sveitamennirnir. Þegar ég var prestur austur í Skaftafellssýslu varð að leggja nýja vatnsveitu fyrir prestssetrið. Vatnið þvarr reglulega. Svo hef ég lagt vatnsveitu í sumarbústaðarlandi fjölskyldunnar. Stundum höfum við orðið að fara í bæinn þegar dælan bilað hefur bilað og vatnið hefur ekki runnið. Það er sístætt viðfangsefni að tryggja að vatnsveitur virki. Um alla heimsbyggðina verður fók að puða við að afla vatns. Víða er margra klukkutíma ferð að ná í vatn og erfitt að bera það langar leiðir. Vatn er ekki sjálfgefið. Jafnvel Gvendarbrunnavatn getur smitast og óhreinkast eins og dæmin sanna. Vatnsveitur á Íslandi verða stundum fyrir skaða þegar mistök eru gerð eða áföll verða. Fúlt vatn kemst í þær, saurgerlar eða spilliefni. Þá er mönnum hætt, matvinnsla er í hættu og heimilsrekstur raskast. Fólk getur orðið veikt og menn og skepnur dáið. Fyrir nokkrum dögum var í fréttum að fílar og dýr á stóru svæði í Afríu hefði dáið. Niðurstaðan var að vatnsbólin hefðu spillst af þörungagróðri.

Konurnar og vatnið

Kynjavíddin eitt af því sem við megum gjarnan meta og virða. Það eru konur sem sækja vatn í heiminum. Milljarðar kvenna bera ábyrgð á að koma vatni til fjölskyldna sinna. Mæður, ömmur og dætur en karlarnir sinna einhverju öðru. Vatn er þungi kvenna veraldar. Þær bera vatnið á líkama sínu og svitna undan burðinum í hitanum. Því fjær sem vatnsbólið er þeim mun lengri tími fer í vatnsferðir kvenna. Og vatnsburðinn verður víða til að stúlkur fá ekki notið menntunar því þær eru bundnar við vatnsburðinn. Góð vatnsöflun, góðir brunnar eru um víða veröld vinir kvenna og forsenda fyrir að þær geti gengið í skóla og menntast. Þegar vatnið þrýtur eru þær víða teknar úr skóla til að fara að bera vatn um langan veg.

Samverska konan fór að brunninum um miðjan dag. Margar konur eru á ferð við brunna og lindir um miðjan dag af því þær hafa ekkert val. Þær eru kvenkyns og kerfi samfélagsins skilgreina að það sé kvennaverk að sækja vatn. Vandinn er félagslegur, menningarlegur og kerfislegur. Hafði samverska konan val? Gat hún sagt við sjálfa sig að nennti ekki að fara, hún bara færi á morgun eða eftir viku? Nei, hún varð að sækja vatn því annars væri lífi ógnað.

Kynferðisvíddin

Síðan er það vídd hins kynferðislega. Var þessi samverska kona stödd þarna við brunninn til að leita að tilkippilegum körlum? Er það ástæðan fyrir tímasetningu vatnssóknarinnar. Vildi hún vera á öðru róli en hinar konurnar sem komu í hópi og höfðu vörn í hinum konunum? Nei, það er ólíklegasta skýringin. Að vera ein á ferð á óeðlilegum tíma stofnaði aleinni konu í hættu. Reynsla kvenna af slíkum ferðum var og er skelfileg. Á konur er ráðist, sem eru einar á ferð og fjarri öðrum. Það eru ekki aðeins villidýr merkurinnar heldur líka villidýr mannheima sem leita uppi þær konur sem eru utanveltu, standa höllum fæti og njóta ekki félagsstuðnings annarra. Á einsömul stúlkubörn er ráðist, unglingsstúlkur og einar konur á ferð. Þeim hefur verið og er misþyrmt og nauðgað.[v] Í samtímanum höfum við lært að kenna ekki fórnarlambinu um ofbeldisverk. Þegar konur ná í vatn hefur það sjaldnast verið til að tæla aðra. En það hefur oft verið ráðist á slíkar konur. Það er ekki þeirra sök.

Vatnssaga samversku konunnar nær að gefa okkur nýtt bragð á varir. Við megum leyfa þessari kvísl staðreyndanna flæða inn í okkur. Konur eru í hættu í vatnsleit og í vatnsferðum. Það ætti #metoo-hreyfingin að kenna okkur. Sagan um Jesú og konunar við Jakobsbrunn er mögnuð saga. Hún opnar vatnsmálin að nýju og skvettir á okkur spurningum og nýjum glufum merkingar.

3. þriðjudagsfundur. Um vatnið. 29. september 2020. Dr. Sigurvin Jónsson benti mér m.a. á að konur hefðu verið háðar körlum í fornöld. Efnahagskerfið var karlstýrt og raunar hefðu ekkjurnar verið einu konurnar sem gátu notið einhvers frelsis frá stýringum valdsins.

[i] Sandra M. Schneiders, “The Gospels and the Reader,” The Cambridge Companion to the Gospels ed. Stephen C. Barton (New York: Cambridge University Press, 2006), 97.

[ii] Jerome Neyrev, The Gospel of John. The New Cambrdge Bible Commentary (New York: The Cambridge University Press, 2007,) 87-88.

[iii] Sandra M. Schneiders, Written That You May Believe: Encountering Jesus in the Fourth Gospel (New York: Herder and Herder, 1999) 143-44.

[iv] Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman“ í The Interpretation of John, ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).

[v] Sjá upplýsingar á síðu Sameinuðu þjóðanna: http://www.unwomen.org/en

Biblían er blaut og Jórdan rennur um heiminn

Þegar ég var nemandi í guðfræðideild á árunum 1974-79 var kennslustofa deildarinnar á annarri hæð aðalbyggingar Háskólans og er reyndar enn. Stofudyrnar eru merktar með V, latneska tölvustafnum 5, fimmta kennslustofan í háskólabyggingunni. Við inngang fimmtu stofu var kennarapúlt en hinum megin í stofunni var virðulegt borð sem lærifeðurnir sátu gjarnan við. Guðfræðibækur voru í hyllum við tvo veggi og milli bókaskápanna var fyrir miðju stofunnar stór Borgundarhólmsklukka sem taldi sekúndur og mínútur. Klukkan var öllum sýnileg og stýrði því upphafi og lokum kennslustunda. Yfir henni, bókahyllum og mannlífi stofunnar var fjöldi landslagsmynda sem Magnús Jónsson hafði málað. Hann var guðfræðikennari og kunnur stjórnmálamaður, en líka drátthagur og lipur málari.

