Greinasafn fyrir merki: trú

#Metoo

Myllumerki og metoo er tákn fyrir þær sögur, sem sagðar eru um kynferðilega áreitni og ofbeldi. Miklar umræður urðu um ofbeldi gegn konum í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016 og skerptu athygli fólks og fjölmiðla á víðtækum vanda. Og svo var það Harvey Weinstein, trölli í kvennaheimum Hollywood. Fæstir töldu mögulegt að snúast gegn kvikmyndapáfanum því hann var svo valdamikill og stýrði að auki her spæjara og stjörnulögmanna. En upplýsingarnar um dólginn söfnuðust upp og New York Times var tilbúið að sýna sorann. Fréttirnar voru svo rosalegar að það var eins hamfarir hefðu orðið. Valdakerfið og þagnarmúrinn í kringum þetta kynferðislega rándýr féll. Upplýsingarnar um atferli mannsins, aðstoðarmenn hans og rotinn menningarkima voru hörmulegar. Í ljós kom að í kringum Weinstein var fjöldi fólks sem þagði. Þau vildu ekki eða þorðu ekki að mótmæla ofbeldinu sem allir vissu þó um. Gerendur eru sekir, en hvað um hin? Eru þau, sem þegja saklaus eða meðsek?

Dólgurinn féll og bylgja reis. 15. október síðastliðinn hvatti Alyssa Milano konur á twitter til að segja frá ofbeldi og nota #metoo. Á nokkrum dögum varð til heimshreyfing. Allt í einu fengu konur vettvang til að tala og segja reynslusögur sínar. Þær gátu allt í einu sagt frá káfi, orðasora, áreitni og kynferðisofbeldi. Þessar sögur um er stærsti sagnabálkur ársins. Sannar sögur samtímans og samfélagsmiðlarnir loguðu. Konurnar sem byrjuðu #metoo eru persónur Time þetta árið og stíliseruð myndin á forsíðu tímaritisins er táknræn.

Um allan vestrænan heim hafa hryllingssögur úr raunheimum verið sagðar, sögur um rándýr í stjórnmálum, vísindasamfélaginu, réttargæslukerfinu, listaheiminum, íþróttahreyfingunni og öðrum menningarhópum. Vargarnir, margir karlkyns en líka kvenkyns, eru alls staðar, í líka í góðgerðarfélögum og trúfélögum. Þolendur eru konur, börn, líka karlar, þau sem standa höllum fæti gagnvart einhvers konar valdi, sem gerendur notfæra sér. Hver á sökina: Gerendur eða þolendur? Og hvað svo?

Réttlæti er mál trúar

Á aðventu er skoðað hvað er gott og hvað vont. Aðventa er að vænta þess sem Guð er og Guð megnar. Það er fagnarefnið – dásemdin. Við væntum hins góða og því er aðventan hreinsunartími – undirbúningstími. Það kemur fram í textum kirkjunnar á þessum tíma. Jesús minnir okkur á að huga að breytingu í tíma, vorkomunni. Og þessi texti er lesinn um miðjan vetur. Í lexíu dagsins er minnt á, að gott mannfélag virðir réttlæti. Réttlæti og friður eru systur. Þegar þær dafna ríkir jafnvægi kraftanna. Börnin leika sér við holu nöðrunnar og stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn gerir illt því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni“ segir þar.

Hvernig er samfélag okkar? Eru engin stungin af nöðrum og höggormum? Jú, mörg eru áreitt, misnotuð og verða fyrir yfirgangi eða ofbeldi. Og það varðar trú og gott mannlíf. Margir karlkyns prestar og djáknar í þjóðkirkjunni hafa sent frá sér yfirlýsingu gegn áreitni og ofbeldisseggjum. Konur í hugbúnaðar- og auglýsingageiranum eru sama sinnis. Á fimmtudaginn síðasta birtu 333 konur í Kítón, félagi kvenna í tónlist yfirlýsingu um að þær vilji fá að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Um liðna helgi tjáði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, að nafgreindir Íslendingar hefðu hvatt til að henni yrði nauðgað. Ekkert var gert í málinu á sínum tíma, dólgarnir voru ekki dregnir til ábyrgðar en hún og fjölskylda hennar urðu þolendur.

