Greinasafn fyrir merki: trú

Trúir þú á Guð?

trúHvað áttu mörg andartök eftir af þessu lífi? Andartökin eru vegna lífsins, nauðsynleg lífi manna og þegar lífi lýkur verða síðustu andartökin. Í prestsstarfinu hef ég kynnst fólki sem hefur kviðið þeirri stundu að finnast það vera kafna. Sum hafa sagt mér að þau óttist meira tilfinningu andnauðarinnar en því að lífið fjari út. Hvaða afstöðu hefur þú gagnvart dauða og málum eilífðar og trúar?

Jerúsalemferðin

Jesús var á leið til loka. För hans til Jersúalem er erindi dagsins. Síðustu andartök hans. Hann glímdi við erindi sitt, hlutverk í lífinu og trú sína. Við förum okkar ferðir. Jerúsalemgöngur eru okkar líka. Og ekkert okkar víkur sér undan lífslokum. Hvað gerist þegar þú tekur síðustu andartök þín? Er lífið þér þá búið? Áttu þér framhald eftir dauða eða trúir þú ekki að til sé framhaldslíf, eilíft líf?

Hljóðgangann og 640

Á listahátíð í ár var merkilegt leikverk flutt, Engram, sem var svonefnd hljóðganga um Hallgrímskirkju. Ég var svo lánsamur að njóta þeirrar áhrifaríku hljóðgöngu. Þau sem sóttu sýninguna fóru ekki í leikhús heldur komu í anddyri kirkjunnar. Þar fengum við heyrnartól og vorum beðin að setjast aftast í kirkjunni sunnanmegin og bíða raddar í heyrnartólunum. Við settumst öll niður innan um alla ferðalanga veraldar. Við vorum einn hópur af mörgum. Svo var þarna líka stór hópur stúdentsefna Kvennaskólans sem voru að æfa skólaslit. Við biðum átekta í sætum okkar, drógum djúpt andann, fundum til kyrrðar í kirkjunni en líka eftirvæntingar. Við vissum að við myndum verða leikendur í þessari sýningu og óvíst hvað við ættum gera, vera inni eða úti, upp í turni eða segja eitthvað frammi fyrir öðrum.

Svo byrjaði rödd að tala, blíð og hlý. Við fengum strax að vita að við tækjum þátt í ferðalagi – engu venjulegu ferðalagi heldur síðusta hluta æfinnar. Svo drógumst við inn í sögu sem varð brátt okkar saga og gerðum okkur grein fyrir að við ættum stuttan tíma eftir ólifaðan. Og ónotatilfinning hríslaðist um mörg okkar þegar okkur var sagt að við værum að deyja. Við ættum aðeins 640 andardrætti eftir. Hvað er það langur tími? Hjartað fór að slá hraðar. Síðan var áleitin saga sögð og við urðum hluti þeirrar sögu og höfðum hlutverkum að gegna í framvindunni.

Handritið var algerlega aðlagað kirkjuhúsinu og kirkjunni var vel lýst. Okkur var vísað út um neyðardyrnar á suðurveggnum í miðju kirkjuskipinu. Við fórum öll út og tókum þátt í gjörningi sunnan kirkjunnar. Svo var okkur boðið að fara út á Hallgrímstorg. Sögumaður hljóðleiksins lýsti fyrir okkur ferðamönnunum umhverfis okkur og við fengum að vita að andartökum okkar fækkaði. Saga sem sögð var grópaðist í sálina og við fundum til djúprar samsemdar með söguhetjunum sem við fylgdumst með. Tvö hundruð andardrættir eftir.

Við héldum áfram þessari undarlegu för mót endi og dauða, fórum á steinasvæðið norðan við Leifsstyttuna og þar áttum við aðeins þrjátíu andardrætti eftir. Svo var komið að lokum. Þegar við áttum eftir nokkra andardrætti vorum við beðin að snúa okkur að kirkjunni. Þegar við tókum síðustu andartökin skein sólin við okkur vinstra megin við turnspíruna. Við fundum fyrir hlýju sólarglennunnar, fyrir síðustu lífsmörkunum og svo tókum við síðasta andartak lífsins. Þar með var öllu lokið.

Þeirri reynslu verður ekki lýst og ekki heldur framvindu og fléttu sögunnar. En ég – og mörg önnur – upplifðum dauða og síðan upprisu. Reynslan var mögnuð – og ég gekk inn í kirkjuna þakklátur fyrir lífið og dýrmæti þess, undur og blessun. Ég var þakklátur fyrir að líf mitt er líf með Guði. Ég trúi á Guð sem umfaðmar okkur menn á lífsgöngu, gefur okkur andartök og er inntak lífs í lofti og loftleysi. Hvað gerir þú við andartökin sem þú átt eftir af lífinu? Hvernig leið þér þegar ástvinur þinn lést og þú heyrði síðasta andartakið?

