Greinasafn fyrir merki: Þórður Halldórsson

Fyrsti liður í …

Pabbi var slappur. Hann var lagður inn á Landspítalann þegar farfuglarnir komu og birkið brumaði. Þegar ég vitjaði hans átti hann erfitt með að festa augu á mér eða tjá líðan sína. Það var eins og hann stæði í skugga og hluti persónunnar væri horfinn. Þegar ég kvaddi hann á ganginum sagði hann bless, stóð svo og horfði á eftir mér. Pabbi stóð í sömu sporum þegar ég leit um öxl við enda gangsins og veifaði til hans. Þegar ég rölti vestur Bergstaðastræti hömuðust þrestirnir við hreiðurgerðina í trjánum í Þingholtunum en ég var dofinn af ugg. Daginn eftir dó pabbi, inn í vorbirtuna. Ég var bara 23 ára og allt í einu var tíminn breyttur.

Ég vissi alltaf hvar ég hafði pabba, þekkti næmt fegurðarskyn hans, listást, reglusemi og verkaga. Hann var fyrirsjáanlega fullkominn í mörgu en alls ekki í málum nándar. Hann raðaði skónum óaðfinnanlega, meðhöndlaði bækur eins brothætta dýrgripi og hefði verið skekinn ef hann hefði greitt einhverjum fimm aurum of lítið. Hann stóð alltaf við sitt og öll loforð. Hann var fínn í tauinu, keypti bara vandaða skó – helst Lloyds – og burstaði þá af blíðlegri alúð. Hann umgekkst fólk af tortrygginni virðingu, horfði vel en spurði aldrei um líðan eða viðhorf. Hann sökkti sér í stóru sögur heimsins. Hann hafði áhuga á réttlætismálum og pólitík, fór á sýningar og dró mig með. En hann spurði ekki um túlkun mína. Hann hafði engan áhuga á vinum mínum eða tilfinningamálum unglingsáranna. En ég vissi að hann studdi mig í flestu sem ég bardúsaði. Já, fyrirsjáanlega fullkominn í því sem hann gerði en fyrirsjáanlega ófær um að tjá ást með orðum eða snertingu. Svo þegar hann dó sagði hann bara bless og hvarf af braut sinni í veröldinni. Mig grunaði að eitthvað væri óskýrt og jafnvel ósagt.

Pabbi var traustur en af hverju var hann ekki nálægur? Fór hann á mis við eitthvað í uppeldinu? Kunnu foreldrar hans ekki að strjúka, faðma, hugga, næra og kyssa hvort annað og drenginn sinn? Mér þótti grunsamlegt að pabbi vildi ekki tala um ættfólk sitt og  foreldra. Hann sagðist vera fyrsti liður í ætt en ég skildi að fleiri spurningar mínar væru tilgangslausar og yrði ekki svarað.

Eftir að pabbi lést fór ég að leita að skyldfólki og upplýsingum til að greina erfðir, persónumótun og úrvinnslu. Afi dó ári áður en ég fæddist og amma dó sex árum fyrr. Með hjálp uppflettivefja netsins komast ég að því að afi, kallaður Dóri í bænum, hafði keypt kot á Grímsstaðaholti í Reykjavík árið 1893. Þá var hann kvæntur Sigríði en hún dó eftir stuttan hjúskap þeirra. Nokkrum árum síðar kynntist hann Guðbjörgu ömmu og hún eignaðist tvíbura sem dóu áður en pabbi kom í heiminn. Ártöl og nöfn læddu að mér grun um að afi og amma hafi verið sorgarfólk sem átti jafnvel erfitt með að næra lítinn dreng tilfinningalega. En þau hafa líklega verið vænar manneskjur því þau tóku tvö fósturbörn og komu þeim til manns auk pabba.

Á hverju vori fórum við, fjölskyldan, og hreinsuðum leiði í Suðurgötukirkjugarði og plöntuðum stjúpum og morgunfrúm. Ég hélt að þar væri legstaður bæði afa og ömmu. Það var ekki fyrr en mörgum áratugum seinna að ég komst að því að gröf ömmu var í Fossvogskirkjugarði. Þangað fórum við aldrei. Af hverju? Svo uppgötvaði ég líka að leiði afa var við hlið fyrri konu hans. Þá dagaði á mig að fjölskyldusagan væri óuppgerð. Afi hafði væntanlega elskað þá konu meira en þá seinni. Pabbi tjáði aldrei biturð í garð foreldra sinna því hann talaði aldrei um þau og var bara fyrsti liður í ætt. Ég vissi þó að pabbi var ósáttur við að foreldrar hans studdu hann ekki til háskólanáms. En hafi hann verið þeim reiður orðaði hann ekki slíkar tilfinningar. Foreldrar mínir töluðu mikið saman en pabbi ræddi jafnvel ekki við móður mína um uppvöxt sinn. Hann hafði sjálfur átt konu sem dó barnlaus áður en þau mamma urðu par og eignuðust okkur systkinin. Fyrri hjúskapur pabba var ekki leyndarmál en bernska hans var hjúpuð þögn.

