Greinasafn fyrir merki: umferð

Dásamlega Sikiley

Við Elín Sigrún fögnuðum 25 ára hjúskaparafmæli á páskum og vildum gjarnan fara til Ítalíu til að fagna og taka á móti vorinu. Strákarnir okkar gátu verið með okkur í hálfan mánuð og hvorugur þeirra hafði komið til Ítalíu áður. Í byrjun vorum við með augu á norðurhlutanum en fundum ekki húsnæði sem hentaði okkur og fórum því að skoða aðra kosti. Vinir okkar ráðlögðu okkur eindregið að vera í Róm um páskana og njóta hins heilaga árs kaþólsku kirkjunnar. Svo fengum við lánað hús á vesturhluta Sikileyjar. Þangað höfðum við aldrei komið. Við tókum því stefnu að fara fyrst til Sikileyjar og síðan til Rómar. Þegar leið að ferðarlokum vorum við öll sammála um að það skipulag hefði lánast vel. Synir okkar töldu þetta bestu ferðina sem við hefðum farið og höfum þó farið margar góðar.

Sikiley kom mér mjög á óvart. Ég tengdi hitagula liti við Sikiley – kannski sátu guðföðurmyndirnar í mér? En við vorum á ferðinni í apríl og allt var litríkt og ferskt. Vorveðrið hentaði okkur vel og blómgróðurinn í dölum og hlíðum var stórkostlegur. Eyjan er ekki stór, aðeins um fjórðungur Íslands. Og hún er mun þéttbýlli en ég átti von á og íbúar á fimmtu milljón. Þorpin eru því mörg og borgirnar líka. Mannlífið fjölskrúðugt og sagan þykk.  

Hvernig á maður að skipuleggja Sikileyjarferð? Við ætluðum að nota húsið í hæðunum nærri vesturströndinni sem miðstöð og aka þaðan í frá. Við flugum til Palermo og leigðum bíl. Við urðum hissa þegar við komum á staðinn og uppgötvuðum að þorpið var líflítið. Það var eins og stórslys hefði orðið og enn hefði fólk ekki hætt sér til baka. Fyrrum höfðu tíu þúsund manns búið þarna en atvinnuleysi og áföll tuttugustu aldar hafði hrakið fólk burtu. En húsin urðu eftir, táknmynd brostinna vona. Mörg þeirra höfðu grotnað niður og orðið fuglaskýli og tilraun með gróður á mörgum hæðum. Það er hægt að kaupa evruhús víða og jafnvel evruþorp.

Áður en strákarnir komu vorum við búin að fara til Trapani, Castelmare del Golfo og skoða grísku minjarnar í Segesta. En við ákváðum að fara frekar hringferð en að búa á einum stað. Þar sem við vorum á ferð fyrir ferðamannatímann leigðum við íbúðir á airbnb í einn til þrjá daga. Vorum í Palermo í nokkra daga og hún er dásamleg. Svo ókum við hraðbrautina frá Palermo til austurs, skoðuðum þorp á leiðinni og fórum á einum degi alla leið að Etnu. Þar gistum við á undursamlegum vínbúgarði í Etnuhlíðum sem vinir okkar höfðu bent okkur á. Við fórum hringferð um Etnu og skoðuðum þorpin á leiðinni. Og fórum til Taormina og urðum Laxnesk, ræddum um strípaðan unglinginn við skriftir á Vefaranum í sumarhitanum. Og svo var Oscar Wilde þarna og inflúensur fyrri tíða sem Halldór hefur auðvitað verið búin að heyra um. Styttan af Wilde við aðalgötuna er flott. 

Taormína er Hollywood Sikileyjar og bærinn er fórnarlamb ofurtúrisma. Vinkona okkar í Palermo lagðist gegn því að við færum þangað. En gamli bærinn er laglegur og útsýnið stórkostlegt. Við ókum svo suður og vestur og gistum í Caltagirone sem er huggulegur listabær. Keramíkin var falleg. Héldum svo áfram til Agrigento og skoðuðum musteradal grískra minja. Svo var Burri-minnismerkið um jarðskjálftann 1968 á leið okkar upp til Calatafimi þar sem við vorum síðustu dagana. Við flugum svo frá Palermo til Rómar.  

