Greinasafn fyrir merki: sorg

Þunglyndi, sorg og Davíð konungur

Ég var beðinn um að skrifa greinarstubb um sorg og fór að skoða nokkra biblíutexta. Löngum hefur mönnum verið ljóst mikilvægi þess að geina á milli þunglyndis og sorgar. Ekki aðeins í hinum klassíska gríska og rómverska heimi heldur líka hebresk/gyðinglega. 

Ástæður þunglyndis og sorgar eru yfirleitt ólíkar og úrvinnslan líka. En auðvitað geta þunglyndi og sorg ofta fléttast saman. Davíð konungur var tilfinningavera og hægt er að sjá í sögu hans tvær víddir tilfinningaúrvinnslu. Ég mun ekki ræða sögu Davíðs eða tilfinningaúrvinnslu í Biblíunni í greininni í vinnslu en mér þótti áhugavert að sjá að Biblían er svona kostarík. 

Í Davíðssálmi 38 er þunglyndi lýst:

Ekkert er heilbrigt í líkama mínum
vegna reiði þinnar,
ekkert heilt í beinum mínum
sakir syndar minnar.
Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð,
þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.
Ódaun leggur af sárum mínum,
það grefur í þeim sakir heimsku minnar.
Ég er beygður og mjög bugaður,
eigra um harmandi daginn langan.
Brunasviði er í lendum mér 
og ekkert er heilbrigt í líkama mínum.
Ég er lémagna og sundurkraminn,
styn í hjartans angist.

Ljóðið hefur oft verið eignað Davíð konungi. Hver höfundur er skiptir ekki máli fyrir túlkunina en Davíðssálmarnir tjáir allar tilfinningar manna. Þunglyndi hefur verið kunnugt og þungbært öllum kynslóðum mankyns. En sorg og sorgarferli er annað en depurð. Þegar Sál konungur og Jónatan vinur Davíðs dóu syrgði hann þá ákaflega og samdi sorgarljóð en ekki þunglyndisljóð. Í 2. Samúelsbók segir svo í fyrsta kafla:

Hetjurnar eru fallnar
mitt í orrustunni,
Jónatan veginn á hæðunum.
Ég harma þig,
Jónatan, bróðir minn.
Þú varst mér mjög kær.

Síðan er unnið úr áfallinu, brugðist við dausföllunum og stefnt fram á veginn. Áfallið var raunverulegt, tilfinningauppnámið mikið, tár féllu og vinna varð úr sorginni. Þunglyndi þarf að vinna með til að ná jafnvægi í lífinu. En sorgarhús verða oft fæðingardeildir visku. 

Veit einhver vina minna hvort greint er á milli sorgar og þunglyndis í forn-íslenskum bókmenntum?

Myndina tók ég af pálma við Jaffastræti í Jerúsalem. 

Saknaðarilmur

Hvernig er lyktin af sorg og látinni móður? Hvernig er lyktin af ást? Saknaðarilmur er saga Elísabetar Jökulsdóttir og er um móðurmissi og tilfinningar og minningar sem vakna við uppgjör og úrvinnslu. Sagan teiknar upp flóknar persónur dóttur og móður og hvernig þær lifðu og höfðu víxlverkandi áhrif á hvora aðra. Sagan er átakanleg frásögn um sorgardýptir og blæbrigði. Saknaðarilmur hreif mig. Hún tjáir að höfundur hefur unnið með vanda sinn og náð sátt. Þetta er átakanleg bók en líka hrífandi uppgjör sem allir geta lært af.

Í Saknaðarilmi gerir dóttir upp við móðurina, gjafir hennar, umhyggju en líka hörku og kulda í samskiptum. Myndin sem Elísabet dregur upp af móður sinni er mótsagnakennd. Harkan í samskiptum þeirra særir en ástarleitin hrífur. Stundum er elskan harðhent og jafnvel ofbeldisfull. Andstæður persónu móðurinnar ríma síðan í túlkun á þverstæðum í persónu Elísabetar. Sannleikurinn í samskiptum þeirra var ekki einnar víddar heldur marglaga.