Magnús og Ásmundur Guðmundsson, sem einnig kenndi við guðfræðideildina, fóru saman til Palestínu í maí árið 1939 og voru um sumarið að kanna Biblíuslóðir. Þóttu þetta slík tíðindi að félagarnir færu til Palestínu að fréttir um fyrirhugaða ferð þeirra rataði í dagblöðin, Alþýðublaðið og Morgunblaðið. Þeir gáfu svo síðar út greinargóða bók um ferð sína og Magnús gerði myndirnar. Mörgum myndanna var síðan komið fyrir í stofu guðfræðideildar og hafa verið þar síðan. Allir prestar þjóðarinnar hafa horft á þessar myndir. Ég notaði þær sem augnhvílu þegar ég hlustaði á fyrirlestra fræðaranna. Gulir og grænir litir þessara ferðamynda Magnúsar lifa síðan í minningu minni. Mér þótti alltaf guli litur þeirra áhrifaríkastur. Liturinn kallaði fram þorsta í mér og læddu í vitundina tilfinningu fyrir þurrki, þurrum sandi og eyðimörk, þorsta fólks og fénaðar Biblíunnar.

Áin Jórdan flæddi um þetta landsvæði og kom við sögu margra viðburða. En hún varð meira en aðalá og rann ekki aðeins niður heldur líka upp í heim hugmynda og menningar handan tíma. Í Jórdan var Jesús skírður og þar hóf hann starf sitt. Magnús Jónsson skrifaði í Jórsalaferðarbókinni að honum hafi þótt einna merkilegast í allri ferðinni að koma til árinnar Jórdan. Þar hafi verið „einhver yndisleiki yfir öllu.“ Og hann talar sérstaklega um að liturinn á ánni hafi verið sérkennilegur, gulur. Um skírnarstað Jesú segir Magnús: „En bezt man ég ána sjálfa, ljósgulan álinn í þessari dæmalausu umgerð.“[1] Það er skiljanlegt að honum hafi þótt mikið til um. Enginn sem les kristin fræði, les Biblíuna og hefur listræna taug kemst hjá því að Jórdan laði fram tilfinningar og verði svo að táknfljóti, upphöfnum ál, djúpál eilífðar. En Jórdan ímyndunar og menningar er allt annað en Jórdan nútímans. Jórdan er ekki lengur gul og heillandi augnhvíla heldur græn og seigfljótandi drulla. Yndisleikinn er uppgufaður, horfinn.

Vatnið í Bibíunni – vatn veraldar

Þó Biblíusvæðið sé þurrrt er mikið talað um vatn í Biblíunni. Biblían er rennandi blaut. Og það er ástæða til. Vatnið slökkti ekki aðeins þorsta fólks og tryggði þeim lífsmöguleika. Vatn var líka tákn um hið góða líf, lífsgæði og lífsmöguleika. Jórdan var aðaláin rann ekki aðeins um dal og til Dauðahafsins heldur rann hún um menningu heimsins. Hún hefur ekki aðeins verið samhengi mikilla viðburða heldur orðið dulúðugt menningarflæði sem hefur alið og nært listaverk í mörgum greinum og vakið ýmsar hugsanir fólks á öllum tímum.

Fljótið helga

Jórdan er nefnt eða kemur við sögu í meira en áttatíu skipti í Gamla testamenntinu. Jórdan flæðir inn í heim Ritningarinnar þegar í fyrstu Mósebók. Jórdan markaði mörk heimsins, rétt eins og veggurinn í the Game of Thrones. Ekki svo að skilja að líf væri ekki hinum megin heldur fremur að lífið væri þar ótryggt og öðru vísi. Að fara yfir Jórdan var að fara úr einni veröld í aðra. Þar voru skilin og fljótið hafði því nánast yfirjarðneska stöðu.Að fara yfir Jórdan var að heimurinn yrði ekki samur, rétt eins og Júlíus Sesar fór yfir Rubiconfljót. Ekki yrði aftur snúið. Þetta sérstaka hlutverk Jórdanárinnar hefur varðveist í sögu samtímans. Miðja árinnar er enn landamæri Ísraels og Jóraníu (og Jórdaníu og Vesturbakkans ef talað er pólitískt).

Að fara yfir Jórdan var oft gjörningur sem hafði víðtæka og táknræna merkingu. Þegar Jósúa fór yfir Jórdan með örkina breyttist saga hebrea og þjóðarinnar. Þegar Davíð konungur fór yfir Jórdan fór hann sem sem sigurvegari, eins greint er frá í Jósúabók og 2. Samúelsbók (Jós. 3.15-17, 4.1; 2 Samúelsbók 19.14-19). Eftir að Jakob glímdi við engilinn sem gaf honum nafnið Ísrael fór hann yfir hliðará Jórdanar (1 Mós. 32.22-28). Elía klauf vötn Jórdanar og hlutverk hans og stafur fór til arftakans Elísa sem einnig hafði vald vatnaskila og lækninga (2. Konungabók 2.6-9, 5.10-14). Í Dómarabókinni segir frá því er Gídeon og hópur með honum fór yfir Jórdan (Dóm. 7.24, og 8.4). Og síðar fóru Makkabeabræður yfir ána einnig (1. Makk. 5.24).

Þessar yfirferðir – að fara yfir Jórdan – eru minni í Biblíunni. Fræðimaðurinn Jeremy Hutton kallaði þessa yfirumferð „handan-Jórdan-stef“ eða “trans-Jordanian motiv.”[2] Til forna var Jórdan stórá og því erfitt var að fara yfir ána. Engir nema þeir sem áttu brýnt erindi lögðu í slíkan leiðangur. En þó það væri kannski ekki beinlínis lífshættulegt að fara yfir ána fóru menn sjaldnast að ástæðulausu. Vegna þess hve mikið fyrirtæki var fara yfir ána varð það minni í menningu þjóða og ættbálka við Jórdan að Jórdanför gegndi táknhlutverki.

 Jórdanskírnin sem gjörningur

Vegna tákngildis árinnar að marka nýjan veruleika og nýjan tíma fór Jóhannes skírari að Jórdan til að koma boðskap sínum til skila með sem skýrustum hætti, boða mönnum að koma, hreinsast og ganga inn í nýja tíð. Nýtt líf var í boði. Að Jesús Kristur kom til Jóhannesar frænda síns og fór út í ána til að skírast hlutverki sínu var einnig tákngjörningur.

