Greinasafn fyrir merki: trú

Nr. 1 fyrsta boðorðið

Ef einhver brýtur af sér eða verður fyrir stórkostlegu áfalli – hvað er þá hægt að gera? Hvernig á að bregðast við ef allt fer í rugl á heimilum? Hvað er hægt að gera þegar hrun verður í þjóðfélagi? Hvað er vænlegast ef kreppur trylla stórar hreyfingar eða félög? Hvað gerir þú þegar eitthvað mikið gerist í lífi þínu? Þá þarf að stoppa, bregðast við af raunsæi og finna bestu útleiðina. Stundum þarf að taka u-beygju, viðurkenna vandann, iðrast og setja nýjar reglur.

Í stað þess að leggja út af guðspjalli dagsins munum við, prestar Hallgrímskirkju, íhuga boðorðin næstu vikurnar. Boðorðin eru einstök. Þau hafa verið milljörðum manna leiðbeiningar í þúsundir ára. Þau hafa verið kölluð umferðarreglur lífsins. Boðorðin eru dýrmæti – ekki aðeins trúmönnum, heldur eru þau líka þættir í siðfræði og siðferði heimsbyggðarinnar. Andi þeirra hefur mótað mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og haft áhrif á löggjöf, mannskilning, hugmyndir um réttindi og réttlæti og hvernig við skiljum rétt og rangt. Boðorðin hafa verið eins konar vegprestar við lagagerð og samtal um hið réttláta þjóðfélag. En hvert er gildi þeirra nú? Hafa þau gildi í nútímasamfélagi?

Fleiri lög eða innræti?

Í miðju efnahagshruninu fyrir rúmum áratug urðu deilur um leiðir út úr vandanum. Margir töldu, að skerpa yrði löggjöf og gera nýja stjórnarskrá til að fyrirbyggja hörmungar í framtíð. Jón Sigurðsson, sem um tíma var formaður Framsóknarflokksins, sagði þá að endurskoðun laga væri ekki sjálfgefin lausn vandans, en það myndi hjálpa ef fólk færi bara eftir boðorðunum! Það er þörf ábending. Það er ekki nóg að setja góð lög ef fólk er ósammála anda þeirra og fer ekki eftir þeim.

Hvaða skoðun hefur þú á boðorðunum? Telur þú, að ef fólk lifir í anda boðorðanna megi vænta góðra mannasiða og blómstrandi þjóðfélags?

Manstu fimmta boðorðið og manstu kannski alla röðina? Fyrstu þrjú boðorðin varða afstöðu manna til hins guðlega, en sjö seinni orðin eru um mannheim. Boðorðin eru í heild á tveimur stöðum í Biblíunni, í annari Mósebók tuttugasta kafla og síðan í fimmtu Mósebók í fimmta kafla. Og kaflarnir eru ólíkir.

Boðorðin eru sett inn í söguframvindu eyðimerkurgöngunnar, en þau endurspegla lífshætti borgarsamfélags en ekki siðfræði og siðferði umreiknandi hirðingjaflokks. Boðin eru hluti af regluverki þjóðar og eins og við vitum þarf heilbrigt þjóðfélag samfélagssáttmála, leikreglur um samskipti og úrlausn mála. Þessi fáu boðorð eru aðeins nokkur af miklum reglubálki hebresku þjóðarinnar. Og reglurnar, sem þeir settu sér, eru raunar mörg þúsund. Það er ekki aðalatriði, að þú munir hvort bann við morðum sé á undan eða eftir banni við hjúskaparbrotum. Það er ekki aðalatriði að þú þekkir, munir eða skiljir þessi boð, heldur að andi þeirra móti til góðs og verði innræti þitt.

