Greinasafn fyrir merki: Svanþrúður Frímannsdóttir

Svanþrúður Frímannsdóttir – Minningarorð

Hvað mótar líf okkar? Hvað veldur hamingju? Hvernig spilar þú þinn Olsen-Olsen í lífinu? Lífið er ferðalag og Svana hafði gaman af ferðum. Eiginmaður hennar var ferðagarpur, sem hún átti alltaf styrk í. Þau voru vinir á sameiginlegri ferð. Auðvitað var gaman að sjá til hennar – kona í rauðri kápu sést vel á götu og ekki síður ef hún er að auki með sterkrauðan varalit. Og svo draga aðrar ferðir Svönu að athygli þegar horft er til baka yfir heila ævi. Hún var aðeins þriggja ára þegar hún var send út af heimili sínu vegna veikinda heima. Hvernig líður barni í slíkum aðstæðum?

Það er sláandi dramatískt og mjög rómantískt að þegar Svana hafði fundið fangið hans Sigurvins tók hún sig upp, sleit upp alla sína tjaldhæla, tók stefnuna með sínum ástvini og fór alfarin að heiman – úr Firðinum og út í Vestmannaeyjar. Hún var bara unglingur þá, átti ekki einu sinni kápu til að fara í, hennar líf var að vera með Sigurvin, vera hans í hvaða stöðu sem hún lenti í. Hvernig áhrif hefur slík vending á allt hið innra? Svo eignaðist hún börn vart komin af barnsaldri? Lífsferðin hennar Svönu var merkileg og mikilvæg fyrir ykkur. Hvað ætlar þú að læra af henni til lífs?

Lífsþættir og stóra samhengið

Öll þörnumst við nokkurra frumgæða til að geta lifað, skjól, föt, fæðu og lágmárksfé til framfærslu. Eitthvað fleira? Já, hamingju í nærsamfélagi okkar og líka öryggi. Hvað um trúna – tenginguna við hið stóra öryggissamhengi. Um allar aldir hafa menn leitað að tryggingu sem ekki splundrast í einhverju mannahruninu. Það nefnum við Guð og boðskapur trúarritanna er skýr. Í Davíðssálmum segir: „Fel Drottni vegu þína og hann mun vel fyrir sjá.“ (Sl 37.5)

Sumt í lífinu getum við kortlagt vel en svo kemur ýmislegt uppá sem við fáum ekki ráðið og getum ekki breytt. Fel Drottni vegu þína er viðvörun um að vegir manna geta breyst í vegleysu og bending um að með því að fela Guði tilveru sína og lífshlaup getum við treyst því að eiga styrkan félaga á ögurstundu.

Ævistiklur

Svanþrúður Frímannsdóttir fæddist í Hafnafirði 7. janúar 1930 þeim hjónum Frímanni Þórðarsyni og Guðrúnu Ólafsdóttur. Svana var sjötta barn þeirra, en alls eignuðust þau 7 börn og eru tvö systkini Svönu enn á lífi, þau Gróa sem fagnaði níræðisafmæli sínu á síðasta ári og Guðjón eða Gauji, sem er rúmlega ári eldri en Svana. Í stórum systkinahópi var auðvitað mikið líf og fjör og stundum þröngt í búi. Þegar Svana var einungis þriggja ára gömul herjuðu berklar á fjölskylduna og Svana var send suður í Hafnir og dvaldi í tvö ár á heimili Einars Ólafssonar, móðurbróður hennar, á meðan sjúkdómurinn gekk yfir. Því oftar sem ég staldra við þetta rof í frumbernsku hennar því ágengari verður spurn um hver áhrif þetta hafði á Svönu. Hvernig verður þriggja ára barni við að vera slitin úr fangi sinna og sett í aðrar og ókunnar aðstæður? Hvaða áhrif hafði það á kvíða, sjálf og mótun gilda? Líklegast er að þar sé skýring ákveðinnar löngunar hennar til að styðja börn æ síðan. Svana kom til baka og sótti síðan skóla í Hafnarfirði og óx úr grasi. 

Svo kom lífsprins hennar. Eyjagarpurinn Sigurvin Snæbjörnsson nam trésmíði í Hafnarfirði. Langaafabörnin munu skilja hæfni hans ef þeim er sagt að hann hafi verið eins og íþróttaálfurinn – hann var fjölhæfur, stundaði knattspyrnu og var fimleikakappi að auki. Það er alveg hægt að skilja að Svana féll í fang smiðsins handlægna sem strauk svo ljúft og létt. Hún yfirgaf æskuheimili sitt og flutti með honum til Vestmannaeyja þar sem þau byrjuðu sinn búskap. 17 ára gömul eignaðist Svana svo fyrsta barn þeira og á árunum í Eyjum urðu dæturnar fjórar. Guðný er elst þeirra systra fædd árið 1947, þá Sif fædd fjórum áður síðar og yngst Ethel Brynja fædd 1956. Þá færðu örlögin þeim í umsjón kjördóttur sem systir Sigurvins, Steinunn Svava, eignaðist 1950. Hún heitir Guðný. Ungu hjónin ólu hana upp sem sína eigin dóttur og hún er því Sigurvinsdóttir.

