Greinasafn fyrir merki: Þórður Jón Pálsson

Þórður Jón Pálsson – Minningarorð

Hvernig getum við lifað vel? Arfi okkar breytum við ekki, en við erum þó öll frjáls að hvernig við lifum. “Réttu úr þér” sagði Þórður við þau sem voru bogin. Okkar ábyrgð er að vinna með það, sem gefið er og ávaxta við hæfi. “Af ávöxtum skuluð þér þekkja þá” var slagorð Silla og Valda sínum tíma. Og af ávöxtum Þórðar Jóns Pálssonar getum við þekkt hann. Börnin hans tala fallega um föður sinn, með ljóma í augun. Hann var glæsilegur, já, en gervileiki tryggir ekki gæfu. Gæfan, hamingjan er heimavinna hvers manns. Hann vann vel með sitt.

Skógurinn og lífsmerkin

Þrastarskógur er unaðsreitur, sem flestir þekkja af afspurn, margir hafa horft yfir en of fáir hafa gengið um, því hann er undursamlegur. Vottið Þórði virðingu með því að vitja skógarins, þessa ávaxtar vinnu hans í áratugi. Þar var ræktunarmaðurinn Þórður í essinu sínu, hlúði ekki aðeins að skógarplöntum og sinnti vörslu, heldur kenndi líka fólkinu sínu á lífið, samhengið og veitti þeim gæðatíma.

Elín brosti út að eyrum þegar hún rifjaði upp skógargöngurnar og sagði: “Það var yndislegt að labba á eftir pabba og spyrja hann um blómanöfn. Honum fannst það gaman líka. Einu sinni stóð hann á gati og sagði brosandi: Þetta er Guðnýjarstrá.” Dótturinni þótti merkilegt, að mömmunafnið tilheyrði svona jurt! Þórður hafði í sér þessa hlýju nálgun gagnvart fólki, nemendum sínum, náttúrunni og sjálfum sér að hann gat spunnið fallega, umbreytt skógargöngu í grasafræðslu og svo þegar hann stóð sjálfur á gati hafði hann í sér spunagetu til að vefa elsku til konu sinnar að upplifun stundarinnar. Við getum lifað lífinu með svo margvíslegu móti – þar sem einn sér ekki annað en ómerkilegan graslubba sér annar færi til að hrífast yfir lífinu. Vinnuferð í skógi getur orðið sem undraferð, sem varpar gleði yfir allt lífið ef ferðalangurinn hefur opin huga og vill lifa með gleði.

Ávöxtur og Jesúboðskapur

Fjallræða Jesú er ein frægasta ræða hans og í henni vakti hann meðal annars athygli á trjám, ræktun og árangri. “Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá… …Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.” Hverju skilum við í lífinu? Er það sem við gerum gott eða slæmt, til góðs eða ills? Við erum ábyrg og þurfum að standa skil. Þórður lifði til góðs. Hann var ekki aðeins góður heimilismaður heldur var ávaxtasamur ræktunarmaður í skólasögu og líka í skógrækt þjóðarinnar.

Upphafið og áfall

Þórður Jón Pálsson fæddist 1. apríl 1921 á Eyrarbakka og lést í Reykjavík 12. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðbjörg Elín Þórðardóttir (4. des. 1896 – 25. nóv. 1983) og Páll Guðmundsson (26. september 1895 – d. 5. apríl 1927). Systkinin urðu sjö. Þau er lifa eru Halldór Guðjón (f. 1924) og Pálína (f. 1927). Látin eru Guðmundur Gunnar (f.1919 d. 1997), sem lést fyrir 10 árum, Ingileif en hún dó í bernsku (f. 1923 d.1924), Sigurður (f. 1925) lést árið 1981 og Páll Erlingur (f. 1926) lést árið 1973.

Dauðinn er vissulega nágranni okkar allra. Öll berum við í okkur endanleikann og þurfum að horfast í augu við hann. En misharkalega slær hann okkur. Þegar Þórður var nýorðinn sex ára stóð hann við innsiglinguna á Eyrarbakka og beið Páls föður síns, sem var á vélbátnum Sæfara. Við hlið hans stóð afi. Saman – og með hönd í hönd – sáu þér hvernig báturinn valt og saman gerðu þeir sér grein fyrir að pabbinn dó. Og smám saman gerðu þeir sér líka grein fyrir að lífið yrði ekki samt. Móðir Þórðar gekk þá með sjöunda barn þeirra Páls en eitt þeirra hafði dáið um þremur árum áður. Þeir Þórður og bræður hans urðu strax eftir föðurmissinn að axla aukna ábyrgð til að barnahópurinn sylti ekki. Þeir föluðust eftir vinnu og mikilvæg laun voru fiskur í soðið.