Mikill hraði er í málsmeðferð og stiklað er á milli tíða og skoðunarefna. Sumir kaflarnir eru aðeins nokkrar línur en aðrir lengri. Flestir ljóðrænir og merkingarþrungnir og sumir expressjónískir. Saman teikna þessi kaflabrot mynd  af erfiðum uppvexti, áföllum, misskilningi, baráttu, gjafmildi, hæfileikum, harðræði, misþroska, sálarkreppum, margræðum persónum í samskiptum og svo öllu hinu venjulega líka.

Saknaðarilmur er líka saga um hvernig áföll hafa kreppt að fólki og lemstrað. Herpt fólk á erfitt með að rækta ást og þegar allur tími og athygli fer í að bregðast stöðugt við nýjum vanda vorar seint. Ástarteppa eða ástarherpingur er slæmur uppvaxtarreitur hamingjunnar.

Saga Elísabetar tjáir með mikilli einlægni harkalega reynslu og kreppt samband móður og dóttur. Bókin er ekki aðeins vel skrifað bókmenntaverk heldur ljómandi samtalsefni fyrir fólk sem hefur áhuga á samskiptum kynslóða og menningu fjölskyldna. Svo er bókin merkilegt rit um framvindu sorgar og hvernig má vinna með og jafnvel græða kalbletti sálarinnar. 

Ég velti vöngum yfir hvernig erfið lífsbarátta mótar fólk og jafnvel afmyndar. Fátæka Ísland bjó til krumpað fólk sem skilaði herpingi aldanna áfram til framtíðarkynslóða. Syndir mæðra og feðra bárust og berast áfram, ekki bara í erfðamengi heldur líka í menningu fjölskyldna, ætta og þjóða. Barátta Íslendinga við fátækt skilaði fátækt í samskiptum, fáum faðmlögum og fátækt í ástartjáningum. En þrátt fyrir allt er manneskjan mesta undrið og elskan leitar upp í okkur öllum. Þá ilmar.

Hann var mér norður, suður – austur og vestur

Síminn sönglaði, skilaboð bárust frá Noregi. Vinkona í Þrándheimi hafði verið beðin að lesa eitthvert viðeigandi ljóð við útför vinar. Og vinkonan norska bað um hjálp. Hvað ljóð væri hægt að lesa við útför elskaðs vinar? Hávamál eða eitthvað eftir norskan höfund? Það ljóð, sem var mér þá stundina efst í huga var ljóðið sem var flutt við útför í kvikmyndinni Fjögur brúðkaup og jarðarför. Ég fletti upp að nýju hinu magnaða ljóði Wystan Hugh Auden Funeralblues og minntist stórkostlegs flutnings John Hannah á þessu ljóði í kvikmyndinni þegar hann kvaddi maka sinn. Hvaða tilfinningar vakna þegar maður missir ástina sína? Hvernig breytist veröldin við dauða?

Vinkona mín las ljóðið á enskunni og heillaðist af hljóðlátum krafti þess. Svo fletti hún upp norskum þýðingum þess. En þar sem engin þeirra snart hana snaraði hún sjálf ljóðinu á nýnorsku – og flutti við útför vinar síns í gær. 

Glóðin í texta Auden er persónuleg og hefur sértæk en mismunandi áhrif. Engin íslensku þýðinganna snart mig heldur svo ég umorðaði líka. Það varð ekki þýðing orða eða efnisatriða heldur fremur snörun tilfinninga í þessu sorgarljóði Auden. Djúpsvartur harmur og tilfinningar fólks í sorg eru líkar á öllum öldum og í mismunandi aðstæðum. 

Útfararblús

Stöðvið tímann, kastið símum.

Hendið beini í hundinn og kæfið gjammið.

Stöðvið glamrið – syrgjendur nálgast.

Lyftið kistu við dempaðan bumbuslátt.

