Greinasafn fyrir merki: úlfur

Hlaupavargur

Ulf lærði snemma að veiða dýr og fiska. Hann færði veiðidagbók og skráði feng sinn, hvernig veðrið var, færð og annað sem tengdist veiðinni. Hann lærði skógfræði og gerðist svo kontóristi hjá skógræktinni. Í starfi naut hann þekkingar sinnar úr uppvextinum en varð líka að beygja sig undir gróðaþarfir skógareigenda og á kostnað fjölbreytileika skóganna. Bókin Hlaupavargur hefst þegar Ulf hafði látið af störfum og þau Inga kona hans fluttu úr þéttbýlinu og norður í skógarveröld Helsingjalands. Honum fannst ekki sjáfgefið að Inga vildi verja þriðja æviskeiðinu á bernskuslóðum hans svo hann gæti veitt til matar og þau farið um skógana hans, tínt ber og notið náttúrugæðanna eins og fyrri kynslóðir höfðu gert.  

Ulf kom gömlum húsvagni fyrir upp í hæðum til að fylgjast með dýraferðum. Þar andaði hann að sér dásemdarunaði jarðargróðans og hlustaði eftir hljóðum lífsins og horfði með skerptri athygli veiðimannsins. Við kynnumst smátt og smátt manni sem elskar lífið og lifir í sátt við lífríkið. En í hjarta og æðakerfi Ulfs voru mein og breytingar urðu hið innra. Veiðilöngun hans daprast. Náttúrutengingin stríkkar, snýst og opnar honum nýja skynjun og sálarvíddir. Á nýjársdegi fóru Ulf og hvutti í kofann til að kíkja á umferð dýranna. Þá sá sá gamli allt í einu háfættan, stóran úlf sem kom í jaðar skógarins. Hann stóð grafkyrr, glæsilegur prins lífsins og konungur skógarins. Ulf heillaðist af þessum nafna sínum og nýr kafli hófst í lífinu. Hann gat ekki eða kunni ekki segja konu sinni frá þessari sjón, merking hennar dagaði hægt á hann. Smátt og smátt skilur hann og lesendur líka að úlfurinn varð táknmynd um manninn sjálfan. Hann notaði úlfinn til að túlka eigið líf, minningar, lífsátök og afstöðu annarra. Svo sá hann í úlfinum lífsháska líka. Á veiðitímanum sem fór í hönd næstu ár óttaðist hann að veiðifélagar hans dræpu úlfinn. En hinn mennski Úlfur varð veikur, var lagður inn á sjúkrahús en hinn dýrslegi fór frjáls um fjöllin. Síðan er unnið úr stefjum bókarinnar með spennuparið úlf-Úlf sem meginstef. Gert er upp við alls konar tengsl veiðifélaga, hjúskaparvíddir þeirra Ingu, fortíðarlíf byggðanna í dreifingu Svíþjóðar og samfélagsdeiglu nútímasamfélags. Nýting nátturu kemur við sögu, átök um stefnu í náttúrnýtingarmálum, breytingar á veðurfari fléttaðar í söguþráðinn, ást á dýrum og ábyrgð eða ábyrgðarleysi á húsdýrum líka.

Bókin byrjar rólega en svo er hert á og mestur hraði, spenna og óvænt úrvinnsla í lokin kemur á óvart. Við fylgjumst með framvindunni frá sjónarhóli Ulf. Samfélagi, tengslum og hugsun veiðimanna er lýst með nærfærnum hætti í bókinni. Náttúrulýsingar eru heillandi og veiðimenn allra landa þekkja náttúrulestur, gerhyglina sem fylgir veiðum, virðingu fyrir bráð og lotningu fyrir gangverki náttúrunnar. Lýsingar á gróðri eru fíngerðar, veðri er lýst af næmni, mynstrum íss, óveðri og snjókomu. Manngerðum veiðimanna er lýst ágætlega og þeim flóknu tilfinningum sem bærast í veiðiferðum og hvernig reglur þarf að setja til að tryggja öryggi manna og dýra og líka að farið sé að lögum. Ulf hinn mennski gerir upp líf sitt og hann þorir að breytast og skipta um skoðun. En hann þorir að þjóna lífinu. Hlaupavargur er vissulega bók um undur náttúrunnar. En hún er ekki síður um víddir þess að eldast. Afbragðs vel fléttuð og skrifuð bók um náttúrutengsl, að gera upp líf og að lifa þrátt fyrir hrörnun. Fjögurra stjörnu bók.

 Hlaupavargur kom út árið 2021. Fyrir hana var Kerstin Ekman tilnefnd til sænsku útvarpsverðlaunanna árið 2022 og til norrænu bókmennaverðlaunanna sama ár. Skúli Thoroddsen þýddi bókina og gerði vel. Aðalsteinn Svanur Sigfússon, sá mikli meistari, vann bókina til prentunar. Ugla gaf út 2024.

Bókaútgáfan Ugla setti þessa tilvitnun úr bókinni á vefinn og upplýsingar um höfundinn:

„Þá kom hann út. Svo eðlilega eins og ekkert væri sjálfsagðara; þessi veröld var hans. Hann kom út úr skóginum aðeins lengra frá en þar sem slóðin eftir skíðin mín var. Hann staldraði aðeins á milli einirunna og lágvaxinnar furu og horfði gaumgæfilega yfir snjóhvíta og frekar takmarkaða víðáttu mýrarinnar. Hann sneri höfðinu þannig að ég gat séð á vangann og íðilfagurt trýnið, bratt ennið og upprétt eyrun.“
Kerstin Ekman (f. 1933) er einn virtasti skáldsagnahöfundur Svíþjóðar. Hún hefur meðal annars hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og tvívegis August-verðlaunin í Svíþjóð. Bækur hennar hafa verið þýddar á yfir 30 tungumál. Hlaupavargur er fjórða bókin sem kemur út eftir hana á íslensku en hinar eru Atburðir við vatn, Miskunnsemi guðs, báðar í þýðingu Sverris Hólmarssonar, og Gáruð vötn í þýðingu Höllu Sverrisdóttur.