Steinunn Svava hefur verið búsett í Bandaríkjunum um áratugaskeið sendir fjölskyldu og ástvinum Svönu hlýjar samúðarkveðjur.

Það ferðalag sem Svana lagði í til Eyja reyndist gæfuför. Árin í Vestmannaeyjum voru henni kær í minningunni. Svana talaði ávallt um að fara “heim” þegar hún ræddi um Vestmannaeyjar. Þetta voru einnig örlagarík ár og ungu hjónin urðu fyrir áföllum síðla árs 1950 í í byrjun 1951 þegar tengdaforeldrar Svönu létust af slysförum með stuttu millibili. 

Eyjaárin reyndu því á, lífið kviknaði, lífslán þeirra var mikið, barnalán og svo skelfileg dauðsföll. Árið 1958 fluttu þau hjónin í Hafnarfjörð þar sem Sigurvin vann við trésmíðar og rak á tímabili verktakafyrirtæki og reisti fjölbýlishús. Svana var öflug húsmóðir og kom barnahópnum sínum upp og til manns. Eftir að létta fór á heimilisrekstri fór Svana svo út á vinnumarkaðinn og vann lengstum við aðhlynningu á Vífilstöðum og síðar á Landspítala við Hringbraut.

Afkomendur

Stolt og yndi Svönu voru afkomendur hennar.

Guðný á með eiginmanni sínum Kristni Atlasyni þrjú börn, þau Svanhildi, Aðalbjörgu Sif og Kjartan Geir.

Guðný Ó eða Gugga á sömuleiðis þrjú börn, þau Steinunni, Sigurvin eða Joshua, og Helgu.

Sif á með eiginmanni sínum Jóni L. Sigurðssyni soninn Sigurvin.

Og Ethel á fjögur börn með eiginmanni sínum Daníel Sigurðssyni, þau Önnu Dagmar, Svan, Tinnu Sif og Aron Örn.  

Yngsti afkomandinn fæddist nú í byrjun árs, stúlkubarn sem varð ættmóðurinni fagnaðarefni á lokadögum lífs hennar. Langömmubörn Svönu eru fjórtán á fæti og eitt í kvið – ófætt. Fjölskyldan minnist þess á kveðjustund hversu mjög hún naut þess að þjónusta sitt fólk en Svana var óþreytandi við að aðstoða við uppeldi þeirra, keyra þau þangað sem erindi lá og alltaf var stutt í leik. Afkomendur eiga eiginlega aðeins eitt sameiginlegt umkvörtunarefni, að hún gaf of hraustlega í þegar hún var í umferðinni! En heima átti hún hins vegar góðan tíma fyrir þau, spilaði við þau Olsen-Olsen upp og niður, eldaði og bakaði handa þeim randalínur og góðgæti. Og svo var hún alveg til í að tala við þau um hjartans mál þeirra, halda námskeið í að baka góðar pönsur eða setjast á bossann og kubba með litlum kútum. Svana var kona tengsla, til fyrir aðra, hógvær, en var til reiðu fyrir sitt fólk.

Sigurvin

 Sigurvin, eiginmaður Svönu lést 16. janúar 1997, þá sjötugur að aldri. Þau hjón voru alla tíð samhent. Þau voru algerlega sama hugar þegar þau fóru um langan veg til að sjá Vestmannaeyjaliðið spila fótbolta. Svo var það handboltinn og enski boltinn í sjónvarpinu. Þegar dætur þeirra rifja upp samskipti foreldra sinna lýsa þær því sem svo að Sigurvin hafi borið Svönu á höndum sér en alúð hennar við eiginmann og fjölskyldu einkennir minningu hennar. Verkaskipting þeirra hjóna var skýr og það var mikið áfall fyrir Svönu að missa maka sinn og förunaut til 55 ára.

Ferðirnar

Ferðagleði var áberandi þáttur í lífi fjölskyldunnar og hjónin nýttu sér ferðafærin þegar þau voru komin upp á land. Tvö ferðalög til útlanda standa uppúr í minningunni. Árið 1975 fóru þau til Kanada – óku frá vestri til austurs yfir Klettafjöllin og enduðu ferðina á Íslendingaslóðum. Tuttugu árum seinna fóru þau svo til Cancun í Mexíkó. Sigurvin langaði að heimsækja Castro á Kúbu, en á meðan einbeitti Svana sér að því að læra að snorkla! Myndin af Svönu með sundblöðkurnar á fótum birtir okkur skemmtilega mynd af gáska hennar.  