Kristnir menn hafa um aldir kennt, að boðorðin séu mikilvæg en þó ekki skuldbindandi reglur. Lög, boð og skyldur eru ekki miðja eða höfuðatriði kristins átrúnaðar heldur Guð. En gruflandi trúmaður spyr hins vegar um afleiður sambandsins við þennan Guð, sem alltaf er túlkaður sem guð réttlætis og umhyggju. Trú er tengsl við heimshönnuðin og því er eðlilegt að spurt sé hvernig kerfið, sem þessi Guð hefur skapað, virki best. Trú er aldrei tæki í þágu eigin dýrðar, heldur samband við Guð. Guð er ekki sjálfhverfur heldur tengslavera, sem elskar. Þar með er gefið, að trú mótar siðferði, trú hvetur til réttlætis og trú kallar á siðfræði. Trú varðar allt líf einstaklings, þjóðfélags og náttúru, stjórnmál, samskipti á heimili, uppeldi og skólamál. Trú er ekki sprikl í mórölskum möskvum, heldur afstaða sem elur af sér mannskilning, heimsskilning, náttúrusýn, friðarsýn og allt mögulegt annað varðandi tengsl við fólk og gildir einu hvaða trú eða kynhenigð það hefur eða hvernig það er á litinn. Auðvitað er atferli trúmanna með ýmsu móti og ekki allt gott. En trúin verður ekki dæmd af mistökum, frekar en góð löggjöf af glæpamönnum, eldur af brennuvörgum eða þjóðir af áföllum. Afstaða Jesú til boðorðanna er til fyrirmyndar.

Jesús Kristur hafði afslappaða frelsisafstöðu gagnvart reglum. Jesús benti á, að lífið þjónar ekki reglum heldur þjóna reglur lífinu. Þannig ætti að nálgast lög, form og kerfi manna, líka boðorðin. Jesús áleit, að aðalreglurnar væru um mannvirðingu og Guð. Hann bjó til tvöfalda kærleiksboðið, sem er eiginlega samþjöppun hans á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Tvöfalda kærleiksboðið fjallar um að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo: “Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. … og náunga þinn eins og sjálfan þig.”

Þetta er hin elskulega útgáfa og túlkun Jesú á boðorðunum. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa boðs. Elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langtréð eða uppstólpinn. En trúin er einskis virði nema að hún bæti líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð á krossinum. Og í samtíð okkar hefur komið í ljós að ef við erum ekki rótfest í heilnæmri náttúrutengingu förum við villur vega, mengum og deyðum. Trú, sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð, er á villigötum. Trú, sem aðeins sér menn, hefur tapað áttum. Guð og fólk, Guð og veröld – allt í senn og samfléttað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð, menn, nátttúru og að Guð elskar þig og alla veröldina. Og andsvar þitt við þeirri elsku er, að þú mátt elska Guð, veröldina og mennina þar með.

Guðselska eða I-god

Hvernig var aftur fyrsta boðorðið? Það hljóðar svo: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þetta hljómar einfalt, en er þó snúið. Letingjar veraldar forðast alltaf þetta boðorð. Ísraelar bjuggu til gullkálf og allir menn hafa tilhneigingu til að búa sér til sinn eigin smáguð, sitt eigið guðsríki. Sumir trúa blint á flokkinn sinn, aðrir lúta fíknarguðinum. Fæðufíkn, neyslufíkn nær tökum á mörgum. Margir óttast svo yfirmenn sína, flokksræðið og alls konar harðstjórnir, að menn tapa áttum, hugrekki og heilindum og litlir hjáguðir verða einræðisherrar. Síðan er sjálfsdýrkun í ótal útgáfum, sem er algengasta hjáguðadýrkun í okkar heimshluta.

Það er I-godeða ég-um-mig-frá mér-til-mín-afstaðan, sem á sér síðan ótal spilingarútgáfur. Þessi smáguðaafstaða er það, sem er drifkraftur spillingar í vestrænum samfélögum. Stærsta hrun síðustu ára Íslands er ekki fjármálahrun eða bankahrun heldur siðferðishrun. Það hrun er einstaklingum, félögum og samfélagi eins og illvígt innanmein, sem hefur búið um sig í leynum og lengi, menningarmein sem dregur til dauða ekki bara fólk heldur líka lífríki náttúrunnar.

Ef við, sem einstaklingar, komumst ekki út úr okkar eigin smáveröld verðum við sjálfsblekkingu að bráð og sérstaklega um eigið ágæti og eigin snilli. Og sjáum þá ekki að veröldin er stærri en mannheimur og við höfum stærra og merkilegra hlutverki að gegna en bara í okkar smáheimi. Hlutverk okkar er að þjóna, ekki bara að sjálfum okkur – heldur líka öðrum. Fyrsta boðorðið merkir, að ég verði ekki raunverulegt ég nema Guð sé þar, fái aðgang að sjálfinu og hjáguðirnir fari úr hásætinu. Viskan er: Ef litlu guðirnir fá of mikið vægi veiklast líf og lífsgæðin spillast. En ef Guð fær að vera miðja sjálfs og lífs þá getur sjálfið lifað vel, guðsflæðið virkað rétt og samfélag manna, þjóðfélagið, græðir stórlega. Guð og gildi fara saman.

