Greinasafn fyrir merki: Vaglaskógur

Ísleifur Sumarliðason + 1926 – 2015

Ísleifur Sumarliðason
Ísleifur Sumarliðason

Hvað var það skemmtilegasta sem Ísleifur á Vöglum gerði? Börn hans urðu hugsi því margt kom til greina, margs að minnast á heimili, úr starfi skógarvarðarins í 38 ár og plöntuframleiðslu í áratugi.

Sáning í helgidóminum

Kannski var það þegar hann fór með fræpokana að sáningarreitunum til að sá. Þá urðu börnin að hafa hljótt um sig – ekki vera fyrir þegar Ísleifur varð samverkamaður skaparans, varð prestur í gjörningi sköpunarinnar, dreifði samviskusamlega trjáfræi í frjóa mold og í sléttum beðum. Augu hans horfðu yfir sáðbeðin, hendur hans og fingur dreifðu með agaðri natni mjúku fræinu svo það lagðist á spírunarstað í hæfilegri dreifingu. Og svo var jafnað yfir, vökvað og hlúð að.

Skógurinn varð helgistaður, Vaglir kórinn og sáðreiturinn altarið. Svo spíraði undir gleri í reitum. Fuglum var haldið frá og skepnum einnig. Illgresi var reitt burt og svo uxu upp fjarska lítil birkiskott, lerki, furuskinn, heggur eða einhverjar fáséðar tilraunaplöntur sem Ísleifur hafði löngun til að reyna að rækta undir misblíðum himni við brjóst landsins.

Myndin af sáðmanninum Ísleifi Sumarliðasyni er laðandi fögur. Hún dregur saman þræði í lífi hans, eðliskosti, upphaf og lífsstarf. Og hún tengir hann í sögu Íslands á 20. öld, framvinu samfélags, hugmyndir um hlutverk fólk í landinu, atvinnusögu og einnig menningarpólitík. En svo er sáðmaðurinn líka fulltrúi mannkyns í faðmlögum við náttúru, umhverfi og svo auðvitað við Guð, sem er “yfirskógarvörður” alheimsins.

Upphaf og mótun

Ísleifur Sumarliðason fæddist á Akranesi 12. nóvember 1926. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Guðmundsdóttir Thorgrímsen og Sumarliði Halldórsson. Nafn Ísleifs var vitjunarnafn eins og nafn föður hans. Fyrstu árin bjuggu foreldrar Ísleifs og Sigríðar, eldri systur hans, á Krossi við Akranes. Sumarliði var af fyrstu kynslóð skógfræðimenntaðra manna á Íslandi. Hann starfaði á árunum 1910-14 sem fyrsti skógarvörðurinn á Vesturlandi. Sumarliði var ekki aðeins áhugamaður um að endurklæða landið ilmandi skógi heldur vildi stuðla að innri ræktun íslenskrar æsku og var í þeim efnum samverkamaður sr. Friðriks Friðrikssonar í KFUM og sá um starf félagsins á Akranesi. Vegna tæprar heilsu og veikinda foreldra Ísleifs fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þegar hann var á unglingsárum. Og móðir hans lést þegar Ísleifur var 18 ára.

Ísleifur hóf skólagöngu á Skaganum en hélt svo áfram í Ingimarsskóla þegar suður var komið. Í fríum og eftir að skóla lauk fékk Ísleifur vinnu við skógræktarstörf. Ræktin var í fingrum hans og sinni. Líf skógræktarfólks varð honum eðlilegur lífsháttur. Alla tíð – allt til enda – var leiðin að hjarta og huga Ísleifs greiðust með því að ræða um gróður og ræktun.

Ísleifur fékk á stríðsárunum vinnu í Múlakoti í Fljótshlíð sem varð til að hann ákvað að fara til náms í skógfræði í Danmörk. Sumarliði, faðir hans, hafði lært á Jótlandi en Ísleifur fór til náms á Sjálandi. Hann naut ekki aðeins Danmerkurtímans sem gleðilegs tíma heldur ferðaðist suður allt Þýskaland. Það var hans – og þess tíma – útgáfa af Interrail-ferð. Ísleifi ógnuðu afleiðingar styrjaldarinnar og ásýnd Þýskalands hafði djúp áhrif á hann.