Skírn Jesú var gjörningur Jóhannesar skírara og skírnarþegans. Gjörningurinn fékk miðlæga stöðu í íhugun kristinna manna um allar aldir, bæði í vestri og austri. Skírn Jesú Krists var á fyrstu öldum kristninnar mun mikilvægari en fæðing hans. Guðsbirtingin hófst við og í Jórdan fremur en í Betlehemsviðburðinum. Skírn Jesú var haldin sem hátíð guðsbirtingar, þeofaníu, sem er á þrettándanum. Enn er víða haldið upp á þessa hátíð og gjarnan með því að stökkva í vatn. Margir hafa séð fólk í rétttrúnaðarkirkjunni stinga sér í fljót í byrjun janúar, hvort sem þau eru ísköld eða hlý. Fljótahoppin eru skírnarminni.

Jórdan sem staður og samhengi

Skírn Jesú í Jórdan er einn af fáum viðburðum sem öll guðspjöllin fjalla um. Svo er áin nefnd í nokkur skipti til að staðsetja viðburði í starfi Jesú. Bakkar Jórdanar urðu vettvangur ræðu hans eða verka (t.d. Matt 19.1, Mark 10.1; Jóh. 10.40). Jesús var meðvitaður um að skírn hans væri ekki iðrunarskírn. Skírnarósk hans markaði stefnu. Skírnarathöfnin opinberaði upphaf starfsferils hans. Jesúskírnin er ekki með sama inntaki og skírn kristinna manna. Jesús skírðist ekki til lífsins eins og börn og fólk kristninnar. Hann skírðist ekki til endurnýjunar, ekki til að losna úr viðjum sorans eins og menn. Skírn Jesú var og er uppspretta í eyðimörk, árstraumur, sem mótar umhverfi og er forsenda gróðurs, sem kenndur er við himininn. Skírn Jesú var síðar túlkuð svo að í henni hefði Jesús endurhelgað heiminn. Samkvæmt skilningi miðaldakristninnar hreinsuðust t.d. vötn heimsins við þennan lykilatburð og tengdust Guði aftur. Skírn Jesú var talin hafa áhrif á allan heiminn, líka blautsvæðin og lífríki heimsins. Jórdan rann frá þessum lykilatburði Jesú og heimsins ekki aðeins í Dauðahafið heldur fór að hafa áhrif á allan heiminn óháð tíma og rými. Kristnir menn fóru að kenna að í Jórdanskírninni hefði Jesús helgað allt vatn og strauma heimsins. Jórdan rann um allan heiminn og helgaði vötnin. Auður djúpúðga vildi því verða greftruð í flæðarmáli því þar væri helgur staður. Skírn Jesú helgaði – líka Íslandsstrendur. Vatnið getum við notað í sakramentunum í kirkjunum. Í bikarnum er vatnið helgað fólki til blessunar. Í víninu er helgað vatn. Í skírninni eru mannfólk hreinsað og helgað Guði. Boðskapur sakramentanna er að allt er blessað af Guði og lífið má blómstra.

Jórdan framar Betlehem

Skírn Jesú var álitin mikilvægari en fæðing hans. Það merkir að Jórdan var mikilvægari en Betlehem. Kirkjufaðirinn Origenes lagði áherslu á að áin sjálf hefði líka gildi fyrir kristna. Að baða sig í Jórdan væri hið sama og innlifast algerlega Jesú Kristi. Jórdan varð pílagrímamarkmið. Þegar helgisiðir kristinna safnaða þróuðust á fjórðu til sjöttu öld var athygli fólks ekki bundin því hvað skírnin þýddi eða hvort einhverjar eðlisbreytingar yrðu á fólki. Áhuginn og íhugun beindist að helgun vatnsins og hreinsun skírnarþega. Á þrettándanum, minningardeginum um skírn Jesú, var vatn blessað í kirkjum um víða veröld. Helgað vatn var síðan borið inn á heimilin í nágrenni kirknanna og ætlað til lífsbóta og lækningar sjúklingum. Í þessum helgisiðum sem enn eru iðkaðir um víða veröld flæðir Jórdan enn um heimin.[3] Helgisiðirnir eru ekki bara um hreinleika sálarinnar heldur vísa vitund, kirkju og veröld að því hvort vatnið sé hreint. Þrettándinn má því gjarnan vera einnig náttúruhátíð – hátíð vatnsins. Guð og náttúra eru tengd.

Hvar var Jesús skírður?

Ferðamenn sem hafa áhuga á sögustöðum Nýja testamenntisins vilja gjarnan sjá skírnarstað Jesú. Á síðari árum er farið er með þá til Yardenit sem er við útfall Jórdanar úr Galíleuvatni. En það er væntanlega ekki skírnarstaður Jesú. Hvernig stendur á að fólki er ekki sýndur líklegasti staðurinn? Ástæðan er einfaldlega að sá staður lítur ekki nægilega vel út. Ásýnd Jórdanar þar er ósæmileg og alls ekki í samræmi við dásemdartilfinningu Magnúsar Jónssonar, dósents. Samkvæmt hefðinni er talið að Jesús hafi verið skírður í Jórdan rétt norðan við þáverandi strönd Dauðahafsins og austan við Jeríkó. Sá staður nefnist í nútímanum Qasr el Yahud. Þangað fóru pílagrímar aldanna. Þar voru klaustur og gistihús til að þjóna ferðafólkinu sem vildi vitja hins heilaga staðar. Talið var að Jesús hafi ekki verið skírður vestan megin heldur fremur austan megin í ánni og þar voru ýmis þjónustuhús reist fyrir aðvífandi ferðamenn. En þegar múslimar réðu ríkjum austan megin ár var erfiðara að fara yfir ána og pílagrímarnir vitjuðu þá Jesústðarins vestan megin.

Eftir sex daga stríðið árið 1967 náðu Ísraelar völdum í Qasr el Yahud. Fornleifagröftur og hernaðarlegir hagsmunir torvelduðu svo heimsóknir ferðamanna og ferðafrömuðir lögðu til árið 1981 að Yardenit yrði “hinn” skírnarstaður Jesú sem vitja mætti. Yardenit varð svo hinn opinberi skírnarstaður Jesú í Ísrael. Þangað komu þrjú til fimm hundruð þúsund á ári. Búið er að leggja mikla fjármuni í að gera Yardenit ferðamannavænan svo ekki þurfi að sýna alvörustaðinn. Þessi tilfærsla á skírnarstað Jesú vekur áleitnar spurningar um hvort lúkkið sé mikilvægara en sannleikurinn? Er skírn Jesú mikilvægur og alvöru heimsviðburður eða bara góð saga sem hægt er að teygja og toga og hentar best góðri senu?

