Ég óska lausnar frá embætti sóknarprests Hallgrímskirkju. Þannig var beiðnin sem ég sendi stjórnsýslu kirkjunnar um að ég óskaði að láta af starfi sóknarprests. Ég fékk svar til baka frá biskupi að mér væri veitt lausn. Ég lýk því brátt störfum sem prestur í þjóðkirkjunni og sóknarprestur Hallgrímskirkju.
Ég man að þegar ég hóf prestsþjónustu í Skaftafellssýslu var allt svo nýtt, allt var í fyrsta sinn og líka meðal Þingeyinga síðar. Svo var flest nýtt í Neskirkju og margt þurfti ég að læra þegar ég hóf störf í Hallgrímskirkju. En nú er fæst nýtt heldur allt síðast. Nú er aðventuguðsþjónustan á sunnudag sú síðasta á æfi minni sem prests. Síðasta „miðnæturmessan“ og síðasta jólaguðsþjónustan á annan í jólum. Ég prédika í síðasta sinn á gamlársdag og nýársmessan verður sú síðasta á minni æfi – líklega. Síðast er allt öðru vísi en í fyrsta sinn. Hvorki verra né betra en allt annarar merkingar. Í mínu tilviki er ég ekki að stoppa eða deyja heldur virða breytinguna, finna til og hugsa í gegnum hana. Opna til nýs lífs. Ég er að byrja þriðja æfiskeiðið og tíminn er opinn. Frelsið er róttækt.
Óska lausnar – en lausnar frá hverju? Orðfæri kirkjunnar eins og opinberrar stjórnsýslu er um þunga eða byrðar sem hægt er að létta af fólki. Okkur prestum eða djáknum er veitt lausn því embætti er byrði þess að bera ábyrgð á kirkjulegri þjónustu við ákveðinn hóp fólks og í ákveðnum aðstæðum. Stólan er tákn oksins og sett á axlir hins nývígða. En byrði mín hefur verið létt því ég hef virt inntak trúmennskunnar og skorður frelsisins. Nú verður skyldunum brátt létt af og ég ræð mínum tíma sjálfur, geri það sem ég hef mest gaman af, sinni því sem ég hef sett til hliðar jafnvel í áratugi, skrifa um það sem brennur í sinni eða blæðir í hjarta og geng þær leiðir sem kalla. Af mér verður létt embætti en ekki reisunni með Guði, ástvinum, fólki og öðrum skemmtikröftum lífsins.
Hvað ætla ég að gera? Ég ætla að læra meira og læra margt nýtt, fara lengra og breyta mörgu. Gefa út postilluna sem ég er að klára, úrval predikana minna. Svo langar mig líka til að ganga portúgalska Jakobsveginn í vor með elskunni minni. Drama kristninnar er lífið. Bakpokinn verður ok á öxlum og frelsið í fótum, hjarta og huga.
Meðfylgjandi mynd tók ég á norðurleið Camino – Jakobsveginum á Spáni. Nýr vaxtartími viðarteinunganna á aprílakrinum.