Greinasafn fyrir merki: útrýmingarbúðir

La Vita é bella – lífið er dásamlegt

Ástin og líf á stríðstíma. Það er meginstef kvikmyndarinnar La Vita é Bella. Guido, ungur gyðingur heillast kennslukonuni Dóru í ítölsku þorpi. Hún er af öðrum menningarhópi en hann og flest verður til að hindra samskipti og tilhugalíf þeirra. En með hugviti og uppátækjum tekst söguhetjunni að bræða hjarta konunnar og leysa þau félagslegu höft sem meina þeim að eigast. Tilhugalífið er efni fyrri hluta myndarinnar og einkennist af farsakenndri og nánast súrrealískri atburðarás. Síðan er skipt um gír og ný saga hefst. Guido og Jósúa, fimm ára afkvæmi ástarinnar, eru sendir í fangabúðir nazista. Dóra heimtar að fara með þeim. Þar reynir faðirinn að fela drenginn svo honum verði ekki fargað. Pabbinn gerir sitt besta til að breyta hryllingsaðstæðum í leik svo veran verði þeim feðgum bærilegri. Guido lýgur til lífs, jafnvel á leið til eigin aftöku skemmtir hann syninum. Móðir og sonur komast af úr hildarleiknum.

Trotsky á að hafa sagt, þegar hann beið eftir aftökusveitinni, að lífið væri samt dásamlegt. Þaðan kemur heiti myndarinnar. Í samræmi við það er boðskapur myndarinnar, að gáskinn sé sterkari en drunginn, lífið sterkara en dauðinn og vonin máttugri en svartnættið. Hið persónulega í myndinni er ávirkt og hvíslar að áhorfendum boðskapnum að hamingjan sé heimafengin hvernig sem aðstæður fólks séu.

Guido í myndinni er Jesúgervingur. Lokaorð drengsins í myndinni vísa til fórnar föður hans svo hann mætti lifa. Þar með er ákveðin túlkun gefin um að sagan sé saga um fórn. En faðirinn dó ekki fyrir syndir annarra eða í stað annarra. Guido er fyrst og fremst lausnari í því að vera farvegur lífs, gáska, gleði og hamingju. Alls staðar þar sem Guido fer er líf og fjör. Hann er samkvæmur sjálfum sér og tekur ekki þátt í þrönghyggju dauðans, stjórnmálum húmorslausra fasista. Aldrei tekst honum betur upp en þegar þeir og þeirra nótar eru viðfangið. Hann er farvegur viskunnar, líka í samskiptum við lækninn Leibnitz, sem er blanda af formhyggju og flótta frá lífinu (Silenzio). Í myndinni er lögð áhersla á að Guð þjóni mönnum en sé ekki þræll þeirra. Góður þjónn eigi að vera sjálf sín en ekki senditík manna. Þjónsboðskapur myndarinnar vísar í þjónsmynd spádómsbókar Jesaja.

Í kvikmyndinni er líka vísað til Exodusstefja þó þau séu ekki unnin ítarlega. Sonurinn ber nafnið Jósúa sem var nafn leiðtoga Ísraelsþjóðarinnar á leið til landsins fyrirheitna. Móse leiddi hina fornu hebrea út af þrælahúsi Egypta og að landmærum Palestínu en hann dó áður en hann komst alla leið (lokakaflar 5. Mósebókar og Jósúabók). Guido er að sínu leyti í hlutverki Móse en sonurinn kemst alla leið, sbr. síðustu myndskeið myndarinnar. Starfi Guido er þá í anda lögmáls gleðinnar og skapandi elsku. Nafn söguhetjunnar gæti verið túlkun á guðsheitinu (sbr. Godot hjá Beckett).

Vegna bjartsýni og gleðisóknar eru upprisutákn skýr í myndinni. Þrátt fyrir ferð um dal dauðans í útrýmingarbúðunum komast drengurinn og móðir hans af. Drengurinn bíður þess í ruslatunnu að hörmungar gangi yfir. Hermenn með hund rétt við tunnuna minna á hermenn við gröf Jesú. Svo þegar þeir voru flúnir kom litli maðurinn fram úr gröf sinni, upprisinn þvert á allar aðstæður. Og hann hlaut sigurlaun sín í samræmi við orð föðurins. Hann náði hann öllum 1000 stigum sem kallast á við 1000 ára ríki Hitlers. Mórallinn eða boðskapurinn er einfaldur. Lífið býður upp á mun stórkostlegri kraftaverk og undur en hinir lítilþægu gera sér grein fyrir.

Vegir, götur og leiðir eru mikilvæg tákn í myndinni um mannlíf og hvernig manneskjan þeytist áfram og verður fyrir óvæntum viðburðum. Hið grínaktuga myndmál myndarinnar varpar spurningum til áhorfenda á hvað leið þeir séu. Allir fara eitthvað og orð Jesú koma í huga sem djúpstef myndarinnar: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Myndin byrjar á bílferð tveggja félaga um unaðslega sveit í Toscana. Bremsurnar bila og þeir félagar geisast stjórnlaust niður krókótta brekkuvegi og hendast inn í bílalest höfðingja í opinberri heimsókn. Benigni í hlutverki Guido hamast við að benda fólki að víkja frá. Það misskilur og heldur að hann sé að veifa þeim og fólkið fagnar. Atriðið vísar í Einræðisherrann, kvikmynd Chaplins. Skömmu síðar er Guido svo á fleygiferð á hjólinu sínu og lendir á draumadís hans á þorpstorginu. Hjólreiðar á formúluhraða eru algengar og lyktar jafnan í upphöfnu sprelli. Lestin liggur til dauðans og síðasta ferðin var með skriðdreka.