Jórdan sem táknfljót og þar með menningarveruleiki

Jórdan rennur ekki aðeins um Jórdandal og hverfur svo í hafi dauðans. Eftir fall Jesúsalem árið 70 eftir Krist voru Gyðingar reknir burt frá Palestínu dreifðust þeir um Evrópu, Asíu og veröldina. Í dreifingunni, díasporunni, héldu þeir áfram að íhuga merkingu árinnar og mikilvægra staða hebreskrar sögu. Kristnir menn fengu síðan Nýja testamentið í hendur og Jórdan fór að renna um hugi þeirra og búa til merkingu og næra líf hinnar kristnu menningar. Jórdan var kristnuð í kristninni. Jórdan var ekki lengur staður heldur fór að blandast vötnum heimsins. Og af því kristnir menn mátu mikils allt sem tengdist guðssyninum var allt talið hljóta blessun af honum. Þar sem Jesús skírðist í Jórdan spratt fram vitundin um að Jesús hefði ekki aðeins notið blessunar heldur hefði hann í þessum himneska gjörningi sjálfur blessað vatnið sem laugaði hann. Og af því menn hafa alla tíð getað samtengt allt líf og skilið að allt er samhangandi lífsnet vaknaði vitundin um að blessað vatn Jórdanar hefði líka haft góð áhrif, að Jesús hefði helgað öll vötn veraldar í skírn sinni. Jórdan rann ekki aðeins niður í Dauðhafið heldur upp til lífs fólks og menningar síðan. Jórdan er ekki aðeins mikilvæg vatnsuppspretta í Palestínu heldur líka menningarstraumur, uppspretta merkingar fyrir veröldina. Jórdan varð eiginlega grunnvatn í kristinni menningu heimsins. Og þar er ekkert dauðahaf við enda heldur lífshaf blessunar.

Vatnið og nýting Jórdanar

Nokkur atriði varðandi Jórdanána, vatnsmagn og vatnasvið. Jórdan er yfir 250 km löng og því talsvert lengri en Þjórsá. Vatnasviðið er risastórt eða nær þrisvar sinnum stærra en vatnasvið Þjórsár. Úrkoma á þessu stóra svæði er mismikil og ójöfn yfir árið. Ár og lækir þorna í sumarhitum og áin verður lítið meira en spræna.[4] En í vetrarflóðum vex mjög í ánni og heildarrenslið í febrúarmánuði getur náð því að vera 40% af heildarrennsli alls ársins. Jórdan rennur frá norðri og til suðurs, frá fjöllunum sem eru í Ísrael, Líbanon, Sýrlandi og Jórdaníu og suður í gengum Galíleuvatn, sem heitir Kinneret á hebresku, og síðan niður dalinn og kyssir síðan Dauðahafið.

Fjöllin í norðri eru há en svo rennur áin langt niður fyrir yfirborð sjávar. Galíeleuvatn er um tvö hundruð metra undir sjávarmáli en Dauðahafið sem er endastöð Jórdanar er á fimmta hundra metra undir sjávarmáli. Galíleuvatn er tvöfalt stærra en Þingvallavatn eða um 160 ferkílómetrar en hefur farið minnkandi vegna ofnotkunar. Fyrir tveimur áratugum var dælt úr vatninu 400 milljónum rúmmetra árlega en á árinu 2018 var dælt úr því tíu prósentum fyrra magns eða tæplega 40 milljónum rúmmetra. Ísraelsríki hefur þegar byggt fimm eimingarstöðvar við Miðjarðarhaf sem sjá Ísraelum fyrir um 80% neyslu- og ræktunar-vatns. Fleiri stöðvar munu bætast við á næstu árum. Vatnsyfirborð Galíleuvatns hefur lækkað svo mikið að stefnt hefur verið að því að dæla í það hreinsuðum sjó í framtíðinni til að hækka yfirborðið. Árið 2022 er áætlað að magnið verði 22 milljónum rúmmetra.[5] Vatnsskortur er svo mikill og íþyngjandi í Ísrael að einn ráðherra landsins beitti sér fyrir nokkrum árum fyrir vatnsbænum við Grátmúrinn. Pólitískir gagnrýnendur hans brugðust við bænakallinu með því að leggja til að ráðherran beitti sér líka fyrir aðgerðum í umhverfismálum auk bænahaldsins.[6]

Íbúar í nágrenni árinnar, í Jórdaníu, í Sýrlandi og Ísrael hafa veitt vatni úr ánni og af vatnasvæði hennar nærri hundrað milljón rúmmetra á ári. Þess vegna er Jórdan aðeins lækjarspræna þegar hún rennur í Dauðahafið sem hefur minnkað mjög síðustu ár. Síðustu árin hefur yfirborð Dauðahafsins lækkað um nærri einn meter á ári sem hefur þar með mikil áhrif á allt umhverfi, ofan jarðar og neðan. Grunnvatnsyfirborð hefur lækkað, jarðvegur hefur fallið víða og hættulegar jarðvegsskvompur myndast. Dauðahafið hefur minnkað að flatarmáli meira en 1%. Vatnið hefur aldrei í sögu mannkynsins staðið eins lágt og nú.[7] Lengi hefur verið rætt um og jafnvel deilt um hvernig bregðast megi við lækkandi yfirborði Dauðahafsins. Ísraelar hafa m.a. rætt um að veita vatni frá Miðjarðarhafi til Dauðahafsins, en vegna kostnaðar hefur ekki orðið af og verður væntanlega ekki. En Jórdanir stefna hins vegar að því að veita sjó frá Rauðahafinu og til Dauðahafsins. Vegna þess að fallhæðin er mikil frá yfirborði sjávar og niður að Dauðhafinu er miðað við að hægt verði að framleiða rafmagn til að sjá um dælingu og eima hluta vatnsins til nota fyrir íbúa á svæðinu. Með dælingunni megi snúa við þróun Dauðahafsins sem hefur verið að minnka allt frá nítjándu öld.[8]

Jórdandalur var á öldum áður gróðursæll og búsvæði flakkandi hirða og smábænda. Jórdan flæddi reglulega og hægt var að nýta vatn í landbúnaði aldanna. Í tímans rás var viður í hlíðunum höggvin óhóflega til hitunar og fyrir kokkhúsið. Stórviðir voru notaðir til smíða. Væntanlega hafa Jesús og Jósef handfjatlað spýtur úr dalnum. Þegar búið var að fella skóginn og lítið var eftir af rótum trjánna fór jarðvegurinn af stað og hlíðarnar sem áður mátti nota til ræktunar urðu lélegt ræktunarland. Fyrirhyggjuleysi og óábyrg nýting eyðilagði jafnvægi lífríksins og landgæði dalsins – öllum til tjóns. Hvað heilsufar árinnar varðar er Jórdan í nútímanum ónýt á. Hún er aðeins spræna miðað við stórá fyrri tíðar. En vatnið í efri hluta árinnar er þó annar mikilvægasti vatnsgjafi Ísraels.

