Greinasafn fyrir merki: týndi sonurinn

Er þessi pabbi í lagi?

Hvernig hefur fjölskylda þín mótað þig? Ekki aðeins erfðavísarnir heldur samskipti, uppeldi og áföll. Við erum öll hluti fjölskyldu og fjölskyldusögur eru alls konar. Við mótumst af fjölskyldu okkar og sögu hennar. Í Biblíunni er fjöldi fjölskyldusagna, sem eru erkisögur, lærdómssögur og viðmið en líka víti til varnaðar. Jesús var meðvitaður um gildi, vegsemd og vanda fjölskyldna. Hann sagði litríkar sögur um fjölskyldur. Íhugunarefni dagsins er ein af þeim merkilegu sögum.

Saga guðspjallsins er um ungan mann í útrás og viðbrögð fjölskyldu hans. Þessi saga um týnda soninn, eyðslusegginn, er í guðspjallinu síðasta sagan um missi og endurheimt. Og ungi maðurinn sem drífur áfram framvindu sögunnar var með huga við peninga. Hann kreisti út arf sinn fyrirfram, sóaði öllu með miklum látum og klúðraði fjármálum sínum herfilega. Hann eignaðist að sjálfsögðu viðhlægjendur meðan hann átti aur. En svo var auðurinn búinn og hryllilegur raunveruleikinn blasti við. Þegar maðurinn var meðal svínanna varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum og viðurkenndi þá, að hann hafði verið týndur. Þá byrjaði hann að sjá að sér, iðrast, – koma til sjálfs sín eins og sagt er svo fallega.

Þrír karlar

Heima var týnda syninum fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara var heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúð mín með eldri bróðurnum. Var þessi veisla fyrir ruglukollinn nokkuð annað en meðvirkni? Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar, sem týnast af einhverjum ástæðum. Og það er alltaf átakanlegt. Svo eru hin, sem eru ábyrg og standa við sitt og sinna sínum hlutverku en geta þó átt í miklum vanda. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki fullkominn. Hann var ekki týndur í útlöndum en var þó týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni en hafði tapað tengslum við ástvini sína. Fólkið í fjölskyldu karlanna var týnt hverju öðru og úr varð misskilningur. Allir rugluðust – allir voru týndir?

Meginstefið og yfirdrifnar sögur Jesú

Þekkir þú svona fjölskyldulíf? Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver flakkarinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan?

Sögur Jesú Krists eru merkilegar. Hann var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir pólarnir. En svo sprengir Jesús venjulegar aðstæður og almenna úrvinnslu í mannheimum með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús reyndi með sögum sínum að kalla tilheyrendur sína til vits. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en þó ekki að umbuna fyrir vitleysuna.

Já, bræðurnir eru mikilvægar persónur í dramanu en miðjan í sögunni er þó faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sem Jesús dregur upp sprengir alla ramma hins venjulega fjölskyldulíf, sprengir allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski FAÐIR. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalausri ást, sem umvefur allt og alla.

Iðrun og sátt.

Jesús sagði þessa líkingasögu til að vekja tilheyrendur til íhugunar um guðsafstöðu. Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Eða báðir í ruglinu? Týndi sonurinn – hver er hann? Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast. Hvað skiptir mestu máli í lífinu? Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og séð að allt voru þetta mistök. En Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú sért búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er flóð eða hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. En bræður, systur, systkin og fjölskyldur klúðra lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum komin á botninn megum við halda heim. Nýr möguleiki. Það er einkenni elskunets Guðs að við þér er tekið. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Í Jesú nafni – amen

2019 3sdeftirþrenn B 7. júlí

Myndin sem fylgir þessari íhugun er eftir Oleg Korolev. 

A few words on the text of the day. It is Jesus‘ story about the lost son, the prodigal son. He tricked out his inheritance and went abroad for an expensive life ending in absolute disaster. So when – without money or food – the man realized and admited his awful situation. He decided to return. But he knew that he had lost his former status. The father welcomed him with a feast. But the older son was astonished that the scoundrel, who had been such a pain in the family, was rewarded and redeemed. So what to do with the story? All families have a prodigal son or a daughter, father or mother. All families struggle with how to cope with some loss og disaster. Jesus marvellous story relates to all families of the world. The two guys, the brothers, are important in the drama. The yonger son was a misfit but he decided to depart from his wrongdoing. The older son, with a completely different view, was a lost son too. While just doing right he forgot seeing the possibilites and richness of life. And of cource he is the representative of legalistic way of living, that was the political-cultural message of Jesus. But the message – the sense – of his story concerns the abundance excemplified by the Father. He is greater than all fatherhood in the world. The father in the story is an icon, image of the divine, excuberant, more loving than the sons deserve. Applied to you: However, you spend your wealth or how you have lived your life there is a possibility, an openness. However you have disrespected the depth in your soul, or that which is divine, you are welcome nevertheless. God is not a resenting, grumpy old guy – but overflowing love. When you are lost you are nevertheless seen and cherished.

Lexía: Slm 145.8-13
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Drottinn er öllum góður
og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.
Öll verk þín lofa þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir vegsama þig.
Þeir segja frá dýrð ríkis þíns
og tala um mátt þinn
til að boða mönnum veldi þitt,
hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.
Konungdæmi þitt varir um allar aldir
og vald þitt stendur frá kyni til kyns.