Trúir þú?

Þegar dauðinn sækir að fólki opnast oft sálargáttir. Vitund fólks opnast gjarnan og vert er að virða hugsanir og tilfinningar gagnvart dauða. Samtöl við syrgjandi fólk rista oft djúpt og sum eru á himindýptina og alltaf lærdómsrík. Mörg eftirminnileg samtöl hef ég átt við fólk sem þoldi og þorði að glíma við eigin ótta, virti vonir sínar og spurði stórra spurninga. Eitt sinn ræddi ég við konu sem í skugga vinarmissis talaði um trú sína, sorg og líf. Allt í einu beindi hún orðum sínum að mér og spurði: „Trúir þú á Guð?“

Þegar ég er spurður þessarar spurningar lít ég svo á að fólk sýni mér tiltrú og traust til að tala um dýpstu hjartans mál. Trúarspurningin er eðlileg og flestir fara einhvern tíma á æfinni yfir eða meta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð. Þegar fólk hugsar um afdrif látinna ástvina og vill tala við prestinn um þau mál er ekki einkennilegt að spurningin hljómi. En hvort ég, presturinn, trúi á Guð kemur mér þó samt alltaf svolítið á óvart. Svarið er margmetið og margyfirfarið já. En ekkert er sjálfgefið í málum átúnaðar. Trú er gjöf, trú varðar tengsl og trú er traust. Menn geta bilað og brotnað og ég get líka tapað trausti og tengslum við Guð. En ég get ekki verið prestur kristinnar kirkju ef ég tapa trúnni, tengingu við Guð. Ég myndi segja af mér prestsþjónustu ef ég missti trúna. Guðssamband er ekki fasteign eða fasti heldur lifandi samband.

Ástarsamband

Ég skýrði út fyrir konunni að trú væri í mínu lífi ástarsamband, ástalíf og kærleikssamskipti. Ást getur dvínað og trú getur horfið rétt eins en ást í tengslum getur líka dafnað og trú getur styrkst. Trúin er samband lifandi aðila við annan rétt eins og ástin er lífssamband. Og konan spurði: En biður þú? Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir t.d. óhugsandi að tala ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Og þannig lifi ég trú sem hin dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín, nær en andartök mín eða hjartsláttur. Guð er inntak vitundar minnar, en líka máttur efnahvarfa og líkamsstarfsemi minnar. Anda Guðs upplifi ég alls staðar, ekki aðeins í ferlum náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni.

Svona upplifi ég og túlka veruleika Guðs – og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Og efinn og trúin eru í mér nánar systur og vinir. Efinn, kraftmikil gagnrýni og háskólanám urðu mér veganesti til að gera upp það sem mér sýnist úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er að mínu viti ekki mál og því síður vandamál trúarinnar. Trúmenn nútíma fagna nútímavísindum, ekki til að trúa blint heldur trúa vitlega. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð með Guði. Biblíuna þarf að lesa með köldum en frjálsum huga og trúarlærdóma þarf að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki óbreytanleg og verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því á að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum og opnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi valdi því ég tek mark á Jesú Kristi. Ég trúi honum og fylgi honum. Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. En Guð stressar sig örugglega ekki yfir óvitaskap okkar manna – held ég – þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð.

Til lífs
Konan spurði mig um trú mína. Jesús Kristur stefnir til Jerúsalem. Ferðamennirnir og sóknarfólkið í Hallgrímskirkju vill góðar ferðir í lífinu og spyr um tilgang lífsins. Allir anda en mæta að lokum dauða. Og mig langar til að spyrja þig um trú þína á þinni vegferð. Hvernig er trú þín eða vantrú? Þegar þú missir ástvin þinn, hvernig túlkar þú för hans eða hennar? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Nú áttu nokkur andartök eftir af lífi þínu. Og mátt æfa þig í að taka síðasta andartakið. Hver ertu? Trúir þú að einhvern tíma ljúki lífi þínu? Hver verður þú þá? Hverju trúir þú? Trúir þú á Guð?

Hallgrímskirkja, 2. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 14. júní, 2015, B-röð.

  1. sd. e trin. Textaröð: B

Lexía: Okv 9.10-12
Að óttast Drottin er upphaf spekinnar
og að þekkja hinn heilaga er hyggindi.
Með mínu fulltingi verða dagar þínir margir
og árum lífs þíns fjölgar.
Sértu vitur verður vitið þér til góðs
en sértu spottari þá mun það bitna á þér einum.