Gluggar og rýmisop þjóna lykilhlutverkum í myndinni og eru tákn breytinga. Dóra kom fljúgandi út um guggaop á hlöðu í myndarbyrjun. Lykill Maríu flýgur alla myndina úr gluggum. Guido flúði skelfilegan sendiboða um skólaglugga eftir að hafa dansað borðfyrirlestur fyrir skólakrakka. Gluggi heimilis hjónanna spannar tímabreytingu fimm ára. Gluggi tónlistar er opnaður í fangabúðum til að miðla vitnisburði um lífið. Hetja er nöppuð við glugga og aflífuð í kjölfarið. Drengurinn horfir á föður sinn um ruslatunnuop stíga gæsagang á leið til aftöku. Gluggarnir eru gjarnan uppmúraðir í fangabúðunum. En gluggar eru einnig leið fyrir ljós og að það sem mönnum virðist ekki hægt að komast í gegnum er oft lítið annað en skilrúm sem má ryðja burt. Möguleikarnir eru oft fleiri en fólk vill skilja. Borðhald er mikilvægt í myndinni og vísar í borðhald Biblíunnar, bæði í túlkun Gt og Nt. Tónlist Piovani er ekki flókin en afar vel útsett og með kostulegum blæ. Offenbach stendur alltaf fyrir sínu.

Þetta er góð mynd, fyrir þau sem hafa gaman af meðvituðu sprelli og löngun til að elska lífið.

Dachau, útrýmingarbúðir og við

 

75 ár eru frá því útrýmingarherferð nasista lauk og fangar voru frelsaðir úr dauðabúðunum. Í Póllandi, Jerúsalem og Þýskalandi hafa verið haldnar minningarathafnir á þessum tímamótum. Í búðunum voru meira en sex milljónir myrtar. Gyðingar voru stærsti hópurinn, en líka þau sem voru talin óæskileg, samkynhneigðir, fólk með þroskahamlanir og pólitískir andstæðingar yfirvalda. Fólk var pyntað, kvalið, niðurlægt og myrt. Börnum var jafnvel hent lifandi inn í eldofnana og kvalaópin skáru í hlustir hinna fanganna, sem ekkert megnuðu í varnarleysi sínu annað en hlusta og æpa hljóðlausar bænir inn í eilífðina. Er nema von að fólk spyrði í kjölfar styrjaldarinnar hvort Guð væri ekki beinlínis nauðsynlegur til að gera upp sögu með þvílíkri hryllingsvídd.

Skammt utan við borgina München í Þýskalandi er Dachau, lítill staður með stóra sögu. Ég átti einu sinni leið til München og fór þá til Dachau. Ég vissi fyrirfram um staðinn og hafði kynnst fólki sem hafði misst ættingja sína í Dachau. Það er sálarslítandi að lesa helfararbækur en grípandi og nístandi að hugsa um mismunandi viðbrögð fólks í dauðabúðum. Þessar bækur halda að manni íhugun um merkingarleysi en líka lífsmöguleika. Meðal þess sem ég hafði lesið var viskubók Viktor Frankl Leitin að tilgangi lífsins, en Frankl var um tíma fangi í Dachau.

Yfir búðahliðinu var stóð: Arbeit macht frei – vinna til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari innan hliðs og girðingar. Þar voru óæskilegir vistaðir og þeim fargað, fólk sem var af ákveðnum kynþætti, þroskaheft eða með aðrar skoðanir en valdhafar. Meðal þeirra var hinn kunni prestur Martin Niemöller, sem benti á mannelsku Guðs sem ekki gerir greinarmun á fólki.

Skálarnir, húsin og minnismerki búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerki um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, magur og hrjáður Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, kunnugur þjáningu, bróðir harmkvælamanna búðanna.

Gyðingaminnisvarðinn í Dachau er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást, að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll byggingin var myrk. Tilfinningin fyrir grjóti var sterk, þetta var eins og grafhvelfing og minnti mig á grafarhvelfingu Jesú. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan, ljóslínan, var vonarlína.

Á leiðinni til Dachau voru nokkur ungmenni í sömu lest og ég sat í. Við töluðum saman á leiðinni og þau sögðu mér að þau væru á lestarferð, Interrail-reisu, í Evrópu. Þau fóru hraðar yfir en ég þegar inn í búðirnar var komið, voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana og ég heyrði að þau sögðu hvert við annað: “Hér er ekkert að sjá.” Þau settust svo niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta Krist, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá – að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin. Áhrifin voru í huga þeirra sem komu.

75 ár frá því að Þýskalands nazismans var neytt til að hætta manndrápum. Hvað höfum við lært? Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo. Ekkert er svo myrkt að himinbirtan megni ekki að upplýsa. 

Bæn

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg. Guð minn! hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró. Og samt ert þú Hinn heilagi. …  Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn. Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar. … Endimörk jarðar munu minnast … og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

Megi ljósið blessa þig. Megi birtan upplýsa myrkur þitt. Megi afturelding umvefja alla menn og allt líf og gefa réttlátan frið.