Öll könnuðumst við að hafa ruglast á röð boðorðanna. Það er í góðu lagi því það er andi boðorðanna sem er aðalmálið. Takmarkið er, að þau verði okkur töm, að við temjum okkur inntak þeirra, þau verði innræti okkar, mynstur sálarinnar, sem stýrir viðbrögðum okkar í lífinu.

Mannasiðir

Hvaða grunn þörfnumst við undir byggingu samfélags, menningar og samskipta? Hvers konar leikreglur þarf að setja? Hvaða gildi viljum við að stofnanir og skólar þjóðarinnar hafi? Þegar dýpst er skoðað – hvers konar gildi viljum við og hvers konar mannasiði? Fyrsta orðið er upp, þvert og niður. Nær til alls sem er í þessari veröld og er til góðs. „Ég er Drottinn Guð þinn … þú skalt ekki aðra Guði hafa.“  

(Myndina sem fylgir tók ég á Jakobsveginum – á leiðinni til Santiago de Compostella. Vegvísarnir eru margvíslegir. Þessi vegprestur var fagur og boðorðin eru fögur. )

 

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.

Dansandi Guð

Vegna prestsstarfanna hitti ég margt fólk, sem segir mér sögu sína. Enginn hefur sagt mér, að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin, sem skiptu mestu máli á æfi þeirra. Ég hef ekki hitt neinn, sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Margir hafa reyndar sagt að það hafi verið í átökum og sorgardölum sem viskan hafi vaxið. Sigurður Nordal óskaði ungu fólki baráttulífs. Ég tala við fólk þegar það kemur með börnin sín til skírnar, hitti fólk á krossgötum lífsins sem þarf að vinna með áföll eða þegar eitthvað bjátar á, þegar það er undirbýr athafnir stórviðburða lífsins og þegar það kveður ástvini. Það er heillandi að heyra sögur fólksins. Og því oftar sem ég horfi í augu þeirra sem segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég um, að þær eru ástarsögur. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. Fá þeirra hafa sloppið við mikil áföll. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Aðeins þau er elska geta syrgt. Ekkert okkar sleppur við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð. Hvað er það sem gefur lífinu merkingu og gerir það þess virði að lifa því? Svarið er: Ástin – kærleikurinn. Við þörfnumst þess að vera séð, metin og elskuð.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef fólk lifir stutt, kannski aðeins til unglingsára er þá líf þessara unglinga lítils virði? Er stutt líf svo lítils virði að best hefði verið að barnið eða unglingurinn hefði aldrei lifað? Hvað þarftu að að reyna í lífinu til að vera sáttur eða sátt við líf þitt? Er langt líf meira virði en stutt? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk glímt við þessar spurningar. Aristóteles og sjáendur Gamla testamentisins einnig. Nikódemus spurði. Jesús Kristur talaði um þá spurningu og svaraði með ýmsu móti. Og við komust ekki undan því að bregðast við henni, jafnvel þó við reynum okkar að forðast hana.

Guðsástin

Í tilfinningum og sögum manna getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En í þeim getum við líka séð meira. Ef við setjum upp trúargleraugun getum við greint ljósbrot þeirra geisla sem Guð sendir um veröldina. Í ástaratolotum manna og orðum eru brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg. En við megum gjarnan stækka þá spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almenna guðsmynd heldur líka setja inn þarfir Guðs, tilfinningar og verðandi Guðs. Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Það er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Elskuþrennnan

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum ekki né megnum að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn, gleðitjáning eða ástarjátning.

Hinar fornu trúarjátningar tjá, að guðdómur kristinna manna sé þrenning, þrjár verur í einingu, faðir, sonur og heilagur andi. Mismunandi tímar hafa lagt í þær persónur mismunandi skilning og mismunandi hlutverk. Þessa kosningahelgi finnum við til að við tilheyrum samfélagi. Við erum í tengslum. Og eins er það með hið guðlega. Guð er Guð samfélags, Guð félagsfjölbreytni, lifandi samfélag persóna í elskuríkri sambúð, í skapandi dansi kærleikans. Faðir, sonur og heilagur andi lifa í hver öðrum, sem sjálfstæðar og frjálsar verur, en þó sameinaðar í elsku og þar með á dýptina. Til forna var dans talinn best tjá innra líf Guðs og samskipti vera guðdómsins. Það er heillandi að leyfa danstaktinum að einkenna trúarlíf nútíma. Við þurfum meiri dans í trú fólks og líf kirkjunnar.

