Greinasafn fyrir merki: þroski

Júlía og jurtirnar

Í dag skírði ég Júlíu Ósk sem býr í húsinu í grænmetisgarðinum hennar mömmu við Tómasarhaga í Reykjavík. Júlía Ósk tók svo sannarlega þátt í skírninni, setti hendina í vatnið og var vel áttuð. Mamma hefði haft gleði og gaman af þessari efnilegu og ákveðnu konu. Og mér þótti afar vænt um að fá að vitja hennar, fjölskyldu hennar og hússins sem var byggt í þessum garði bernsku minnar. Hugurinn leitaði aftur.

Garðurinn var gróðurvin hverfisins frá miðri tuttugustu öld og frægur fyrir gæðakál, ofurrófur og gulrætur sem krakkarnir í nágrenninu laumuðust í. Mamma skammaðist ekki yfir rófnastuldi heldur taldi þvert á móti mikilvægt að koma vítamíni í ungviðið. Svo var í garðinum ræktað alls konar vel ilmandi krydd og fjöldi kartöflutegunda því mamma var tilraunakona eins og góðir ræktunarmenn eru. Hún hreifst af fjölbreytileika og litríki gróðurs og mannlífs. Þegar mamma hafði ræktað í garðinum í hálfa öld seldi hún lóðina, fylgdist svo með húsbyggingu og blessaði framtíðaríbúa. Mér þykir vænt um að fá að skíra fallega stúlku sem þar býr nú, ausa hana vatni, biðja henni blessunar sem og fjölskyldu hennar. Hún er óskabarn.

Garðrækt mömmu vakti athygli og Þjóðviljinn flutti þá fregn, að kona í Vestubænum ræktaði dýrustu karftöflur á Íslandi. Blaðið birti mynd af garðinum á dýrmætri byggingarlóð við Tómasarhagann og því augljóst að konan var mamma. Verktakar og lóðaþurfandi framkvæmdamenn komu í röðum og báðu um lóðina. Pabbi vísaði þeim brosandi á mömmu. Svo hringdu aðrir og spurðu hvort þeir gætu ekki fengið þessa óbyggðu lóð. Og enn vísaði pabbi á mömmu. Þar fengu framkvæmdamenn heimsins fullkomlega skýr svör. Nei, þeir gætu ekki fengið þessa lóð af því að hún væri notuð til kartöflu- og kál-ræktar. „En hættið þið ekki bráðum þessari garðrækt, þetta er jú byggingarlóð?“ „Nei,“ sagði mamma ákveðin. „En gætuð þið ekki fengið betra garðaland hjá borginni?“ spurðu þeir enn. „Nei,“ svaraði mamma alveg skýrt. Það var alveg sama hvað skynsemi heimsins spurði um, hvað byggingamennirnir buðu og hvað praktískt hyggjuvitið bar upp. Garðurinn var ekki falur fyrir byggingu af steinsteypu og járni, heldur viðkvæmar byggingar jurta, sem nutu verndar, athygli, ástúðar og elsku mömmu.

Við pabbi og Kristín systir vorum vön atlögum hinna lóðargírugu og kipptum okkur ekki upp við áganginn. En svo komst ég að því að nágrannarnir gerðu grín að mömmu. Krakkarnir báru þessar fréttir og miðluðu af kostgæfni böðulsins. „Mamma þín er skrítin því hún ræktar kartöflur. Getur hún ekki keypt þær út í búð eins og mömmur okkar? Eða kálið? Það fæst líka í KRON.“ Þegar við systkin bárum upp þessi eineltisefni settist mamma niður með syni og dóttur við eldhúsborðið og skýrði málið. Mamma var eldri en flestar hinar mömmurnar og hún hafði líka þroskað með sér stefnu og lífsleikni. Hún tilkynnti okkur slök og með hlýju í augum að henni væri alveg sama um hvað fólki fyndist um svona ræktun. Hún skýrði út að fólkið í sumum húsunum við götuna héldi að það væri fínna að vinna ekki moldarvinnu og vera ekki eins og fólkið í sveitinni. En því miður hefði það bara ekki skilið meira og verið þroskaðra en þetta. Svo hló mamma bara að Þjóðviljanum og nágrannaviljanum. Hún væri ræktunarkona sem hefði gaman af jurtunum og að auki væri það gott fæði sem hún byggi til. Hún væri frjáls, veldi sér atvinnu, sparaði heimilinu peninga sem við gætum notað í eitthvað skemmtilegt í stað þess að kaupa kartöflur og kál.