Flestum þykir áreitni og ofbeldi vera alvörumál, sem sporna verði við. En spyrja má: Hvernig tengist það trú, kirkju og aðventu? Og svarið er einfalt: Trú og kirkja standa með þolendum. Það er skilgreiningaratriði kristninnar, að Guð sér þolendur, kemur og hjálpar. Fólk, sem játar kristna trú, lætur sig alltaf varða heill og hamingju fólks. Trú er ekki og má aldrei vera flótti frá lífinu. Trú er og á að vera stefna til lífs og fyrir líf. Trú, sem ekki lætur sig fórnarlömb varða, er sjúk trú og á flótta bæði frá Guði og mönnum.

Spámenn gamla testamentisins voru óþreytandi að benda á, að heill samfélagsins væri mál trúar. Trú skv. þeirra boðskap var samfélagsmál. Jesús Kristur sá alltaf einstaklinga og beitti sér í þágu barna og kvenna – allra. Hann tók sér stöðu með þeim, sem hallað var á. Ef þú ert efins skaltu lesa sögu hans um miskunnsama Samverjann. Trúin á Jesú Krist leitar þolenda og stendur með þeim gegn ofbeldismönnum. Ef þú efast skaltu lesa Nýja testamentið.

Skuggaverur í mannheimum

#Metoo leitar á huga margra okkar þessa aðventu. Já, við sem trúum á Guð eigum að standa með þolendum. Og hvað svo? Dólgarnir þykjast saklausir og axla sjaldnast ábyrgð. Þeir ljúga og halda áfram káfi, áreitni og sóðakjafti. En við viljum betra mannlíf. #Metoohreyfingin hefur ekki breytt heiminum enn, en hún hefur vakið athygli okkar allra á, að við verðum að standa gegn tröllunum. Dólgarnir eiga aldrei að vera óhultir í valdakerfum sínum og skúmaskotum. Eflum með okkur virðingu fyrir frelsi og gildi fólks. Þorum að ganga gegn fólki í valdastöðum sem brýtur af sér. Sviftum álögum af menningu okkar og samfélagi.

Hvers konar karlar virða ekki mörk kvenna og brjóta á þeim? Það eru ekki raunverulegir karlmenn heldur veikir menn, skuggamenn. Káf gegn vilja og kynferðisleg áreitni er merki um karlmennsku á villigötum. Dólgar eru ekki karlmenn heldur tröll. Jesús Kristur er fyrirmyndarkarl, sem virti konur, karla og börn. Hlutverk okkar í samtíð okkar er að hafna þeirri skuggakarlmennsku sem virðir ekki mennsku kvenna og mörk. Og við erum kölluð til að ala upp drengina okkar til ábyrgrar karlmennsku sem virðir mörk fólks.

Dólgshátturinn fer ekki í manngreinarálit. Það eru auðvitað til margar konur líka sem níðast á öðrum, konur í valdastöðu sem nota í eigin þágu hrædda og þjónustulipra. Slíkir vargar eru ekki heilar heldur skuggaverur.

Þessa síðustu mánuði þessa árs hefur #meeto orðið heimshreyfing, sem við eigum að taka alvarlega. Á aðventu er góður tími til að staldra við og hlusta og taka sögurnar alvarlega. Hvað svo: Það er mikilvægt að taka ákvörðun um hvort við ætlum framvegis að standa með Jesú og þolendum eða með dólgum, þöggun og meðvirkni. Í guðspjallinu minnir Jesú okkur á að gæta að lífsmerkjum. Guð kallar okkur til að standa með lífinu. Metoo-hreyfingin er hreyfing til lífs og í þágu lífs. Hvers væntum við? Aðventan minnir á að Guð kemur og kallar til lífs – hið innra – en líka í samfélagi okkar.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 10. desember, 2017. 2. sunnudag í aðventu. A-textaröð.

