Greinasafn fyrir merki: Sonja Sigrún Nikulásdóttir

Sonja Sigrún Nikulásdóttir 1940-2013

IMG_0958Sonja Sigrún Nikulásdóttir f. 23. júlí 1940 d. 14. desember 2013.

Ævi manns er ekki aðeins það fæðast, að slíta barnsskóm, fara í skóla og sinna ástvinum og vinnuverkefnum lífsins – heldur hvað? Að lifa vel. Í 90. Davíðssálmi segir:

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse:

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Sonja Sigrún Nikulásdóttir fæddist á Akranesi 23. júlí 1940. Hún fæddist inn í sumarið og bar með sér birtu og yl æ síðan. Sonja var dóttir hjónanna Nikulásar Oddgeirssonar (f. 9.10.1906 d. 04.08.1983) og Sigrúnar Sigurðardóttur (f. 3.01.1913 d. 28.10. 1972). Hann var vélstjóri og hún húsmóðir. Þeim varð fjögurra barna auðið. Elstir eru Grétar Geir (f. 10.10.1933) og Sigurður Þorsteinn (f. 11.11.1934).

Drengirnir fæddust 1933 og 1934 og svo liðu fjögur ár. Þá fæddist þeim Sigrúnu og Nikulási árið 1938 stúlkubarn. Hún fékk nafnið Sonja Ester en lifði aðeins tæpa fjóra mánuði og lést vöggudauða í febrúar 1939 (f. 23.10.1938 d.15.02.1939). Einu og hálfi ári síðar kom svo Sonja Sigrún í heiminn. Hún fékk nafn eftir látinni og syrgrðri systur og Sigrúnarnafnið var frá móðurinni.

Fyrstu æviár Sonju bjó fjölskyldan á Akranesi, en eftir stríð fluttust þau búferlum suður fyrir Faxaflóa og Reykjavík og settust að í Hafnarfriði – á Tjarnarbraut 3. Pabbinn kom í land og fór að vinna hjá Rafha og þar nýttist vélstjóraþekking hans og þjálfun vel. Sonja gekk í skóla í Hafnarfirði og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg.

Síðan fór hún að afla sér tekna og stundaði ýmis störf. Hún vann á Sólvangi í Hafnarfirði og svo hjá heildverslun Ásbjörns Ólafssonar en megnið af starfsævinni var Sonja starfsmaður Landsbankans, lengstum í gjaldeyrisdeild og á alþjóðasviði. Og starfsstöðvarnar voru margar. Hún vann m.a. í aðalbankanum, á Laugavegi 77, á Lynghálsi og svo inn í Mjódd.

Pétur og dæturnar

Og svo kom Pétur inn í líf Sonju. Pétur Guðmundsson var á ferð með vini sínum kvöld eitt árið 1960 og Sonja bauð hópi ungs fólks í kaffi á Tjarnarbraut 3. Það var upphafið að kynnum þeirra. Þau urðu svo par og gengu í hjónaband í Hafnarfjarðarkirkju á annan í jólum árið 1962. Þegar Sonja lést voru þau Pétur búin að vera hjón í tæplega 51 ár.

Pétur er bifvélavirki að mennt og starfaði við iðn sína. Þau Sonja keyptu sér íbúð á Kaplaskjólsvegi 29 í Reykjavík og bjuggu þau þar alla tíð – meira en hálfa öld, ólu þar upp dætur sínar og tóku þátt í mannlífinu í vesturbænum. Síðustu árin vann Pétur svo í sundlaug Vesturbæjar.

Dóttir þeirra Sonju er Ólöf sem fæddist 8. nóvember árið 1962. Hún er viðurkenndur bókari.

Maður hennar er Eyþór T. Heiðberg. Þau eiga börnin Evu Ýr (f.20.09.1991) og Hreiðar Þór  (f.17.02.1995).

Dóttir Sonju og Sæmundar Guðmundssonar er Sigrún sem fæddist 9. apríl árið 1959. Hún er grafískur hönnuður. Maður hennar  er Steinar Már Gunnsteinsson.

Dóttir Sigrúnar er Alda Rose Cartwright. Maður hennar er Pétur Már Guðmundsson og börn Öldu Rose eru Máni og Urður Ylfa.

Eigindir

Sonja var dugmikil fjölskyldukona, hélt vel um sitt fólk, þjónaði því og gladdi. Hún hafði mikla ánægju af afkomendum sínum og þau sóttu til hennar. Þegar unga fólkið kom var amma tilbúin með dagskrá og ómótstæðileg tilboð. Og stórfjölskyldan gat alltaf gengið að því vísu að gott og gaman væri að fara í heimsókn til Sonju og Péturs. Þar var þeim vel tekið og glatt var á hjalla.