Við systkinin ólumst upp við hefðbundin kynjahlutverk. Mamma var hjarta heimsins og risastór faðmur. En pabbi var dugmikill vinnuþjarkur og sá um efnislega aðdrætti og ytri ramma heimilisins. Hann laðaðist – held ég – að elskugetu og persónustyrk mömmu sem bætti upp getuleysi hans til nándar. Hann varð eins og fylgitungl plánetu. En af hverju varð pabbi svona dulur um tilfinningar en fyrirsjáanlega vandvirkur og traustur? Það fólk er dáið sem getur ráðið fjölskyldurúnir pabba. En arfur hans er ekki horfinn. Ég veit af honum í mér og systur minni og sé nákvæmnismanninn og fagurkerann stundum birtast í viðbrögðum og látæði barna okkar. En frásagnir mömmu og ættmenna, skrásettar minningar fólks og greftrunarstaðir hafa sannfært mig um að pabbi var ekki fyrsti liður í ætt heldur skilgetið afkvæmi sorgar. Afi var bitinn sorg eftir dauða fyrri konu sinnar. Hvernig tókst amma á við missi tvíbura? Kannski hafði afi ekki neitt aflögu hið innra til að styðja hana í missinum? Depurð hefur líklega lamað Guðbjörgu ömmu. Þegar lesið er í tölur um missi, barnadauða, dauðsföll til lands og sjávar er saga afa og ömmu saga langrar sorgarhefðar. Og pabbi var ekki fyrsti hlekkur í keðju sorgarinnar. Hann varð einfaldlega að reyna að lifa af dapurlegar aðstæður. Hann var eina barnið í kotinu á Grímsstaðaholti í mörg ár og varð að spjara sig, mannast, læra störfin og móta sér stefnu. Hann var hvorki strokinn né kysstur en naut ramma, skjóls og fæðis til vaxtar. Hann varð líklega einbeittur reglumaður til að hemja misvísandi tilfinningar. Mamma sá síðar um allt hitt. Pabbi var fyrirsjáanlega skilvirkur og góður í sínu. Svo stóð hann þarna á ganginum á Lansanum og vissi að hann var að hverfa af sporbaug sínum. Skugginn var í augum hans og hann var á leið inn í myrkrið. Hann talaði ekki um tengslin við mig eða ást sína. Hann vissi að fjölskyldufólkið hans myndi lifa af þótt hann hyrfi. Við værum ekki fyrsti liður í ætt sorgar heldur ástar.

Skráð í október 2024. 

Gátan ráðin, uppgötvun dagsins á aldarafmæli!

Í dag gerðum við Elín dásamlega uppgötvun sem gladdi okkur mjög. Og það var mun skemmtilegra að það var í dag en ekki á morgun eða í gær. Já, saga dagsins er aha-saga sem ekki aðeins kætti okkur heldur fjölmarga aðra líka. Við fórum í Hönnunarsafn Íslands til að hlusta á fyrirlestur um heimilishönnun á Íslandi. Söfn eru eins og heimili staðir fyrir fagra hluti en líka furður lífsins og uppgötvanir.

Þá er það inngangurinn. Tveir hestar voru fyrir augum mér og fjölskyldunnar alla bernsku mína. Foreldrar mínir byggðu hús við Tómasarhaga á árunum 1955-56 og vönduðu til alls frágangs, s.s. dyra og kverkaskreytinga. Straumar tímans í innanhúshönnun höfðu áhrif því foreldrar mínir þorðu að nota nýstárlega liti og líka efni á veggi, s.s. flísar á gangvegg. Það sem kannski vakti furðu flestra sem komu á heimili okkar var stór og stílíseruð hestamynd sem máluð var á háan vegg í stigaganginum. Einn svartur og annar hvítur hestur prjónuðu á bleikum veggnum. Allir sáu myndina og margir töluðu um hana því slík ámáluð mynd var ekki í öðrum húsum hverfisins. Þegar ég var búinn að horfa á myndina í mörg ár spurði ég mömmu hver hefði gert hana. Hún sagði að það hefði verið þýskur málari og nefndi þýskt nafn sem ég þekkti ekki. Og ég gleymdi nafninu.

Svo kom að því að veggirnir á stigaganginum voru orðnir óhreinir og málningin talsvert máð. En hvað átti að gera? Mála yfir hestamyndina? Nei, það vildi mamma ekki og það var tímafrekt nákvæmnispuð að mála með fínum pensli að útlínum hestanna. En það hófst. Þegar mamma dó var íbúðin svo seld og raunar þrisvar síðan en hestamyndin sérstaka hefur lifað af hræringar tímans og endursölur íbúðarinnar. Nýir eigendur hafa vilja halda í myndina og því ekki málað yfir. En oft hefur verið rætt um hver hafi teiknað hana, af hverju og í hvaða samhengi.