Af hverju varð Guð maður? Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt, hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli eilífðar? Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert í blindgötu? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei, heldur opnar, hrífst, leitar tengsla, viðfangs og faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni og dansi samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar.

Þegar við rýnum í rit Biblíunnar er þar sögð saga um guðselskuna, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Ástarsaga Guðs. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem stórkostlega ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegum dansi? Í öllu getum við greint – ef við þorum að horfa róttækt – ást. Við megum sjá Guð í ástarsögum heimsins, þinni ástarsögu líka. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Hvað gerir líf þitt þess virði að lifa því? Kemur Guð við þá ástarsögu? Ástin Guðs föður, kærleikskraftur Sonarins og lífsmáttur Heilags Anda sé með þér. Amen.

A summary of the sense of the sermon. What does make the life worth living. One of the benefits of being a pastor is being close to people and I hear a lot of stories, lifestories. The more I hear I do interpret the stories as love-stories. The conclusion of all the listening is that we human beings are love beings. If we use that insight into thinking about God we may comprehend that God enters into this corner of the cosmos because of love. Christians in earlier ages wondered what image of the godhead would be a fitting one. They thought of dance as the best one. If God is love and dance is the best image that also helps us to to grasp the meaning of our own being and love-story. Are you willing to open up to a dancing and loving God? Are you willing to open up closed corners of your love-life? Are you a member of the love story of the world?

Hallgrímskirkja, trinitatis, 27. maí, 2018.

Klopp og Kristur

Hefur það áhrif á líf fólks að trúa á Guð? Fólk er mismunandi og þau sem eru kristin eru ekki eins heldur alls konar. Sumir nota trú eða meðhöndla hana að eigin þörfum en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. Knattspyrnustjóri í Englandi er áhugaverður maður sem veitir Jesú Kristi aðgang að búningsklefanum. Hann var valinn til starfa í Liverpool af því hann umgekkst ekki leikmenn sem gæja með töfra í tánum heldur sem manneskjur. Þessi lífsafstaða hefur þjónað liðinu vel.

Knattspyrnulið Liverpool er að nýju að verða eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum var og þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Eftir nokkurra ára baráttu ákvað stjórnin að ráða Jürgen Klopp sem stjóra liðsins. Hann var undraþjálfari í heimalandi sínu í Þýskalandi og náði lengra með liðum sínum en flestir höfðu átt von á. Sem sé toppmaður. Og síðan hefur hann umbreytt liði Liverpool á stuttum tíma, gefið leikmönnum nýja djörfung, blásið þeim trú í brjóst, endurnýjað liðsandann og smitað gleði og von til stuðningsmanna Liverpool. Og Liverpool er að nýju orðið eitt af bestu liðum í Evrópu. Í síðustu viku sundurspilaði liðið Roma og í vikunni komst það í úrslit í bestu deild veraldar, meistaradeild Evrópu. Ótrúlegur árangur á stuttum tíma.

Vegna þessa hefur knattspyrnupressa heimsins verið með augun á Klopp þessum og Liverpool. Í skemmtielgu viðtali við hann var spurt um liðið, andann, leikmennina, tæknina og skipulagið. Þegar hann hafði svarað öllu greiðlega var spurt um hans eigin persónu og nálgun: „Hvað með sjálfan þig? Nú ertu orðinn frægur þjálfari. Hvaða máli skiptir það þig persónulega?“ Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Og það þýðir að ég sé sjálfan mig í ljósi heildar. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið og ég er í liðinu.“

„Ég er kristinn.“ Það var svarið. Þekkt er að Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega. Hann er sjálfsagt ekki fullkominn frekar en við hin en skilur og tekur afleiðingum af hvað trú merkir. Allir sem fylgjast með fótbolta Liverpool hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk, af virðingu, með hlýju og til að stykja. Hann byggir upp liðsheild hóps sem vinnur saman og til stuðnings öðrum. Ég er kristinn. Það merkir að ég er hluti af heild, ég styð aðra, ég lít ekki á sjálfan mig sem einstakan snilling heldur sem einn af mörgum í stóru teymi fólks. Það er heildin sem er samhengi einstaklinga og þegar við skiljum það skiljum við betur eðli kirkjunnar. Þegar við skiljum eðli kirkjunnar sem samfélags skiljum við mikið um þarfir og eðli einstaklinga. Og þegar við höfum náð því stóra samhengi skiljum við betur afstöðu Guðs til manna og veraldar.

Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist varðar að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari, klárari en allir aðrir. Við erum aðeins einstök í tengslum við fólk, lífsamhengi okkar og Guð. Við megum gjarnan spyrja okkur: Hvaða lífsafstöðu hef ég? Hvað skilgreinir mig og tengsl mín við fólk? Ertu kristinn? Og púlarar, stuðningsmenn Liverpool, syngja hástöfum: „You will never walk alone.“ Í því er ljómandi áhersla sem rímar vel við meginstef kristninnar. Hvort Liverpool vinnur meistaradeildina eða ekki á eftir að koma í ljós. En kristin trú virkar vel í tengslum, í fótbolta og í meistaradeildum hversdagslífsins.

Hefur það áhrif á líf fólks að trúa á Guð? Fólk er mismunandi og þau sem eru kristin eru ekki eins heldur alls konar. Sumir nota trú eða meðhöndla hana að eigin þörfum en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. Knattspyrnustjóri í Englandi er áhugaverður maður sem veitir Jesú Kristi aðgang að búningsklefanum. Hann var valinn til starfa í Liverpool af því hann umgekkst ekki leikmenn sem gæja með töfra í tánum heldur sem manneskjur. Þessi lífsafstaða hefur þjónað liðinu vel.

Knattspyrnulið Liverpool er að nýju að verða eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum var og þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Eftir nokkurra ára baráttu ákvað stjórnin að ráða Jürgen Klopp sem stjóra liðsins. Hann var undraþjálfari í heimalandi sínu í Þýskalandi og náði lengra með liðum sínum en flestir höfðu átt von á. Sem sé toppmaður. Og síðan hefur hann umbreytt liði Liverpool á stuttum tíma, gefið leikmönnum nýja djörfung, blásið þeim trú í brjóst, endurnýjað liðsandann og smitað gleði og von til stuðningsmanna Liverpool. Og Liverpool er að nýju orðið eitt af bestu liðum í Evrópu. Í síðustu viku sundurspilaði liðið Roma og í vikunni komst það í úrslit í bestu deild veraldar, meistaradeild Evrópu. Ótrúlegur árangur á stuttum tíma.

Vegna þessa hefur knattspyrnupressa heimsins verið með augun á Klopp þessum og Liverpool. Í skemmtilegu viðtali við hann var spurt um liðið, andann, leikmennina, tæknina og skipulagið. Þegar hann hafði svarað öllu greiðlega var spurt um hans eigin persónu og nálgun: „Hvað með sjálfan þig? Nú ertu orðinn frægur þjálfari. Hvaða máli skiptir það þig persónulega?“ Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Og það þýðir að ég sé sjálfan mig í ljósi heildar. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið og ég er í liðinu.“

„Ég er kristinn.“ Það var svarið. Þekkt er að Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega. Hann er sjálfsagt ekki fullkominn frekar en við hin en skilur og tekur afleiðingum af hvað trú merkir. Allir sem fylgjast með fótbolta Liverpool hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk, af virðingu, með hlýju og til að stykja. Hann byggir upp liðsheild hóps sem vinnur saman og til stuðnings öðrum. Ég er kristinn. Það merkir að ég er hluti af heild, ég styð aðra, ég lít ekki á sjálfan mig sem einstakan snilling heldur sem einn af mörgum í stóru teymi fólks. Það er heildin sem er samhengi einstaklinga og þegar við skiljum það skiljum við betur eðli kirkjunnar. Þegar við skiljum eðli kirkjunnar sem samfélags skiljum við mikið um þarfir og eðli einstaklinga. Og þegar við höfum náð því stóra samhengi skiljum við betur afstöðu Guðs til manna og veraldar.

Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist varðar að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari, klárari en allir aðrir. Við erum aðeins einstök í tengslum við fólk, lífsamhengi okkar og Guð. Við megum gjarnan spyrja okkur: Hvaða lífsafstöðu hef ég? Hvað skilgreinir mig og tengsl mín við fólk? Ertu kristinn? Og púlarar, stuðningsmenn Liverpool, syngja hástöfum: „You will never walk alone.“ Í því er ljómandi áhersla sem rímar vel við meginstef kristninnar. Hvort Liverpool vinnur meistaradeildina eða ekki á eftir að koma í ljós. En kristin trú virkar vel í tengslum, í fótbolta og í meistaradeildum hversdagslífsins.

#Metoo

Myllumerki og metoo er tákn fyrir þær sögur, sem sagðar eru um kynferðilega áreitni og ofbeldi. Miklar umræður urðu um ofbeldi gegn konum í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016 og skerptu athygli fólks og fjölmiðla á víðtækum vanda. Og svo var það Harvey Weinstein, trölli í kvennaheimum Hollywood. Fæstir töldu mögulegt að snúast gegn kvikmyndapáfanum því hann var svo valdamikill og stýrði að auki her spæjara og stjörnulögmanna. En upplýsingarnar um dólginn söfnuðust upp og New York Times var tilbúið að sýna sorann. Fréttirnar voru svo rosalegar að það var eins hamfarir hefðu orðið. Valdakerfið og þagnarmúrinn í kringum þetta kynferðislega rándýr féll. Upplýsingarnar um atferli mannsins, aðstoðarmenn hans og rotinn menningarkima voru hörmulegar. Í ljós kom að í kringum Weinstein var fjöldi fólks sem þagði. Þau vildu ekki eða þorðu ekki að mótmæla ofbeldinu sem allir vissu þó um. Gerendur eru sekir, en hvað um hin? Eru þau, sem þegja saklaus eða meðsek?

Dólgurinn féll og bylgja reis. 15. október síðastliðinn hvatti Alyssa Milano konur á twitter til að segja frá ofbeldi og nota #metoo. Á nokkrum dögum varð til heimshreyfing. Allt í einu fengu konur vettvang til að tala og segja reynslusögur sínar. Þær gátu allt í einu sagt frá káfi, orðasora, áreitni og kynferðisofbeldi. Þessar sögur um er stærsti sagnabálkur ársins. Sannar sögur samtímans og samfélagsmiðlarnir loguðu. Konurnar sem byrjuðu #metoo eru persónur Time þetta árið og stíliseruð myndin á forsíðu tímaritisins er táknræn.

Um allan vestrænan heim hafa hryllingssögur úr raunheimum verið sagðar, sögur um rándýr í stjórnmálum, vísindasamfélaginu, réttargæslukerfinu, listaheiminum, íþróttahreyfingunni og öðrum menningarhópum. Vargarnir, margir karlkyns en líka kvenkyns, eru alls staðar, í líka í góðgerðarfélögum og trúfélögum. Þolendur eru konur, börn, líka karlar, þau sem standa höllum fæti gagnvart einhvers konar valdi, sem gerendur notfæra sér. Hver á sökina: Gerendur eða þolendur? Og hvað svo?

Réttlæti er mál trúar

Á aðventu er skoðað hvað er gott og hvað vont. Aðventa er að vænta þess sem Guð er og Guð megnar. Það er fagnarefnið – dásemdin. Við væntum hins góða og því er aðventan hreinsunartími – undirbúningstími. Það kemur fram í textum kirkjunnar á þessum tíma. Jesús minnir okkur á að huga að breytingu í tíma, vorkomunni. Og þessi texti er lesinn um miðjan vetur. Í lexíu dagsins er minnt á, að gott mannfélag virðir réttlæti. Réttlæti og friður eru systur. Þegar þær dafna ríkir jafnvægi kraftanna. Börnin leika sér við holu nöðrunnar og stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn gerir illt því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni“ segir þar.

