Er KR nefnt í Biblíunni? Tobbi var svo ákveðinn KR-ingur að honum hefði þótt eðlilegt, alla vega skemmtilegt – að Heilög Ritning hefði nefnt svo mikilvægan félagsskap í veröldinni. Frá bernskudögum var honum ljóst að KR væri gott fyrir gleðina, skrokkinn, hláturinn, tilfinningarnar – já svo maður tali nú ekki um ástina og hjónabandið.
KR – við stöndum saman allir sem einn. Það er eitthvað verulega trúarlegt í því dæmi – já gott félag, sem þjónar fólki, gefur því samsemd, eflir unga fólkið til dáða, kennir að taka á, reyna á sig, stefna að marki, vinna sigra, sigra sjálfan sig, halda utan um hina sem ekki eru eins stekir, eflir fólk til að þjóna æðri gildum, þetta eru allt mikilvæg atriði sem trúin miðlar og góð félög og hópar í veröldinni spegla með einu eða öðru móti. KR er því þarna í Biblíunni og KR er þarna í miðjunni því þetta eru fyrstu stafirnir í nafni Krists.
Í kirkjum veraldar eru til stafirnir KR því í táknmáli kirkjunnar er það sem fólk les sem xp – það er KR skv. gríska stafrófinu. En KR lifir ekki án fólks, án samfélags. Og eins er það með KR-ið í Kristi – það er í samhengi kirkju, sögu, Guðs, veraldar og himins. KR er undur í Vesturbænum og svo er hið himneska KR í veraldarsögunni og Guði. Þetta tvennt fer ágætlega saman – og þannig var það í lífi Tobba, hann var öflugur, þjónaði sínu fólki, lagði rækt við félagið sitt, lagði sitt af mörkum til lífsins og hlaut og hlýtur því sigurlaun.
Uppvöxtur
Það þarf stóran hóp af fólki til að ala upp eitt barn. Í Afríku segir að til að manneskja verði til þurfi heilt þorp. Og eiginlega var það þannig þar sem Þorbjörn Friðriksson varð til og komst til manns. Hann var vormaður, fæddist þann 22. apríl 1934. Foreldrar hans voru Friðrik Einarsson og Hannesína Rut Þorbjörnsdóttir. Þau bjuggu börnum sínum heimili í Framfarafélagshúsinu, Vesturgötu 51C. Þorbjörn var elstur og systkini hans eru Friðrik, Guðbjörg og yngst er Þórunn. Heimilislífið var gott og gjöfult.
Vestast í Vesturbænum var líflegt mannlíf. Stórir barnaskarar voru til samfélags og gleði. Stutt var niður að höfn, upp að Landakoti, vestur í Örfirisey og niður í bæ. Strákarnir fóru í KFUM á sunnudögum. Tobbi var svo í 9 sveit í KFUM að auki og fór til fundar með félögunum. Stundum var komið við í sælgætisverksmiðjunni á leið á fund, vasarnir fylltir kannski umfram þarfir og leyfi og svo var kyrjað Áfram kristsmenn krossmenn af krafti. Vel sykraðir og súkkulaðikynntir strákar gátu aldeilis sungið: Rís upp með fjöri og stíg á stokk og streng þess heit að rjúfa eig flokk, uns sigri er náð og sagan skráð… segir í þeim söng. Þetta var sama fjörið og krafturinn og í KR.
Tobbi eignaðist í æskuvinum félaga fyrir lífið. Þessir strákar fyldust að. Í þeim bjó andi vaskleika og kappsemi, allt sem þurfti til afreka, enda var þeim eiginlegt og eðlilegt að stunda alls konar íþróttir. Þeir hlupu mikið og margar hringleiðir voru til í hverfinu. Þeir stunduðu margar greinar íþrótta og bolta var sparkað á lóðum og opnum svæðum. Svo voru íbúar í húsunum umburðarlyndir og kipptu sér ekki mjög upp við þó þessir snillingar spörkuðu nær því göt á húsveggina. Það var víst ekki alltaf svefnsamt fyrir kvöldsvæfa þegar buldi í húsunum sem urðu fyrir þrusunum. Svo þurftu afreksmennirnir gott og nærandi fæði og þegar fór að hausta var farið í garðana, þeim var jú nauðsynlegt að taka toll af heilsufæðinu rófum, næpum og rabbarbara.