 

Hann er dáinn. Þotur veina á flugi

og krota andlátsfregn á himinskjáinn.

Fregnin fer um samfélagsvefinn.

Fánar í hálfa stöng.

 

Hann var mér norður, suður – austur og vestur,

allar helgar og vinnuvikur.

Hann var mér dagar, nætur, mál og músík.

Ég hélt að ástin væri eilíf – en hvílík blekking!

 

Stjörnur daprast. Slökkvið á þeim.

Hyljið tungl og drepið sól.

Sturtið hafi og eyðið gróðri.

Engin gleði framar, ekkert líf.

Sorgin er skuggi ástarinnar og tárin flæðandi sorg. Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Sá syrgir aldrei sem aldrei hefur elskað. Ef við viljum losna við eða forðast að harma kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Veröldin missir lit og allt skekkist. Ástvinamissir skilgreinir veröldina, efnisheiminn og merkingu alls. Þá hrynja lögmál heimsins og allt breytist, litir verpast, mál og merking hliðrast. Sorgin málar allt, líka skýin.

Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg manna og skilur sársauka. Dauðinn dó, en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Bæn: Guð: Ver okkur norður, suður – einnig austur og vestur, allar helgar og vinnuvikur. Ver nærri daga, nætur og í máli og músík.

 

Hin hlið ástarinnar

Sonur minn spurði mig fyrir nokkrum dögum: „Pabbi hefur þú þurft að tilkynna fjölskyldu að einhver sem tilheyrði henni hafi lent í slysi og dáið?“ Ég svaraði honum að það væri erfiðasti þáttur prestsstarfsins að fara heim til fólks og bera því hörmulegar fréttir. Hann hélt áfram að spyrja: „Hvernig líður þér þegar þú hittir fólkið og þarft að segja þeim frá hræðilegum málum, slysum og dauða?“ Ég sagði honum frá hve átakanlegar aðstæðurnar væru oftast og líka tilfinningaflóðinu, hvað færi í gegnum hugann gagnvart þessu nístandi verkefni, hvernig ég undirbyggi mig, opnaði vitundina, tengdi inn í himininn og kyrrði hugann. Til þess að geta þjónað fólki vel væri mikilvægt að vinna með eigin ótta, áföll og trú. Við töluðum svo saman áfram, prestur og pabbi með reynslu af mörgum sorgarferðum og sextán ára ungur maður sem þorir að vinna með hlutverk, líf og dauða og spyrja. Mitt hlutverk er að vera honum faðir sem miðlar hvernig maður virðir mörk sín, bæði sem dauðlegur einstaklingur og líka sem prestur í þjónustu við líf, fólk og Guð.

Ég dáðist að syni mínum að hann hefði getu til samkenndar og að spyrja mikilvægra spurninga, væri reiðubúinn að ræða um myrkrið, óttann og eyðinguna og vilja til að halda á djúp visku og skilnings. Og var líka þakklátur fyrir að feðgatengsl okkar væru opin og þyldu svona þungaumferð sálarinnar. Ég hef sagt honum sögur úr eigin lífi, hvernig ég brást við eigin dauðaógn á unga aldri. Hann hefur líka sagt mér hvað hann hugsaði þegar hann hjólaði framan á bíl, flaug hátt í loft upp áður en hann skall í götuna. Og hann veit að við eigum alltaf val hvernig við bregðumst við áföllum og verkefnum lífsins.

Allir deyja – segjum við. Skuggahlið alls lífs er hrörnun og dauði. Hvaða afstöðu hefur fólk? Er lífi lokið við dauðastund eða er andlát fæðing til nýrrar veru? Hvernig bregðumst við í hörmulegum aðstæðum þegar fólkið okkar er slitið úr fangi okkar og fjölskyldu? Tengjum við sjálf okkur við skil tíma og eilífðar? Undirbúum við okkur undir fæðingu til eilífðar? Í dag íhugum við stóru málin í þessu hliði himins. Um líf og dauða, ást og sorg. Um sæluna sem Jesús talar um – og sú sæla er að vera með Guði.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Þegar við minnumst ástvina er hollt að hugsa um líðan okkar og líka íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð. En djúpíhugun þessara daga varðar þó ekki dauða heldur fremur líf. Kristnin er ekki dauðasækin heldur lífssækin.  

