Greinasafn fyrir merki: þarfir fólks

Myndin af Jesú Kristi

Kristnir menn leyfa eftirmyndir af Jesú. Því er til fjöldi mynda af Jesú frá öllum öldum. Þær eru misgóðar. En besta myndin af Jesú er ekki til heldur verður Jesús aðeins séður og skilinn á forsendum hverrar tíðar. Mynd Jóhannesarguðspjalls er ein margra Jesúmyndanna, mynd Ágústínusar kirkjuföður önnur og rissa Jóns Vídalíns af Jesú Kristi enn önnur. Fólk sem hrífst af Jesú Kristi eða lætur hann sig einhverju skipta gera sér mynd af honum. Myndirnar eru margvíslegar og spretta fram af mismunandi ástæðum og forsendum. Sumar eru túlkun á trúarreynslu, aðrar vörpun á pólitískri draumsýn hóps og enn aðrar eru siðferðisfordæmi.

Upphafnar Jesúmyndir draga fram himneskt eðli hans og samkvæmt þeim verður Jesús aðallega andleg, upphafin vera. Þetta eru guðhverfu Jesúmyndirnar.

Á hinum vængnum eru mannhverfar myndir og vegna þess að augum er frekar beint til jarðar en himins verður Jesús fremur mannafrömuður en himinfrelsari.

Hver kynslóð lyftir þeim myndum af Jesú sem gefa aðstæðum tímans einhverja túlkandi merkingu. Hin eina og sanna mynd af Jesú er því ekki til nema í veruleika Guðs. En menn leita þess að lifa með hinum guðlega elskhuga, skilja hann og ímynda sér veru hans og eðli. Í samlífinu opinberar Guð ásjónu sína og gefur innsýn í eigindir sínar. Það kalla kristnir menn opinberun. Myndagerðin er gagnvirk því kristnir menn leggja til myndagerðarinnar með lífi sínu og líka með því að segja söguna um Jesú með þeim besta hætti sem menn kunna að tjá. Saman verða myndirnar af Jesú marglaga mósaíkmynd kynslóðanna. Við sjáum það sem við höfum þörf á, forsendur til að skilja og löngun til að tjá öðrum.

Að búa til Jesúmynd er ekki aðeins það að draga upp portrett með línum eða orðum. Myndin af Jesú er ekki aðeins mynd ásjónu eða líkama hans. Jesús er persóna sem á sér raunverulega sögu sem er skráð í guðspjöllum Biblíunnar. Kristnum manni er saga hans lykill að sögu mannkyns, sögu heimsins af því að í honum er sögð saga Guðs. Í kirkjuárinu tjá textar og helgihald söguna og við höfum aðlagað margt í dagatali Vesturlanda að þeirri sögu. Meginhátíðir okkar eiga sér túlkun á sögu Jesú og gildir einu hvert er upphaf þessara hátíða. En af því að þarfir manna eru ólíkar á mismunandi tímum og einstaklingar og hópar eiga sér mismunandi lífsglímur þarf stöðugt að endursegja Jesúsöguna. Menningarlegar aðstæður og hefðir kalla á mismunandi túlkunarferla. Menningarsaga Rússa á miðöldum er allt önnur en Ítala á þriðju öld og Jesúmyndir þessara menningarhefða því mismunandi. Andóf Þjóðverja á sextándu öld ýtti við Lúther og löndum hans í nýtúlkun. Nítjándu aldar Þjóðverjar gerðu sér svo nýjar hugmyndir og Jesúmyndir ungra Reykvíkinga á okkar öld eru enn aðrar.

Stundum hefur sektarkennd einstaklinga eða hópa haft mótandi áhrif á hvernig hinn frelsandi Jesús hefur verið skýrður. Einu sinni varð Jesús e.k. sósíalistískur byltingarsinni. Á aðkrepptum tímum hafa trúmenn séð í honum kaghýddan píslarbróður. Sagan af Jesú á sér grunnþætti en þarfir trúmanna beina sjónum að einu eða fáum þáttum fremur en heild. Þá hafa kirkjudeildirnar hreinsað eða fjarlægt sumt og lyft á kostnað annars í Jesúsögunni. Í hefðum eru síðan meginlyklar og mörk varðandi leyfilega og mögulega túlkun. Vestræn menning er samtvinnuð sögu kristninnar. Þegar sagan um Jesú er sögð er unnið með grunngildi lífsins, gildi menningar, frumsögu þess að vera maður, á hvaða forsendum og til hvers. 

Hver er þín Jesúmynd og úr hverju bjóstu þá mynd?