Hvernig er samfélag okkar? Eru engin stungin af nöðrum og höggormum? Jú, mörg eru áreitt, misnotuð og verða fyrir yfirgangi eða ofbeldi. Og það varðar trú og gott mannlíf. Margir karlkyns prestar og djáknar í þjóðkirkjunni hafa sent frá sér yfirlýsingu gegn áreitni og ofbeldisseggjum. Konur í hugbúnaðar- og auglýsingageiranum eru sama sinnis. Á fimmtudaginn síðasta birtu 333 konur í Kítón, félagi kvenna í tónlist yfirlýsingu um að þær vilji fá að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Um liðna helgi tjáði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, að nafgreindir Íslendingar hefðu hvatt til að henni yrði nauðgað. Ekkert var gert í málinu á sínum tíma, dólgarnir voru ekki dregnir til ábyrgðar en hún og fjölskylda hennar urðu þolendur.

Flestum þykir áreitni og ofbeldi vera alvörumál, sem sporna verði við. En spyrja má: Hvernig tengist það trú, kirkju og aðventu? Og svarið er einfalt: Trú og kirkja standa með þolendum. Það er skilgreiningaratriði kristninnar, að Guð sér þolendur, kemur og hjálpar. Fólk, sem játar kristna trú, lætur sig alltaf varða heill og hamingju fólks. Trú er ekki og má aldrei vera flótti frá lífinu. Trú er og á að vera stefna til lífs og fyrir líf. Trú, sem ekki lætur sig fórnarlömb varða, er sjúk trú og á flótta bæði frá Guði og mönnum.

Spámenn gamla testamentisins voru óþreytandi að benda á, að heill samfélagsins væri mál trúar. Trú skv. þeirra boðskap var samfélagsmál. Jesús Kristur sá alltaf einstaklinga og beitti sér í þágu barna og kvenna – allra. Hann tók sér stöðu með þeim, sem hallað var á. Ef þú ert efins skaltu lesa sögu hans um miskunnsama Samverjann. Trúin á Jesú Krist leitar þolenda og stendur með þeim gegn ofbeldismönnum. Ef þú efast skaltu lesa Nýja testamentið.

Skuggaverur í mannheimum

#Metoo leitar á huga margra okkar þessa aðventu. Já, við sem trúum á Guð eigum að standa með þolendum. Og hvað svo? Dólgarnir þykjast saklausir og axla sjaldnast ábyrgð. Þeir ljúga og halda áfram káfi, áreitni og sóðakjafti. En við viljum betra mannlíf. #Metoohreyfingin hefur ekki breytt heiminum enn, en hún hefur vakið athygli okkar allra á, að við verðum að standa gegn tröllunum. Dólgarnir eiga aldrei að vera óhultir í valdakerfum sínum og skúmaskotum. Eflum með okkur virðingu fyrir frelsi og gildi fólks. Þorum að ganga gegn fólki í valdastöðum sem brýtur af sér. Sviftum álögum af menningu okkar og samfélagi.

Hvers konar karlar virða ekki mörk kvenna og brjóta á þeim? Það eru ekki raunverulegir karlmenn heldur veikir menn, skuggamenn. Káf gegn vilja og kynferðisleg áreitni er merki um karlmennsku á villigötum. Dólgar eru ekki karlmenn heldur tröll. Jesús Kristur er fyrirmyndarkarl, sem virti konur, karla og börn. Hlutverk okkar í samtíð okkar er að hafna þeirri skuggakarlmennsku sem virðir ekki mennsku kvenna og mörk. Og við erum kölluð til að ala upp drengina okkar til ábyrgrar karlmennsku sem virðir mörk fólks.

Dólgshátturinn fer ekki í manngreinarálit. Það eru auðvitað til margar konur líka sem níðast á öðrum, konur í valdastöðu sem nota í eigin þágu hrædda og þjónustulipra. Slíkir vargar eru ekki heilar heldur skuggaverur.

Þessa síðustu mánuði þessa árs hefur #meeto orðið heimshreyfing, sem við eigum að taka alvarlega. Á aðventu er góður tími til að staldra við og hlusta og taka sögurnar alvarlega. Hvað svo: Það er mikilvægt að taka ákvörðun um hvort við ætlum framvegis að standa með Jesú og þolendum eða með dólgum, þöggun og meðvirkni. Í guðspjallinu minnir Jesú okkur á að gæta að lífsmerkjum. Guð kallar okkur til að standa með lífinu. Metoo-hreyfingin er hreyfing til lífs og í þágu lífs. Hvers væntum við? Aðventan minnir á að Guð kemur og kallar til lífs – hið innra – en líka í samfélagi okkar.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 10. desember, 2017. 2. sunnudag í aðventu. A-textaröð.