Greinasafn fyrir merki: Sunna Dís Másdóttir

KUL – Sunna Dís Másdóttir

Ég er í aðdáendaklúbbi Sunnu Dísar Másdóttur. Ég setti því ekki upp stóru gagnrýnisgleraugun þegar ég byrjaði að lesa KUL-bókina hennar. Málgaldur bókarinnar kitlaði og sagan byrjaði blíðlega. En svo undraðist ég hægaganginn og velti vöngum yfir hvort lopinn væri teygður um of. En tökin voru hert, hraðinn jókst og í ljós kom við lokin að engu var ofaukið. Vefnaður Sunnu Dísar var nostursamlega unninn, efnistökin voru snilldarleg og heillandi mynd birtist. 

Já, KUL er um kulnun. Örmögnun fólks er ömurleg og engum eftirsóknarvert skemmtiefni. En flækjan, kaldranaleg náttúruöfl, litríkt vestfirskt sjávarþorp, alls konar íslenskir víkingar í innrás og útrás upplýsa myrkrið, veita drunga líf, endurbata lit og slæma fálmurum og spurningum inn í okkur sem lesum. Við bókarlok uppgötvaði ég að KUL er ekki sértæk bók sem hentar fáum og drungasæknum. Hún er raunar um okkur öll, tengist atburðum í öllum fjölskyldum og byggðum. Ekkert okkar hefur sloppið við að glíma við einhvern þeirra þátta sem KUL dregur svo vel fram. Góðar bækur vitja manns aftur og aftur, sækja á og varpa ljósi á atburði og fólk sem maður hefur hitt og jafnvel átt í erfiðleikum með. Þannig er KUL. Hún er ekki sjálfshjálparbók heldur vel skrifuð skáldsaga en persónur sögunnar verða eins og lyklar að mörgum samferðamönnum okkar og ástvinum sem við höfum glímt við. Hún er því viskubók líka. 

KUL er glæsileg skáldsaga á litríkri, ilmandi íslensku. Hún er full af kímni, gráglettni og skemmtir kostulega og oft um óskemmtileg mál. Hún segir frá skondnum uppátækjum, fjölvíddum íslenskrar menningar og byggða, sýnir manneskjurnar að baki hlutverkum og baráttu fólks sem elskar. Ábyrgð er dýr og kremur oft. KUL er snilldarbók um lífsflækjur sem má leysa og að lífið getur verið sterkara en dauðinn, bók um lífssókn en ekki dauðadjúpar sprungur. Í bókinni er unnið með stóru stef menningar okkar, myrkur, ásókn, depurð, missi og dauða en líka um hitasókn, rými, lykt, þrá, tengsl, sátt og virðingu. Og kannski dýpst um ást og líf. KUL er heitasta bókin sem ég las á árinu og einu gildir hvaða gleraugu voru á nebbanum.