Aðalsteinn fóstri og velgerðarmaður

Alþingishátíðarárið 1930 var tímamótaár í lífi Þórðar. Námsgeta og skapfesta hans hafði vakið athygli Aðalsteins Sigmundssonar, sem var kennari og skólastjóri á Eyrarbakka. Aðalsteinn flutti til Reykjavíkur og bauð Elínu móður Þórðar, að koma honum til manns, sem hún þáði. Það varð honum til happs. Aðalsteinn var mikill menntafrömuður og vildi tryggja að þessi níu ára gamli drengur fengi tækifæri. Hann fóstraði hann og tók hann með sér suður er hann hóf störf í hinum nýja og metnaðarfulla Austurbæjarskóla.

Margir áttu Aðalsteini mikið að þakka og m.a. segir annar nemandi hans, Sigurjón Ólafsson, myndhöggvari, svo frá þegar hann leit til baka á fimmtugsafmæli sínu: “Aðalsteinn … kenndi mér að glúpna ekki fyrir erfiðleikum,“ Aðalsteinn stappaði sem sé stáli í þá, sem hann treysti. Frá Sigurjóni fáum innsýn í þá uppeldisaðferð, sem Þórður naut og skilaði sér fullkomlega, því aldrei varð honum hug- eða handaskortur gagnvart verkefnum lífsins. Það er sama lífshvötin, starfahvatningin sem börnin hans Þórðar fengu síðar. Leti var ekki í boði, verkefnum skyldi skilað og án nokkurra eftirgagnsmuna. Og engin skyldi óttast þótt vandinn væri talsverður, já viðfangsefni lífsins voru ekki til að lama eða veikja neinn heldur efla og styrkja til starfa og lífs.

Nám og flug

Þeir fóstrar Aðalsteinn og Þórður komu sér fyrir í umsjónarmannsíbúðinni í Austurbæjarskólanum. Eftir fullnaðarpróf frá Austurbæjarskólanum fór Þórður vestur í héraðsskólann á Núpi og þaðan í héraðsskólann á Laugarvatni. Hann lauk síðan gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur.

Á æskuárum varð Þórður heillaður af flugi og var félagi í hópi, sem fékk aðstöðu í Þjóðleikhúsinu hálfbyggðu og þar smíðuðu félagarnir svifflugu, sem var svo flutt upp á Sandskeið. Í þessum hópi voru nokkrir af frumkvöðlum flugs á Íslandi. Sumir þeirra fóru vestur um haf til flugnáms og stofnuðu svo Loftleiði. Þórður íhugaði um tíma að fara sömu leið, en var ráðið frá því og hvattur til að láta fremur til sín taka á fræðslusviðinu en í skýjaglópsku, eins og margir álitu að flugið væri.

En auk flugsins gat hann sjálfur nánast flogið af eigin kröftum. Þórður stundaði fimleika í KR og var í sýningarflokki. Eftir stríð fór flokkur hans í frækna sýningaför til Norðurlandanna og Englands. Fimleikarnir stæltu, hann hafði síðan atvinnu af íþróttakennslu og naut hreyfingarinnar með góðri heilsu hið innra sem ytra.

Starfsárin

Árið 1942 varð síðan eitt af mikilvægustu árunum í ævi Þórðar því þá kvæntist hann, eignaðist fyrsta barnið og lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands. Þaðan í frá og til starfsloka starfaði Þórður við kennslu í Austurbæjarskóla eða frá 1942 og til 1983. Veturinn 1949-1950 fór hann til Danmerkur og nam við hinn kunna íþróttaskóla í Ollerup. Þar höfðu margir Íslendingar verið og voru líka síðar. Heimkominn hélt Þórður áfram kennslu bæði í leikfimi og bóknámsgreinum og var yfirkennari Austurbæjarskóla síðustu árin.

Til að sjá sístækkandi fjölskyldu farborða sinnti Þórður ýmsum aukastörfum. Hann kenndi leikfimi í Stýrimannaskólanum í nær tvo áratugi, var þjálfari t.d. í fimleikum og handbolta hjá ýmsum íþróttafélögum. Þórður var alla ævi afar heilsugóður og vafalaust gat hann að einhverju leyti þakkað sér þau gæði sjálfur, því hann lifði heilbrigðu og heilsusamlegu lífi. Eftir að hann lauk starfsskyldum í kennslunni vann hann í Kjötmiðstöðinni í nokkur ár hjá Hrafni tengdasyni sínum sem og við fyrirtæki Kjartans, sonar síns, um tíma.