139

Byrjum á vitund þinni? Ertu hér? Fylgja þér einhverjar hugsanir úr lifun morgunsins sem hindra að þú komir? Lentir þú í einhverju sem þú ert enn að vinna úr? Sagði einhver eitthvað við þig sem þú ert enn að greina og skilja?

Ertu hér eða ertu þar? Margir rýna í símann í messu eða á kyrrðarstundum. Horfðu í kringum þig, fjöldi er að taka myndir og senda. Í sumum dönskum kirkjum kíkir meira en helmingur kirkjufólksins í símann í hverri messu. Fyrir skömmu síðan sá ég konu vafra í miðri prédikun. Á að banna síma í kirkju og láta alla setja símana í kassa við innganginn eins og í dönskum barnaskóla? Nei. Símnotkun vex alls staðar og kirkjurýmið er næðisrými sem hentar vafrinu. Og þar sem síminn er á lofti er víða farið að nota hann sem skjá fyrir sálmabók og biblíutexta. Þau sem koma í messu í Hallgrímskirkju geta flett á hallgrimskirkja.is í messunum til að veiða sálmanúmer, sálma og bilíutexta.

En hver er nálægð þín? Hvað fangar hug þinn? Er það netið, at morgunsins, reynsla daganna eða nærðu að vera í núinu? Hvað er næst þér? Viltu dýpra í þér? Alla leið?

Marteinn Lúther sagði að Davíðssálmarnir næðu að tjá allar tilfinningar manna. Allt sem menn reyndu í lífinu væri orðfært í þessum sálmunum. Það er rétt. Í sálmi 139 segir:

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni 
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst 
og hönd þína hefur þú lagt á mig…

Hvað er innst í þér? Hvað um guðlega alnánd? Guð er svo nærri þér að ekkert fer fram hjá þeirri vitund. Engar hugsanir eru Guði óþekktar. Þú segir ekkert sem elskunæmni Guðs nemur ekki. Þú gerir ekkert svo kvika Guðs verði þess ekki áskynja. Nándin er alger. Guð er þér nær en kvíði daganna. Þó þú lyftir þér á vængi netsins eða morgunroðans er Guð þar. Þegar þú forðast kirkjur, guðshús og heilaga staði heimsins er samt guðlegur meðhlaupari nærri. Og ef þú rásar burt frá þínu persónulega altari – er Guð þar – nær en sjálf þitt.

Hvert get ég farið frá anda þínum, 
hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig 
og hægri hönd þín halda mér…“

Guð er þér nærri – alls staðar – alltaf – hér og líka í þér.

Íhugun í kyrrðarstund 5. október, 2017.

Trú og tabú

Stelpa í Stykkishólmi hitti Jesú Krist. Hún var venjuleg fermingarstúlka í venjulegri fjölskyldu sem fór í venjulegt sumarfrí til Spánar. En þar varð óvenjulegur atburður. Stelpan og Jesús Kristur hittust. Hún tók þennan fund, samtalið og samskiptin svo alvarlega að hún breyttist. Fjölskylda hennar átti í erfiðleikum með að sætta sig það sem stúlkan sagði og gerði. Þau héldu að hún væri orðin klikkuð og sendu hana til geðlæknis. Trú var allt í einu orðin sjúkdómur.

Stúlkan hét Alma. Í ljósi nýrrar lífsreynslu tók hún allt til endurskoðunar. Vinatengslin breyttust. Foreldrar vinkonu hennar vildu ekki að þær hittust. Alma ólst upp í stóru þorpi og hafði margvísleg áhrif í margflóknu smásamfélagi. Orð hennar og athafnir reyndu þanþol margra. Í fermingarfræðslunni vissi presturinn sem ekki hvernig hann ætti að bregðast við. Ölmuguðspjallið var allt í einu eins og nýtt guðspjall í plássinu, Jesús var nærri.