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Sorg er hin hlið elskunnar. Þau sem aldrei hafa elskað syrgja ekki dauða annarra. Sorg er viðbragð þess sem hefur elskað en misst. En getum við forðast sorg og gætt að okkur svo við verðum ekki fyrir áfallinu? En valið á sér skuggahlið. Viltu sleppa að elska? Viltu fara á mis við ástvini? Fæst vilja afsala sér þeim undursamlega þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. En að vinna með sorg og búa við sorg er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa áfram þrátt fyrir missinn. Syrgjandi kemst oftast á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarvinnu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi. Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern og stundum langan tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er gjarnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana í tilverunni – eiginlega utan við sjálf sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur jafnvel sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma eða jafvel barnið þitt? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau.

Og svo að þínu lífi nú. Hver er sæla þín? Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín? Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir brenglaðri mannaveröld, mengun sköpunar og dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. En dauðinn dó og lífið lifir. Því lýkur lífi ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum eigin dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Í lok athafnar getið þið gengið fram og kveikt á kertaljósum og lagt í tröppurnar til að minnast látinna. Nýtið færið til að blessa minningarnar, vinna með tilfinningarnar – allar, líka þær sterku og neikvæðu, leyfa Guði að taka við eftirsjá og depurð þinni. Þú mátt kveikja ljós og minna þig á að lífið lifir. Trú er ekki vegferð til dauða heldur ferð lífsins. Dauðinn dó en lífið lifir.

Hugleiðing á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 7. nóvember, 2021. Meðfylgjandi mynd tók ég austan við Ingólfsfjall að kvöldi 30. október 2021. Útsýn til austurs og norðurljósin dönsuðu á danshvelfingu himins. 

Sorgin – skuggi ástarinnar

Sorg er ekki sjúkdómur heldur einn af þáttum heilbrigðs lífis. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. Dauði, skilnaður, ósætti, tengslarof og vinslit valda sorg.

Ástin er meginþáttur heilbrigðs lífs. Allir vilja elska en enginn syrgja. Ef við viljum losna við sorg og söknuð ættum við að sleppa því að elska. Þau syrgja ekki sem hafa aldrei elskað. En sorg er jafn eðlilegur þáttur lífsins og ástin. Sorg er gjald elskunnar. Sorg er skuggi ástarinnar.

Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið hafi breyst. Yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang. Sorgarþróun er gjarnan lýst sem mynstri sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju. Sorgarferli er því ekki aðeins áfall heldur vegferð með litríkum tilfinningasveiflum. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum.

Þegar fólk missir verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun. Áfallið getur verið svo mikið að fólk verður sem lamað af drunga áður en bataferlið hefst. Að syrgja er ekki sjúklegt heldur fremur merki um að tilfinningar eru heilbrigðar en ekki búnar að jafna sig á áfallinu. Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling sálar. Stundum tekur langan tíma að þýða sálarfrostið. Vegna dofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo, eins og í náttúrunni á vorin, verður flóð í sálinni. Það er jafnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis. Margir upplifa að vera illa áttuð og einmana.

Söknuður er langlífur. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert ef ekkert er gert. Eins og líkamleg sár þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Það hjálpar að tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er sárt. Að tala um heilsumissi, skilnað, vinslit og áföll er erfitt en mikilvægt. Tilgangurinn er að hreinsa sárin.

Hver hafði mest áhrif á þig og gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir eða faðir, afi eða amma, maki eða börn? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur eða dýrlingur? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir af fólki sem hafa haft áhrif. Dagar minninga eru dagar lífs.

Birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember, 2020