Guðný og börnin

Lífsförunautur og lífsgæfa Þórðar var Guðný Eiríksdóttir (15. september 1916 – 8. september 1997). Þau gengu í hjónaband 24. maí 1942, nutu barnaláns og eignuðust sex börn. Þau eru: Elín (f. 1942) gift Reinhold Kristjánssyni, Steinunn (f. 1943) gift Hrafni Bachmann, Aðalsteinn (f. 1945) kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóttur, Kjartan (f. 1949) kvæntur Helgu Kristínu Einarsdóttur, Gunnar (f. 1953) kvæntur Hafdísi Kjartansdóttur og Páll (f. 1958) en hann lést á árinu 2006.

Þórður og Guðný hófu búskap á Sólvallagötu 58 í litlu plássi þar sem ástin ríkti. Hópurinn fyllti vistarverur en leigusalinn vildi ekki að þau færu fyrr en þau færu í sitt eigið. Það gekk eftir, Þórður sló ekki slöku við byggingarstörfin og haustið 1950 fluttu þau að lokum í rúmgóða íbúð á Melhaga 5. Þar sköpuðu þau sér góðan reit um hamingju og börn.

Barnaskólinn á Melhaga

Mörgum kom Þórður til manns í kennslunni í Austurbæjarskólanum og margir minnast öflugs kennara. Börnin á Högum og Melum fóru í Melaskóla og þar var þeim raðað í bekki eftir lestrarkunnáttu. Guðný og Þórður gerðu sér grein fyrir að forskóla væri þörf og mörg barnanna þörfnuðust undirbúnings til að verða vel búin til prófs og skóla. Þau stofnuðu smábarnaskóla og starfræktu hann í stofunum heima frá 1951-1970. Allt að tuttugu börn voru að námi samtímis og jafnvel var þrísetið. Að þetta var mikilvægt starf verður ekki efað og þrír forsætisráðherrar Íslendinga fengu sína fyrstu skólakennslu hjá Guðnýju og Þórði.

Skógræktin

Þrastarskógur varð drengnum af Eyrarbakkaströndinni ævintýraveröld. Aðalsteinn, fóstri hans, gegndi þar skógarvörslu. Ungur fékk Þórður að fara með honum. Skógurinn og Þórður áttu síðan langa og farsæla samleið. Hann tók við skógarvörslunni af Aðalsteini og sinnti henni frá 1943-1974. Skógurinn varð sælureitur fjölskyldunnar og Guðný og börnin voru eystra þegar Þórður var að byggja í Reykjavík eða sinna öðrum launastörfum. Ræktarsemi og starf þeirra eystra verður ekki nógsamlega lofað og seint fullþakkað. Þau lögðu jafnvel út fyrir plöntum þegar ekki var fé til kaupa eða greiða strax.

Fyrir hönd þeirra hjóna voru Þórði veitt heiðursverðlaun Skógræktarfélags Íslands árið 1963 fyrir skógræktarstörf. Gullmerki UMFÍ hafa ekki verið veitt nema tveimur utanfélagsmönnum i nær aldarsögu þess. En árið 1985 var Þórður sæmdur merkinu fyrir störf sín í Þrastarskógi. En að baki og með honum var öll fjölskyldan, öll komu þau að plöntun og umönnun skógarins og nutu unaðar og dýrmæta svæðisins, lærðu á Sogið og nutu náttúrfræðikennslu föðurins á vettvangi og fengu ögrandi verkefni að glíma við og fengu innsýn í líf náttúru, lífsbaráttu kynslóða og glímu manna við náttúruöfl. Þau lærðu ekki aðeins að veiða, trjárækt og áralagið, heldur ekki síður hitt sem Þórður kunni svo vel að miðla, að læra áralag lífsins og axla ábyrgð með skyldurækni á sínu ábyrgðarsviði.  