Hagsmunir og stjórna flæðinu

Vatn hefur um árþúsundir tengst hebreskri menningarvitund og á síðari áratugum gyðinglegri þjóðernisvitund og þjóðernisumræðu. Vatnið var forsenda landbúnaðar og uppbyggingar nýs ríkis Ísraela. Gyðingar, sem fluttust til Palestínu og komu úr grænni veröld Evrópu og töldu að litur velsældar væri grænn. Þeir gátu ekki sætt sig við neitt annað en að breyta þurru og gulu landi Palestínu í græna veröld sem hæfði fyrirheitnalandinu. Vatn varð tákn hins nýja ríkis Ísraels og þó bláminn í fána Ísraela sé ekki litur hafsins er líklegt að fyrri aldar Ísraelar hafi náð litnum með því að nota sjávarlífverur til litunar.

Ísraelar nútímans hafa verið frumkvöðlar í vökvun. Dropavökvun, hugvitssamlegt vökvunarkerfi sem nú er notað í ræktun um allan heim og í íslenskum gróðurhúsum, fundu Ísraelar upp og þróuðu til að minnka uppgufun. Vegna viðvarandi vatnsskorts hafa þeir endurunnið vatn í stórum stíl til að nýta við ræktun. Þjóðirnar við botn Miðjarðarhafs búa við vatnsskort og hafa því orðið að velja og hafna hvaða tegundir eru ræktaðar á svæðinu. Í stað þess að rækta vatnsþyrstar plöntur flytja þær fremur inn korn og vatnsfrekar afurðir (sbr. virtual water[9]). Í stað þess að að nota eitt hundrað þúsund tonn af takmörkuðum vatnsbirgðum svæðisins hafa klókir ráðamenn tekið ákvörðun um að flytja fremur inn eitt tonn af hveiti. Hver lítri vatns skiptir máli.[10] En vatnsleysi Jórdanárinnar opinberar vatnsnotkun og vatnsskortinn í landinu.

Góðir vatnsgrannar

Þjóðirnar við ána Jórdan keppa um það takmarkaða vatn sem hægt er að afla og vilja sem mest. Kvótaskiptingar takmarkaðrar auðlindar eru alltaf erfiðar og vekja deilur. Ein af stóru ástæðum sex daga stríðsins árið 1967 var deila um vatn í Jórdan. Íbúar ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs vita af biturri reynslu og skilja að átök eru síðri til lausnar vanda en samvinna. Þeir hafa stofnað samtök, þvert á landamæri, sem beita sér fyrir sameiginlegum lausnum.

Jarðarvinir í Miðausturlöndum, sem nefnast FoEME, hafa höfuðstöðvar í Betleheim, Amman og Tel Aviv. Time-tímaritið taldi að þetta væru umhverfishetjur heimsins árið 2008. Þegar friðarsamningar milli Palestínumanna og Ísraela var undirritaður 1994 (og Simon Perez kom til Íslands ári fyrr og þmt til Þingvalla til að kynna íslenskum ráðamönnum samninginn) var sérstaklega rætt um vatn og hvernig það yrði best nýtt. Vatn var og er lífsmál fólks og velferð þjóða þessa svæðis. Vonir voru bundnar við að nágrannaþjóðirnar myndu sameinast um vatnsnotkun og þar með velferð Jórdanar. En opinber samvinnan hefur verið lítil vegna þess að tekist hefur verið á um önnur mál, t.d. stöðu Jersúsalem, vesturbakkans, sjálfstjórn Palestínu og landamæri. Þau hafa verið stóru málin, sístæð deilumál, en vatnsverndin liðið fyrir. Þorsti nútímasamfélags Ísraela er mikill. Galíleuvatn hefur um áratugi verið notað sem uppistöðulón vegna raforkuframleiðslu og áveitu. Ekki aðeins hefur yfirborðsvatnið verið nýtt heldur var snemma farið að bora víða eftir vatni og mjög hefur verið gengið á grunnvatnsvatnsbirgðir svæðisins og staða þeira er slæm.[11] Það eru hörmungarfréttir fyrir fólkið sem býr á þessu vatnsskerta svæði að grunnvatn sé svo skert einnig. Loftslagsbreytingar munu gera líf fólks á þessum slóðum mun erfiðara fyrir.

Afleiðingar

Hvaða afleiðingar hefur vatnsumfjöllun, siðferðilega, trúarlega og pólitískt? Þarf Jórdan að renna upp í baráttu hugsjónafólks, til löggjafarsamkoma ríkja heimsins, í samviskufélög eins og trúfélög til að hún geti á ný farið að renna niður? Já.

  1. Hvað trúmenn varðar: Af því veröldin er Guðs sköpun, blessuð af Jesú, eiga kristnir menn að verja vatn veraldar, vernda og hreinsa. Lífið þarfnast þess. Jesús var skírður – ekki aðeins til að gefa mönnum líf, heldur gefa allri veröld líf, vatninu líka.
  2. Hvað löggjöf ríkja og mannkyns varðar: Huga verður að eignarhaldi vatns. Hver á t.d. Jórdan? Eru það ríkin sem eiga landmæri að ánni eða eru á vatnasviði árinnar? Eða er Jórdan og vatn heimsins handan eignarréttar. Ráðamenn vilja alltaf ráða vatni – og ekki síst á dauðþyrstum svæðum. En vatn má aldrei verða þáttur eignarréttar. Vatn er frumgildi, lífsgildi sem ætti að helga í löggjöf þjóða heimsins. Nýrrar hugsunar jarðarbarna er þörf varðandi vatnið.

Ég legg til að Þjóðkirkja íslands og íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir nýjum vatnssáttmála heimsins. Þjóðkirkjan má gjarnan beita sér fyrir að kristnar kirkjur og aðrir trúmenn heimsins verndi vatn. Vatn þarf að skilgreina sem frumgildi, að vatn sé eign lífsins en ekki einstaklinga, fyrirtækja eða þjóða. Íslenska ríkið ætti að beita sér fyrir að vatn verði skilgreint í löggjöf ríkja og alþjóðasamfélagsins sem eigingildi.

Framsaga á þriðjudagsfundi í Hallgrímskirkju um Lifandi vatn. 22. september 2020. kl. 12,05-12,45. Þessi mynd er teikning Magnúsar Jónssonar í Jórsalaferðarbók þeirra Ásmundar Guðmundssonar. 

[1] Magnús Jónsson og Ásmundur Guðmundsson, Jórsalaferð, ferðaminningar frá landinu helga. Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 115-116.