Hvernig á maður að skoða Sikiley? Með opnum augum, eyrum, huga og vitund. Að fenginni reynslunni held ég að hentugast sé að fljúga til Palermo sem er á norð-vesturhorninu og síðan fra Catania sem er á austurströndinni – eða öfugt. Við vorum mjög sátt við að keyra á milli staða. Okkur var líka sagt að almenningssamgöngur væru góðar á Sikiley. En okkur líkaði frelsið að hafa bíl. Svo er apríl góður tími og hægt að breyta um stefnu ef þarf. Það er ekki hægt að klára Sikiley í einni ferð. Um umferð og akstur á Sikiley að baki þessari smellu. 

Sikiley er menningarlega þykk. Vegna legunnar var húnlykileyja Miðjarðarhafsins. Þess vegna fóru Föníkumenn þar um, síðar Grikkir, svo arabarnir, normannar, Spánverjar, Frakkar og allir sem leituðu valda, auðs og áhrifa. Byggingasaga og menningarsaga eyjarinnar er því svo skrautleg og fjölþætt, ekki bara ítölsk. Matarmenningin er grísk, arabísk, spænsk, frönsk og auðvitað ítölsk líka. Sikileyskur matur er Miðjarðarhafsmatur. Áhrifin frá matargerð við austurhluta Miðjarðarhafs og Norður-Afríku eru augljós. Mér þótti matreiðslan spennandi.

Elín fékk tilboð um að fara á matreiðslunámskið skammt fra Caldagirone og við karlarnir fórum með – og þvílíkt ævintýri. Ég mun héðan í frá sækjast eftir því að fara á matarnámskeið þar sem ég verð á ferð, ekki aðeins til að læra aðferðir heldur til að fá tilfinningu fyrir inntaki og samhengi. Við lærðum margt um hveiti, krydd, handverk og áherslur. Svo eru mörg veitingahúsin framúrskarandi. Hvergi í heiminum höfum við fengið betri pizzur en í Palermo!

Náttúra Sikileyjar í fjölbreytileg og náttúrfegurð mikil. Andstæður eru miklar. Dalirnir blómum skrýddir og grösugir en Etna ávallt krýnd snæhettu allt árið. Hún er Hekla þeirra Sikileyinga. Fjöll, dalir, strendur og eldfjall. Landbúnaður er mikill og hefur verið nútímavæddur. Það er gaman að skoða olífulundina og vínakrana. Vorið var komið í plönturnar. Og framleiðsla gæðavöru er að aukast.

Alls staðar var okkur vel tekið og vel þjónað. Sikileyingar hafa löngum verið taldir vinsamlegir. Fordómar okkar um ofurspillingu gufuðu upp. Við vorum svo heppin að dr. Anita Bestler var leiðsögumaður okkar í Palermo. Hún er auk þess að vera afar vel að sér í listum, pólitík og menningarmálum einn helsti mafíusérfræðingur Sikeyjar. Hún sagði okkur merkilegar sögur um ítök og sögu mafíunnar. En meðlimir eru ekki tugir eða hundruð þúsunda heldur fimm þúsund. Þeir hafa hag af túrismanum. Því er fólk öruggt á götum og ferðum. Ég var djúpt snortinn af náttúru og menningarsögu Sikileyjar. Og langar að fara aftur.

Dr. Anita Bestler er stórkostlegur leiðsögumaður – einn gaf henni þau ummæli á tripadvisor að hún væri besti leiðsögumaður Sikileyjar. Ég trúi því og við mælum með henni. Hún mas gat sýnt okkur Mussolini á mynd í hvelfingu kirkju í Palermo! Skoðið kynningarsíðuna hennar að baki þessari smellu. Ef einhver hefur áhuga á mafíunni, Sikiley eða Möltu hefur hún skrifað mikið. Og Amazon kemur bókunum í póst til ykkar.