Lund og verk

Þórður var natinn faðir, öflugur uppalandi, traustur í samskiptum og glaðsinna. Hann skapaði ásamt Guðnýju gott heimili og vaxtarreit fyrir börnin. Uppeldið var skýrt og hvetjandi og skammalaust. Honum var mjög í mun að koma börnum sínum til manns. Samheldni og samvinna er afrakstur Melhagauppeldisins. Þórður var traustur í öllum verkum sínum og þótt honum byðust vegtyllur í lífinu tók hann ákvörðun um að fara hvergi frá Austurbæjarskólanum. Hann mat líka frelsið til að vera fyrir austan í skógarvinnunni. Þar hafði fjölskyldan líka gott umhverfi og vettvang við hæfi ungviðisins. Þórður var öðrum fyrirmynd um bindindissemi og hollustuhætti. Hann lagði sig eftir að hafa góð áhrif á uppvaxandi fólk, setti sig á skör með börnum og þau hændust að honum. Hann vildi líka, að menn bæru virðingu fyrir sjálfum sér og líkaminn bæri merki innri ögunar. Hann var orðvar en góður sögumaður, kurteis, hugaður og víllaus, ljúfur en þó ákveðinn. Í hinu ytra bar hann merki innri ögunar, ávallt snyrtilegur. Ameríkanar segja að skórnir segi hver þú ert og skórnir hans Þórðar voru alltaf skínandi vel burstaðir.

Ferðir og missir

Þegar Þórður lauk störfum í Þrastarskógi urðu skil í lífi fjölskyldunnar. Þá fóru þau hjónin að ferðast meira, bæði innan lands og utan. Guðný var ekki heilsuhraust og Þórður gætti hennar vel. Aldrei kom betur í ljós hve natinn hann var við hana en þegar leið að lífslokum. Skil urðu svo þegar hún lést árið 1997 og ári síðar var Melhaginn seldur. Þórður flutti á Aflagranda 40 og bjó þar til æviloka. Þar eignaðist hann góðan vin í Sigríði Kjartansdóttur, sem reyndist honum vel. Börn Þórðar þakka Sigríði vináttu hennar og stuðning, sem hún sýndi honum síðustu árin.

Þrekmennið

Lítil saga var rifjuð upp í síðustu viku sem dregur vel saman mátt Þórðar og er sem táknmynd um styrk hans. Á heitum degi austur við Sog ákvað íþróttamaðurinn að kæla sig ofurlítið. Hann þekkti ána, hafði oft tekið sundtökin og meira segja einu sinni kafað til að bjarga gaddavírsrúllu sem hafði dottið útbyrðis og var á marga metra dýpi. Hann lagði fötin frá sér á bakkann, óð út í á og synti. Þegar hann var komin langleiðina yfir á fékk hann kuldakrampa, náði þó að velta sér á bakið og kraflaði sig upp á bakkann. En þá var honum vandi á höndum. Átti hann að ganga skólaus og berstrípaður niður á brú og síðan langa leið heim í hús, mæta öllum vegfarendum á Adamsklæðunum og reyna bera sig vel? Það þótti Þórði ekki fýsilegt og hann vissi að hann fengi annað krampakast ef hann synti að nýju yfir. Af tveimur kostum var sá síðari skárri og þann tók hann. Fékk krampann á leiðinni en náði landi. Hann var vaskur en þó ekki fífldjarfur, þekkti mörk sín og vissi hvað hann mátti leyfa sér.

Í Þórði Jóni Pálssyni er genginn góður og öflugur maður, sem bar ríkulega ávexti í einkalíf, kom sínu fólki og gríðarstórum hópi nemenda til manns. Hann þjónaði ræktun lands einnig. Hann var því einn af hinum mikilvægu vormönnum Íslands sem lögðu grunn að velferð og ríkidæmi þjóðarinnar. Í honum bjó andleg festa sem hann stælti alla tíð. Þórður mætti hverri raun sem viðfangsefni til að glíma við. Sálarstyrkur hans, lífskrafturinn, blasti við í víllausri afstöðu hans til manna og málefna. Kyrra hans, óttaleysi og umhyggja eru til fyrirmyndar þeim sem eftir lifa. Trén hans lifa, blöð og barr syngja lífssálma sína austur í Þrastarskógi, og afkomendur hans mega draga heim lærdóm frá Þórði, axla ábyrgð, leyfa hlátri, nánd, skemmtun og styrk hans verða til lífsauka. Okkar er að lifa vel og iðka mennsku okkar, vera ávaxtasöm. Guð geymi Þórð og varðveiti ávallt í eilífð sinni.

Neskirkja 22. janúar 2008

Æviágrip Þórðar Jóns Pálssonar.

