Greinasafn fyrir merki: Svanfríður Guðný Kristjánsdóttir

Gátan ráðin, uppgötvun dagsins á aldarafmæli!

Í dag gerðum við Elín dásamlega uppgötvun sem gladdi okkur mjög. Og það var mun skemmtilegra að það var í dag en ekki á morgun eða í gær. Já, saga dagsins er aha-saga sem ekki aðeins kætti okkur heldur fjölmarga aðra líka. Við fórum í Hönnunarsafn Íslands til að hlusta á fyrirlestur um heimilishönnun á Íslandi. Söfn eru eins og heimili staðir fyrir fagra hluti en líka furður lífsins og uppgötvanir.

Þá er það inngangurinn. Tveir hestar voru fyrir augum mér og fjölskyldunnar alla bernsku mína. Foreldrar mínir byggðu hús við Tómasarhaga á árunum 1955-56 og vönduðu til alls frágangs, s.s. dyra og kverkaskreytinga. Straumar tímans í innanhúshönnun höfðu áhrif því foreldrar mínir þorðu að nota nýstárlega liti og líka efni á veggi, s.s. flísar á gangvegg. Það sem kannski vakti furðu flestra sem komu á heimili okkar var stór og stílíseruð hestamynd sem máluð var á háan vegg í stigaganginum. Einn svartur og annar hvítur hestur prjónuðu á bleikum veggnum. Allir sáu myndina og margir töluðu um hana því slík ámáluð mynd var ekki í öðrum húsum hverfisins. Þegar ég var búinn að horfa á myndina í mörg ár spurði ég mömmu hver hefði gert hana. Hún sagði að það hefði verið þýskur málari og nefndi þýskt nafn sem ég þekkti ekki. Og ég gleymdi nafninu.

Svo kom að því að veggirnir á stigaganginum voru orðnir óhreinir og málningin talsvert máð. En hvað átti að gera? Mála yfir hestamyndina? Nei, það vildi mamma ekki og það var tímafrekt nákvæmnispuð að mála með fínum pensli að útlínum hestanna. En það hófst. Þegar mamma dó var íbúðin svo seld og raunar þrisvar síðan en hestamyndin sérstaka hefur lifað af hræringar tímans og endursölur íbúðarinnar. Nýir eigendur hafa vilja halda í myndina og því ekki málað yfir. En oft hefur verið rætt um hver hafi teiknað hana, af hverju og í hvaða samhengi.

Og þá erum við komin að ferð okkar í hönnunarsafnið í Garðabæ. Auglýst hafði verið að Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður safnsins, myndi segja frá sýningarmunum. Við ákváðum að fara, vorum eiginlega dregin áfram. Þegar við vorum búin að skoða safngripi benti Sigríður á skemmtilega muni Einars Þorsteins arkitekts og hönnuðar. Svo sagði hún að þó það hefði ekki komið fram í auglýsingu væri dagurinn merkilegur því verið væri að rannsaka verk hönnuðar Hótel Sögu. Þar sem hann ætti aldarafmæli í dag, 22. október, væri við hæfi að við fengjum að kynnast vinnu safnins við skráningu og myndatöku á verkum þessa manns. Við færðum okkur í annað rými og sáum blöð á vegg með skissum og myndum. Ég hugsaði strax með mér – hmmm þýskur teiknari og hönnuður á Íslandi! Gæti verið að þarna væri hestamálarinn kominn? Strax sá ég að hann hafi verið snjall teiknari og ljóst að hann málaði áhugaverðar myndir á veggi íbúða í skissum sínum. Ég benti Elínu á og við vorum spennt að sjá framhaldið. Ég færði mig innar og þar var hún! Fyrirmyndin að hestamyndinni á Tómasarhaga 16. Ljómandi vel teiknuð mynd af prjónandi svörtum og hvítum hestum með brúnbleikan bakgrunni. Blaðið var grófrúðustrikað og augljóslega til að hægt væri að stækka myndina án þess að raska hlutföllunum. Þessi fundur frummyndar og teiknara var eins og stórkostleg uppgötvun – kraftmikil tenging nútíðar og bernsku. Tímamismunurinn upphafinn í gleði uppgötvunarinnar.