Þegar Ísleifur hafði numið fræðin, notið danskrar menningar og – skv. því sem mér telst til orðinn skógfræðingur þjóðarinnar nr. 7 – var hann tilbúinn til starfa á Íslandi. Í ársbyrjun 1949 var Ísleifur ráðinn til að verða skógarvörður á Norðurlandi, með aðsetur á Vöglum í Fnjóskadal. Hlutverk hans var að vakta skóga á Norðurlandi. Víða voru kjarrsvæði og skógarleyfar sem þurfti ekki aðeins að vakta heldur einnig að verja til að þau lifðu. Hlutverk skógarvarðarins var ekki aðeins að girða heldur líka beita sér í samskiptum við fólk og þmt stjórnvöld til að vernda viðkvæm svæði, sjá til að umgengni við skógana yrði bætt og peningar yrðu til að manna stöðvar og starf.

Svo breyttist skógarvarðarstarfið á Vöglum. Ísleifur beitti sér fyrir uppbyggingu ræktunarstöðvar og umfangsmiklum tilraunum með tegundir og kvæmi sem hægt væri að nýta á Íslandi. Hann og starfsfólkið á Vöglum byggðu upp þekkingargrunn sem var hagnýtur við skógræktarstarf í landinu á seinni hluta tuttugustu aldar. Um 1980 voru á Vöglum framleiddar um 150 þúsund skógarplöntur árlega til plöntunar í Fnjóskadal eða annars staðar á Norðurlandi. Þessi framleiðsla kom til móts við aukin skóræktaráhuga landsmanna, þjónaði skógræktarfélögum og einnig mikilvirkustu skógræktarmönnum þjóðarinnar, sumarbústaðafólkinu. Merkilegar tilraunir voru gerðar við að greina hvaða tegundir hentuðu og við hvaða aðstæður.

Sigurlaug, börnin og Vaglir

Svo var það ástin. Hinn bráðungi skógarvörður á Vöglum var einhleypur þegar hann kom norður í veturinn í Fnjóskadal. Fyrst bjó hann á Skógum, sem er vestan ár. En svo kom vorið. Skógræktin var byggðarstólpi í dalnum og veitti mörgum atvinnu. Og Ísleifur réði fjölda fólks til starfa, m.a. Sigurlaugu Jónsdóttur frá Skarði í Dalsmynni (f. 15. júlí 1931 – dóttir hjónanna á Skarði, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Jóns Jóhannssonar).

Og kannski var það fyrirsjáanlegt að fallegi Ísleifur og hin fallega Sigurlaug hrifust af hvoru öðru. Þau féllust í faðma og voru glæsileg hjón. Þau gengu í hjónaband 12. nóvember árið 1950. Hann fékk hana í afmælisgjöf – og sú gjöf var ein af stóru lífsgjöfum hans og til blessunar. Það voraði vel í lífi hans í Vaglaskógi og hjúskapurinn varð Sigurlaugu og Ísleifi ávaxtasamur. Þau eignuðust sjö börn. Elst er Sigríður Ingibjörg sem fæddist árið 1951. Síðan komu börnin eitt af öðru og þétt. Jón fæddist árið 1952, Jóhann Svavar tveimur árum síðar. Sumarliði Ragnar fæddist árið 1955 og Sigurður Örn ári síðar. Rúnar kom svo í heiminn árið 1962. Árið 1973 fæddist Guðmundur Einar, en hann lést aðeins tveggja ára.

Þau Sigurlaug og Ísleifur bjuggu á Vöglum í 38 ár. Heimili þeirra var fjölsótt. Það var m.a. áfangastaður erlendra skógræktarmanna sem komu víða að úr veröldinni. Svo var fjöldi fólks sem starfaði í skóginum, nokkrir allt árið og jafnvel einhverjir tugir yfir sumarið. Því var í mörg horn að líta og reyndi á hæfni og samstöðu þeirra hjóna. Þau nutu svo föður Ísleifs meðan honum entist aldur (+1965). Hann studdi son sinn og tengdadóttur í ýmsu m.a. með því að vera börnunum á Vöglum natinn afi sem miðlaði fjölskyldusögu, trú og gildum hins gamla Íslands.

