Greinasafn fyrir merki: skírn

Sigurþór Smári skírður

Ekkert prestsverk er skemmtilegra en að skíra og kitlandi gaman í himnesku veðri og nánast í fjörunni. Sigurþór Smári Sigríðarson Corno var blessaður í garðinum við Garðabæinn við Ægisíðu sunnudaginn 20. ágúst.

Ég hef oft gengið að heiman í hempunni til athafna og stundum frá kirkjunni líka. Hlaupararnir, vinir mínir á stígnum, kölluðu til mín og spurðu hvort mér væri ekki heitt í prestaúlpunni! Ísak sonur minn sem gekk með mér að heiman og út að Görðunum kímdi og hvíslaði að mér að allir yrðu svo formlegir við að mæta klerki á gangi og byðu góðan daginn. Þennan dag ákvað ég að embætta upp á danska stílinn – í hempunni. Það væri í stíl við sögu Garðanna og Grímsstaðaholtsins. 

Garðagarðurinn varð helgidómur, gleðin skein úr augum. Önnur amman bauð alla velkomna og stýrði umferð því svo margir komu til athafnar að helst líktist útihátíð. Guðmóðirin spilaði fagurlega á fiðlu og hélt á drengnum undir skírn. Bachhljómarnir fléttuðust að lágværum ölduklið. Fjörulyktin blandaðist gróðurilmi jarðar. Annar afinn las texta og hinn hélt ræðu, ekki fjallræðu heldur fjöruræðu. Amma hellti vatni í gullbryddaða skál sem guðfaðirinn hélt á. Allir sungu. Foreldrarnir geisluðu og Sigurþór Smári svaf værðarlega allt þar til klerkurinn lyfti honum – allir klöppuðu.

Mikið er af hvönn milli Garðanna og Lambhóls og ég náði í hvannafræ og setti í vatnið þegar vatnið var helgað. Talaði um mikilvægi náttúruverndar og minnti á að hvönnin væri ekki aðeins lækningajurt heldur héti því táknræna nafni angelica archangelica. Okkar verk væri að bregðast við kalli um að vernda náttúru og mannfólk – til að skírnardrengurinn fengi að njóta heilbrigði, náttúran og við öll.

Sigurþór Smári er heppinn með foreldra, Sigríði Regínu og Davíð. Það er vermandi að fylgjast með þeim þjóna syni sínum. Nú er bæði búið að skýra frá nafni hans og hann er skírður líka. Hann er drengur tíma og eilífðar. Svo fer ég upp í Neskirkju eftir helgi til að fá drenginn skráðan í kirkjubók enda var ég búinn að afla heimildar sóknarprests. Uppgjafaprestur vinnur jú engin prestsverk í leyfisleysi. Guð og menn blessi sólardrenginn Sigurþór Smára. Megi tuttugu gráðu blíðudagar verða margir í lífi hans og hans fólks. 

Barn, steinn og skírnarfontur Neskirkju

Þór Sigmundsson, steinsmiður og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, skáld, og börn þeirra gáfu Neskirkju fagran skírnarfont þegar Kolbeinn Tumi var skírður 16. 2009. Hugvekja þess dags fer hér á eftir. 

Skírnarfontur úr steini er tákngripur, vísar út fyrir sig til annars og dýpri veruleika, minnir á steinþróna, sem Jesús var lagður í og líka að lífið spratt fram. Neskirkja fékk skírnarfont að gjöf og drengur gefenda var skírður. Margt er því til íhugunar.

Ég hef verið að kenna öllum sonum mínum ferðabæn Hallgríms Péturssonar. Þeir taka vel við og bænin er orðin ómissandi upphaf ferða, sem við förum. Bænin er í sálmabókinni og er svona:

Ég byrja reisu mín,


Jesús, í nafni þín,


höndin þín helg mig leiði,


úr hættu allri greiði.


Jesús mér fylgi í friði


með fögru engla liði.

