Greinasafn fyrir merki: Sóley Tómasdóttir

Sóley Tómasdóttir – minningarorð

Brekkusóley, jurtadjásn í íslenskri náttúru. Söngur þessa ljóðs Jónasar Hallgrímssonar kveikir liti í huganum, færir jafnvel lykt úr móa sumarsins í vit okkar. Og það er gott að hugsa um blóm þegar hvítt ríki vetrarins heldur fast, að leyfa unaðinum að koma til okkar og vinna gegn kulda, svörtum og hvítum litum þessa tíma.

Smávinir fagrir, smávinir sem eru foldarskart. Og svo sprettur fram hin þokkafulla og elskulega bæn Jónasar fyrir þessum reit. Við getum skilið með okkar skilningi, verið náttúruverndarsinnar, menningarsinnar, lífsinnar – og samþykkt þessa umhyggjusömu tjáningu. Faðir og vinur alls sem er, annastu þennan græna reit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

Íslensk sumur eru björt, dásamleg og mjúkfingruð, fullkomin andhverfa vetrarins. Trúmenn allra alda hafa séð í vetrinum myndhverfingu eða líkingu fyrir dauða. Allar lífverur eru markaðar endi, mæta lokum sínum, sem er táknaður með svefni. En vonarmenn vænta vors og sumars – eilífðar. Þessi nátturunæma afstaða kemur fram í versunum í 90. Davíðssálmi. Þar segir:

„Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” (Úr 90. Davíðssálmi).

Þetta las fólk í baðstofum þjóðarinnar á sinni tíð, afar og ömmur Sóleyjar. Þennan texta þekkti Matthías Jochumsson líka þegar hann tók til við að semja lofsöng sinn fyrir þúsund ára afmælishátíð Íslandsbyggðar árið 1874, söngur sem varð síðan þjóðsöngur Íslendinga.

Kannski hefur þú aldrei hugsað um að Sóley er í þjóðsöngnum þar sem segir: „…eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr….” Vissulega eru það blóm merkurinnar, sem þarna er talað um, en það er líka allt líf, stórt og smátt, lífríkið, sem skáldið felldi inn í textann. Sóley líka… öll erum við seld undir sömu lög, sama himinn, sól, líf, gleði og sorgir. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er hið sama: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – „hverfið aftur.” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og lærum að biðja bænina: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Sóley fæddist í Viðey 25. nóvember á Alþingishátíðarárinu, 1930. Foreldrar hennar voru Elísabet Elíasdóttir – ættuð að vestan – og Tómas Tómasson – en hann var frá Vík í Mýrdal. Systkinin sem lifðu voru sjö. Sóley var tvíburi, tvær smáar stúlkur komu saman í heiminn. Systirin var 8 merkur en Sóley aðeins fimm. Það má teljast furðulegt að Sóley skyldi lifa en stærri systirin, sem var skírð Fjóla, dó. En svo fæddist önnur stúlka síðar og hún fékk að bera þetta fallega nafn – Fjóla – og gekk nánast inn í hlutverk tvíburasystur Sóleyjar. Saman voru þær jurtir á akri umhyggju og hjálpsemi og urðu nánar. Fjögur systkinanna eru á lífi, Jens, Margrét, Haukur og Fjóla.

Fjölskyldulífið var fjörlegt og foreldrarnir voru samhentir. Tómas var skemmtilegur, róttækur og yndislegur – var sagt í mín eyru – og Elísabet öflug, grínisti og lífskát. Það var oft mikið fjör og hlegið í bænum. Barnahópurinn stækkaði og Tómas vildi í land og hætti sjómennsku á togurum. Þau fluttu líka úr Viðey og fóru á Ránargötu og síðan í Skerjafjörð. Tómas gegndi ýmsum störfum og meðal annars verslunarstörfum. Börnin fóru í Skildinganesskóla. Þegar skólinn var fluttur í Grimsby-húsið á Grímsstaðaholti fóru þau af börnunum þangað, sem enn voru í skóla. Svo flutti öll fjölskyldan frá sjónum og norður fyrir Hringbraut, síðan áfram austur í bæ, í Blönduhlíð, í Hraunbæ og síðan á Langholtsveg.