Fyrir aðeins fimm árum síðan fór Svana í siglingu niður Hvítá og í snjósleðaferð upp á Snæfellsjökul. Hún þorði að prufa nýungar í lífinu.  

Í byrjun árs 2009 kenndi Svana sér hjartameins og var síðan skorin. Batinn kom fljótt og endurhæfing gekk vel því hún var eljusöm við æfingar. Hún ætlaði sér til dóttur sinnar í Noregi. Svana hafði ekki hugsað sér að láta rúlla sér í gegnum Leifsstöð í hjólastól. Noregsferðin var þó aldrei farin. Í haust kom í ljós innanmein sem varð henni að aldurtila. Síðustu vikur lífsins naut hún umönnunar starfsfólksins á líknardeild Landakotsspítala og kunna ástvinir starfsfólkinu þar þakkir fyrir. Þann 7. janúar s.l. hélt fjölskyldan henni hóf í tilefni áttræðisafmælisins. Hún naut samvista, vaknaði til vitundar og náði jafnvel að tala óheft um stund, sem var eftirminnilegt. Þeim er það dýrmæt minning að Svana naut samvistanna með þeim sem henni voru kærust og dóttir hennar Guðný kom frá Noregi til fagnaðarins.

 Guðný Ó Sigurvinsdóttir, er búsett í Inderöy í Noregi og biður fyrir samúðarkveðjur ykkur fjölskyldu og ástvinum Svönu.

Heima

„Fel drottni vegu þína og hann mun vel fyrir sjá …“ 

Nú smokrar Svana sér ekki í rauða kápu og smellir ekki heldur á sig snorkblöðkum. Hún gefur ekki í á Hafnarfjarðarveginum, fer ekki heim í Eyjar eða spyr tíðinda af sístækkandi fjölskyldu. Svana er farin. Ferðalag lífsins endar ekki með dauða. Það heldur áfram inn í eilífðina. Hvað viltu læra af Svönu? Hugsaðu um hvað hún gerði fyrir þig. Hvernig þú getur heiðrað Svönu vel í lífi þínu? Þú þarft ekki að óttast um Svönu. Hún drukknar ekki í Hvítá himinsins, ekkert kemur fyrir hana á Íslendingaslóðum hið efra. Hún er heima þar sem allt er gott og ekkert verður betra. Þú mátt í huganum sjá þau Sigurvin saman, hún snertir enni hans blíðlega og hann vefur hana að sér. Af hverju? Jú af því að þar er Guð öllu og öllum nærri og mun vel fyrir sjá. Guð geymi Svönu, Guð geymi Sigurvin. Guð geymi ástvinina alla og Guð blessi þig.  

Fríkirkjan í Hafnarfirði. Minningarorð. 28. 01. 2010.

Æviyfirlit

Svanþrúður (Svana) Frímannsdóttir fæddist í Hafnarfirði 07. janúar 1930. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 20. janúar s.l. Foreldrar Svanþrúðar voru hjónin Frímann Þórðarson málari í Hafnarfirði, f. 23. apríl 1893, d. 3. júní 1979 og Guðrún Ólafsdóttir, f. 16. febrúar 1893, d. 9. júní 1979. Systkini Svaþrúðar eru Gróa, f. 1919, Ólafur f. 1921, d. 1987, Elín f. 1924, d. 2006, Þorsteinn f. 1926, d. 1982, Guðjón f. 1928 og Einar Frímannsson f. 1931, d. 2004. Eiginmaður Svanþrúðar var Sigurvin Snæbjörnsson byggingameistari úr Vestmannaeyjum f. 29. mars 1926, d. 16. janúar 1997. Börn þeirra eru: 1) Guðný, f. 28. nóvember 1947, maki Kristinn Atlason, börn þeirra eru Svanhildur, Aðalbjörg Sif og Kjartan Geir. 2) Guðný Ó., f. 1950, maki Kaare Solem, börn hennar eru Steinunn (Viðarsdóttir) Poulsen, Sigurvin (Joshua) Viðarsson og Helga Madsen. 3) Sif, f. 5. desember 1951, maki Jón L. Sigurðsson, sonur þeirra er Sigurvin. 4) Ethel Brynja, f. 29. maí 1956, maki Daníel Sigurðsson, börn þeirra eru Anna Dagmar, Svanur, Tinna Sif og Aron Örn. Auk þess á Svanþrúður 14 barnabarnabörn. Svanþrúður ólst upp í Hafnarfirði en fluttist ung  til Vestmannaeyja með verðandi eiginmanni sínum og hóf þar búskap. Þau giftust 10. janúar 1948, eignuðust börn sín í Eyjum og fluttust til Hafnafjarðar 1959 þar sem maður hennar starfaði við húsamíði. Svanþrúður vann við aðhlynningu á Vífilsstöðum og á Landsspítala Íslands. Útför hennar var gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði fimmtudaginn 28. janúar 2010.