Greinasafn fyrir merki: sorg

Sorgin – skuggi ástarinnar

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Þau syrgja aldrei sem aldrei hafa elskað.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Við megum gjarnan íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð.

Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu afar dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum.

Sorgarferli er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarferlinu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi.

Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana og skakkt í tilverunni – eiginlega utan við sjálft sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar.

Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og svo að þínu lífi nú. Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín?

Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. Dauðinn dó en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 3. nóvember, 2016

Málmhaus

„Þeir segja að tíminn lækni öll sár.“ Er það svo – læknast andleg sár fólks þegar einhver tími er liðinn frá áföllum? Í kvikmyndinni Málmhaus segir pabbinn í sögunni þessa setningu: „Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helbert kjaftæði.”

Hvaða skoðun hefur þú á sorg og tíma? Er alveg öruggt að þegar einhverjir x-mánuðir eða x-ár eru liðnir sé allt orðið gott og heilt að nýju. Reynsla mín, reynsla fólks sem ég hef þjónað og boðskapurinn í Málmhaus er að lífið er ekki svo einfalt.

Málmhaus, mynd Ragnars Bragasonar, er ný. Og þar sem kvikmyndir hans eru á dýptina röltum við hjónin í vikunni í heimabíóið okkar, Háskólabíó. Svo sátum við djúpt snortin. Og þrátt fyrir annir hefur myndin vitjað mín aftur og aftur þessa vikuna? Myndin byrjar með sjokki, sýnir Heru Karlsdóttur, áhyggjulaust barn að leik í sveit. Hún verður vitni að bróðir hennar, eina systkinið, deyr í dráttarvélaslysi. Hera kennir sjálfri sér um dauða bróðurins og líf hennar umpólast. Sorgin nístir og tíminn læknar ekkert. Foreldrarnir tala ekki saman og myrkur voðans lamar alla. Í sorginni hellir Hera sér í metalmúsík, kafar í textana, áfengi, drunga og lendir á jaðri samfélags og heilbrigði.

Andstæðutvenna yndisleika og hryllings í upphafi myndarinnar grípa. Myndin stiklar á stóru stefjunum; ást, dauða, líf, trú, tengslum og samfélagi. Og það eru meginstef lífs okkar allra. Hera og fjölskylda hennar er gott fólk sem verður fyrir stórkostlegum missi. Hvernig geta þau haldið áfram og hvernig er hægt að lifa við óbærilega minningu?

Í jarðarför bróðurins horfir Hera á altaristöflu kirkjunnar sem er lík töflu Dómkirkjunnar (tafla SG í Strandarkirkju). Hún sér hinn sigrandi Krist með sigurveifu og spurningin seitlar inn: Af hverju leyfðir þú þetta? Hvers konar Guð ertu, hvers konar kirkja er það sem leyfir drápið? Og Hera hleypur út úr kirkjunni og vesalings faðirinn á eftir – sem sé uppákoma í átakanlegri jarðarför. Síðan verðum við vitni að sálargrípandi þrautagöngu Heru, móður hennr sem er líka uppgefin og ráðlausum föður sem höndlar ekki aðstæður.

Nei, tíminn læknar engin sár. Hera er fangi í eigin sorgarveröld og engar útleiðir eru henni færar. Hvað er til ráða? Þá kemur nýi presturinn og húsvitjar. Sá prestur er ólíkur öðrum prestum í fyrri íslenskum kvikmyndum sem hafa oftast afskræmt þá sem skrítlinga eða þrjóta. Hera gefur skít í klerkinn en hann kemur henni á óvart. Henni til mikillar furðu skilur hún að presturinn hefur ekkert síðri innsýn í metalrokkið en hún – hann skilur mannlíf, sjálfan sig og hana. „Guð býr líka í myrkrinu“ segir presturinn og Jesús verður – í túlkun hans – samferðamaður fólks en ekki miskunnarlaus kvalari. „Hann skuldar mér“ segir Hera sem kann betur að varpa þjáningunni yfir á umhverfi, samfélag og Guð en að vinna með hana.

Sorgarvinna

Hvað gerum við í sorg og gagnvart missi? Þegar ástvinir okkar eru slitnir úr fangi okkar, þegar við sjálf erum rifin upp „á hárinu“ eru kostirnir jafnan tveir. Annað hvort að vinna með áfallið eða áfallið vinnur á okkur. Annað hvort að rísa upp og horfast í augu við og vinna með vandann eða að meinið vinnur sigur. Í kvikmyndinni var áfallið yfirgengilegt, áfallahjálpin takmörkuð og fólki svo orða vant að allir urðu sjúkir. „Guð býr líka í myrkrinu“ sagði presturinn.

Málmhaus getur opnað augu þeirra sem hafa misst en höndla úrvinnsluna illa. Tíminn læknar enginn sár. Lækning verður ekki með því að bíða nógu lengi heldur að viðurkenna, opna og vinna með. „Við höfum aldrei talað um það sem gerðist – ekki af alvöru,“ segir pabbinn. Og þegar fólk byrjar að tala þá er von um upprisu. Orð eru líka tæki kraftaverkanna.