Sóley fór í Skildinganesskólann. Eitt árið var hún líka í heimavist í Laugarnesskóla því einhver í heilsufarseftirlitinu taldi að það væri staðurinn til að þyngja hana, en sóleyjar eru nú jafnan nettar. Seinna fór hún og átti samleið með Fjólu – í Ingimarsskóla sem var við Lindargötu. Hún fór svo að vinna, afla sér tekna, bar út blöð, vann í KRON-útibúinu í Skerjafirði og jós væntanlega mjólk í brúsa.

Svo dansaði Sóley sig eiginlega inn í hjónaband. Danshópur ungs fólks, sem hugsaði róttækt í stjórnmálum, var myndaður til að dansa á heimsmóti æskufólks í Búkarest, árið 1954. Sóley var lipur og Magnús Sigurjónsson líka. Hann var úr Reykjavík. Stemming æsku á heimsmóti var ljómandi rammi um hjúskap þeirra. Þau gengu í hjónaband og eignuðust drengi sína. Hallgrímur Gunnar fæddist fyrst og síðan kom Hrafn fjórum árum síðar. Magnús var bifvélavirki, vann hjá Reykjavíkurhöfn, Sambandinu, Togaraafgreiðslunni og Albert Guðmundssyni. Hann lést fyrir aldur fram árið 1970.

Sóley var heimavinnandi meðan Magnús lifði. Þau bjuggu á Rauðarárstíg, en síðan flutti hún með syni sína upp í Hraunbæ og bjó í sömu blokk og foreldrar hennar og Fjóla. Þaðan lá leið alls hópsins á Langholtsveg 165. Sóley byrjaði að vinna á Borgarspítalanum, lærði til sjúkraliða, hafði unun af að þjóna sjúklingum og var þeim hin besta Florence, svo um var talað. Hún lagði á sig að læra nudd og notaði síðan til að bæta lífsgæði sjúklinga. Í spítalavinnu var hún þar til heilsan gaf sig og líkamskraftur leyfði ekki lengur álag umhyggjunnar.

Á þessum árum Borgarspítalavinnu birtist Ólafur Ólafsson allt í einu við eldhúsborðið á Langholtsvegi. Það var eins og hann hefði þekkt fjölskyldu Sóleyjar alla tíð. Reyndar hafði hann búið á Grímsstaðaholtinu og séð til systkinanna og heyrt hvað var sagt og hverjir voru hvers. Hann var ekkjumaður, átti unga menn á heimili og sá um þá og velferð þeirra. Synir hans eru: Jakob, Jón, Jóhannes og Borgar.

Ólafur var rennismiður og vann löngum hjá Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Þegar Sóley og Ólafur ákváðu að rugla reitum seldi hann íbúð sína og þau fluttu saman í Álfheima. Ólafur lést árið 2000.

Sóley bjó um tíma í íbúð þeirra áfram, en síðustu árin var hún á Foldabæ og síðast á Droplaugarstöðum.

Hallgrímur Gunnar, sonur Sóleyjar, er húsgagnasmiður. Hans kona er Anna Ástþórsdóttir. Þau eiga tvö börn, Halldóru Ósk og Ástþór Óla. Halldóra og Davíð, maður hennar, eiga Gunnar Þór og Guðmund Óla.

Hrafn er vélstjóri og verktaki. Hann á fjögur börn, tvær dætur og tvo syni. Þau eru Magnús Már, Ólöf Anna, Kolbeinn Máni og Steingerður Sunna. Ólöf Anna á síðan börnin Emelíu Svölu og Erlu Dís.

Eigindir

Hvernig manstu Sóleyju – hver er mynd hennar í huga þínum? Manstu eftir saumaskapnum hennar?