Þá var það skýrt og klárt. Mamma notaði tækifærið til að kenna eðli smáborgaraháttarins, mikilvægi góðrar næringar, neysluvenjur, rekstur heimilis og mikilvægi frelsis og sjálfstæðis. Svo ræktaði hún sitt dýra kál, seldi í KRON og Sölufélag garðyrkjumanna og sauð niður afganginn til vetrarins. Mamma var græn í hugsun og svo var það auðvitað alveg sjálfgefið að Guð elskaði afstöðu hennar og starf. Kartöflurnar hennar voru betri en annarra, kálið hennar stórvaxnara og ljúffengara en í búðinni. Mamma var í leynibandalagi með Guði, sem skapar og elskar fólk sem ræktar og hefur áhuga á lífríkinu. Svo fengu nágrannarnir sendingu úr garðinu þegar haustaði, ekki til að breyta hugsun þeirra, heldur af því maður deilir með öðrum gæðum garðs og heims. Ræktun er siðlegt mál og félagslegt.

Svo var ramakvein og harmað á Tómasarhaganum þegar mamma nálgaðist nírætt og treysti sér ekki lengur til rækta í öllum 500 fermetrunum eins og áður. Þá tók hún skrefið og seldi garðinn. En hún átti enn horn í gömlu lóð afa míns og ömmu, Litlabæjarlóðinni. Mamma tók svo upp úr þremur kartöflubeðum síðasta haustið sem hún lifði! Grænt er sálarvænt.

Guðspjall dagsins og boðskapur Biblíunnar varðar líf og ræktun og að mannlífið væri tengt lífgjöf Guðs. Mamma þekkti gleðiboðskap Jesú að lífið þarfnast næringar og alúðar. Plöntur og menn þarfnast heilbrigðs samhengis. Menn þrífast best þegar flæði lífsnæringar er óheft. Guð ræktar vel og mennirnir njóta. Skírnarþegi dagsins er alinn upp í ræktuðu samhengi garðsins hennar mömmu. Í moldinni urðu máttarverk, allt ræktaðist vel og hluti af áburðinum voru elskulegar bænir móður minnar. Júlía Ósk er blessuð í dag og fjölskylda hennar líka. Ég held að græn elska mömmu lifi enn og bænirnar hennar skili enn blessun. Já blessun fylgi Júlíu sem er óskabarn og öllu hennar góða fólki. Ræktunin heldur áfram.

Mennskan og bernskan

Eitt af bestu og litríkustu ævintýrum lífsins er að fylgjast með þroskaferli barna. Það er ekki aðeins skemmtilegt að vera með þeim heldur getum við lært margt af þeim því þau eru fundvís á aðalatriðin. Og börnin nærast af samskiptum, þau þrá samtöl og nánd og gefa mikið af sér. Það staðfesta væntanlega foreldrar og ástvinir fermingarungmennanna sem sögðu já áðan. Og flest hér í kirkjunni í dag hafa einhvern tíma hlegið með börnum og furðað sig á skerpu þeirra.

Spurningar og niðurstöður barna hafa löngum orðið mér íhugnarefni. Texti dagsins minnti mig á samtöl við drengina mína fyrir nokkrum árum. Þó ungir séu hafa þeir lengi fylgst með íþróttum og ofurhetjum íþróttanna. Fyrir nokkrum árum hófu þeir nákvæmar rannsóknir á öllum helstu hetjum knattspyrnuheimsins. Þegar þeir voru búnir að skoða boltatækni og youtube-klippurnar af Messi og Ronaldo vildu þeir ræða um hvernig þeir væru og hvað væri innan í þeim líka. Þeir spurðu mikilla spurninga: „Pabbi, er Messi góður maður?“ „Er Ronaldo góður maður?“ Og þar sem pabbinn var og er bæði hrifinn af fóbolta og stóru lífsspurningunum urðu umræðurnar fjörlegar. Við ræddum um hvað það væri að vera góður maður og um félagsþroska, hjúskaparstöðu og barnamál fótboltakarlanna. Hafa þeir bara töfra í tánum eða hafa þeir líka orðið góðir í samskiptum við annað fólk og sjálfa sig. Kunna þeir að nýta fjármuni fyrir fleira en spilakassa og dót? Í samtölunum kom fram að mínir drengir voru að máta sig, reyna að móta sér skoðanir um hvað væri eftirsóknarvert. Fyrirmyndin var metin til að móta eigið sjálf og markmið.

Hlutverk allra manna er að þroskast og verða að manni. Og siðfræðin er ekki aðeins fag nörda í heimspekideild og guðfræðideildum háskólanna heldur kemur við sögu snemma í bernsku flestra. Góður maður? hvað er það og til hvers? Er þetta mál og spurning sem varðar þig og þitt líf? Hefur þú þörf fyrir að íhuga stöðu þína og hvað þú ert og hvað þig langar til?