[2] https://canes.wisc.edu/2017/06/12/the-transjordanian-palimpsest-the-overwritten-texts-of-personal-exile-and-transformation-in-deuteronomistic-history/

[3] Jórdanskírn Jesú er hefur ýmsar víddir í listasögunni sjá Robin Jensen.

[4] Um vatnasvið Jórdan og nýtingu vatns í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs sjá http://www.fao.org/nr/water/aquastat/basins/jordan/jordan-CP_eng.pdf

[5] Um heildarþörf Ísraels á vatni og almenn vatnsmál, hreinsunarstöðvarnar á sjó og fl. sjá the Guardian https://www.theguardian.com/world/2018/jun/12/israel-to-top-up-sea-of-galiliee-after-years-of-drought  

[6] https://www.theguardian.com/world/2017/dec/29/israel-drought-minister-rallies-thousands-to-pray-for-relief

[7] https://www.theguardian.com/environment/2017/mar/29/dead-sea-evidence-unprecedented-drought-future-warning-climate-change

[8] https://www.theguardian.com/environment/2017/mar/29/dead-sea-evidence-unprecedented-drought-future-warning-climate-change Um Dauðahafið og vatnþurrðina.

[9] https://www.foodandwaterwatch.org/insight/virtual-water

[10] http://www.environmentandsociety.org/arcadia/john-anthony-allans-virtual-water-natural-resources-management-wake-neoliberalism

 

[11] Samkvæmt skýrslu NASA og University of California at Irvine kemur í ljós

Vatnið og tuttugasta og þyrsta öldin

Framsaga um vatn í Hallgrímskirkju 15. september, 2020. Hljóðskráin er hér.

Af hverju að tala um vatn í kirkju? Hefur vatn eitthvað með trú að gera? Af hverju ætti prestur að tala um vatn? Eigum við ekki að láta stjórnmála- og vísindamennina ákveða nýtingu vatns? Jú, þeir eiga að koma að málum. En vatnsnotkun varðar okkur öll. Trú tengist alltaf stóru málum lífsins. Í kristinni siðfræði eru mál skoðuð skipulega og ígrunduð stefna mótuð á forsendum ábyrgðar og kærleika. Vatn í veröldinni er trúmál og varðar þorsta lífvera heimsins – og þar með þorsta Jesú sem alltaf er líftengdur.

Þegar við skoðum líkan af jarðarkúlunni – eins og mörg okkar áttum í bernsku – getum við snúið hnettinum, skoðað löndin og staði. Við sjáum að megnið af yfirborðinu er ekki með moldarlit, grænt eða sandlitað heldur blátt. 71% af yfirborði jarðar er vatn. Jörðin er ekki brún heldur blá, hún er vatnshnöttur.

Kirkjur eru líka vettvangur vatns. Vatn er í skírnarfontinum, blessað vatnið. Vatn í víni og brauði. Sakramentin eru bæði vatnssósa. Og svo eru ókjör af vatni í fólkinu sem sækir kirkjuna – tveir þriðju-hlutar vatn. Það er því mikið af vatni sem fer um þetta hús, líklega nærri 50 milljón líkamslítrar í meðalári auk alls drykkjarvatnsins og hitaveituvatnsins.

Blái hnötturinn lifir en hvað um framtíð hans? Hvað verður um þessa veröld, samhengi okkar? Hvernig geta kynslóðir lifað í framtíð? Margir eru uppteknir af fortíðinni – en ég er meira með huga við framtíðina. Þegar móðir mín var á tíræðisaldri leiftruðu augu hennar þegar hún talaði um vatn, um kál, um fjöll, um hreinleika og um hve lífið væri heilagt. Lífið er mér líka heilagt, vatnið og allt sem er. Ég lít á það sem skyldu mína að leggja lífinu lið, leggja mitt af mörkum til að lífið haldi áfram. Þessar þriðjudagssamverur eru hluti þeirrar einurðar.

Á þessum næstu þriðjudögum verður fjallað um vatn í lífríki heimsins, hvernig vatn sprettur fram í trúarbrögðum, einkum kristninni. Á þessum fyrsta þriðjudegi geri ég grein fyrir forsendum mínum, vatnsbúskap þínum og veraldar. Og ég ræði í lokin um sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna sem varðar vatn.

Eftir viku mun ég tala um bleytuna í Biblíunni og mun einkum um ána Jórdan, sem ekki aðeins á sér stórmerkilega sögu heldur áfram að vera tilefni átaka og stríða þjóðanna í Miðausturlöndum vegna vatnsskorts á svæðinu.

Í þriðja lestrinum eftir hálfan mánuð tala ég um vatn og konur og merkilegan fund upphafsmanns kristninnar og útlenskrar konu við brunn í norðurhluta Palestínu. Sá fundur opnar margar gáttir þegar fordómum sleppir, fleiri möguleika en mig hafði órað fyrir. Þessi frásaga er klassík fyrir vatnsstressaðan heim í vatnsvanda.

Síðasti lesturinn, 6. október fjallar um hverjir eigi vatn veraldar. Eiga landeigendur vatn eða er vatn utan eignarhalds, lífsréttindi? Fjallað verður um vatnsrétt Rómverja, ríparískan rétt vestrænna þjóða, löggjöf og venjur tengdar vatni. Þingvellir eru gott nálgunardæmi um hver eigi vatn.

Í þessum lestrum í fjóra þriðjudaga verður rætt um vatn, hlutverk og skyldur þjóðkirkjunnar, kirkna heimsins og trúarbragða. Ég mun líka víkja að möguleikum og skyldum þjóðríkis okkar Íslendinga. Ýmsar tillögur verða fluttar.

Vatnsáhuginn – af hverju

Þá er það persónuvíddin. Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum fékk ég gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru stúdentagarðarnir. Ég blés þær upp og batt saman og bjó til fley sem ég síðan sat á og fór út á Skerjafjörðinn við Þormóðsstaðafjöruna til að rannsaka lífríkið, fiska og furður sjávarins. Foreldrar mínir voru ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín fór á flekann, datt í sjóinn og kom holdvot og köld heim. Þá var þetta hafrannsóknarskip mitt tekið úr umferð.

Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom svo hlægjandi fram mót sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn lyppaðist niður í hláku og bunurnar skoppuðu niður brekkurnar og föðmuðu aðrar og af varð mikill vatnadans og vatnsmúsík líka. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá varð stórfljót í vorleysingum og allt undirlendi hins mikla dals fór undir vatn. Stíflumannvirki bændanna voru hrífandi, þessi sem höfðu verið byggð til að geta veitt vatni yfir engi og þar með næringu. Þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég missti næstum stöngina í hylinn. Ég varð síðan ástríðu-veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins urðu tengsl. Ég gekkst við vatninu. Á menntaskólaárunum ákvað ég að ég ætlaði að læra líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir lífsháska og veikindi þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu. Í stað þess að læra um vatnið veraldar fór ég í guðfræðinám og lærði um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, dáðst að því, fundið til þess og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrmæti. Vatnið hefur aldrei farið úr huga mér en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannski hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt fjölda barna. Ég hef útdeilt víni í altarisgöngum og í sakramentunum er mikið vatn. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyft vatni að heilla mig og næra. Kominn af vatni og mun verða að vatni – og síðan upp af vatni rísa. Það er líka merking þess að vera kominn af jörðu.

Vatnið í okkur

Og þá að þér og vatnsbúskap þínum. Hvað var í kringum þig, var þitt nærsamhengi, þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú svamlaðir og fórst kollhnísa í legvökva. Hátíðnihljóðin, sem bárust eyrum þínum alla daga, voru frá hinu hraða rennsli blóðsins, vökvans, í æðum móður þinnar og í takti við slátt hjartans sem dældi. Svo þegar legvatnið fór var ekki lengur hægt að lifa inn í mömmunni – þá fæddist þú. Þegar þú varst kominn í heiminn varstu þrifin(n) í vatni. Síðan varstu baðaður eða lauguð í vatni. Móðurmjólkin var að mestu vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Svo héldu elskuarmar á mörgum okkar við skírnarlaug. Glitrandi vatnið í fontinum eða skálinni var borið að kollinum þínum og orðin um föður, son og heilagan anda voru nefnd með nafninu þínu.

Síðan hefur vatnssagan haldið áfram. Þú hefur verið í vatni og notið vatns. Í þér er mikið vatn. Og það vatn er ekki nýtt heldur gamalt. Það hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Það hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Þegar barn fæðist er nýr einstklingur orðinn til en vatnið í nýburanum er gamall arfur milljóna ára. Vatnið í þér og hinu nýja lífi hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Þingvallavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Meðan þú lifir finnur þú fyrir vatnsbúskap líkama þíns. Við megum gjarnan greina samhengið. Eldgamalt vatn og fyrir alla framtíð. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar ef vatnið hverfur eða fúlnar. Okkar er að helga það og vernda.

Vatnið – eðli, hlutverk og flæði.

Þegar við fæðumst erum við að þremur fjórðu hlutum vatn – og við erum blaut það sem eftir lifir æfinnar.[i] Ef við ofþornum deyjum við og hið sama gildir um flestar lífverur. Líf allra manna á öllum tímum og alls staðar er háð vatni. Ekkert annað kemur í stað vatnsins. Vatnið umlykur Jörðina, er í gufuhvolfinu, andrúmsloftinu. Það er regnið, sem bylur á okkur þegar rignir og snjórinn sem hvíttar tilveru okkar í frostatíð. Vatn flæðir í lækjum, ám, vötnum og neðanjarðar. Það er í hafinu, í jöklum á landi og ísþekjum á hafi og í og á vötnum. Það gufar upp og dansar upp í andrúmsloftið, myndar ský og þar með hina stórkostlegu hringrás lífsvökvans. Vatnið er ekki bara klæði Jarðarinnar, heldur blóðið, fjallamjólkin (sbr. Kjarval), í æðakerfi heimsins sem nærir líf hinnar bláu plánetu.[ii]

Samtals er vatn Jarðarinnar nærri 1,4 milljarðar km3, í sjó, neðanjarðar, í öllu rennandi vatni heimsins, ís og jöklum og andrúmslofti. Vatnskerfi Jarðarinnar minnkar hvorki né stækkar því andrúmsloftið hindrar að vatn flæði út í geiminn. Um 97% vatns á jarðarkúlunni er salt, einkum í sjónum. Ferskvatn er aðeins tæplega 3% af vatni, um 35 milljón km3.[iii] Megnið af ferskvatni er annað hvort neðanjarðar eða frosið. Innan við 1% vatns jarðarinnar myndar hringrás vatns, um 11 milljón km3 eða nærri 0,77% vatns. Það er því fyrst og fremst rigning og snjókoma, sem endurnýja og hreinsa vatnsbirgðir jarðarkúlunnar og til nota fyrir líf á landi. Það er lítið, aðeins 34 þúsund rúmkílómetrar sem nýtast landlífi sem endurnýjanlegar birgðir vatns.

Grunnvatn

Megnið af ferskvatnsbirgðum heimsins er grunnvatn, sem er um sextíu sinnum meira en yfirborðsvatn.[iv]Grunnvatn rennur um jarðveg og gljúpt berg og myndar gjarnan risastór stöðuvötn sem yfirborðsvatn rennur í og fyllir upp ef grunnvatn rennur einhvers staðar úr. Þessi stóru vatnsgímöld eru kölluð grunnvatnshlot. Sum þeirra eru lokuð af neðanjarðar og njóta engrar eða lítillar aðveitu að ofan. Grunnvatn er oftast ósýnilegt en yfirborðsvatn sést. Ef grunnvatn flæðir er það á hægri hreyfingu. Miðað við hreyfingu grunnvatns flæðir yfirborðsvatnið hratt. Um helmingur ofankomu, þ.e. rigning og snjór, fer í læki, ár og fljót, en hinn helmingur ofankomunnar gufar upp. Þegar grunnvatnsgeymar fyllast flæðir vatn út í lindum. Það köllum við uppsprettur. Þegar dælt er úr grunnvatni er hætta á að dælt sé meira en sem nemur áfyllingu ofankomu. Hættan er að vatnstakan breyti því jafnvægi sem náttúran á viðkomandi svæði hefur skapað. Þegar svo verður er hætta á að lífríkið skaddist. Plöntur og lífverur sem aðlagast hafa eða þarfnast flóða geta orðið fyrir skaða af flóðaleysinu. Fæðubúskapur lífkeðjunnar getur skaddast og jafnvel veiklast varanlega. Um fjórðungur mannkyns er háður grunnvatni til drykkjar og heimilishalds.[v] Og víða er gróflega dælt úr grunnvatni og því gengið á vatnsbirgðir heimsins. Það er ekki einkamál heldur varðar alla og framtíð líka.