Ég ætla ekki að segja ykkur alla söguna um Ölmu. En það gerir rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir frábærlega vel í margslunginni bók sem nefnist Englaryk. Guðrún Eva lýsir nærfærnislega brothættu samfélagi sem hefur allt í viðkvæmum skorðum en veit ekki hvernig á að glíma við stærstu gáturnar um líf, tengsl og möguleika. Í bókinni er þyrlað upp ágengum spurningum um hvað trú sé í nútímasamfélagi og hvort við séum á flótta. Hvað gerist ef hið guðlega snertir einstaklinga og hvernig höndla þeir trú og fjölskyldur þeirra? Texi Guðrúnar Evu er fyndinn og nærfærinn. Fíngerður húmorinn og glitrandi ljóðræna seitla inn í sálina.

Alma var á breytingaskeiði unglingsáranna þegar flest er tekið til skoðunar, viðhorf og siðferði. Höfundurinn opnar skápinn og leyfir okkur að fylgjast með þegar ung kona þorir að mæta Guði. Alma gerði mistök og neyddist til að læra að greina milli trúar og afleiðinga. Það er hlutverk okkar manna að þora að breytast en einnig læra af áföllunum. Fjölskyldan gerði líka mistök. En þannig er það hjá venjulegu fólki í venjulegum fjölskyldum í venjulegu íbúðarhúsum. Lífið er ekki klisja. Það býður upp plús – meira en við eigum von á. Stóru spurningarnar um tilgang lífsins læðast inn í okkur. Börnin spyrja, við glímum við tengsl okkar við fólkið okkar og svo verða slys, hamingjudagar koma sem og sólardagar og hversdagsverkefni. Í öllu þessu er spurt um hvort Guð sé til, hvort líf hafi tilgang, hvort heimurinn sé meira en bara efni og efnaferli. Alma var opin fyrir að hversdagsleg veröld væri dásamleg. Hún opnaði fyrir möguleika lífsins.

Tabú Íslands – kynlíf, dauði, trú

Þorir þú að hugsa um trú og tala um trú? Höndlum við þegar fólk verður fyrir vitrun sem breytir lífi þess? Afskrifum við þau sem klikkuð? Viljum við helst bara flýja – og troða þar með stærstu og erfiðustu spurningunum inn í skáp þagnarinnar. Í samfélagi okkar hafa verið þrjú tabú sem ekki hefur mátt tala opinskátt um. Í uss-uss-skápana hafa þessi þrjú verið sett: Trú, kynlíf og dauði.

1 Reyndar er kynlífið að losna úr skápnum en fólk hefur tilhneigingu til að hrapa í hina öfgana, klámið. Við þurfum vera auðmjúk og tilbúin að ræða hvatir, fjölbreytileika, tilraunir, sjúkleika og heilbrigði kynlífsins. Við foreldrar vitum best hvað það er mikilvægt að flýja ekki þegar ungviðið spyr.

2 Svo er það dauðinn sem hefur ekki verið í tísku nema í kvikmyndum. Dauðinn hefur ekki verið hitamál á kaffihúsunum síðan Jean Paul Sartre og tilvistarspekingarnir þorðu að færa hann í tal. En þó lítið sé talað um dauðann er það þó að breytast. Í fortíðinni var dauðinn fléttaður inn í líf fólks. Fólk dó heima og lík voru gjarnan á heimilum dagana á undan greftrun. Dauði dýranna á sveitabæjunum var eins raunverulegur og fæðing þeirra og líf. Spítalavæðingin svifti fólk dauðanándinni en nú leitar dauðinn úr skápum stofnanavæðingar. Ef við getum rætt um horfst í augu við dauðann og rætt um hann erum við enn betur fær um gott líf og lífsleikni.

3 Svo er þriðja tabúið og trú hefur líklega verið mesta tabúið, innst í skáp þagnarinnar. Hvað er trú? Alma hitti Jesú. Það verða ekki allir fyrir slíkri reynslu, fundurinn með Jesú er almennt ekki svo dramatískur en engu ómerkilegri. Meðan við lifum verðum við öll fyrir reynslu sem opnar og knýr okkur til að ákveða hvað við erum, til hvers við lifum.