Pistill: 1Kor 1.26-31

Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Guðspjall: Lúk 9.51-62

Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“
En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp.
Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“
Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“
Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“
Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“
Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“
En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.

Ég er Guð

storstavalt_logo_NY_130Hvernig er ellefta boðorðið? Eru einhver hér sem muna um hvað það er hvernig það hljómar? Dr. Þórir Kr. Þórðarson var guðfræðikennari og kom víða við og m.a. lagði grunn að félagsþjónustu Reykjavíkur. Hann mótaði prestastéttina því hann var frábær kennari og varpaði ljósi á torskilin mál. Einu sinni spurði hann í tíma guðfræðideildinni: Hvernig er ellefta boðorðið? Og þar sem við nemendur urðum heldur álkulegir svaraði hann sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðininleg!“ Ég er sammála og hef síðan kennt fermingarunmennum þessa mikilvægu viðbót. Hún er eðlileg túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra, sem er hver? Jú, á lífið. Við lifum í frelsi og megum velja. Hvort veljum við það sem verður til ills eða það sem verður til góðs? Að velja gleðina er ekki að velja aulahúmor heldur lífið, hamingjuna.

God’s chosen – God’s frozen

Lexía dagsins eru lífsorðin sem kölluð eru boðorðin tíu, viska hinna fornu hebrea sem hefur gagnast allri heimsbyggðinni við mótun samskiptareglna. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi einstaklinga um allar aldir og við menningargerð okkar. Orðin tíu eru byggingarefni löggjafar heimsins og hafa skilað sér í endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur skilað sér í gildandi mannréttindabálkum, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Saga Íslendinga og Ísraela er ótrúlega lík. Löggjafarsaga þjóðanna er ekki bara áhugaverð og með ýmsum sameiginlegum einkennum. Báðar þjóðir einangruðust í baráttu aldanna frá öðrum þjóðum. Menning beggja varð einsleitt. Söguskema beggja er líkt. Flótti frá vondu yfirvaldi er upphaf sögu beggja þjóða. Á eftir kemur svo langvinn barátta. Byrjun löggjafar beggja er tengt undri, annars vegar á Sínaí og hins vegar á Þingvöllum, ekki síst tengt kristnitöku. Söguskemað segir frá landgjöf til ættbálks og hvernig stöðugt varð að berjast fyrir lífinu í rás tímans.

Báðar eru þjóðir bóka og menntunaráherslu. Þær eru söguelskar, ljóðrænar og dramatískar. Þær gengu báðar margar aldir afturábak inn í framtíðina og voru uppteknari af glæstri fortíð en opinni framtíð.

Margt líkt! Ég hitti einu sinni hinn heillandi stórpólitíkus Simon Perez, síðar forseta Ísraels, þegar hann var á ferð á Íslandi. Í ræðu sem var haldin honum til heiðurs kynnti forsætisráðherra Íslands mun þjóða Íslands og Ísraels og á ensku: „Israel is God’s chosen people but the Icelanders are God’s frozen people!” Guðs útvalda þjóð og hin freðna!

Orðin tíu

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi… Sem sé, Guð er Guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunveruleika þeirra. Og mörg okkar muna að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma, að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra um menn? Boðorðin eru eiginlega í tveimur hlutum. Fyrstu boðorðin fjalla um Guð og afgangurinn um mennina. Jesús var vel heima í lögum Ísraels. Hann var ekki fastur í formi eða smáatriðum heldur snillingur sannleikans, lífsstefnu. Jesús dró saman öll boðorðin og setti þau fram í tvöfalda kærleiksboðinu. Og hvernig er það? Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig. Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Seinni hluti boðorðanna fjallar síðan um mannvernd – að við virðum og elskum fólk – alla.

Svo minna allir krossar heimsins á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur á tengslin til Guðs annars. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og ég minni á að náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur fólk, alla menn og lífríkið allt. Okkur er falið að vernda náttúruna sem djásn í sköpun Guðs.

Lögin verða til

Ég hafði í nokkur ár atvinnu af að fræða gesti á Þingvöllum. Á þeim tíma tók ég á móti þúsundum skólabarna og fræddi um sögu lands og þjóðar. Þegar börnin voru spurð um af hverju fornmenn hefðu farið um langan veg að heiman og þingað á Þingvöllum þá svöruðu þau eitthvað á þessa leið: Stundum förum að rífast. Við þurfum reglur til að lífið virki og hvernig eigi að leysa rifrildi. Svo bættu þau við að það væri svo fallegt á Þingvöllum og það væri gott að ræða um reglur á fallegum stað! Þér skuluð gæta að fegurð löggjafarinnar!