Þetta er góð bæn og ekki síst í reisuaðstæðum lífsins. En lífið – er það ekki ferðalag? Skáldið Tómas minnti á, að það væri undarlegt ferðalag. En við megum gjarnan skilja það sem svo það sé undursamlegt. Tilveran er ekki bara hótelgisting heldur heimili ef við virðum eigandann. Okkur, börnum jarðar, er ekki ætlað að halda okkur til hlés í einhverju skoti heldur taka viðburðum daganna með opnum huga, með áræðni og bjartsýni. Og þannig má afstaða okkar vera gagnvart litlum börnum og nýju lífi.

Nýr fontur

Í dag höldum við hátíð. Harður en klappaður steinn er blessaður. Lítið, mjúkt og margstrokið barn, Kolbeinn Flóki var borinn að grjótinu til skírnar. Skírnarfonturinn er fallegur og drengurinn er stórkostlegur. Þessi nýi skírnarsár Neskirkju er gerður af föður drengsins. Þegar fóstrið stækkaði í kviði móðurinnar var listaverkið að mótast í huga pabbans. Hann skoðaði steina, gerði skissur og kannaði möguleika og leiðir. Það er fallegt að meðganga barnsins var samtíða meðgöngu fonts. Samtímis urðu þau til barn og fontur. Þau eru af sama meiði og eiga sér þegar dýpst er skoðað upphaf í veruleika þess sem klappar heiminn til lífs, Guðs.

Ferjustaður

Í sumar fór ég í ævintýraferð austur við Selfoss. Við, fjölskyldan, fundum Hellisskóg, unaðsreit á vesturbakka Ölfusár, uppvaxandi skóg Selfyssinga. Merkileg listsýning var sett upp þar í rjóðrum og á árbakkanum til minningar um baráttu fólks við fljótið og langa ferjusögu. Fólk, varningur og búsmali var um aldir ferjaður yfir ána við Laugardæli. Ölfusá er stórfljót og þegar ég stóð í flæðarmálinu, horfði yfir skolað sundið skerptist vitundin um, að ferðirnar voru ekki hættulausar og eins gott að ferjumenn væru vanda vaxnir og kunnáttusamir.

Listaverkin í skóginum eru skemmtileg. Eitt sýnir hangandi plastfiska í hjalli og minnir á að greiða varð ferjutoll fyrir flutninginn, fiskar voru gjaldmiðill. Annað verk hafði verið sett í tjörn í skóginum, fjöldi smárra báta sem átti að sigla þar sumarlangt. En í margar vikur rigndi ekki og tjörnin þornaði og gestir gátu gengið þurrum fótum að strönduðum bátunum. Synir mínir kunnu þessu vel og sáu ekkert athugavert við að blautlistaverk væri á þurru, að þeir gætu gengið að þessum bátum. Engum hefði þótt gott að lenda á botni Ölfusár fyrrum, en áin þornaði ekki þótt þurrt væri.

Vörður

Niður við vatnsbakkann sáum við sláandi verk, vörðu með mannsbrag. Hvað var þetta? Var þetta steingerður ferjumaður sem skyggndi ána, leitaði leiðar, horfði yfir straumkastið og stefndi yfir. Listfengið og handbragðið vakti grun minn um hver höfundurinn væri. Þetta hlýtur að vera skúlptúr eftir Þór Sigmundsson? Við kíktum því í bæklinginn um sýninguna. Jú mikið rétt, þetta var varða sem Þór hafði gert, raðað steinflögum saman og myndað merkan minnisvarða. Ekki áminningu um ferjumann, sem flutti sálir til heljar, heldur ferjumenn aldanna, sem ferjuðu til lífs, þeir börðust vissulega á mörkum lífs og dauða. Lítið mátti út af bera, þá gat ferðin endað í dauða, orðið feigðarflan. Hlutverk ferjumanna var að tryggja líf og ferja með öryggi.

Þór hefur gert marga og merkilega skúlptúra. Og svo kom lífið í fang hans, lítið barn og hann langaði til að gera font til skírnar barnsins síns. Þór ólst upp á bökkum Ölfusár og þekkir því hinn glæsilega skírnarfont Selfosskirkju, sem er verk Sigurjóns Ólafssonar. Hann hefur því vitað frá bernsku, að fontur er afar mikilvægur við upphaf lífsferðarinnar.

