Greinasafn fyrir merki: Þorskur

Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu, capers og ólífusmjöri

Ofurgóður þorskhnakki fyrir sælkera. F. 4.
100 gr smjör
50 gr. jómfrúarolía
6 ansjósuflök
2 msk capers
15 kalamata-ólífur
1/2 chilli-pipar
1 kg þorskhnakki
salt og pipar.
Setjið olíu og smjör í pott og bræðið smjör, lækið hitann og setjið söxuð ansjósflökin út í og látið malla við vægan hita í fimm til sjö mínútur þangað til ansjósurnar hafa bráðnað saman við smörið.
Bætið við kapers, smátt söxuðum chilli-pipar og ólífum eldið í áfram í 10 mínútur.
Skerið þorskahnakka í skammtastærðir og penslið með smjöri, salt og pipra. Grilla hnakkana undir ofngrilli – fiskurinn á að vera rétt ofan við miðjan ofn. Tilbúinn etir sjö-tíu mín. Raða á disk og hella smjöri yfir fiskinn. Berist fram með kartöflum – + grænmeti.
Þessi uppskrift er til í ýmsum útgáfum og með tilbrigðum – mig minnir að ég hafi fengið hana frá lækninum í eldhúsinu. 

Ísraelskur flugfiskur að hætti El AL

Ísrael er orðinn kandídat í keppninni hvert sé besta matarland í heimi. Það er ekki einkennilegt því Ísraelar komu úr öllum heimshornum og tóku matarmenninguna með sér til nýja landsins. Þar hefur svo orðið sambræðsla og besta kokkhúsfólkið lærir hvert af öðru. Svo er Ísrael undraland ræktunar ávaxta og grænmetis og allt er ferskt. Kryddið á mörkuðunum – maður minn – betra verður það ekki. Þessi uppskrift var í flugblaði EL AL þegar ég fór heim. Yfirkokkurinn hjá ísralelska flugfélaginu vinnur stöðugt að nýjum uppskriftum fyrir matinn í háloftunum. Þegar ég vaknaði eftir næturheimkomu skaust ég í Krónuna og keypti í réttinn og eldaði svo fyrir mitt fólk í kvöldmatinn. Þetta er uppskrift frá Ísrael en fyrirmyndin kom upprunalega frá Marokkó. Ljómandi flugfiskur fyrir heimamat.

Fyrir fjóra

700-800 gr. þorskflök – eða annar uppáhaldsfiskur

Tómatdós – vökvinn síaður af

5 hvítlaukrif – skorin

1 chilli – fræhreinsað og niðursaxað

Kóríanderbúnt – niðursaxað

Kjúklingabaunir – dós af niðursoðnum baunum og vökvinn síaður frá

Ein lítil krukka af grilluðum paprikum – saxaðar

Sítrónusafi af einni sítrónu

1/2 tsk cummin

1 tsk reykt þ.e. sætt paprikuduft

1/2 tsk möluð kóríanderfræ

15 gr harissa

10 söxuð hvítlauksrif eða sletta úr krukku með hvítlauksmauki

Salt og pipar 

Mareiðsla

Steikingarolía sett í pönnu. Átti reyndar að vera harissaolía en ég átti hana ekki svo ég notaði góða olíu. Söxuðu hvítlauksrifin setti ég út í olíuna og chilli líka. Steikti lítillega og setti svo allt hitt gumsið á pönnuna og hrærði saman og sauð þar til megnið af vökvanum var gufaður upp. Skildi eftir ofurlítið af sítrónusafa og kóríander til að setja á í lokin áður en rétturinn var borinn fram. Smakkaði til og saltaði og piprði. Þorskinn skar ég í falleg stykki og setti síðan yfir blönduna á pönnunni, saltaði lítillega og pipraði og jós síðan pönnublöndunni yfir fiskstykkin. Sauð síðan fiskinn á pönnunni í 5-8 mín eða þar til fullsoðið var (ekki of lengi). Setti síðan sítrónusafann og skorna kóríander yfir og bar fram.

Ljómandi að bera fram með ristuðu nanbrauði eða súrdeigsbrauði og jógurtsósu. Nú svo vilja aðrir hafa með bygg, hrísgrjón eða bara karftöflur. Vatnsmelónurnar voru víða í Ísrael síðustu vikurnar svo ég saxaði niður helming með. Vatnsmelóna er ekki aðeins bragðgóð heldur poppar upp rétti. Best er að borða svona mat í Ísrael en næstbest að elda heima og borða með fólkinu sínu.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Þorskur í paprikusósu

Þegar ég var búinn að puða í ræðuskrifum síðdegis skaust ég í fiskbúðina og keypti góðan þorsk. Tvistaði fiskuppskrift úr mbl. Skemmtileg uppskrift fyr­ir fjóra.