Þrenns konar trú

Og við tökum okkur stöðu gagnvart heiminum,  hvort við viljum litla, meðalstóra eða stóra tilveru.

1 Ef við viljum að veröldin sé aðeins efni og tilfallandi efnaferli án Guðs þá er það guðlaus trú og tilveran lítil. Það er ekki hægt að sanna þessa lífsskoðun eða afsanna en það er ákvörðun af neikvæðu trúartagi að tilveran sé guðlaus. Ég hef lesið rökin en undrast að fólk sem trúir með þeim hætti verði ekki þunglynt. Það þarf hugrekki til að sogast ofan í hyl guðleysis.

2 Svo eru önnur sem telja að þekkingarskortur hindri að menn geti ákveðið hvort tilveran er guðlaus eða guðleg. Þau meta svo að þekking okkar sé takmörkuð. Við vitum reyndar talsvert margt en erum þó fjarri því að geta með vísindalegri aðferð dæmt um tilgang og Guð í geimnum. Ég skil vel fólk sem viðurkennir óvissuna um hið stóra og guðlega.

3 Svo er það þriðji hópurinn – fólkið sem trúir. Og trú er alls konar og hefur mjög mismunandi afleiðingar. Og flækjum ekki málin með alhæfingum, t.d. með því að segja að trú sé alltaf svona eða hinsegin. Múslimar í þorpi í Aghanistan eru allt öðru vísi en múslimar á Manhattan í New York. Kristinn sértrúarhópur í miðvesturríkjum Bandaríkjanna er allt öðru vísi en þjóðkirkjusöfnuður á Íslandi. Ruglum ekki og alhæfum ekki. Og í dag tölum við bara um trú á Íslandi, í okkar venjulega, umburðarlynda, íslenska og upplýsta þjóðkirkjusamhengi.

Trúin tengir

Hvað er heilbrigð trú? Hún verður ekki bara við að hitta Jesú í sumarleyfi í Andalúsíu. Hún vex upp í venjulegum húsum og hjá venjulegu fólki. Hún þroskast úr barnatrú yfir í vitund um að heimurinn nær lengra en nefið. Trú stækkar heimsskynjunina. Hún er tengsl við hið stórkostlega í veröldinni. Hún er skynjun um að veröldin er meira en efnaferli og köld tilviljun. Trúin sér í sandkornum á ströndinni undur veraldar og trúir að kærleikur Guðs sé eins og hafið (svo notuð sé heillandi mynd úr skáldskap Matthíasar Johannesen). Trúin sér í Jesú Kristi hið guðlega meðal manna, fyrirmynd um hvernig við getum brugðist við í flóknum heimi, kærleiksafstöðu til annars fólks, vilja til að sjá mennsku í öllum mönnum, líka þeim sem hefur mistekist. Trúin opnar, tengir og gerir manneskjuna heila og lagar tengsl ef allt er rétt. Trúin rýfur einangrun fólks og bætir. Það er alveg sama hvernig við klúðrum lífinu, Guð elskar fólk samt og vill styðja. Það er alveg sama hvaða áföll verða, flóð, eldgos, stríð – við erum kölluð til að bæta og gera gott úr, lækna og reisa við. Við erum kölluð til að vera útréttar hendur Guðs í veröldinni. Trú tengir ekki aðens við undur þessa heims heldur opnar glugga að veröldum handan tíma og efnis. Að trúa er að verða trúnaðarmaður Guðs. Það var það sem Alda uppgötvaði, að þegar maður trúir verður tilveran ljómandi, töfrandi og þrungin merkingu – svo notuð sé orð bókarinnar.  