Fermingarungmenni Hallgrímskirkju hafa ljómandi regluvit. Í síðustu viku spurði ég þau hvað myndi gerast ef engar reglur væru í fótbolta? Svarið er einfalt þá yrði allt vitlaust og leikurinn myndi snúast upp í ofbeldi. En hvað myndi gerast ef engar reglur væru í þjóðfélaginu? Þá myndu frumskógarlögmálin taka yfir.

Ungt fólk á Íslandi skilur og veit að reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð fólks. Þau vita vel hvar mörkin liggja og að til eru grá svæði. Og það þarf þroska til að velja lífið.

Íslensk saga og orðin tíu

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til fjallsins Sínaí. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Ekkert þjóðfélag er hlutleysisþjóðfélag vegna þess að hefðir eru menningarvefur sem hefur áhrif. Íslenska ríkið er bundið af stjórnarskrá, sem kveður á um, að evangelísk-lúthersk kirkja sé þjóðkirkja Íslands. Það ákvæði var ekki aðeins lögformlega ákeðið við stjórnarskrárgerð við lýðveldisstofnun heldur hefur nýlega verið stutt með miklum meirihluta í opinberri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Áhersla stjórnarskrár er bindandi stefna og varðar hvaða siður og siðferði skuli gilda í samfélagi okkar. Stjórnarskrá ríkis er ekki puntplagg heldur varðar uppistöðu menningarinnar. Það er svo annað og mikilvægt mál hvernig við eigum að þróa samfélag okkar. Ég hef löngum verið efins um að eitt trúfélag eigi að tilgreinast í stjórnarskrá, en álít það hins vegar mikilvægt að hið opinbera styðji og verndi trúariðkun í landinu. Gildir einu hvort menn eru kristnir, trúlausir, múslimar eða búddistar. Í þeim efnum eigum við að vanda okkur og læra óhikað af mistökum nágrannaþjóða.

Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta boðorðið því það varðar meginstefnu. Ellefta boðorðið er í hinu fyrsta. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. “Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hvað segið þið um það?

Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa með ábyrgð og iðka trú í samfélagi – leggja lífinu lið. Þú, Guð og náunginn. Bráðskemmtilegt, gott líf. Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 8. mars, 2015, 3. sunnudagur í föstu.

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.

Hönnuð saga

Trúir þú virkilega svona sögu um “ljósashow” upp á fjalli í fornöld? Er þessi ummyndunarsaga ekki bara skröksaga, bull sem þjónaði því hlutverki að blekkja auðtrúa fólk? Er ekki eðlilegast að efast um ótrúlega Jesúsögu?

Efi og túlkun

Hvað með efann? Viltu hugsa rökrétt – líka í málum Jesú, Biblíu og trúar? Efinn og trúin eru ágætar systur og líka vinir þegar viskan ræður. Í vökulum heila pælir efinn þann akur sem ber góða ávexti heilastarfseminnar. Efinn greinir, gagnrýnir og leitar þekkingar. Heilbrigð trú hræðist ekki efann, heldur gleðst yfir getu hans og tekur þátt í að kanna túlkanir, möguleika, nýjar hugmyndir um það sem máli skiptir. En hvað um Biblíuna? Eigum við að trúa sögum hennar eins og fréttum af mbl, guardian eða bbc?

Það er skynsamlegt að skoða Biblíuna með velviljaðri gagnrýni og spyrja: Hver eru skilaboðin? Getur þessi ræða eða saga kryddað líf mitt í allt öðrum aðstæðum en til forna? Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga og trúarlærdóma þarf að skoða í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki og má ekki vera óbreytanleg. Forn heimsmynd og úreltir samfélagshættir eru ekki aðalmál trúarinnar.

Ég álít að allt sem tengist trú og trúariðkun eigi skoða með opnum huga. Ekkert undanskilið. En ég trúi og þótt ég meti skynsemina, heilann, efann og gagnrýnina mikils trúi ég á Guð. Ég upplifi að Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, í frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. Og ég álít, alveg í samræmi við hefð okkar Vesturlandamanna allt frá tíma Immanuel Kant og upplýsingarinnar, að við skoðum veröldina út frá ákveðnum forsendum og með „rósrauðum“ gleraugum.