Manstu eftir tónlistaráhuganum? Sálmskrá þessarar athafnar vísar í afstöðu hennar. Hún sótti ekki aðeins kirkjutónleika og hafði nautn af. Með systrum sínum fór hún á sinfóníutónleika og þær fóru jafnvel á þrjár raðir tónleika eða 23 tónleika yfir veturinn. Það var ekki aðeins klassík tónlist, sem Sóley heillaðist af, heldur líka þjóðleg tónlist og músík fyrir dansandi fætur. Hún gat alveg haft gaman af nútímatónlist, bara lokaði augum, leyfði tónlistinni að flæða inn í sig og kveikja neista í sér. Tónlistin gat lyft henni upp úr skuggum og lýst upp í huga hennar. Og svo brosti hún með systrum sínum að þeim undrum sem tónlistin gaf þeim.

Manstu eftir brosinu hennar? Manstu að það var ekki skynsamlegt að reyna að skipa Sóleyju fyrir verkum, hún var ekkert hrifin af slíku! 

Manstu eftir pólítískum áhuga hennar? Sóley vildi stjórnmál með róttækni eða var það rótsækni, sem jurtin þurfti?

Svo var það stjörnuspekin sem hún sökkti sér í og gerði stjörnukort fyrir þau af hennar fólki, sem hafði nef og húmor fyrir slíku. Í þeim málum varð Sóley kunnáttusöm og aflaði sér þekkingar á þessum fornu fræðum.

Sóley var langförul ferðakona. Hún ferðaðist um Ísland og síðan um víða veröld. Það urðu ekki aðeins dansferðir, sem hún fór. Hún kannaði landið, elskaði það og naut þess. Var tilbúin að vera sem brekkusóley í dýrðarríki Íslands. En svo var hún til í að skoða fjarlægar slóðir og fjölbreytilegt líf, menningu fólks þessarar jarðarkúlu. Fjóla fór stundum með þeim Ólafi en síðan fóru þær saman eða með hóp á síðustu árum. Og það voru fá mörk sem hindruðu. Þær voru saman í Concert Gebouw í Amsterdam og hlustu á Beethoven og síðan voru þær á Kúbu og Kínamúrnum.

Hver er minning þín? Veldu þér minningu. Veldu það sem gerir þér gott og leyfðu svo hinu að fara, slepptu til að þú haldir ekki í það sem verður þér til trafala í þínu lífi. Við megum sleppa sorgarefnum, eftirsjá – öllu því sem letur líf þitt nú eða í framtíð. Fortíðarefni og dauðamál verða okkur ekki hvatar eða tilefni fyrir lífsgæði. Skilvís sorgarvinna stefnir að gleði  – og ánægju með fólki og fyrir fólk, sem lifir og er í okkar ranni.

Viturt hjarta

„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, náttúrunni og tónlist. Það er viturlegt að endurmeta lífið, endurskoða og taka nýja stefnu, láta ekki hugfallast og ákveða að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar. Svo þegar lífið er gert upp þá kemur í ljós að við vorum sem jurtir í mörkinni, titrandi blóm sem lifum um stund, gleðjumst, verðum fyrir hretum og þolum alls konar álögur. Svo roðnar brekkan, lífið fjarar út, en lífið lifir áfram í kynslóðum sem koma. Kynslóðir halda áfram og eru sem lífkeðja, sem góð speki úr stjörnubúi Guðs knýr með elskusemi sinni.

Sóley fer ekki aftur á tónleika, en fær að njóta tónaflóðs úr himneskri hljómsveit. Hún brosir ekki aftur á risamúr í Kína en fær að skoða hin himnesku mannvirki. Hún nuddar ekki fleiri iljar eða strýkur hár, heldur fær að njóta ástríkis sem er æðri öllum skilningi. Sóley hefur nú sprungið út í himnaríkisbrekkunni.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

Guð blessi minningu Sóleyjar. Guð geymi hana um alla eilífð.

Minningarorð í Fossvogskirkju 4. febrúar 2011.