Vernd vatns

Vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Tveir milljarður manna hafa ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Íslendingar búa yfirleitt ekki við vatnsskort en hins vegar getur komið fyrir, vegna sérstakra aðstæðna eða áfalla, að vatn spillist eins og á Ísafirði árið 2017 og í Gvendarbrunnum 2017 og 2018. En vansskortur er verulegur og ógnvænlegur víða um heim. Þegar hver einstaklingur fær til nota minna en eitt þúsund rúmmetra á ári er um vatnsskort að ræða.[vi] Vatns-streita ríkir á þeim svæðum þar sem vatnsnotkun er umfram 25% hinna endurnýjanlegu vatnsbirgða.[vii] Veigamikil ástæða vatnskreppu er mannfjölgun en líka misnoktun vatns. Á hverju ári fjölgar mannkyni um nærri 80 milljónir. Vatnsnotkun í heiminum jókst mikið alla tuttugustu öldina, tvöfalt á við fjölgun fólks. Ástæðan var stóraukin iðnaður, orkuöflun og óhófleg vatnsnotkun og jafnvel sóun í hinum ríku hlutum jarðarkringlunnar. Á næstu áratugum má búast við, að mannfjölgun verði mest í suð-austur Asíu og Afríku sunnan Sahara. Mannfjöldinn leitar inn í borgirnar og þær munu jafnvel tvöfaldast að mannfjölda á einum áratug frá því í ár, 2020, og til 2030.[viii] Þessi mikla mannföldaaukning mun ganga á vatnsbirgðir heimsins og ef heldur svo fram sem horfir verður gengið freklega á grunnvatnsbirgðir, sem ekki ná að endurnýjast. Ef vatn þverr mun fólk deyja eða halda út í óvissuna og gríðarlegir mannflutningar verða þá inn á vatnsríkari svæði veraldar, t.d. Evrópu og Ameríku. Um 2 milljarðar fólks býr þegar við vatnsskort eða um fjórðungur mannkyns. Í norðurhluta Afríku og vesturhluta Asíu býr um 60% íbúa við vatnsskort. Búast má við miklum áföllum og fjöldadauða á þessum svæðum þegar að sverfur.[ix] Með loftslagsbreytingum hefur ástand vatnsmála heimsins versnað. Sjúkdómar hafa breiðst út og barnadauði hefur aukist. Fráveitumál eru víða í ólestri og menga vatnsból, ár og læki um víða veröld.

Aðgerðir og 6. heimsmarkmiðið

Gríðarleg streita verður þar sem vatnsskortur ríkir. Frekar en að deyja berst fólk fyrir aðgangi að vatni. Á tuttugustu öld ríkti vatnsspenna í Miðausturlöndum nær og skýra má stríð á átök aldarinnar í því samhengi. Í norður-austur-hluta Afríku ríkir t.d. spenna vegna aðgengis að vatni. Eþíópía gæti orðið fyrir hernaði grannþjóða vegna vatnsnotkunar og vatnstöku úr ánni Níl til raforkuframleiðslu. Í Suður-Ameríku eru víða átök um vatn og m.a.s. í Bandaríkjunum er yfirvofandi vatnsskortur. Æ fleiri hafa gert sér grein fyrir að við erum ekki tuttugasta og fyrsta öldin heldur tuttugasta og þyrsta öldin. Við erum hinum megin við vatnaskil menningar og vatnsnotkunar. Nú verðum við að sameinast fremur en berjast um vatn. Fjórðungur mannkyns býr við vatnsskort eða vatnsstreitu og ófullnægjandi salernisaðstæður. Fjöldi þess fólks sem býr við slíka kreppu fer vaxandi. Aðstæður fólks eru ekki aðeins óviðunandi heldur vex sá fjöldi sem deyr vegna vandans og hætta á að heimurinn fari á hliðina þegar vaxandi flaumur fólks streymir frá þessum dauðakreppum til blautari og lífvænlegri aðstæðna. Flóttamenn í Grikklandi verða barnaleikur hjá því sem orðið getur. Covid-19 eins og barnaþula miðað við þær hremmingar sem raunsæir óttast.

Því settu Sameinuðu þjóðirnar meðferð vatns inn sem aðalatriði í markmiðum Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Ábyrg meðferð vatns er sjötta markmiðið af sautján. Og á þessar tuttugustu og þyrstu öld erum við orðin samtengd í bjarga vatni heimsins frá gróðahyggju, sóðafólki heimsins og skammsýni. Vatnið vex ekki eða minnkar. Við verðum að tryggja að börnin sem fæðast verði ekki mettuð mengun og skeytingarleysi okkar kynslóða. Ábyrgðin er okkar allra, okkar sem hér erum. Okkur og samfélögum okkar ber okkur að fara vel með, gæta að vatnið spillist ekki mengandi efnum og saurgerlar berist ekki í vatn. Kristnir söfnuðir þessarar þjóðar geta ekki aðeins lagt mikið til náttúruverndar heldur er trú beinlínis lífblessandi. Þjóðkirkjan ætti að beita sér fyrir að allar systurkirkjur sameinist um að vernda vatn veraldar. Það geta kirkjurnar gert með því að þrýsta á  og beita stjórnvöld heimsins verndi vatn og stuðli að góðum frárennslisaðgerðum. Við ríkari hluti heimsins eigum að beita okkur fyrir að vatnsstressaðar þjóðir fái hjálp við vatnsmál. Við getum líka keypt gjafabréf Hjálparstarfs kirkjunnar. Það kostar ekki nema 180 þúsund krónur að gera brunn í Afríku og aðeins 55 þúsund að gera stóran vatnsgeymi. Sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna er ekki markmið fyrir aðra heldur okkur. Vatn tengir okkur öll.

Hallgrímskirkja 15. september. 12,05 – 12,45.

Spheres showing:
(1) All water (largest sphere over western U.S., 860 miles (1,385 kilometers) in diameter)
(2) Fresh liquid water in the ground, lakes, swamps, and rivers (mid-sized sphere over Kentucky, 169.5 miles (272.8 kilometers) in diameter), and 
(3) Fresh-water lakes and rivers (smallest sphere over Georgia, 34.9 miles i(56.2 kilometers) n diameter).

(©); and Adam Nieman.

[i] https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58906#

[ii] Um vatnið t.d. magn: https://www.usgs.gov/special-topic/water-science-school/science/how-much-water-there-earth?qt-science_center_objects=0#qt-science_center_objects

[iii] Ef vatn Jarðarinnar væri rétthyrndur ferningur myndi hver hlið vera um 1120 km á lengd.

[iv] Barlow og Clarke 2002.

[v] Barlow og Clarke 2002: 12.

[vi] Shiva 2002.

[vii] Palanappian and Gleick 2009, og heimasíða Sameinuðu þjóðanna.

[viii] UNESCO Water Newsletter NO249 2011.

[ix] https://sustainabledevelopment.un.org/sdg6