Við erum takmörkuð og túlkun okkar á raunveruleikanum er alltaf takmörkuð og hið sama gildir um hið trúarlega. Túlkun á hinu guðlega verður ekki annað en ágiskun og tilraun til að tjá hið ósegjanlega, t.d. með hjálp líkinga, frásagna og vísana. Við trúmenn berum Guði vitni en tölum um samskiptin við Guð með hjálp dæma, sagna og hliðstæðna úr heimi manna. En skyldi Guð verða reiður yfir þeim óbeinu og ónákvæmu lýsingum? Nei, ekki frekar en við foreldrar pirrum okkur ekki á börnum okkar þegar þau eru að læra að tala. Guð gleðst vonandi yfir tilraunum okkar. Og Guð stressar sig – held ég – ekki yfir óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur fávíslegar hugmyndir um Guð.

Reynsla kallar á form frásagnar

En þessi ótrúlega saga af fjallinu? Hvað heldur þú að þessi ljósagangur þýði? Og til hvers þessir zombíar sem allt í einu birtast? Já, sagan af fjallinu er furðuleg. Hún er kölluð ummyndunarsagan enda ummyndaðist eða umbreyttist Jesús Kristur.

Eitthvað gerðist? En hvað? Hvernig á að segja frá því sem enginn annar hefur upplifað? Þegar fólk upplifir eitthvað mjög sérstakt er því vandi á höndum. Stundum segir fólk mér sögur sem það segir engum öðrum en mér, prestinum, og alls ekki kunningjum eða fjölskyldu. Fólk segir ekki sögur ef það á von á því að sá kvittur fari á kreik að það sé orðið kúkú, andlega bilað. Fólk er viðkvæmt fyrir orðspori sínu. Svo var í fornöld einnig. En í öllum menningarkimum verða til mynstur eða leyfilegar fyrirmyndir um hvernig sagt er frá hinu sérstæða eða ótrúlega. Hefðir marka ramma hins leyfilega og einnig mystur orðræðu.

Tákn og saga

Þeir voru fjórir á ferð, Jesús, Pétur, Jakob, Jóhannes og puðuðu upp á fjall. Þar gerðist eitthvað dularfullt. Áhorfendum þótti eins og aðrir kæmu til fundar og komumenn væru ekki af þessum heimi. Félagarnir brugðust við, þeir túlkuðu söguna í anda hefðarinnar og héldu að komnir væru frægir karlar úr fortíðinni, Móse og Elía. Það væri svona álíka og ef við værum að klífa Esjuna og allt í einu væru komnir þar til fundar við okkur Jón Sigurðsson og Snorri Sturluson. Í einhverju kasti – væntanlega stresskasti – býðst lærisveinn til að tjalda fyrir meistara þeirra og komumennina einnig.

Öll sagan er samsett táknum og táknmáli. Þeir voru á fjalli. Móse fékk lögfræði Ísraels á fjalli eins og Íslendingar fengu sín lög í fjallasal. Fjall er tákn um hið guðlega. Þessir nafngreindu foringjar og fyrirmyndir Ísraelssögu, Móse og Elía, eru tákn um lög, hefð og sögu. Að þeir komu til fundar þjónar hlutverki gjörningsins til að opna nýja skynjun, tilfinningu og túlkun. Jesús er hinn nýji sem tekur við og umbreytir hebreskri hefð og sögu. Svo voru postularnir samverkamenn sem tóku við og túlkuðu. Þeir brugðust við en skildu ekki, voru mannlegir, en þrátt fyrir flónskuna var þeim samt treyst til að hlusta á, meðtaka og endurflytja.

Þrennan – rosi, sýn og skilaboð

Til að skilja sérstæða sögu er mikilvægt að þekkja bókmenntalegt mynstur hennar og gerð og hlutverk í menningarheimi fornaldar. Það er þarft að greina milli þriggja tegunda af sögum sem tjá birtingu hins yfirskilvitlega. Ein hefur einkenni rosa, önnur varðar sýn og sú þriðja hefur skilaboð – rosi-sýn-boð.

Þeófaía – rosinn

Í fyrsta lagi eru guðsbirtingarsögur rosans, sem tjá komu eða návist Guðs með hjálp náttúruhamfara – t.d. jarðskjálfta, þrumuveðurs og öðru í þeim dúr þó guðinn sjáist ekki í eigin persónu. Þetta eru þeófaníurnar – dramatísku guðsbirtingarnar – sem tjá einfaldlega að Guðinn er nálægur. Þær sögur lýsa hughrifum fólks og oft miklum ótta við nánd hins ógurlega guðs. Ummyndunarsagan sem segir frá í Matteusarguðspjalli er ekki slíkrar gerðar. Þar eru engar náttúruhamfarir. Stíllinn er annar.