En það að trúa er ekki að verða óskeikul ofurtilvera, súperman eða súperwoman. Trú breytist og dýpkar. Trú leitar þroska rétt eins og við stækkum úr barni í fullorðna veru. Við lærum, gerum mistök, dettum, rísum upp, sjáum hlutina í nýju ljósi og breytum um skoðun. Trú er ekki flótti heldur sítenging við raunveru heimsins. Trú er systir skynsemi og réttlætis. Þegar við trúum erum við ekki beðin um að fórna okkur í þágu einhverrar vitleysu og sérvisku. Það er ekki heilbrigð trú heldur sjúk og á villigötum. Við eigum ekki að fórna líkama okkar, frelsi og lífi fyrir þröngan málstað eða ofbeldi. Þvert á móti, við megum nota allt sem Guð hefur gefið okkur til farsældar og lífsleikni og einnig í þágu mannkyns og náttúru. Við þurfum ekki að trúa úreltum sögum og eigum að lesa Biblíuna með heilanum ekkert síður en hjartanu. Og við ættum að taka alvarlega niðurstöðu vísinda. Trúmaðurinn hefur enga þörf fyrir að einfeldningaskoðanir. Trúin má koma út úr skáp tabúsins í íslensku samfélagi.

Ævintýrin verða ekki aðeins á Spáni eða Stykkishólmi heldur heima hjá þér. Guð er ekki aðeins í þessari stóru kirkju, heldur innan í þér, talar til þín og býður þér að vera vinur og félagi þinn. Og tilveran verður miklu stærri og skemmtilegri þegar tengt er með trú og hjartað slær í takt við hjartslátt alheimsins – Guðs. 

Hugleiðing við upphaf barnastarfs og fermingarfræðslu í Hallgrímskirkju. 3. september 2017.

Þú ert frábær

Ég stóð við Lynghagann og fagnaði hlaupafólkinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Rúmlega fjórtán þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Stemmingin var stórkostleg. Bros voru á flestum andlitum, gleðin hríslaðist um hlauparahópinn. Hvatningarköll hljómuðu frá þeim sem stóðu á gangstéttum og hlátrar ómuðu. Tónlistarfólk spilaði og kröftug, taktþung músík hljómaði úr hátölurum. Krafturinn var mikill. Gaman alla leið, áfram.

Ég hef farið niður á Lynghaga í mörg ár til að hvetja ættingja mína og vini. Það er gaman að vera með í þessum samheldna gleðihópi. Og svo var sérstaklega gaman í gær því drengirnir mínir – ellefu ára – hlupu 10 kílómetra í fyrsta sinn. Við foreldrarnir fögnuðum þegar þeir komu hlaupandi, léttstígir. Svo hjóluðum við vestur á Grandaveg til að hvetja þá áfram þar og furðuðum okkur á hve fjaðurmagnaðir þeir voru eftir átta kílómetra. Svo urðum við hjóla hratt til að komast á undan þeim í Lækjargötuna. Þetta var dásamlegt að taka þátt í þessari miklu hlaupagleði. Reykjavíkurmaraþon er uppskeruhátíð æfinga sem hafa staðið vikur, mánuði og jafnvel mörg ár. Mörg sem voru hlaupa tóku ákvörðun í vetur að vinna að hlaupinu. Árangur í lífinu sprettur ekki af sjálfu sér heldur er ávöxtur vilja og vinnu. Hamingjan í lífinu er líka árangur ástundunar.

Þegar við hjóluðum í átt að Grandanum sá ég stórt skilti. Við það var hvetjandi hópur sem aldeilis lagði sitt til. „Áfram, áfram“ kölluðu þau. Þetta var áheitahópur og það sem stóð á skiltinu þeirra var fallegt: Þú ert frábær. Þegar ég hjólaði svo í gegnum gamla vesturbæinn hugsaði ég um hve góð skilaboð þetta eru: Þú ert frábær. Þetta voru auðvitað skilaboð til allra þeirra sem hlupu, þau væru dýrmæt, frábær. En þetta er líka boðskapur af himnum til okkar manna. Við erum frábær, dýrmæt og öll einstök.