Sonja var félagslynd og félagshæf. Glaðlyndi hennar smitaði og gladdi samferðafólk hennar. Hún var frændrækin eins og hún átti kyn til. Og hún ræktaði tengsl við samferðafólk sitt og fjölskyldu. Hún var hnyttin og lagði gott til fólks. Hún var umtalsfróm og vildi engan særa. Hún efldi því samfélag sitt og stillti til friðar og gleði.

Alla tíð hafði Sonja gaman af fjölbreytileika mannlífsins. Hún var áhugasöm um framandi menningarheima og naut ferðalaga. Þau Pétur ferðuðust víða innan lands og utan. Á fyrri árum fóru þau á skíði og studdu KR með ýmsum hætti. Sonja hafði nautn af ferðalögum erlendis og fóru þær vinkonur hún og Ásrún Ingadóttir einnig í margar ferðir saman. Sonja fór ekki aðeins í ferðir til Evrópulanda heldur alla leið til Kína. Einnig fór hún í enskunám til Englands og var þá búsett á ensku heimili. Sonja var órög til ferða og fræðslu. Svo var Sonja spilandi gáskafull og uppátækjasöm. Hún hafði t.d. sérstakt dálæti á mótorhjólum og settist gjarnan á þau ef þau urðu á vegi hennar. Hún hefði sjálfsagt alveg getað hugsað sér að eiga eitt stykki Harley Davidson.

Sonja var listhneigð og opnaði hug sinn gagnvart undri leikhússins. Hún hafði mjög gaman af leikhúsferðum, fór með ástvinum og líka vinkonum sínum. Svo miðlaði hún gleðinni til yngri kynslóðarinnar með því að fara með unga fólkið í leikhús og að í því húsi undursins gæti maður notið mikillar reynslu.

Sonja var umhyggjusöm. Sjöfn Kristinnsdóttir vinkona og mágkona hennar vissi hve mannelsk hún var og einnig hve félagslega fær hún var og fékk Sonju til starfa við Thorvaldsensfélagið. Þar nýttust gáfur hennar og hæfni hennar vel. Sonja var í stjórn barnauppeldissjóðs félagsins. Mannræktarstarf félagsins naut starfskrafta Sonju til lífsloka hennar. Félagskonur og vinkonur Sonju biðja fyrir kveðjur og þakkir og votta henni þá virðingu að bera kistu hennar úr kirkju í lok þessarar athafnar.

Hvernig var Sonja? Hvernig manstu hana? Já, hún var glaðsinna, ljúf, traust, skörp, gjafmild, trygg, hjálpsöm, bóngóð, elskurík og skemmtileg. Eitthvað fleira? Já, raunar margt. Þú mátt gjarnan bæta í sjóðinn og til þess eru erfidrykkjur góðar. Þar má líka segja sögur og halda ræður. Og erfidrykkja verður í safnaðarheimili Neskirkju strax að útför lokinni.

Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju Steinunnar Helgu Sigurðardóttur í Danmörku.

Æviverkin

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viskan? Það er viska að bera virðingu fyrir lífi og lifendum. Það er viturlegt að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar og vera sterkur hlekkur í keðju kynslóða.

Ágústínus kirkjufaðir minnti á að lífsgangan er sveigur, för frá Guði og í sveig og til baka til eilífðar og í fang Guðs. Hvaða leið sem við förum, hvaða fjöll sem við klífum og hvaða blóm sem við lútum að eru lok – og við hverfum í faðm eilífðar, þá lokast Guðssveigurinn. Nú eru jól – sendiboði Guðs sem kom á jólum var sá sem skapaði Guðssveiginn.

Sonja fer ekki í leikhús framar, ekki til útlanda og hlær ekki við vinum sínum eða ættingjum. Nú er hún komin heim í himin Guðs. Hún hefur lifað vel. Konan sem fæddist inn sumarið hefur nú fæðist inn í himininn á jólum og Guðssveigur hennar er alger og heill.

Guð geymi Sonju um alla eilífð, Guð geymi Pétur, Sigrúnu, Ólöfu, afkomendur og ástvini.

Guð blessi þig. Í Jesú nafni. Amen.

Minningarorð í útför – Neskirkju 30. desember 2013.

Bálför og jarðsett síðar í duftagarðinu í Sóllandi.