Tobbi byrjaði snemma að vinna eins og hans kynslóð. Hann hafði ekki hug á sjómennsku, en var þó munstraður á grásleppu. Svo fór hann að vinna í kirkjugörðunum á sumrum og var snemma treyst til alvöruverkefna eins og hann væri fullorðin og vel harðnaður. Þá kom strax í ljós stefnufesta og persónustyrkur hans. Íþróttirnar áttu líka hug hans allan og hann varð einn af gulldrengjum KR, einn af bestu mönnum í fótboltanum og í handbolta. Meðan hann var í 2. flokki í var hann valinn í meistaraflokk í báðum greinum. Það eru ekki nema afburðamenn sem það leika. Tobbi varð Íslandsmeistari í knattspyrnu 1952 og 1955.
Mestu sigrarnir og mestu áföllin sitja gjarnan í minni. Oft átti Tobbi góða leiki, hann var lunkinn spilari, markheppinn. Meira að segja Google hefur upgötvað það. Kannski var mikilvægasta mark hans ekki þegar KR sigraði í Reykjavíkur- eða Íslandsmóti, heldur þegar hann tók örlagaríkustu vítaspyrnu sína á ævinni haustið 1957. Hann var ekki vítaskytta liðs síns og átti því ekki að taka spyrnuna, sem skar úr um hvort KR félli niður um deild. Vítaspyrnumaður liðsins treysti sér ekki til að skjóta en Tobbi var ekki í vandræðum: “Látið mig um þetta” og skoraði auðvitað af öryggi. KR fékk annan séns, hékk í deildinni og blómstraði svo árið eftir og þar með var stefnan tekin á gull næstu ára. En vegna meiðsla hætti Tobbi fyrr í fótbolta en annars hefði orðið. Þegar hann var búinn að ná sér sneri hann sér að handboltanum á ný og varð Íslandsmeistari í handbolta innanhúss, í eina KR-hópnum sem það hefur afrekað.
Elín og drengirnir
Afrek Þorbjörns í KR eru eðlilegt umræðuefni, en þá kemur Elín einnig strax við sögu. Meðan hann var að eltast við tuðruna upp á Melavelli var hún að æfa frjálsar. Hann hefur séð hana þegar hann tók einhverja aukaspyrnuna og hún hann þegar hún kastaði mæðinni. Þau voru ekki eitthvað svart og hvítt heldur sáu hvort annað. Svo í álfadansi við álfabrennu á Melavellinum kom hann til hennar og spurði hana, hvort hún vildi dansa við sig. Það var ekkert álfalegt við það þótt hún væri bara fimmtán og hann sautján. Svo fór hún að sækja KR-böllin og þau dönsuðu sig inn í hjónaband og hafa stigið í takt alla tíð síðan. Það hefur verið lán þeirra beggja, alla tíð hafa þau verið samhent og hjúskapurinn ástríkur, hamingjuríkur og gjöfull.
Þau Elín Helgadóttir og Þorbjörn gengur í hjónaband 7. desember árið 1957. Þau eignuðust tvo syni. Friðrik er hann kvæntur Huldu Mjöll Hauksdóttur. Þau eiga þrjú börn. Helgi Magnús er hinn sonur þeirra Elínar og hann tvö börn. Drengirnir, börn þeirra, afkomendur og ástvinir urðu þeim Þorbirni og Elínu miklir gleðigjafar. Fjölskyldan bjó um tíma á Víkingssvæðinu inn í Stóragerði, en svo fluttust þau á Kaplaskjólsveginn og síðan voru þau þau Elín síðustu árin á Boðagranda. Þorbjörn var mikill fjölskyldumaður og einstaklega natinn afi.
Víkingsprent og prentarinn
Þorbjörn lærði prentiðn og hafði af þeirri iðju atvinnu. Hann vann lengstum í Víkingsprenti og varð einn af eigendum. Þar var hann með félögum sínum og vinum. Þeir höfðu metnað til stórvirkja og Þorbjörn og félagar gátu prentað glæsilega prentgripi eins og listaverkabækur. Lagni, þolinmæði og metnaður Tobba naut sín í prentinu eins og í öllu öðru sem hann tók sér fyrir hendur.
Þjónusta – fórnfýsi og hrífandi fyrirmynd
Það skal fúslega viðurkennt, að mér fannst gaman að hlusta á afkomendur, ástvini og félaga Þorbjörns lýsa honum. Prakkarasögur uppvaxtaráranna voru hrífandi, gáskasögurnar kættu, en eitt af því sem vermdi hið innra og jafnframt hefur orðið mér íhugunarefni þessa síðustu daga er fórnfýsi Þorbjörns og Elínar, hvernig þau hafa alla tíð verið vakin og sofin að stuðla að velferð og viðgangi KR, heiðri þess, og uppbyggingu. Afrek þeirra voru mikil á vellinum en utanvallarafrekin ekki síðri. Þau tóku að sér ótrúlega mörg verk til að styrkja félagið. Blásið var í blöðrur fyrir þjóðhátíðardaginn til að hægt væri að selja til styrktar KR. Prentarinn sá um gerð getraunaseðlanna sem við fylltum út hér á árum áður og Tobbi lagði mikið á sig í getraunamálinu. Þau Elín kunnu vart annað en segja já við beiðnum um að sitja í stjórn þessa eða hins verkefnisins. Þorbjörn vann við framkvæmdir á KR-lóðinni eða þegar eitthvað mikið stóð til, plantaði trjám sem lifa góðu lífi á KR svæðinu og kom að verki þegar unnið var að flóðlýsingu. Kjörorðið “eitt sinn KR-ingur – alltaf KR-ingur” var ekki gaspur eða hátíðaglamur – heldur fremur niðurstaða.
