Greinasafn fyrir merki: þögn

Wilhelm Kempff og svo varð þögn

Fyrstu píanótónleikarnir sem ég sótti sem barn voru einleikstónleikar Wilhelm Kempff í Austurbæjarbíói.  Í lok tónleikanna voru allir í salnum sem lamaðir af mætti tónlistarinnar og snilli píanistans. Eftir að kempan hafði reist alla hina stórkostlegu hljómakastala varð djúp þögn eftir lokahljóminn, eins og gjá sem við sukkum í. Þögnin sprakk síðan í lófataki og háreysti. Tónlistin var stórkostleg, hárið á píanistanum eftirminnilegt, lýrísk túlkun hans líka en þögnin varð þó eftirminnilegasta vídd og fang þessara tónleika. Hún gagntók mig og varð mér íhugunarefni. Tónlist lifnar ekki án þagnar og í því fangi  verður hún  til og snertir sálina. Í þögn fellur allt í skorður í upplifun þess sem nýtur. Einleikstónleikar hafa sérstöðu því tónleikar eru skipulagðir með ákveðnu móti og sólistinn getur stýrt hvenær risið verður mest og hvernig flæði þeirra verður. Við skynjum oft að eftirköst eru hluti ferlis. Eftir mikla atburði og dramatískar aðstæður verður kyrra áleitin og hægt að upplifa hana sterkt.  „Höfg er þögn akursins eftir storminn.” Eftir óveður dagsins verður stjörnubjört hvelfing næturinnar stórkostlegt. Sálin getur farið á flug og orðið að stjörnu á festingunni. Eftir flóðið verður fjara þagnar og íhugunar. Hvað er mikilvægasta augnablikið á lífskonsert þínum? Jú, að þú þagnir, vinnir úr reynslunni áður en þú byrjar að klappa. 

Streita, kyrrð og þögn

Ég var í búðarferð og fór út úr bílnum mínum. Kona kom úr öðrum bíl, lokaði hurðinni, stóð svo kyrr og andaði djúpt nokkrum sinnum. Leið henni illa? Átti ég að skipta mér af? Og ég spurði: „Er eitthvað að?“ Svarið var: „Nei, nei. Ég er bara stressuð og er að reyna að róa mig. Held ég fái mér ís!“

Streita, læti, hraði, asi og hávaði gera okkur takmarkað gott. En það er róandi að draga djúpt andann. Hvað nærir okkur og styrkir? Kyrrð, merking, streitulaus gleði. Ég virði kyrrðarsókn mína. Hún er sterk. Alla tíð hef ég haft þörf fyrir að fara reglulega í hvarf, vera einn með sjálfum mér og alnánd Guðs. En skil urðu árið 1974. Það var sumar í svissnesku Ölpunum austan við Lausanne. Síðhærður hippaprestur með tagl laðaði til sín ungt fólk af meginlandi Evrópu og frá Ameríku. Fjöldinn var slíkur, að byggt hafði verið stórt menntasetur til að koma til móts við leitandi fólk. Þegar klerkur kom til að ræða við hópinn kom í ljós að dagurinn væri bænadagur. Allir voru sendir út í skóg eða upp í hlíð, sem var alveg eins og í Heiðubókinni. Við vorum ein með sjálfum okkur allan daginn og áttum kyrrðardag. Vissulega heyrðum við skröltið í kúabjöllum, fagnaðarsöngva fuglanna og syngjandi vind í stráum. En eingangan, einveran var rík að upplifunum og ég var ekki einn. Frá þessum ágústdegi í Sviss hefur sannfæringin lifað í mér um mikilvægi kyrrðar í lífinu. Jesús fór í óbyggðir til bænahalds, dró sig í hlé til að eiga næði og kyrrð með Guði. Við eigum þar fyrirmynd. Jesúatferli er hagnýtt.

Þagnarflótti

Afþreyingarmenning nútímans gengur á búsvæði kyrrunnar. Umhverfi okkar er mettað ómum, sem deyfa, og léttvægum orðum. Bakgrunnstónlist fyllir almannarýmið og opinberar byggingar. Áthraða fólks á veitingastöðum er jafnvel stýrt með tempóbreytingu tónlistar. Á heimilum eru sjónvörpin í gangi þótt enginn horfi. Streymisveiturnar eru síbyljur. Hávaðinn er alls staðar, á heimilum, vinnustöðum og verustöðum fólks. En hávaði einangrar fólk. Í ómsúpu ruglast samskipti. Orð, sem snerta inntak og dýptir, linast og slappast. Samfundir fólks líkjast kokteilboðum. Hinir dugmestu synda frá einum til annars, tala linnulaust og fara svo. Þetta er orðahríð án eyrna, tiltal en ekki samtal. Hávaði og sýndariðni er leið fólks til að vera. Þegar dagar á fólk, að það lifir í ofgnótt merkingarskerts hávaða læðist að grunur um kyrrð sé heimili merkingar og dýptar. Ofurstressað fólk andar djúpt út á gangstétt. Er best að setja tilfinningar og líðan á ís? Nei í streitu leitar sálin kyrrðar. 

Dýrmæti þagnar

Margir óttast hljóðleysi. Þögn virðist óræð og jafnvel ógnvænleg í takmarkaleysi sínu. Í þögninni virðist ekkert til að styðjast við eða grípa í. Þögn er sem hyldýpi, tóm sem þarf að fylla. En þögnin getur verið góð og hlý. Þögn er ekki aðeins það að láta orðin vera. Þögn getur verið þrungin merkingu, gæsku og gleði. Þögn getur verið full nándar. Þagnar- eða kyrrðarsekúndan eftir að síðasti hljómur góðra tónleika deyr út og áður en klappið hefst er oft þrungnasta augnablik tónleika. Þegar náttúran stendur á öndinni vitjar Guð skepnunnar.

Þögn í trúarlegu samhengi er ekki bragð til að kæfa fólk, heldur vettvangur samtals Guðs og sálar. Þögnin er sá heyrnarstóll, sem við setjumst í þegar við getum talað um það sem máli skiptir. Við Guð tölum við þegar við erum með sjálfum okkur eða í sambandi við dýptir okkar. Þegar við lifum sorg, erum hrifin, efumst eða lifum sálarmyrkur, þegjum við gjarnan. Við þögnum þegar orku þrýtur í lífsglímunum, við verðum fyrir óréttlæti eða heyrum sjúkra- eða andlátsfregn. Sú þögn er frjóakur Guðs. Þá erum við reiðubúin að heyra máttarorð, iðrunarkall, huggunarræðu eða lausnarboð. Þögn getur verið fæðingarvegur til lífs ef við þorum. Það er svo auðvelt að flýja sársauka samvisku eða vitund um hversu vanmáttugur og úrræðalaus maður er á krossgötunum. Til að heyra hvað Guð segir er stundum nauðsynlegt að þola þögnina og hina djúpu samræðu. Þá dagar á mann speki lífsins og möguleikar opnast – nýr tími verður.