Í dag byrjar nýtt líf, eilíft líf. Skírnarfontur úr steini er tákngripur, vísar út fyrir sig til annars og dýpri veruleika, minnir á steinþróna, sem Jesús var lagður í. Grjóti var velt fyrir opið, en svo var því velt frá til tákns um að lífið kviknaði, líf Jesú hélt áfram og líf heimsins breytist. Ekkert getur hamið hið eilífa líf. Enginn steinn tefur elsku Guðs, en fólk, efni, og þar með talið grjót mega þjóna lífinu. Nú hefur Þór klappað steininn og búið til úr honum fang fyrir vatnið sem með táknrænum hætti vísar til hreinsunar Guðs á flekkuðum heimi. Skírnarfontur minnir á að lífið sprettur fram úr grjótinu.

Steinn og barn spanna hið stóra mál trúar, mannlífs, tíma og eilífðar. Við höldum hátíð þegar barn er fætt, við minnumst afmælis okkar árlega. Víða um hinn kristna heim minnast menn hinna andlegu afmæla sinna og halda skírnarafmæli hátíðleg. Það er ekki síðra tilefni en fæðingardagur. Við megum gjarnan gera meira úr skírninni, skírnardögum og þar með skírnarminningum.

Hvað er mikilvægast?

Fontur og barn eru mikilvæg en hvort skyldi nú vera mikilvægara? Foreldrarnir, Þór og Guðrún Rannveig, myndu ekki hika við að svara. Það er barnið, sem er dýrmætasta perlan. Grjótið er gott, fonturinn er fagur en barnið er ómetanlegur dýrgripur, sem ekkert getur komið i staðinn fyrir. Slík er skipan lífsins, þannig er málum háttað í ríki Guðs. Lífið er mikilvægast og það ber að vernda, og allt sem er í heimi ber að nota vel og með fegurð til að þjóna lífinu.

Guðspjallið, sem lesið er við allar skírnir, er síðustu orðin i Matthesuarguðspjalli, svonefnd kristniboðsskipun. Þar er boð Jesú um að vinir hans beri allri heimsbyggðinni góðar fréttir um Guð, elsku hans, að við erum börn hans. Þar segir einnig, að við skyldum kenna og skíra í nafni föður, sonar og heilags anda og síðan halda allt það, sem Jesús hefur boðið. Hvað verður þá? Jú, að Jesús verður með nálægur alla daga til heimsenda. Þar með er hann ferjumaður allra alda, allra manna, ekki aðeins minnisvarði um góðan ásetning og góða stefnu, steinn á árbakka, heldur ferjumaðurinn sjálfur sem stýrir, er nærri, verndar í öllum háska, og blessar allt til enda. Þess vegna er lítill drengur borinn að skírnarþrónni til að hann fái blessun til ferðarinnar yfir fljót ævinnar. Hættur og erfiðleikar munu örugglega mæta á honum eins og okkur öllum. Því þarfnast hann góðs ferjumanns, góðs vinar, heilags anda.

Eilífa lífið

Hvenær byrjar eilífa lífið? Margir halda, að það byrji fyrst þegar komið er hinum megin við dauðastundina. En hið eilífa líf byrjar í hinu jarðneska lífi. Það byrjar ekki hinum megin við dauða og gröf heldur í skírninni. Þá byrjar æviferðin með Guði. Skírnin er því merkasti viðburður mannsævinnar því barnið er vígt himninum. Í skírninni er stefnan tekin og vökumaður himinsins sest í skut og stýrir. Veröldin er áin sem við höldum yfir, kristindómurinn er skipið sem ber okkur yfir fljótið, ferjumaðurinn er bróðirinn besti. Landfestar eru við skírnarfontinn, þar eru fyrstu áratog lífsferðarinnar, þar er beðið og barnið blessað og fær nafnið í veganesti.  Við ströndina hinum megin bíður vörður lífsins, sem tryggir að allt sé gott. og nafnið skráð í bók lífsins.