Félagaskipti og félagaflakk var kynslóð og skaphöfn Þorbjörns Friðrikssonar óhugsandi. Allir sem einn – hugsunin var aðalatriði. Ef illa gekk þarfnaðist félagið stuðnings. Ef fjár var þörf varð að vinna. Ef framkvæmda var þörf varð að smala liði. Þegar sigra skyldi var mætt á völlinn og ef eitthvað fór verr en efni stóðu til varð bara að standa þéttar og betur saman.
Þessi ótrúlega þjónusta Þorbjörns er í hnotskurn saga Íslands á tuttugustu öld, saga þess hvernig kraftaverkið Ísland varð til, en líka hvernig fjölbreytilegt félagslíf blómstraði og íþróttahreyfingin styrktist. Líf og starf Tobba – Elínar líka – er hrífandi fyrirmynd um hvernig hægt var að byggja upp stórveldi í íþróttasögu okkar. Og líf hans og allra annarra sem svona hafa lagt lífslóð sín á vogarskálar heilbrigði og lífsgleði er okkur áminning um að fjármunir, eins góðir og þeir eru, geta aldrei komið í stað fólksins. Það er fólkið, það er lífskrafturinn sem er mikilvægastur í lífi mannræktarfélags eins og KR.
Tobbi var fyrirmynd. Hann var ekki aðeins fyrirmynd okkur krökkunum, skemmtilegur og hvetjandi félagi, góður pabbi og stuðningur barna sinna og félaga þeirra heldur hvati okkur hinum að gæta að því hvenig við lifum. Hann minnir okkur á með lífi sínu að lifa vel. Gott líf verður aldrei til ef menn lifa aðeins fyrir sig sjálfa og eru aðeins uppteknir af eigin dýrð og snilli.
Þorbjörn Friðriksson sagði ekki sögur af að hann hefði verið einn af gulldrengjum KR, sagði ekki fræðgarsögur af afrekum sínum fyrr og síðar. Hann hrósaði sér ekki sjálfur en hann var afreksmaður í lífinu, ekki aðeins í keppnisíþróttum heldur í lífsgæðum í því hvenig hann lifði með öðrum, fyrir aðra og til stuðnings öðrum. Það eru svona menn sem skapa mestan auð meðal okkar. Því er hægt að mæra hann og þakka. Það eru mennirnir sem hafa innræti þjónstu sem megna að byggja upp. Þorbjörn Friðriksson var mikilmenni af því hann efldi fólk, samferðamenn og félag til sóknar og afreka. Slíkir eru okkar mestu menn. Hverjir eru mestir og hverjir eru bestir? Við getum hrópað en kannski ættum við að fara lyfta þeim hæst og best sem eru í stuðningsliðinu utan vallar. KR sem og aðrar menningar- og mannræktarhreyfinginar eiga að heiðra þessa snillinga með sýnilegum og ákveðnum hætti.
Sigurlaunin í lífinu
Skil urðu í lífi Tobba upp úr aldamótum þegar alzheimer sótti að honum og andi hans byrjaði að fara á undan líkama hans til Guðs. Og svo verða önnur skil nú. Þar sem er líf þar eru breytingar og álag, í sportinu, í ástinni, í trúnni. Postulinn Páll var sér vel meðvitaður um íþróttir og þær fórnir sem færa þarf til að ná langt. Hann segir á einum stað: “Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. …Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan.”
Já, það verða skil, allri keppni lýkur og bikarar fara í skápa. En góða menn skulum við lofa í lok dags og hylla þá sem bestir eru. Svo er í kappleikjum, hlaupum lífsins, ati daganna ljósbrot af mestu og stærstu keppninni sem til er – lífshlaupið inn í eilífðina. Já, ef KR verður ekki meistari í þeirri keppni hefur Guð búið til leikreglurnar og sent allan skarann út á völlinn. Markið er að við göngumst við manndómi okkar, viðurkennum köllun okkar til að vera eins öflug og við höfum hæfni til. Hlaupa þannig við fáum sigurlaunin. Og það eru engar smádollur í þeirri meistarakeppni.