Lið Jesú
Lærisveinar voru fyrirmyndir frumkirkjunnar. Rit Nýja testamentisins veita innsýn í veröld þeirra. Á öllum öldum hafa síðan komið fram einstaklingar, konur og karlar, sem hafa þótt skara framúr í rækt og iðju trúarinnar. Þessir einstaklingar hafa verið fyrirmyndir. Um þau hafa verið sagðar sögur til að veita öðrum hugmynd um hvernig eigi og megi lifa og til að vel sé lifað. En dýrlingamyndir helgisóknar fyrri alda hafa misst samhengi. Og ef ofurhratt er farið í menningarsögu vesturlanda á tuttugustu öld þá féllu “heilagir sérvitringar“ úr tísku en aðrir tóku við. 

Á öllum tímum verða einhverjir í úrvali athyglinnar. Hetjurnar þjóna einhverju hlutverki, ef ekki siðferðilegu, þá þjóðernislegu eða peningalegu. Þegar ég var barn voru leikaramyndir algengar og við krakkarnir skiptumst á myndum af Brigitte Bardot, Roy Rodgers og Sophiu Loren rétt eins og síðar var skipst á myndum af knattspyrnugoðum. Dýrlingarmyndir miðalda fengu framhald í leikaramyndum og myndum af popgoðum. Íkónar samtímans eru fótboltakappar og aðrar ofurhetjur. Þegar íkónar himins hverfa verða til nýir himnar en þó innan þessa heims.

Í leit að mennsku

Börn leita þroska og við erum svo innréttuð að við leitum að merkingu og meiningu með lífinu. Allir krakkar og á öllum aldri þurfa eitthvað meira en ofurþjálfaða fótboltafætur. Allir leita hamingju og lífsfyllingar. Og hjörtun eru söm hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu – hjörtu okkar eru óró þar til þau hafa fundið hina dýpstu sælu sem seður sál og líf. Það er alveg sama hvað menn puða við að blekkja sig með ytri nautnum, ytri velsæld, völdum, sjálfsdýrkun og hossun eigin gildis. Allir leita merkingar og tilgangs í lífinu. Og fermingarungmennin sem sögðu já í dag vinna að hamingju sinni. Og við erum öll í sömu sporum og þau – alla daga.

Guðspjallið
Inntak guðspjalls dagsins varðar það mikla mál að vera manneskja. Jesús sagði snilldarsögur til að skerpa vitund fólks um hlutverk í lífinu. Og sagan er um að einn er skipaður fyrirliði og fær stjórnunarhlutverk. Og svo þegar viðkomandi eru orðinn stjóri þá vakna siðferðisspurningar og ýmsir möguleikar gefast til að misnota aðstöðu sína og stöðu. Hvernig er innrætið? Misnotar ekki fólk yfirleitt stöðu sína og vald? Alla vega þau, sem aldrei hafa fengið önnur skilaboð en þau, að markmið lífsins sé að afla sér mestra peninga, sinna hvötum þegar færi gefst og reyna að koma sér sem best fyrir án þess að vera gómaður. 

Jesús Kristur var mannþekkjari og sagði stundum sögur um sjálfhverfvert fólk. En Jesús þráði að við yrðum öll þroskaðir einstaklingar sem værum  ekki bara upptekin af sjálfum okkur heldur því að efla lífið í kringum okkur.  

Gildi einstaklinga er ekki einskorðað við innangildi heldur tengslagildi. Manneskjan er dásamleg sem einstaklingur en verður þó ekki til nema í tengslum. Þau tensl varða jafnvægistengsl hins andlega og líkamlega, einstaklings og hóps, manneskjulífs og lífs í náttúrunni. Og enginn verður alheill – skv. túlkun kristninnar – nema í heilum tengslum við lífgjafann sjálfan, Guð. Þetta er inntak lífslistarinnar. Guð elskar og við klúðrum öllu nema við lifum í því ljósi. Við græðum ekkert með því að hugsa aðeins um eigin hag heldur sjá okkur í heild, gegna stöðu okkar með stæl og njóta þess að þjóna. Og endanlega erum við tengd lífinu, gegnum ábyrgð og eigum ekki að drottna heldur vera í tengslum. Það er skikkanin og þannig fer best. Allt hitt eru misnotkun, ofbeldi, vonska. 

