Greinasafn fyrir merki: þakklætu

Guð tjáir sig í kartöflum og eplum

Hvernig tekur þú við gjöfum? Hvaða merkingu hafa gjafir og hvernig bregstu við þeim?

Ég var í Tallinn í Eistlandi liðna helgi. Borgin er heillandi og hefur fríkkað og braggast eftir sjúkdómstíma kommúnismans. Þetta get ég sagt því ég sótti hana heim á sovéttímanum árið 1990 – og þrisvarsíðan. Það er gaman að ganga um gamla bæinn og sjá hvernig húsum hefur verið gert gott til, sótið hefur verið þvegið, gömul málning skafin af og allt endurmálað. Nýjar þakrennur eru á húsunum, göturnar eru viðgerðar og mannífið ríkulegt í gömlu miðaldaborginni. Eins og álagaham hafi verið lyft, allt fengið lit, líf og fegurð að nýju. Kirkjurnar sem voru laskaðar, vanhelgaðar, eru nú viðgerðar. Það er heillandi fara inn í þessa söguríku, miklu helgidóma. Í öllum eru auðvitað ölturu og prédikunarstólar og orgel allt þetta sem búast má við í kirkjum. En það sem kom á óvart var að í öllum kirkjunum var mikið af grænmeti og ávöxtum. Við kórtröppurnar voru kartöflur, kálhausar, grasker, epli, gulrætur, laukur, tómatar, ber og perur. Það var fagurt, að sjá þessar náttúrugjafir í kirkjunum. En af hverju var búið að koma þessu fyrir? Var þetta skreyting, eitthvað til að fegra og í staðinn fyrir blóm eða listmuni? Eða selja fólki? Var búið að breyta kirkjum í markað? Nei. Ástæðan var önnur. Hver var hún?

Ávextir jarðar hafa verið bornir í helgidómana á haustin um aldir. Hinir fornu hebrear höfðu liðið sáran matarskort á langferð til fyrirheitna landsins og pílagrímagöngu tímans. Þegar hinir umreikandi Aramear höfðu fengið land til ræktunar og frið til að yrkja jörðina spratt fram þakklæti. Þetta fólk gerði sér grein fyrir að matur er ekki mannréttindi heldur þakkarverðar lífsgjafir. Og svo varð til helgigjörningar til að marka tengsl mannaþakka og guðsgjafa. Í 26. kafla 5. Mósebókar segir frá að setja eigi þessar jarðargjafir í samhengi gæsku Guðs og bera sumt af þeim í helgidóminn. Það voru ekki gjafir til að gefa guðunum að borða, heldur var gjörningurinn til að staðfesta samhengi lífsins. Svo hefur verið um allan heim. Þegar landnemar í Bandaríkjunum höfðu uppskorið héldu þeir þakkargerðarhátíð.

Að vera maður Guðs í heiminum er andstætt lífi frekjunnar. Allan sóvéttímann, í baráttu og matarskorti bar fólk í Eistlandi kartöflur og aðra jarðarávexti í kirkjurnar á haustin. Það var gerningur gleði og þakkar, afstaða sem alltaf er sterkari en dólgshátturinn. Eftir dauða kemur líf. Jesúboðskapur, Jesúiðkun – djúpur hjartsláttur þess heims sem Guð hefur gert. Grænmeti og ávextir í kórum kirkna heimsins vekur djúpar spurningar. Hvernig lifi ég? Hvernig lifir þú? Tekur þú bara til þín í markaleysi og frekju eða ræktar þú með þér gjafmildi. Það er merkilegt að lesa ábendingar um meðferð jarðagæðanna meðal hebreanna, að sérstaklega er tekið fram að fólk skuli halda hátíð en líka gefa aðkomufólki með sér. Við börn heims og himinsins erum öll í sömu þörf fyrir gjafir lífs. Í okkur öllum býr þrá til hamingju, öryggis, friðar, matar og sáttar við sjálf, samfélag og lífgjarann sjálfan. Og kartöflur, kál og epli í kirkjum eru tákn um ást, sem skapar okkur öll, já – spannar okkur öll, alla náttúru. Okkar er að tryggja að allir njóti. Þannig er ástarsaga himins. Guð tjáir sig í kartöflum og eplum.

Amen.

Guð sem skapar, Guð sem leysir, Guð sem helgar.

Þökk sé þér fyrir ástargjafir þínar, grænmetið, alla ávexti jarðar, mannfólk, litríki veraldar, tónlist heimsins.

Þökk fyrir að þú vilt að veröldin sé ríkulegt veisluhús mettaðs og þakkandi fólks.

Allt líf kallar þú fram, allt líf nærir þú og allt líf helgar þú.

Kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 18. október 2018