Nú kveðjum við Þorbjörn Friðriksson, nú sér Elín á bak manni sínu, strákarnir á bak pabba, ásvinir, afkomendur og vinir á bak öflugum manni. Blessið minningu hans með því að vera góðar, öflugar og heilar manneskjur. Munið líka fyrirmyndina í Tobba, þjóna, efla og magna lífsgleðina og skemmta ykkur í leiðinni í góðum hópi. Það verða engar skrautlegar flugeldarsýningar í boði þeirra strákanna framar, engar heilsugöngur lengur, engar ferðir á völlinn eða í golf með honum og hann spyr ekki lengur hvort allir séu í boltanum.
Við vitum ekki hvernig tuðrur himins líta út en sjálfsagt er hægt að þrusa þeim. Og víst er að þar kemur ekkert gat á húsveggi, enginn verður sár og þar mun gleymskan ekki hrjá Tobba, hann mun öðlast að nýju styrk, vitund og gleði. Í trúnni máttu fela Þorbjörn Friðriksson góðum Guði. Hann verður ekki á gamla KR-vellinum heldur í liði Jesú Krists sem er frömuður lífsins á Melavelli eilífðar. Merki þess mikla Kr-ings, Kr-ists, er á enni okkar og brjósti og honum máttu treysta, hans lið er fyrir lífið. Við stöndum saman allir sem einn. Góður Guð geymi Þorbjörn Friðriksson og varðveiti og styrki ástvini hans og vini.
Útför Þorbjörns Friðrikssonar var gerð frá Neskirkju 5. mars, 2009.
Jarðsett var í Fossvogskirkjugarði.
Þorbjörn Friðriksson fæddist í Reykjavík þann 22. apríl 1934. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund þann 25. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Friðrik Einarsson f. 17.03.1911 d. 30.01.1970 og Hannesína Rut Þorbjörnsdóttir f. 11.09.1915 d. 20.06.1976 voru þau búsett í Reykjavík. Systkini hans eru Friðrik f. 06.10.1937, Guðbjörg f. 03.08.1943 og Þórunn f. 09.04.1947.
Þann 07.12.1957 kvæntist Þorbjörn Elínu Helgadóttur f. 08.08. 1936 og eignuðust þau tvo syni. 1) Friðrik f. 09.04.1958 er hann kvæntur Huldu Mjöll Hauksdóttur. Eiga þau þrjú börn a) Elínu f. 27.09.1981 gift Andra Þ. Kristinssyni og eiga þau Eyrúnu Freyju f. 30.03.2007, b) Þórunn f. 1988 og c) Hauk f. 28.07.1994. 2) Helgi Magnús f. 01.09.1962 og á hann tvö börn. A) Önnu Björgu f. 04.05.1986. Hún á tvær dætur Elínu Helgu f. 03.10. 2005 og Emilíu Ósk f. 25.08.2007. b)Þorbjörn f. 01.05. 1992.
Þorbjörn hóf nám í Víkingsprenti 08.04. 1954, tók sveinspróf í prentun 14.06. 1958 og hóf nám í setningu 01.02.1967 og lauk sveinsprófi 05.07.1969. Hann starfaði í Víkingsprenti 1954-1991 bæði sem starfsmaður og meðeigandi en síðar í prentsmiðjunni Umslagi frá 27.08. 1991 til 15.04. 2001.
Þorbjörn var einn af þeim sem með sanni má kalla Vesturbæing. Hann ólst upp á Vesturgötunni og var mikill KR-ingur. Þar mynduðust sterk vinatengsl milli drengjanna í hverfinu sem var upphaf að löngu og árangursríku íþróttastarfi. Í KR æfði hann og keppti í mörg ár fót- og handbolta við góðan orðstír. Þegar Þorbjörn hætti keppni tóku við ýmis störf fyrir KR sem hann vann af ánægju, dugnaði og einlægni. Studdi hann félagið sitt og sína menn í leik og starfi til æviloka. Hann var í gönguklúbbi með gömlu félögunum úr KR og hittust þeir reglulega í félagsheimilinu bæði í tengslum við getraunir og til að spjalla um KR og pólitík, þá var oft heitt í kolunum honum til mikillar skemmtunar. Kjörorð hans voru eitt sinn KRingur alltaf KRingur.
Þorbjörn hafði mjög gaman af veiðum og frá 1988 fóru feðgarnir oft saman til veiða í Brúará. Hann gekk í Golfklúbb Reykjavíkur árið 2000 og stundaði hann golf hér á landi sem og erlendis meðan heilsan leyfði.
Þann 13. 01.2009 fluttist hann á Hjúkrunarheimilið Grund þar sem hann lést 25. 02. 2009.