Teiknarinn hét Lothar Grund. Hann var þýskur og fæddist árið 1923 og kom til Íslands um 1950 og hafði atvinnu af leiktjaldamálningu og teikningu. Hann hafði mikil áhrif á innanhúshönnun Hótel Sögu á árunum 1961-63. Lothar teiknaði logó hótelsins, útiskilti, matseðla og prentefni og gerði skissur að húsgögnum, fyrirkomulagi og flestu því prýddi Bændahöllina og hótelið innan dyra. Hann teiknaði t.d. barinn sem var seldur nýlega til Vestmannaeyja, líka stjörnumerkjahringinn í lofti Grillsins og flest annað sem hannað var fyrir þetta stórhýsi sem nú er í umsjón HÍ.

Frummyndin sem við sáum á hönnunarsafninu var gerð 1956. Lothar Grund málaði hana strax á steinvegginn því hún var komin þegar við fluttum inn síðla sumars það ár. Hann hefur líka verið ráðgefandi um litina sem foreldrar mínir ákváðu að nota því litapaléttan var öðru vísi en í öðrum húsum á svæðinu. Ég horfði á skissur Lothars Grund á hönnunarsafninu og þekkti litina í íbúð okkar frá vinnuskissunum og myndunum sem okkur voru sýndar í Garðabænum.

Af hverju hestar? Kannski var Lothar Grund áhugamaður um hesta? En ég sá þó enga hesta í skissum fyrir höll bændanna! Það var enginn sérstakur hestaáhugi á bernskuheimili mínu en hestar voru til og notaðir á uppeldisheimilum beggja foreldra minna. Foreldar pabba bjuggu í steinbæ sem nú er Tómasarhagi 16b. Afi var vatnspóstur í Reykjavík og því var hesthús aftan við húsið sem pabbi byggði í landi foreldra sinna. Kannski var myndin í stigaganginum virðingarvottur um búskaparhefð ömmu og afa? Eða kannski bara passaði hestamyndin vel lögun gangveggjarins? Hver veit?

Lothar átti aldarafmæli í dag og fékk þessa tengingargjöf. Gleðin hríslaðist um okkur Elínu að finna frummyndina. Bóel Hörn Ingadóttir er að skrá og ljósmynda verk Lothar Grund og henni og Sigríði þótti þetta skemmtileg afmælisgjöf til Lothars á aldarafmæli hans.

Kannast einhver ykkar sem lesið þessa frásögn við fleiri verk Lothars Grund í heimahúsum? Ef svo er, vinsamlegast hafið samband við starfsfólk Hönnunarsafns Íslands. Það er að safna upplýsingum. Takk Sigríður og Bóel fyrir okkur og til hamingju með Lothar Grund 100.

Upplýsingar um Lothar Grund, fjölskylduhagi og verk má lesa í minningargreinum í Morgunblaðinu um hann sem eru að baki þessari smellu.  Þar kemur fram að Lothar var kvæntur Önnu Þorbjörgu Halldórsdóttur. Þau eignuðust synina Pétur Adólf Garðar, Atla Halldór og Alfreð. Þegar ég var búinn að birta frásögn hér að ofan fékk ég að vita að Anna Þorbjörg tengdist Sigurði Skarphéðinssyni, vini föður míns, sem tengdi Lothar og hann saman. Og svo fóru prjónandi hestar á veginn.

Grein um Lothar Grund er í Tímanna safn, hátíðariti Landsbókasafnins, sem kom út 2024. 