Aðalmálið er að vera góð manneskja. Það eru ekki aðeins litlir drengir sem spyrja stóru spurninganna. Hvað viltu? Hlutverk þitt er að hætta að lifa í sjálfhverfu núi, læra að njóta hins mikilvæga og axla ábyrgð og iðka lífsholla og lífseflandi ráðsmennsku. Í allri lífsreynslu og átökum hljóma spurningar sem þú mátt heyra og taka mark á: Ertu góð kona? Ertu góður karl? Þetta er sú spurning sem bæði fermingarungmenni og við hin líka þurfum að svara með einhverju móti alla daga ævi okkar. Og Guð heyrir og gleðst þegar við segjum já og tjáum fegurð í lífi okkar í tengslum.

Amen.  

Konungur ljónanna

kon ljónannaFyrir páskana fór ég á leiksýningu Hagaskóla á Konungi ljónanna. Á annað hundrað nemenda gegndu einhverju hlutverki við uppsetninguna, m.a. 22 manna hljómsveit. Þetta var frábær uppfærsla og uppselt á allar tíu sýningarnar. Ég var djúpt snortinn af leik, söng, hljóðfæraleik, dönsum og líka búningum sem nemendur gerðu sjálfir. Ég heyrði ekki aðeins í foreldrum og skólafólkinu heldur líka í fagfólki úr leikhús- og tónlistar-geiranum að sýningin hefði heppnast framar vonum. Það var gaman að fylgjast með ungmennunum sem ég þekki úr fermingarfræðslunni kirkjunni leika, dansa, stjórna, spila, sjá um tæki og tól og þau megnuðu að veita okkur upplifun á dýptina. (Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistarkennari, skólastjórn, starfsfólk og nemendur Hagaskóla eiga hrós skilið)

Að heiman og heim
Konungur ljónanna – hvers konar saga er það? Sagan er byggð á minnum úr Gamla testamnti Biblíunnar – um Móse og Jósep – og rithöfundar hafa um aldir notað frumsögurnar, líka Shakespeare í Hamlet og Macbeth. Konungur ljónanna kom fyrst út sem Disneymynd árið 1994. Þetta er þroskasaga og segir af ungum Simba sem var hugaður, djarfur en líka einfaldur, lét plata sig og gerði hrapaleg mistök. Hann flúði svo að heiman því hann hélt að hann hefði banað föður sínum. Svo eignaðist hann nýtt líf í fjarlægu landi. En hann heyrði svo hve illa gengi heima, allt hafði farið á verri veg. Hann hafði hlaupið frá skyldu sinni og hlutverkum og þar með sjálfum sér. Simbi neyddist til að íhuga hlutverk sitt og stöðu. Þegar hann horfðist í augu við sjálfan sig skildi hann að flótti í lífinu dugar ekki. Allir verða að mæta verkefnum lífsins, þó þau séu hættuleg og erfið. Hið illa má ekki sigra. Hið góða verður ekki nema fyrir því sé haft og barist fyrir því. Flótti leiðir ekki til farsældar heldur aðeins það að axla ábyrgð og hafa fyrir því sem máli skiptir og eflir lífsgæðin. Simbi, Pumba, Nala, Tímon og að lokum allir með ráði og réttri rænu tóku þátt í baráttunni fyrir lífinu. Hið góða sigraði.

Þín saga og þín viska?
Hvað er að lifa með ábyrgð? Það er m.a. að komast aftur heim með þroska að veganesti, verða að fullveðja og ábyrgri mannveru. Konungur ljónanna er kennslusaga, góð í snittinu, aukin með tónlist Elton John og Tim Rice og vel unnin. Það var ánægjulegt að sjá vel farið með stóra sögu og gaman að sjá unglinga túlka svo vel. Í sögunni eru íhuganir um föðurinn, um heiminn, himininn, skyldu, siðferði, ábyrgð, flótta, synd, sundrungu, náttúrusýn, samfélag og hin stóru samskiptastef hvernig lífi þarf að lifa til að farsæld ríki. Og hið illa læðist um og reynir alltaf að ná völdum – en vei því samfélagi sem lýtur vondu valdi.