Áheitin

Og allir vita sem hafa kynnt sér Reykjavíkurmaraþonið að mörg hlaupa í áheitaskyni – til að láta gott af sér leiða. Þúsundir hlaupa til að styðja Ljósið, Píeta, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélagið eða önnur mannræktarmálefni. Svo er safnað fyrir fólki sem hefur veikst eða slasast. Mörg voru að safna fyrir unga konu sem lenti í alvarlegu hjólaslysi á dögunum og lamaðist. Stuðingurinn er á grundvelli þess að allir eru mikilvægir og við megum og þurfum að standa saman.

Þú ert frábær. Það eru mikilvæg skilaboð sem allir þurfa að heyra margoft í lífinu, þarfnast þess að finna fyrir þeim jákvæðnisanda í uppeldi og fjölskyldulífi. Enginn kemst til manns nema hafa notið þess að einhverjum þyki hann eða hún frábær. Og þau sem hafa ekki mikinn stuðning heima fá stundum að heyra þetta mikilvæga hjá kennaranum í skólanum, í kirkjunni eða vinunum sem kunna að hrósa. Þú ert frábær.

Við þurfum hvatningu, jákvæða nálgun, hrós. En við höfum ekki gagn af því að fá aldrei gagnrýni eða jákvæða greiningu á veikleikum. Einfeldningslegt „þú ert æðisleg eða sjúklega flottur“ er ekki það sem skapar hamingjusamt fólk heldur fremur sjálfhverft og vanrækt fólk. Við þörfnumst þess að heyra og finna að við séum metin og svo mikið elskuð að við erum alin upp með aga, vinnu, hlýrri gagnrýni, kennt að reyna á okkur, þekkja mörkin, hvenær við særum aðra og hvernig við getum verið sjálfstæð en samt ábyrg gagnvart öðru fólki. Í textum dagsins eru tjáðar skuggahliðar mannlífs og við þurfum að temja okkur raunsæji Ritningarinnar. Þar sem er ljós verða skuggar. Enginn er fullkominn þó köllun okkar sé að nýta alla okkar hæfni og gáfur til góðs og hamingju. Stefnumark manna verður ekki til af engu heldur við þjálfun og ræktun hið innra og ytra.

Ekki ástandsskoðun heldur ást

Þú ert frábær. Svo var það sálmafossinn í kirkjunni í gær. Á þriðja tímanum var fjöldi kominn í kirkjuna til að njóta söngs nýrra sálma, hrífandi tónlistar, dásemda Klaisorgelsins og almenns sálmasöngs. Sex kórar sungu, á annað hundrað manns veitti okkur af sönggleði sinni. Fjöldi tónlistarmanna lék á hljóðfæri sín, sex nýir sálmar, lög og ljóð, voru frumfluttir. Þúsundir komu í kirkjuna til að njóta, syngja og úr varð fyssandi dásemd tilbeiðslu og lífs.

Þú ert frábær. Það voru skilaboðin sem ég kom með úr Reyjavíkurmaraþoni inn í sálmafossinn. Hinn mikli boðskapur sem ég greindi í textum, hljómum, undrum tónlistarinnar var hinn djúpi boðskapur Jesú Krists: Þú ert frábær. Guð kristninnar er ekki smáguð heldur Guð hins stærsta og mesta. Allt sem Guð gerir er af því að sá Guð er jákvæð elska, sem kallar fram efni af hreinni ást, kallar fram greinar lífsins í gleði skapandi iðju. Og þegar áföllin dynja yfir, reiðhjólaslys, óðir menn keyra í morðæði inn í hópa saklauss fólks eða stinga hnífum sínum í grandalausa vegfarendur er Guð ekki áhorfandi. Guð er þar. Guð kom, kemur og mun koma. Guð birtist í setningu á Grandavegi: Þú ert frábær. Og Guð kom og kemur í Jesú Kristi og öllum þeim sem gera gott. Sá Guð sem ég trúi á og þekki var í miðju hópsins á hlaupum í dag. Sá Guð á sér samverkafólk í lífinu sem safnar fé til góðs og tjáir að það er frábært. Og sá Guð talar til okkar allra í helgum textum og sálmum lífsins: Þú ert frábær og ég vil að þú fáir að njóta hamingju.

