Greinasafn fyrir merki: skriður

Guði að kenna?

Fjöldi fólks hvarf í svelg skriðunnar í Gjerdrum. Og Norðmenn spyrja. Af hverju? Við Íslendingar spyrjum gagnvart snjóflóðum og aurskriðum vetrarins: Af hverju? Næsta spurning er oft: Höfum við gert eitthvað af okkur? Heimsbyggðin spyr í nærri ársgömlu heimsfári: Af hverju? Voru gerð einhver mistök? 

Stórar spurningar kalla á stór svör. Sum varða mistök manna og rangar ákvarðanir. En svo vakna líka trúarspurningar. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir leiki sér að því að deyða. Er Guð valdur að dauðaskriðum? Er Guð að leika sér að því lauma veirum á milli lífkerfa á votmörkuðum í Kína og inn í mannheima til að gera tilraunir með fólk eða kannski bara skemmta sér? Er Guð eins og skapillur risi, harðbrjósta ofurvera sem ekki virðir reglur. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, sjúkdómar æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíma við sorg og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í heimsfaraldri og flóðum? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem einræðisherra er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram. Guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð og heimsfár. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann breytti hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús sem ég sé í Biblíunni og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir sem kenna sig við Krist séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[i] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.

Frelsið

En ef Guð elskar hvað gerir þá Guð? Í kvikmyndinni Bruce Almighty fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að við menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skulum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og heimsfaraldri eða skriðuföllum. Í mannheimi hefur fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast allan hrylling heimsins.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð sleppir ekki veirum lausum að geðþótta, hristir ekki jarðskorpufleka heinsins, ýtir ekki af stað skriðum í fjöllum eða þrýstir á kvikleir til að kalla fram hrun íbúðabyggða. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða trúmann sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum brenglaðra sem aflaga guðsmynd að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Guð er sá andlegi kraftur sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða – já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Hlutverk manna og þar með talið stjórnvalda er að sinna kalli til öryggis. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhendur þegar þarf og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og mennskur alræðisforstjóri eða einræðisherra veraldar. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist og stendur með með óttaslegnu fólki í skriðubyggðum Ísands. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð er ekki eins og kúgandi móðir eða harður pabbi sem neyðir börn sín. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Faraldur og umhverfisvá eru ekki refsingar af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Breytingar í náttúrunni og hamfarir má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En áföll kallar á næmni og hvetur til öflugs viðnáms gegn siðferðisbrotum. Guð er að starfi en ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæg systir eða bróðir sem stendur við hlið manna, hvetur til starfa, styður þegar við föllum, hvíslar að okkur huggunarorð þegar við höfum misst og yfirgefur okkur aldrei, þótt við bregðumst. Guð er nærri.

[i] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. „Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : „En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma“ Kirkjuritið 67 (3): 2001.