Traust

Textar dagsins varða traust og hverju við treystum. Jesús minnir á að trú er það sem varðar núið. Guð er ekki bara tengdur því sem var eða verður seinna heldur varðar Guð okkur nú og í raunaðstæðum samtímans. Við, kirkjufólk, megum gjarnan taka til okkar þá áherslu. Kirkjan er fyrir lifandi fólk og þarfir þess, guðfræðin er fyrir raunverulegar spurningar fólks á öllum aldri. Boðskapur Guðs er ekki aðeins fyrir engla eða menningarkima heldur alla. Guð er ekki hrifnari af hinum flekklausu en spellvirkjum. Guð er jafn nálægur hinum dyggðugu og mistæku, jafn áhugasamur um trans, homo og hetero. Og Guð elskar málmhausinn jafn mikið og klerkinn. Þetta er afstaða Jesú. Það verkefni kirkjunnar að endurnýjast og koma til móts við fólk í raunverulegu lífi. Því er boðskapurinn í kvikmyndinni Málmhaus í samræmi við eðlilega guðfræði og kirkju sem tikkar.

Kirkjubruninn

Málmhaus er rífandi, hvetjandi mynd, ein sú besta sem ég hef séð í langan tíma. Landslið leikara fer á kostum og ungstirni er fætt. Við lærðum að tíminn læknar enginn sár heldur verður að meðhöndla sorgina.

En svo var önnur vídd í kvikmyndinni sem ég staldraði við. Hera hljóp frá sorgarvinnunni og að kirkjuhúsinu. Hún gekk berserksgang og kveikti í helgidóminum. Fallega kirkjan – sem er blanda af Strandarkirkju og Búðakirkju – brann til ösku. Með kirkjubrunanum urðu önnur skil í kvikmyndinni. Allt samfélag sveitarinnar brást hart við enda eru kirkjuhús á Íslandi táknstaðir sögu hvers samfélags. Kirkjur eru ekki aðeins hlið himins heldur einnig samfélagsleg helgihús. Þar hefur fólk átt hlé fyrir stærstu stundir sínar, gleðistundir æfinnar og sorgaratburði fjölskyldu og samfélags. Og Ragnar Bragason spinnur vel efnið og kirkjan er tákn lífs og gæða.

Kirkjubruninn varð mér til íhugunar um hlutverk kristinnar kirkju á Íslandi. Hera höndlaði ekki eigin angist og tók út reiði sína á Guði með því að brenna kirkjuna sem pabbi og mamma hennar sungu í, bróðir hennar var jarðsunginn frá og þar sem myndin af sigrandi Kristi horfði á hana (altaristaflan er kopía af Wegenertöflunni í Dómkirkjunni). Kirkjubruni Heru missti marks en samfélagið brást við, hún misskildi en samfélagið náði áttum.

Þar sem ég sat í Háskólabíó læddist að mér hugsun. Hera málmhaus fékk útrás fyrir reiði og sorg vegna bróðurmissis með því að brenna kirkju. Getur verið að íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins hafi ekki megnað að vinna með áfall og sorg og beint reiði sinni að kirkjunni?

Þegar þjóðkirkjan hefur gert mistök og einstaklingar í þjónustu hennar hafa brugðist trausti og erindi sínu er bæði eðlilegt og mikilvæg að gagnrýnt sé og tekið á málum. Kirkjunni er það nauðsyn. En mér virðist að margir í íslensku samfélagi hafi fengið útrás fyrir hrunreiði eða annars konar reiði með því að kveikja sína kirkjubruna á facebook, í samtölum og í fjölmiðlum. Sumt er réttmætt gagnrýni en annað er vitnisburður um getuleysi fólks til að vinna með áföll – þá verður til vörpun eigin sorgar yfir á stofnun, sem var veikluð af skammsýni og ekki í takt við samfélag sitt.

Málmhaus veltir ýmsum steinum og sýnir trú, prestsþjónustu og kirkjulíf með jákvæðari hætti en oftast hefur verið gert í íslenskum kvikmyndum. Sorg verður ekki sigruð með reiði og eyðilegging kirkjunnar er skaði alls samfélagsins. Með sorg, reiði og samfélagsskaða þarf að vinna með raunhæfum hætti. Kirkjubruni í mynd hatursáróðurs gegn trú og kristni verður öllum til tjóns. Hin hliðin er að íslensku samfélagi verður til ills ef kristin kirkja verður eyðilögð. Nú er kominn tími til að byggja upp kirkju og samfélagsstoðir eftir fárið. „Það er ekki hægt að lifa í sorg endalaust því hún étur mann upp“ segir mamman í myndinni. Það er rétt.

Presturinn var ekki trúður eða aðskotavera í samfélaginu heldur persóna í þjónustu þess Guðs sem er líka í myrkrinu. Þar með varð hann til lífs og góðs fyrir stúlkuna og eflingar sveitungum hennar. Trúin er ekki fyrir fortíð eða framtíð heldur núið. Jesús var í núinu. Kristin kirkja er samfélag Jesú Krists og það merkir að hún er útrétt hönd hans, hún á koma til móts við raunverulegar þarfir, spurningar, tilfiningar og bregðast við til góðs fyrir fólk.

Kirkjubrunar, eiginlegir og táknrænir, eru engum til góðs heldur fremur tákn um einhvers konar sturlun. Hamfarir á netsíðum gegn hinu trúarlega líka. En raunhæf og raunsönn trú er einstklingum og samfélagi nauðsyn til lífs. Verkefni okkar allra, hvort sem við erum vígðir prestar eða ekki, er að lifa trú okkar og með ábyrgð í tengslum við fólk, Guð, samfélag og náttúru. Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ Það eru ekki akrar til dauða heldur lífs.

Hugleiðing í Neskirkju 20. október, 2013

21. sd. eftir þrenningarhátíð – B

Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.

Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.

Guðspjallið: Jh. 4. 34-38

Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.