En sá Guð segir líka: Það er margt í þessari veröld sem er hræðilegt og spillir lífi, geði, freistar og afvegaleiðir. Eins frábærir og mennirnir eru læðist sýkin, syndin, tortýmingin líka meðal okkar og smeygir sér inn í okkur. Og því er vei líka tjáð í öllum heilbrigðum átrúnaði. Við erum ekki frábær af okkur sjálfum heldur af því Guð hefur skapað okkur sem frábær og vill styrkja okkur að vera slík. Við erum ekki frábær af því að það sé niðurstaðan á ástandsskoðun á okkur. Við erum frábær af því Guð metur okkur mikils þrátt fyrir vitleysur okkar og klúður. Okkur tekst að óhreinka okkur og gera margt sem miður fer. Við erum kölluð til að vera frábær og erum það þegar við lifum í raunsæi um okkur sjálf, veröldina, mannfólkið, lífið og Guð.

Þú ert frábær. Það er yfirlýsingin sem Guð gaf þér í fæðingargjöf. Við erum öll svo elskuð að þegar við hlaupum lífshlaup okkar er Guð nærri, hleypur við hlið okkar, hvetur okkur áfram, já og ber áfram þegar við dettum. Það er söngur lífsins. Viltu vera frábær?

Hugvekja í Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2017, sunnudag eftir menningarnótt. 10. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B.

Trúin úrelt?

Ágætt tímarit, Grapevine, er gefið út hér á landi og fjallar um íslensk málefni fyrir enskumælandi fólk. Nýlega var því haldið fram í þessu riti að vegna nútímaviðmiða hefði trúin hopað. Ein rökin eru að meðlimafjöldi þjóðkirkjunnar hafi minnkað.  Á þrjátíu árum hefur fjöldinn lækkað um tuttugu prósent. En þrátt fyrir breytingar í kirkjuefnum er trúin ekki að hverfa. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa. 

Hvað er trú?

Sumir telja í einfeldni sinni að trúnni fylgi óhjákvæmilega forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina. Því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er Grapevinetúlkunin. Það er rangt, trú er ekki hugmyndir, hvorki gamaldags eða nýjar hugmyndir, heldur mun róttækara fyrirbæri. Aðrir telja að trú sé það að samþykkja bókstafsútgáfu helgirita. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa heimatilbúinnar speki.

En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er ekki yfirborðslegar skoðanir og alls ekki forvísindaleg lífssýn. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg, en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru hins vegar háðar trú. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Trú er undur sem Guð kallar fram.

Trú er það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Trúarkenningar breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Þar með hættir Guði ekki að vera til. Guð er fólki nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er nánari en vitund okkar. Guð er hinsta og dýpsta viðmið hvers manns.

Ekki á útleið heldur innleið

Er þá trúin ekki á útleið? Nei, þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki – aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkjufélag tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt veiklaðar eða úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka kenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið að sköpunarsagan sé ekki náttúrufræði heldur ljóð sem tjáir tilgang og samhengi lífsins. Trú hvetur til hugmyndagrisjunar. Þar sem trú er hinsta viðmið fólks beinist hún gegn yfirborðsnálgun. Trú þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú. Trú hvetur til ævarandi siðbótar.

Lífsfestan sjálf

Tenging við Guð leiðir til lífssýnar og kallar á túlkun trúarreynslu. Öll þau sem hafa verið upplýst af trú fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn og magnaður af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Við veljum sjálf hvort við sjáum í undri veraldar aðeins tilviljun eða nemum hið mesta og stærsta – undur Guðs.

Hvað er hinsta viðmið þitt, lífsfesta þín? Þar er trú þín og þar talar Guð við þig.

Íhugun – janúar 2017.