Í þessari viku eru fimm mánuðir liðnir síðan Hamas liðar réðust á íbúa Ísraels og her Ísraels hóf hernaðaraðgerðir á Gaza landsvæðinu.
Frá og með 7. október hafa ótal mannslíf glatast. Einnig hafa mun fleiri meiðst, innviðir skemmst og fólk hrakist í miklum mæli frá heimilum sínum. Enginn árangur hefur náðst í viðræðum um vopnahlé eða hvort gíslar Hamas-liða verði látnir lausir. Eftir að stríðið braust út hafa aðstæður á Gaza svæðinu verið skelfilegar fyrir öll þau sem þar lifa og versnar enn. Nú berast fregnir af því að börn þar deyja vegna hungurs og vökvaskorts. Sjúkdómar breiðast út, ekki síst vegna þess að hernaðaraðgerðir hafa beinst að heilbrigðis- og sjúkrahússtarfsemi.
Við ítrekum mikilvægi þess að yfirstandandi friðarviðræður beinist að því að fá gísla Hamas-liða látna lausa og að stríðsaðgerðum á Gaza ljúki í anda mannúðar og í þágu mannlífs á svæðinu. Ákvarðanir og aðgerðir þarf til að tryggja frið og öryggi fólks. Stríðandi aðilar og fjölþjóðlegir aðilar verða að leysa átökin.
Lútherska heimssambandið lýsir yfir þungum áhyggjum yfir hve stríðið á Gaza hefur magnað flokkadrætti og aukið fordóma um allan heim sem beinast bæði að Gyðingum og Palestínufólki. Lútherska samfélagið heldur áfram að biðja fyrir öllum þeim sem þjást vegna stríðsins í Landinu helga og heldur áfram að standa með kristinni nærveru og samfélagi þar. Lútherska heimssambandið stendur með og styður aðildarkirkjuna sína á landsvæðinu, The Evangelical Lutheran Church in Jordan and the Holy Land, starfsfólki sínu í Jerúsalem og öllum þeim sem er þjónað í þessum erfiðu aðstæðum.
Samþykkt Lútherska heimssambandsins í byrjun mars 2024.
Myndina tók ég af teikningu barns sem ég rakst á í borginni Jaffa í Ísrael, norðan við Gaza.