Sýn – hið sjónræna

Í öðru lagi eru sögur um sýnir. Sögur um sýnir greina jafnan frá útvöldum hópi fólks sem fær að sjá eitthvað sem er ekki vanalegt í mannaheimi. Fólk sér eitthvað óvenjulegt sem ber fyrir augu – en ekki er miðlað neinni sérstakri þekkingu eða skilaboðum. Vissulega er sýn í ummyndunarsögunni en í þessari sögu er talað og skilboðum er komið áleiðis til þeirra sem upplifðu. Saga dagsins er því ekki sýn af tagi birtingarsögu.

Skilaboðasögur

Þriðja gerð guðsbirtinga eru skilaboðasögur og sem segja frá skyndilegri og óvæntri guðsbirtingu sem einhver eða einhverjir útvaldir verða fyrir. Mikilvægum boðskap er komið á framfæri og skilaðboðin eru heyranleg. Þannig saga er ummyndunarsagan. Skilaboðin eru um persónu og hlutverk Jesú Krists sé og hvaða afleiðingar það hafi. Því er sagt sem svo: Hlustið á hann, takið eftir því sem hann segir. Það eru skilaboðin. Ummyndunarsagan er um skilaboð Guðs til manna. Móse og Elía þjóna aðeins hlutverki dýpkunar. Þeir eru aukapersónur og gefa samhengi en táknum en aðalpersónan er hinn nýji fulltrúi Guðs, Jesús Kristur. Merkingin er að við eigum ekki að staldra við lögmál fortíðar heldur elskuboðskap guðssonarins. Rödd úr guðsvíddinni tjáir: Jesús Kristur er Guðsfulltrúinn – hlustið á hann og hlýðið honum.

Boðskapurinn mótar og knýr á

Og hverju getum við þá trúað? Er þetta skröksaga? Þegar við erum búin að greina söguna kemur í ljós að hún er færð í stílinn vegna þess að sagan er umgjörð um ákveðin skilaboð. Hún hönnuð saga, lituð með ákveðnu móti, með ákveðnum atriðum og í ákveðnni fléttu. Þú mátt hafa allar heimsins skoðanir á hvort sagan hafi tekist eða ekki, hvort hún er trúleg eða ekki, hvort hún er leiðinleg eða skemmtileg en skilaboðin eru skýr. Boðskapurin er að Jesús Kristur sé trúverðugur, áheyranlegur og ákjósanlegur. Spurningin er ekki hvort sagan sé bull og skröksaga heldur hvort Jesús Kristur sé fulltrúi Guðs eða ekki. Trúir þú því – með efasemdum og mannlegum breiskleika þínum? Þar er efinn og þar er trúin.

Neskirkja 9. febrúar, 2014.

Textar síðasta sunnudags eftir þrettánda A-röð

Lexían er úr 5. Mósebók

Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Pistillinn er úr 2. Pétursbréfi

Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna ykkur á þetta enda þótt þið vitið það og hvikið ekki frá sannleikanum sem þið nú hafið öðlast. Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda ykkur vakandi með því að rifja þetta upp fyrir ykkur. Ég veit að þess mun skammt að bíða að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér. Ég vil einnig leggja kapp á að þið ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa. Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga. Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall úr Matt. 17.1-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“

Málmhaus

„Þeir segja að tíminn lækni öll sár.“ Er það svo – læknast andleg sár fólks þegar einhver tími er liðinn frá áföllum? Í kvikmyndinni Málmhaus segir pabbinn í sögunni þessa setningu: „Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helbert kjaftæði.”

Hvaða skoðun hefur þú á sorg og tíma? Er alveg öruggt að þegar einhverjir x-mánuðir eða x-ár eru liðnir sé allt orðið gott og heilt að nýju. Reynsla mín, reynsla fólks sem ég hef þjónað og boðskapurinn í Málmhaus er að lífið er ekki svo einfalt.

Málmhaus, mynd Ragnars Bragasonar, er ný. Og þar sem kvikmyndir hans eru á dýptina röltum við hjónin í vikunni í heimabíóið okkar, Háskólabíó. Svo sátum við djúpt snortin. Og þrátt fyrir annir hefur myndin vitjað mín aftur og aftur þessa vikuna? Myndin byrjar með sjokki, sýnir Heru Karlsdóttur, áhyggjulaust barn að leik í sveit. Hún verður vitni að bróðir hennar, eina systkinið, deyr í dráttarvélaslysi. Hera kennir sjálfri sér um dauða bróðurins og líf hennar umpólast. Sorgin nístir og tíminn læknar ekkert. Foreldrarnir tala ekki saman og myrkur voðans lamar alla. Í sorginni hellir Hera sér í metalmúsík, kafar í textana, áfengi, drunga og lendir á jaðri samfélags og heilbrigði.