Og þá erum við komin að ferð okkar í hönnunarsafnið í Garðabæ. Auglýst hafði verið að Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður safnsins, myndi segja frá sýningarmunum. Við ákváðum að fara, vorum eiginlega dregin áfram. Þegar við vorum búin að skoða safngripi benti Sigríður á skemmtilega muni Einars Þorsteins arkitekts og hönnuðar. Svo sagði hún að þó það hefði ekki komið fram í auglýsingu væri dagurinn merkilegur því verið væri að rannsaka verk hönnuðar Hótel Sögu. Þar sem hann ætti aldarafmæli í dag, 22. október, væri við hæfi að við fengjum að kynnast vinnu safnins við skráningu og myndatöku á verkum þessa manns. Við færðum okkur í annað rými og sáum blöð á vegg með skissum og myndum. Ég hugsaði strax með mér – hmmm þýskur teiknari og hönnuður á Íslandi! Gæti verið að þarna væri hestamálarinn kominn? Strax sá ég að hann hafi verið snjall teiknari og ljóst að hann málaði áhugaverðar myndir á veggi íbúða í skissum sínum. Ég benti Elínu á og við vorum spennt að sjá framhaldið. Ég færði mig innar og þar var hún! Fyrirmyndin að hestamyndinni á Tómasarhaga 16. Ljómandi vel teiknuð mynd af prjónandi svörtum og hvítum hestum með brúnbleikan bakgrunni. Blaðið var grófrúðustrikað og augljóslega til að hægt væri að stækka myndina án þess að raska hlutföllunum. Þessi fundur frummyndar og teiknara var eins og stórkostleg uppgötvun – kraftmikil tenging nútíðar og bernsku. Tímamismunurinn upphafinn í gleði uppgötvunarinnar.

Teiknarinn hét Lothar Grund. Hann var þýskur og fæddist árið 1923 og kom til Íslands um 1950 og hafði atvinnu af leiktjaldamálningu og teikningu. Hann hafði mikil áhrif á innanhúshönnun Hótel Sögu á árunum 1961-63. Lothar teiknaði logó hótelsins, útiskilti, matseðla og prentefni og gerði skissur að húsgögnum, fyrirkomulagi og flestu því prýddi Bændahöllina og hótelið innan dyra. Hann teiknaði t.d. barinn sem var seldur nýlega til Vestmannaeyja, líka stjörnumerkjahringinn í lofti Grillsins og flest annað sem hannað var fyrir þetta stórhýsi sem nú er í umsjón HÍ.

Frummyndin sem við sáum á hönnunarsafninu var gerð 1956. Lothar Grund málaði hana strax á steinvegginn því hún var komin þegar við fluttum inn síðla sumars það ár. Hann hefur líka verið ráðgefandi um litina sem foreldrar mínir ákváðu að nota því litapaléttan var öðru vísi en í öðrum húsum á svæðinu. Ég horfði á skissur Lothars Grund á hönnunarsafninu og þekkti litina í íbúð okkar frá vinnuskissunum og myndunum sem okkur voru sýndar í Garðabænum.

Af hverju hestar? Kannski var Lothar Grund áhugamaður um hesta? En ég sá þó enga hesta í skissum fyrir höll bændanna! Það var enginn sérstakur hestaáhugi á bernskuheimili mínu en hestar voru til og notaðir á uppeldisheimilum beggja foreldra minna. Foreldar pabba bjuggu í steinbæ sem nú er Tómasarhagi 16b. Afi var vatnspóstur í Reykjavík og því var hesthús aftan við húsið sem pabbi byggði í landi foreldra sinna. Kannski var myndin í stigaganginum virðingarvottur um búskaparhefð ömmu og afa? Eða kannski bara passaði hestamyndin vel lögun gangveggjarins? Hver veit?

Lothar átti aldarafmæli í dag og fékk þessa tengingargjöf. Gleðin hríslaðist um okkur Elínu að finna frummyndina. Bóel Hörn Ingadóttir er að skrá og ljósmynda verk Lothar Grund og henni og Sigríði þótti þetta skemmtileg afmælisgjöf til Lothars á aldarafmæli hans.

Kannast einhver ykkar sem lesið þessa frásögn við fleiri verk Lothars Grund í heimahúsum? Ef svo er, vinsamlegast hafið samband við starfsfólk Hönnunarsafns Íslands. Það er að safna upplýsingum. Takk Sigríður og Bóel fyrir okkur og til hamingju með Lothar Grund 100.

Upplýsingar um Lothar Grund, fjölskylduhagi og verk má lesa í minningargreinum í Morgunblaðinu um hann sem eru að baki þessari smellu.  Þar kemur fram að Lothar var kvæntur Önnu Þorbjörgu Halldórsdóttur. Þau eignuðust synina Pétur Adólf Garðar, Atla Halldór og Alfreð. Þegar ég var búinn að birta frásögn hér að ofan fékk ég að vita að Anna Þorbjörg tengdist Sigurði Skarphéðinssyni, vini föður míns, sem tengdi Lothar og hann saman. Og svo fóru prjónandi hestar á veginn.

Grein um Lothar Grund er í Tímanna safn, hátíðariti Landsbókasafnins, sem kom út 2024.