Þórður fæddist 1. apríl 1921 að Leifseyri á Eyrarbakka og lést í Reykjavík 12. janúar 2008. Foreldrar hans voru: Guðbjörg Elín Þórðardóttir húsmóðir f. 4. desember 1896 í Reykjavík d. 25. nóvember 1983 dóttir hjónanna Ingileifar Tómasdóttur og Þórðar Sigurðssonar trésmiðs í Bræðraborg í Reykjavík og Páll Guðmundsson vélstjóri f. 26. september 1895 í Eyrarbakkasókn d. 5. apríl 1927 sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar rokkasmiðs á Eyrarbakka og konu hans Guðrúnar Þorgrímsdóttur. Eftirlifandi systkini Þórðar Halldór Guðjón f. 1924 og Pálína f. 1927, en látin eru Guðmundur Gunnar f.1919 d. 1997, Ingileif f. 1923 d.1924, Sigurður f. 1925 d. 1981, Páll Erlingur f. 1926 d. 1973. Eiginkona Þórðar var Guðný Eiríksdóttir. Þau gengu í hjónaband 24. maí 1942. Guðný fæddist að Smærnavöllum í Garði 15. september 1921 d. 8. september 1997. Foreldrar hennar voru Guðrún Sveinsdóttir f. 1875 d. 1969 og Eiríkur Guðmundsson f. 1869 d. 1933 útvegsbóndi. Guðný átti 5 systkini sem öll eru látin. Börn þeirra eru: Elín f. 1942 gift Reinhold Kristjánssyni, Steinunn f. 1943 gift Hrafni Bachmann, Aðalsteinn f. 1945 kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóttur, Kjartan f. 1949 kvæntur Helgu Kristínu Einarsdóttur, Gunnar f. 1953 kvæntur Hafdísi Kjartansdóttur og Páll f. 1958 d. 2006 ókvæntur. Þórður og Guðný hófu búskap að Sólvallagötu 58 en haustið 1950 fluttu þau að Melhaga 5 þar sem þau bjuggu eftir það. Ári eftir að Guðný dó flutti Þórður að Aflagranda 40 og bjó þar til dauðadags. Þórður var hjá móður sinni til ársins 1930, en þá fluttist hann með Aðalsteini Sigmundssyni, til Reykjavíkur og bjuggu þeir í Austurbæjarskólanum. Eftir fullnaðarpróf frá Austurbæjarskólanum fór Þórður fyrst í héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og svo í héraðsskólann á Laugarvatni. Gagnfræðaprófi lauk hann árið 1939 frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1942. Veturinn 1949-1950 nam hann við Íþróttaskólann í Ollerup í Danmörk. Þórður var kennari við Austurbæjarskólann frá 1942 til 1983, kenndi bæði bóknámsgreinar og leikfimi. Síðustu árin var hann yfirkennari við skólann. Þórður kenndi einnig leikfimi í Stýrimannaskólanum og á árunum u.þ.b. 1942-1960 var hann þjálfari hjá ýmsum íþróttafélögum m.a. í fimleikum, handbolta o.fl. Í nokkur sumur á yngri árum. var Þórður í byggingarvinnu, vinnu við höfnina o.fl. svo og einnig á ýmsum síldarbátum m.a. Ólafi Magnússyni frá Keflavík. Þórður starfrækti smábarnaskóla að Melhaga 5 veturna 1951-1970 og var skógarvörður í Þrastaskógi, skóglendi UMFÍ, sumrin 1943-1974. Við bæði þessi störf naut hann dyggrar aðstoðar Guðnýjar eiginkonu sinnar. Þórður dvaldi mörg sumur sem drengur í Þrastaskógi með Aðalsteini Sigmundssyni, og hann tók við skógarvarðarstarfinu eftir Aðalstein. Þórður hlaut heiðursverðlaun Skógræktarfélags Íslands árið 1963 fyrir skógræktarstörf í Þrastaskógi og gullmerki UMFÍ árið 1985 fyrir störf sín í Þrastaskógi og er hann annar tveggja utanfélagsmanna sem hlotið hafa gullmerki UMFÍ í nær 100 ára sögu þess. Á fyrstu árum svifflugs hér á landi um 1935 var Þórður í hópi ungra manna sem mættu flest kvöld í Þjóðleikhúsinu sem þá var hálfbyggt og smíðuðu svifflugu sem þeir fluttu síðan upp á Sandskeið, þar sem þeir æfðu svifflug.  Þórður var með svifflugsskírteini nr. 26. Þórður æfði fimleika með KR í mörg ár og fór með fimleikaflokknum í margar sýningarferðir um Ísland og einnig til Norðurlanda og Englands árið 1946. Þórður var meðal fánabera íslenska fánans þegar hann var dreginn að húni í fyrsta sinn á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944.