Vaglaskógur var vegna skógræktar tengdur stórheiminum ekki síður en nærheimi. Skógarvörðurinn var ekki aðeins í góðri samvinnu við innlenda skógrækt heldur erlenda einnig. Fræsendingar komu um langan veg. Gestir komu færandi hendi og skógarvörðurinn eða þau Sigurlaug bæði ferðuðust um heiminn í vinnuerindum og oft í einkaerindum einnig. Á heimili þeirra Ísleifs mátti sjá minjagripi um heimsreisur þeirra og hve víða þau höfðu farið.

38 ár á Vöglum og svo þegar þau létu af störfum nyrðra voru þau reiðubúin að brjóta nýjan akur. Þegar þau höfðu lokað Vaglabænum í síðasta sinn hófu þau nýjan feril. Ísleifur og Sigurlaug fluttu árið 1986 suður í Mosfellsbæ. Þar keyptu þau hús og land og settu síðan upp gróðrarstöð sem þau ráku í tvo áratugi og framleiddu garðplöntur. Þau voru vön að starfa saman, nutu styrkleika hvors annars og gátu á eigin kostnað gert áfram tilraunir með gróður og í nýjum aðstæðum og á nýju svæði. Garðplöntusalan varð líka samastaður og jafnvel á stundum vinnustaður afkomenda þeirra hjóna. Þegar Ísleifur var áttræður og kona hans á áttræðisaldri var komið að nýjum skilum. Þau seldu hús og land og fluttu til Reykjavíkur. Ísleifur stríddi við vaxandi heilsuleysi síðustu árin og lést mánudaginn 29. júní, 88 ára að aldri. Þá höfðu þau Sigurlaug verið í hjónabandi í 65 ár.

Kveðjur hafa borist frá Frímúrum á Akureyri sem og frá systkinum í Nesi í Fnjóskadal.

Minningarnar

Hvernig manstu Ísleif Sumarliðason? Manstu dugnaðinn og vinnusemina? Hann var atorkumaður sem við munum eftir sem kynntumst honum. Hann var fjölhæfur hæfileikamaður. Áhugamaður um samfélagsmál og þjóðfélagsmál og las mikið alla tíð. Hann opnaði huga gagnvart menningu heimsins. Ísleifur var málafylgjumaður, hafði skoðanir á flestu og var stefnufastur í mörgu. Hið innra bjó í Ísleifi næmni og meir lund sem kom betur í ljós þegar leið á æfina. Hann var heiðarlegur og raungóður. Ættingjar og sveitungar vissu að hægt var að leita til Ísleifs um stuðning af ýmsu tagi. Ísleifur var öflugur stjórnandi, hvatti fólk til dáð í kringum sig, börnin sín til mennta og nærsamfélag til dáða.

Hvernig manstu hann? Hvað kemur í huga þinn? Lyftu upp, farðu vel með og legðu frá þér með natni – eins og þegar lagt er til spírunar það sem er ætlað til lífs.

Sumarlandið

Og nú er komið að skilum. Maðurinn sem byrjaði æfina með því að búa á Krossi fer nú undir merki krossins inn í eilífðina. Meistarinn mikli frá Nasaret var áhugamður um gróður, benti á liljur vallarins, sagði sögur af garðyrkju og fólki í ræktunarstörfum. Það er skógrækt og lífrækt í þeim Jesú Kristi sem líkti sjálfum sér við tré. Og það tré tilheyrði lífinu. Svo ræddi hann líka um sáðmann sem fór út að sá og sumt fræið bar ávöxt og annað ekki. Það er sagan um okkur menn, líka Ísleif Sumarliðason. Hann gekk í helgidóm skógarins, sáði í frjóan jarðveg og fylgdist svo með spírun, lífvexti og ávexti. Guð á himnum horfði með áhuga og stuðningi til Ísleifs, fylgdist með lífi hans og ávöxtum verka hans og fjölskyldu. Og svo er boðskapur úr gróðrarstöð himins skýr: Ég er upprisan og lífið. Ný spírun í nýjum sáðreit eilífðar. Þar fer ekkert forgörðum því sú ofuræktunarstöð er fullgerð, er án hreta og laus við öll dýr og mein.

Guð geymi Ísleif í því sumarlandi. Og Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 7. júlí, 2015. Erfidrykkja í Neskirkju og jarðsett í Guðfuneskirkjugarði.