Andstæðutvenna yndisleika og hryllings í upphafi myndarinnar grípa. Myndin stiklar á stóru stefjunum; ást, dauða, líf, trú, tengslum og samfélagi. Og það eru meginstef lífs okkar allra. Hera og fjölskylda hennar er gott fólk sem verður fyrir stórkostlegum missi. Hvernig geta þau haldið áfram og hvernig er hægt að lifa við óbærilega minningu?

Í jarðarför bróðurins horfir Hera á altaristöflu kirkjunnar sem er lík töflu Dómkirkjunnar (tafla SG í Strandarkirkju). Hún sér hinn sigrandi Krist með sigurveifu og spurningin seitlar inn: Af hverju leyfðir þú þetta? Hvers konar Guð ertu, hvers konar kirkja er það sem leyfir drápið? Og Hera hleypur út úr kirkjunni og vesalings faðirinn á eftir – sem sé uppákoma í átakanlegri jarðarför. Síðan verðum við vitni að sálargrípandi þrautagöngu Heru, móður hennr sem er líka uppgefin og ráðlausum föður sem höndlar ekki aðstæður.

Nei, tíminn læknar engin sár. Hera er fangi í eigin sorgarveröld og engar útleiðir eru henni færar. Hvað er til ráða? Þá kemur nýi presturinn og húsvitjar. Sá prestur er ólíkur öðrum prestum í fyrri íslenskum kvikmyndum sem hafa oftast afskræmt þá sem skrítlinga eða þrjóta. Hera gefur skít í klerkinn en hann kemur henni á óvart. Henni til mikillar furðu skilur hún að presturinn hefur ekkert síðri innsýn í metalrokkið en hún – hann skilur mannlíf, sjálfan sig og hana. „Guð býr líka í myrkrinu“ segir presturinn og Jesús verður – í túlkun hans – samferðamaður fólks en ekki miskunnarlaus kvalari. „Hann skuldar mér“ segir Hera sem kann betur að varpa þjáningunni yfir á umhverfi, samfélag og Guð en að vinna með hana.

Sorgarvinna

Hvað gerum við í sorg og gagnvart missi? Þegar ástvinir okkar eru slitnir úr fangi okkar, þegar við sjálf erum rifin upp „á hárinu“ eru kostirnir jafnan tveir. Annað hvort að vinna með áfallið eða áfallið vinnur á okkur. Annað hvort að rísa upp og horfast í augu við og vinna með vandann eða að meinið vinnur sigur. Í kvikmyndinni var áfallið yfirgengilegt, áfallahjálpin takmörkuð og fólki svo orða vant að allir urðu sjúkir. „Guð býr líka í myrkrinu“ sagði presturinn.

Málmhaus getur opnað augu þeirra sem hafa misst en höndla úrvinnsluna illa. Tíminn læknar enginn sár. Lækning verður ekki með því að bíða nógu lengi heldur að viðurkenna, opna og vinna með. „Við höfum aldrei talað um það sem gerðist – ekki af alvöru,“ segir pabbinn. Og þegar fólk byrjar að tala þá er von um upprisu. Orð eru líka tæki kraftaverkanna.

Traust

Textar dagsins varða traust og hverju við treystum. Jesús minnir á að trú er það sem varðar núið. Guð er ekki bara tengdur því sem var eða verður seinna heldur varðar Guð okkur nú og í raunaðstæðum samtímans. Við, kirkjufólk, megum gjarnan taka til okkar þá áherslu. Kirkjan er fyrir lifandi fólk og þarfir þess, guðfræðin er fyrir raunverulegar spurningar fólks á öllum aldri. Boðskapur Guðs er ekki aðeins fyrir engla eða menningarkima heldur alla. Guð er ekki hrifnari af hinum flekklausu en spellvirkjum. Guð er jafn nálægur hinum dyggðugu og mistæku, jafn áhugasamur um trans, homo og hetero. Og Guð elskar málmhausinn jafn mikið og klerkinn. Þetta er afstaða Jesú. Það verkefni kirkjunnar að endurnýjast og koma til móts við fólk í raunverulegu lífi. Því er boðskapurinn í kvikmyndinni Málmhaus í samræmi við eðlilega guðfræði og kirkju sem tikkar.

Kirkjubruninn

Málmhaus er rífandi, hvetjandi mynd, ein sú besta sem ég hef séð í langan tíma. Landslið leikara fer á kostum og ungstirni er fætt. Við lærðum að tíminn læknar enginn sár heldur verður að meðhöndla sorgina.