Pistill: 1Tím 1.15-17
Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs. Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 15.11-32
Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum. En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum. Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag. En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim. Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Dans, týndir synir og hrútar

Mynd Þorsteins JósepssonarVeisluglaumurinn í Reykjavík í nótt var ekki aðeins í miðbænum eða við skemmtistaðina. Þúsundir efndu til hátíða vegna háskólaútskrifta. Tilefni fyrir fjölskyldur að koma saman og gleðjast yfir áföngum og sigrum. Á öllu stór-Reykjavíkursvæðinu var fagnað og gleðin ríkti víðast frá því um kvöldmat og fram að miðnætti. Prúðbúið fólk var á ferð. Taktföss dansmúsík, hlátrar og hávær samtöl bárust um hverfið mitt í kvöldkyrrðinni. Það var ánægjulegt að upplifa fögnuðinn og glaumurinn rímaði algerlega við veislusögu guðspjallsins. Þegar ég lagði höfuð á koddann hugsaði ég um fólkið sem var að fagna.

Bræður í vanda

Jesús sagði sögu um fagnandi fjölskyldu. Saga dagsins er um ungan mann og fjölskylduveislu. Maðurin fór óvenjulega leið, neyddi föður sinn til að láta sig fá arfinn fyrirfram. Hann lifði svo hátt en klúðraði þó fjármálum sínum. Hann eignaðist viðhlægjendur meðan hann átti peninga. En svo þegar auðurinn var búinn blasti hryllilegur raunveruleikinn við. Þegar maðurinn hafði ekki annað en svín fyrir augum varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum. Þegar hann viðurkenndi það var hann á leið heim í öllum skilningi.

Þrír kallar

Heima var hinum alræmda syni fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara puðaði heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúðin með eldri bróðurnum. Veisla fyrir ruglukollinn var meðvirkni. Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar eða fólk sem „týnist“ af einhverjum ástæðum. Svo eru hin sem ekki lenda í neinu verulega vondu en klúðra þó einhverju. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki týndur í útlöndum heldur týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni og hafði tapað tengslum við ástvini sína. Þegar fólk er týnt verður misskilningur. Þekkir þú svona fjölskyldulíf?

Meginstefið

Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver ólátabelgurinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan? Og sagan sé meira á dýptina?

Hinar yfirdrifnu sögur Jesú

Jesús Kristur var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir spennuparið. En svo sprengir Jesús jafnan sögur sínar með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús kallaði tilheyrendur sína til vits og guðsskilnings. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en ekki umbuna fyrir vitleysuna. Það eru lélegir uppeldishættir. Og iðrun og vilji til bóta er forsenda jarðnesks uppgjörs.

Miðjan í sögunni er faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sprengir þó allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski Faðir. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalaus ást sem umvefur allt og alla.

Hrútar

Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Hvenær er maður týndur? Ertu á réttri leið, aflar lífspuðið þér hamingju?

Ég sá í vikunni hina verðlaunuðu og lofuðu kvikmynd Hrúta og naut þess eftir sýninguna að tala við leikstjóra myndarinnar með nokkrum félögum, vinum og kollegum. Myndin segir frá bræðrum sem höfðu týnst hvor öðrum og tapað samskiptum þótt þeir byggju á hlið við hlið í Bárðardal. Ég mæli með Hrútum. Hún er blessunarlega laus við klisjur og ristir djúpt. Í henni eru engar ódýrar lausnir heldur er sögð ávirk og átakanleg saga. Þetta er saga um fólk og rofin samskipti. Svona fólk þekkja flestir því sagan á sér hliðstæður í öllum fjölskyldum og samfélögum heimsins. Og Hútarnir eru ein útgáfa af Biblíusögunni um týnda syni (reyndar áhugavert að máta fleiri sögur Biblíunnar við myndina, t.d. sögurnar um Kain og Abel, Jakob og Esaú o.fl.).

Hver er týndur?

Ertu týndi sonurinn, dóttirin? Er komið að viðsnúningi, iðrun, heimgöngu. Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast.

Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og greint mistökin. Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú ert búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. Veislufólkið, fjölskyldurnar, sem héldu partí í gærkvöldi eru eins og annað fólk heimsins. Þau vilja fagna og njóta lífsins. Allt þetta fólk leitar hins góða lífs, en í flestum fjölskyldum er fólk sem er villuráfandi. Systur, bræður, systkin, foreldrar, fjölskyldur í Palestínu, Bárðardal, Drammen og Þingholtunum geta klúðrað lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum riðurotuð og týnd megum ganga í okkur, taka sinnaskiptum, snúa við og halda heim. Guð býður nýja möguleika. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Prédikun í Hallgrímskirkju 21. júní, 2015.

Þriðji sunnudagur eftir þrenningarhátíð. B-röð.

Lexían; Jes. 64. 3-8

Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjörir slíkt fyrir þá, er á hann vona. Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir. Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur. Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum. En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir! Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.

Pistillinn: 1 Tím 1.12-17

Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði. Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur. En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lúk. 15. 11-32

Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.