800 g þorsk­hnakk­ar

100 gr. smjör

1 stór gul­ur lauk­ur

6 hvít­lauksrif

2 rauðar paprik­ur

2 msk. tóm­at­þykkni – pa­ste

2 tsk. papriku­duft – notaði ofurlítið reykta papriku líka

1 tsk sumac

400 gr niðursoðnir tóm­at­ar

300 ml mat­reiðslur­jómi

1 tsk. grænmetiskraft­ur

1 msk. sæta t.d. hunang

salt og pip­ar

fersk­ur graslauk­ur að smekk

kirsu­berjatóm­at­ar

Skerið fisk­inn í pass­lega bita, saltið og piprið létt og setjið til hliðar.

Saxið paprik­ur, lauk og hvít­lauk fremur smátt og steikið á pönnu upp úr smjör­inu þar til allt mýk­ist.

Bætið við kryddinu, tóm­at­þykkni, niðursoðnu tómöt­unum og mat­reiðslur­jómanum á pönnuna og hleypið suðunni upp.

Kryddið með grænmetiskraftinum, sætunni, salti og pip­ar eft­ir smekk og leyfið að malla í 8-9 mín­út­ur eða þar til sós­an þykkn­ar vel.

Leggið fisk­bit­ana í sós­una og ýtið aðeins niður.

Dreifið kirsu­berjatómöt­um yfir eft­ir smekk og leyfa að sjóða við væg­an hita í 6-7 mín­út­ur eða þar til fisk­ur­inn er eldaður í gegn. Hægt að setja lok á pönnuna ef þið viljið að tómatarnir maukist og vökvinn verði meiri í réttinum. 

Stráið síðan fersk­um graslauk yfir og síðan eru herlegheitin borin fram.

Meðlæti góð hrísgrjón og grænt salat.

PS Meðmælanlegt: Hægt að nota sósuna og grænmetið í sósunni daginn eftir í rækjurétt. Tveggja daga matur og góður í bæði skiptin. 

 

Þorskur, harissa og kjúklingabaunir

F 4

800 gr þorskflök

6 msk ólífuolía

1,5 tsk malað kúmmín (cummin)

6 hvítlauksrif – þar af 3 rif kraminn og 3 fínt skorinn

2 gulir laukar – þokkalega fínt skornir

6 kardimommur – kramdar en ekki muldar

1 msk rósaharissa-þykkni (rose harissa)

1 1/2 msk tómatþykkni (paste) eða 300 gr pastasósa (t.d. Gestus)

1 dós ca 400 gr niðursoðnar kjúklingabaunir 

400 ml grænmetiskraftur

kóríander til skreytingar

Salt

Þverskerið þorskflökin í 2-3 cm bita. Blandið saman 4 msk ólífuolíu, kummin, krömdum hvítlauk og salti. Hellið yfir fiskinn og setjið til hliðar í 15 mínútur til marineringar.

Afgangurinn af olíunni á steikarpönnu. Þegar pannan er orðin heit er niðursaxaði laukurinn steiktur, hrært í þar til hann er orðinn meyr og gulllinn. Hitinn minnkaður og saxaði hvítlaukurinn út í og svo kardimommurnar, harissa, tómatþykkn/pastasósan, kjúklingabaunir og 1-2 tsk maldonsalt. Allt hrært saman og leyft að malla í eina mínútu og síðan er grænmetiskrafturinn settur út í og soðið í 3-4 mínútur.

Bæta fisknum ofan á – sullað ofurlítið af vökvanum yfir stykkin – og látið sjóða ca 2 mínútur og þá er fiskbitunum snúið og soðið áfram í nokkrar mínútur þar til fisklaufin falla í sundur. Kardimommurnar veiddar upp úr ef þær finnast! Færið á disk.

Borið fram með salati. Í þessu tilviki var vatnsmelónu-epla-salat haft með. Salatolían með: 1 msk olífuolía, 2 sítrónugrasstilkar, ytri trénuðu laufin kroppuð frá og síðan er afgangurinn fínsaxaður, 5 gr mintulauf, 10 kóríanderlauf, 1/2 tsk sinnepsfræ léttristuð, maldonsalt. 

Fyrir þau sem vilja má rista gott brauð og bera olíu á. Nota brauðið til að moka upp dásamlegu harrissasósunni.

Borðbænin: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Njótið og verði ykkur að góðu.

Uppskrift upprunalega í einni af bókum Ottolenghi en er breytt skv. eigin smekk og ábendingum heimilisfólksins míns.