En svo var önnur vídd í kvikmyndinni sem ég staldraði við. Hera hljóp frá sorgarvinnunni og að kirkjuhúsinu. Hún gekk berserksgang og kveikti í helgidóminum. Fallega kirkjan – sem er blanda af Strandarkirkju og Búðakirkju – brann til ösku. Með kirkjubrunanum urðu önnur skil í kvikmyndinni. Allt samfélag sveitarinnar brást hart við enda eru kirkjuhús á Íslandi táknstaðir sögu hvers samfélags. Kirkjur eru ekki aðeins hlið himins heldur einnig samfélagsleg helgihús. Þar hefur fólk átt hlé fyrir stærstu stundir sínar, gleðistundir æfinnar og sorgaratburði fjölskyldu og samfélags. Og Ragnar Bragason spinnur vel efnið og kirkjan er tákn lífs og gæða.

Kirkjubruninn varð mér til íhugunar um hlutverk kristinnar kirkju á Íslandi. Hera höndlaði ekki eigin angist og tók út reiði sína á Guði með því að brenna kirkjuna sem pabbi og mamma hennar sungu í, bróðir hennar var jarðsunginn frá og þar sem myndin af sigrandi Kristi horfði á hana (altaristaflan er kopía af Wegenertöflunni í Dómkirkjunni). Kirkjubruni Heru missti marks en samfélagið brást við, hún misskildi en samfélagið náði áttum.

Þar sem ég sat í Háskólabíó læddist að mér hugsun. Hera málmhaus fékk útrás fyrir reiði og sorg vegna bróðurmissis með því að brenna kirkju. Getur verið að íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins hafi ekki megnað að vinna með áfall og sorg og beint reiði sinni að kirkjunni?

Þegar þjóðkirkjan hefur gert mistök og einstaklingar í þjónustu hennar hafa brugðist trausti og erindi sínu er bæði eðlilegt og mikilvæg að gagnrýnt sé og tekið á málum. Kirkjunni er það nauðsyn. En mér virðist að margir í íslensku samfélagi hafi fengið útrás fyrir hrunreiði eða annars konar reiði með því að kveikja sína kirkjubruna á facebook, í samtölum og í fjölmiðlum. Sumt er réttmætt gagnrýni en annað er vitnisburður um getuleysi fólks til að vinna með áföll – þá verður til vörpun eigin sorgar yfir á stofnun, sem var veikluð af skammsýni og ekki í takt við samfélag sitt.

Málmhaus veltir ýmsum steinum og sýnir trú, prestsþjónustu og kirkjulíf með jákvæðari hætti en oftast hefur verið gert í íslenskum kvikmyndum. Sorg verður ekki sigruð með reiði og eyðilegging kirkjunnar er skaði alls samfélagsins. Með sorg, reiði og samfélagsskaða þarf að vinna með raunhæfum hætti. Kirkjubruni í mynd hatursáróðurs gegn trú og kristni verður öllum til tjóns. Hin hliðin er að íslensku samfélagi verður til ills ef kristin kirkja verður eyðilögð. Nú er kominn tími til að byggja upp kirkju og samfélagsstoðir eftir fárið. „Það er ekki hægt að lifa í sorg endalaust því hún étur mann upp“ segir mamman í myndinni. Það er rétt.

Presturinn var ekki trúður eða aðskotavera í samfélaginu heldur persóna í þjónustu þess Guðs sem er líka í myrkrinu. Þar með varð hann til lífs og góðs fyrir stúlkuna og eflingar sveitungum hennar. Trúin er ekki fyrir fortíð eða framtíð heldur núið. Jesús var í núinu. Kristin kirkja er samfélag Jesú Krists og það merkir að hún er útrétt hönd hans, hún á koma til móts við raunverulegar þarfir, spurningar, tilfiningar og bregðast við til góðs fyrir fólk.

Kirkjubrunar, eiginlegir og táknrænir, eru engum til góðs heldur fremur tákn um einhvers konar sturlun. Hamfarir á netsíðum gegn hinu trúarlega líka. En raunhæf og raunsönn trú er einstklingum og samfélagi nauðsyn til lífs. Verkefni okkar allra, hvort sem við erum vígðir prestar eða ekki, er að lifa trú okkar og með ábyrgð í tengslum við fólk, Guð, samfélag og náttúru. Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ Það eru ekki akrar til dauða heldur lífs.

Hugleiðing í Neskirkju 20. október, 2013

21. sd. eftir þrenningarhátíð – B

Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.

Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.

Guðspjallið: Jh. 4. 34-38

Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.