Móse og einnig Jósep fóru að heiman og gerðu tilraunir. Þeirra þroski skilaði góðu til samfélags þeirra. Biblían segir sögur um venjulegt fólk sem gerð mistök en gekk í sig. Sögurnar eru okkur til styrktar og eftirbreytni. Enginn lifir fyrir okkur, við gerum okkar tilraunir til góðs en stundum líka til ills. Jesús sagði hina frægu sögu af syninum sem vélaði út arf sinn, sóaði honum og kom síðan heim að nýju gjaldþrota hið ytra sem innra. Við honum var þó tekið í Jesúdæmisögunni. Hvernig er þín saga? Fórstu að heiman og gerðir tilraunir með þanþol þitt, fjölskyldu þinnar eða lífsins? Fórstu einhvern tíma að mörkum, dastu jafnvel og hruflaðir þig illa? Elskaðir þú en misstir? Áttir þú einhvern tíma í fangi þér ástvin sem er farinn? Mesta undur lífsins er að elska og vera elskaður. Dýpstu sorgir sem menn lifa er þegar elskurnar deyja eða hverfa.

Möguleikar
Biblían stendur alltaf með lífinu. Sögurnar sem hún segir eru gjarnan um að þrátt fyrir missi, ólán og hörmungar er lífs að vænta. Við megum endurnýjast. Móse sneri aftur til að beita sér fyrir hinu góða. Jósep varð til stórkostlegrar gæfu þrátt fyrir hann yrði ofbeldi að bráð og margs konar órétti. Og boðskapur Jesú var boðskapur guðsríkisins að hin fangelsuðu, sjúku, fyrirlitnu, kúguðu – þau sem væru á röngunni í lífinu – hefðu líka séns. Lífið væri fyrir alla – ekki aðeins forréttindafólk. Biblían kennir að alltaf er möguleiki, aldrei eru öll sund lokuð, aldrei erum við svo djúpt sokkin og aldrei svo fyrirlitleg að við megum ekki snúa við, fara til baka, horfast í augu við ástand okkar eða aðstæður. Aldrei of seint að snúa við – alltaf nýtt upphaf mögulegt. Okkar er vænst, Guð þráir að við verum við sjálf og í sambandi við okkur sjálf, við samfélag og Guð.

Exit?
En svo er það stóri plús páskanna. Saga Jesú er ekki aðeins það að snúa til baka frá Egyptalandi, úr óbyggðinni eða pólitískri klemmu. Saga hans er ekki þroskasaga unglings sem kemur til sjálfs sín og verður að fullveðja og ábyrgum manni. Jesús Kristur dó, öllu var lokið og öll sund voru lokuð. Honum var komið fyrir holu með engri útleið. Bjargi var velt fyrir innganginn og þar með: Ekkert exit – lífi lokið. Sagan var harmsaga. Ramminn var skýr um mörk mennsku, lögmál heims, lífs og dauða. En Guð er stærri en heimur. Lokaður veruleiki sprakk. Í upprisuboðskapnum er komið að mörkum. Í veruleika Guðs eru möguleikar. Höfundur lífsins er stærri en lífslok. Ást Guðs á mönnum og veröld er meiri enn þröngsýni, sjálfsást eða samsöfnuð eyðilegging manna. Lokurnar voru frá og stórheimur Guðs var opinberaður. Jesús var ekki lengur í landi dauðans heldur lífsins.

Guðssaga
Hvað þýðir það? Okkur er flestum blásið í brjóst það hyggjuvit að við getum bætt fyrir afbrot okkar. Áföllin geta verið stór en mörg má bæta fyrir. Við megum rísa á fætur þrátt fyrir að við hrösum eða dettum. En páskarnir eru opnun alls sem er. Dauðinn er ekki lengur helsi lífsins. Hinn lifandi Jesús Kristur hefur leyst alla fjötra og opnað nýtt land og þar með skilning. Í því er plúsinn fólginn. Guð vill leyfa okkur að lifa í mun stærra samhengi en við fáum séð með eigin hygjguviti. Hin góðu tíðindi páskanna er að líf þessa heims er í góðum tengslum við líf himinsins. Þessi heimur er ekki lokaður heldur galopinn. Jesús Kristur er ekki aðeins konungur ljónanna heldur lífsins. Páskasagan er engin þroskasaga heldur Guðssaga.

Í ljósi páskasólarinnar megum við opna allar gáttir sálar og lífs. Leyfa okkur að snúa við í öllum skilningi, leyfa ástvinum okkar að hvíla í öryggi himinsins, sjá okkur í góðum tengslum við tíma og eilífð. Þegar við opnum getum við sagt með ákefð og nýrri von og trú. Kristur er upprisinn – og svarið við því er: Kristur er sannarlega upprisinn.
Amen.

Páskar 2013, 31. mars.

Textaröð: B
Lexía: Jes 25.6-9
Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
 Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
mun hann afmá dauðann að eilífu.
 Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
 Á þeim degi verður sagt:
 Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
 Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
 fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans.

Pistill: 1Kor 15.1-8a

Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
 En síðast allra birtist hann einnig mér.

Guðspjall: Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.