Þriggja blýanta stríð

Skólabjalla Melaskóla hljómar enn falskt en dugar til síns brúks. Hvað er kennt í skólanum og hvaða blýantastefnu skyldu kennarar Melaskóla hafa? Gamalt stríð sem háð var af einurð kemur í hugann. Ég lenti í skotlínu á milli kennara og mömmu. Bæði voru ákveðin. Jón Þorsteinsson, minn frábæri kennari í Melaskóla, setti ýmsar reglur og ein var ófrávíkjanleg. Nemendur í bekknum hans skyldu hefja skólagöngu með því að koma með þrjá nýja og vel yddaða blýanta. Styrjöld var háð vegna þessarar reglu.

Ég var sendur í skóla með þrjá blýanta og þeir voru vel yddaðir. En þeir voru ekki nýir og ekki allir jafn langir. Þegar Jón kennari sá skriffærin hóf hann þunga sókn. Hin eiginlega bakvörn var mamma sem réði því sem hún vildi í skólamálum mínum. Henni þóttu blýantarnir mínir góðir og fullboðlegir. Með það mat fór blýantaberinn í skóla að nýju. Jón þykktist við og setti í brýrnar. Þá var mér ljóst að ég væri peð á milli stórvelda. Stríð var hafið og ég undi stöðu minni illa.

Ekkert skólasystkina minna dirfðist að gera uppreisn gegn reglum hins ákveðna skólamanns sem hafði fullkomið vald í skólastofunni. Hann var dagfarsprúður og öflugur kennari og hafði gott lag í sinni stofu og á sínu fólki. Öllum kom hann til náms og nokkurs þroska. Ég hafði enga trú á að nokkuð gæti brotið þennan helsta kraftajötun íslensks skólakerfis. Þegar Jón hafði gert sér grein fyrir að Sigurður Árni væri ekki annað en málaliði í umboði Svanfríðar sendi hann móður minni beiðni um að finna sig. Ég kveið þeim fundi og var viss um að nú mundi móðir mín lenda í mannraunum. Ég fylgist með því þegar hún fór róleg en ákveðin. Hún kom heim klukkutíma seinna og var þá rjóð í kinnum og með glampa í augum. „Þú ferð með blýantana þína í skólann eins og ég hef áður sagt þér. Kennarinn þinn mun ekki gera fleiri athugasemdir,“ sagði hún. Þetta voru mikil tíðindi af vesturvígstöðvum Reykjavíkur.

Síðar sagði hún mér að þau hefðu tekist á. Jón hafði gert henni grein fyrir að það væri ekki hennar að ákveða skólastefnu hvorki í hans bekk né Melaskóla. Móðir mín hafði hins vegar gert honum jafn skýra grein fyrir eðli foreldraréttarins og að hún hefði skýra uppeldisstefnu gagnvart drengnum sínum. Hún hefði ekki hugsað sér að kenna honum að sóa verðmætum heldur að nota bæði blýanta og annað sem til væri með ábyrgð og nýtni að leiðarljósi. Hún gerði honum grein fyrir gildum, siðferði og stefnu ábyrgðarinnar. Jón náði engum tökum á móður minni enda deildi hann sömu gildum. Í þessari baráttu var mamma sigurvegarinn. Jón var sanngjarn og skildi viðmið mömmu

Eftir orustuna umgekkst Jón Þorsteinsson drenginn hennar Svanfríðar með nokkurri varfærni ekki síst þegar kom að útbúnaði í skólatöskunni. Hann hafði uppgötvað að hann hafði tapað þriggja blýanta stríðinu gegn Svanfríði. Það var ljóst að hann bar virðingu fyrir svo ákveðnum uppalanda. Ég uppgötvaði að mamma var jafnvel öflugri en menntunarhetjur Melaskóla. Síðar á ævinni uppgötvaði ég að ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með öflugar konur. Þær hafa aldrei skapað með mér ónotatilfinningu. Þar nýt ég uppeldis og mótunar í foreldrahúsum sem ég þakka. Mamma var hugrökk og forðaðist stríð en flýði aldrei. Hún var mikil af sjálfri sér. Hún var stórveldi ástar og umhyggju.