Þökk sé Þór og fjölskyldu hans fyrir þennan klappaða stein hins agaða einfaldleika og djúpu merkingar. Blessun fylgi Kolbeini Flóka og þeim öllum. Nessöfnuður blessist af gjafmildinni. Og dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda,

Amen.

Hugvekja við blessun skírnarfonts Neskirkju, 16. ágúst 2009.

Fonturinn er gjöf hjónanna, Þórs Sigmundssonar, steinsmiðs og Guðrúnar Rannveigar Stefánsdóttur og barna þeirra. Skírnarþeginn Kolbeinn Tumi kom í hjónavígslu 2013 og þá ræddum við saman. 

 

Pabbar eru líka fólk

 

Hvenær byrjar eilífa lífið? Í þessu lífi. Þegar barn er vígt himninum í skírn kyssir eilífðin tímann. Skírn og trúaruppeldi hafa verið töluð niður í samfélagi okkar en ekkert er of gott fyrir börnin. Og börnin þurfa að læra margt og eflast að þroska. Sálarþroski og trúarþroski er einn veigamesti þáttur þess að verða manneskja. Börnin þurfa að læra að umgangast hið heilaga, að tala við Guð og að sjá líf sitt í stóru samhengi lífsins, sjá hlutverk sitt í tengslum við annað fólk, bera virðingu fyrir sjálfum sér og að þjóna öðrum og nýta hæfileika sína til góðs.

Kirkjan aðstoðar við trúarlega mótun en heimilin eru afgerandi um hvort börnin fá notið trúarþroska. Guðmæður og guðfeðgin hafa líka hlutverk við uppeldið. Við erum öll kölluð til að blessa börnin. Karlarnir hafa líka hlutverk; feður, afar, bræður – já heilu karlahóparnir.

Leyfið

Við allar skírnir á Íslandi, í heimahúsum, í kirkju, í messum og utan messutíma, eru lesin orð Jesú um að leyfa börnum að koma:  “Leyfið börnunum koma til mín…” – segir hann – “…varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” Og þetta er guðspjallstexti dagsins.

Prestarnir fara gjarnan með textann við skírnirnar en stundum lesa foreldrar, guðfeðgin eða aðrir ástvinir. Sjaldan er fyrirstaða með að afla lesara og það er gaman að sjá og heyra ástvinina flytja þennan elskulega texta um að leyfa börnunum að koma til Jesú. Þegar bræður eða pabbar lesa hef ég stundum hugsað um vilja karlanna til uppeldis. Eru þeir tilbúnir að vera trúarlegar fyrirmyndir, sinna kvöldbænaiðjunni, lesa biblíusögurnar, skýra eðli bæna, kenna góðverk og vera huggandi öxl þegar slys og dauðsföll verða?

Jákvæðni foreldranna

Prestar tala við foreldra áður en skírt er. Þessi skírnarviðtöl eru merkileg. Þá er hægt að fara yfir líðan, samskipti hjóna, möguleika og skyldur varðandi velferð og uppeldi barnsins, spyrja um líðan á meðgöngu og eftir fæðingu, fara yfir hætturnar sem steðja að ungbarnafólki, ræða um samskipti, álagsþætti og ræktun kærleikans. Ótrúlegt er hversu viljugir flestir foreldrar eru að kafa djúpt og hversu hæfir flestir eru að ræða þessi mál. Fæst hiksta þegar spurt er um trúarlega afstöðu og sjaldan hika þau að segja skoðunum sínum í þeim efnum. Og þær eru margvíslegar og alls konar.

Ég vek athygli feðranna á stöðu þeirra, möguleikum og þátttöku í uppeldi, trúarlegu atlæti barnanna og hvaða fyrirmyndir þeir séu eða geti verið á öllum sviðum. Frjálsir pabbar samtíðans eru tilbúnir til góðra verka. Þeir eru jafnvel tilbúnir að taka upp bænahald að nýju til að vera betur í stakk búnir að gefa börnum sínum traust og sálarfestu.

Hlutverk karlanna

Karlar eiga að skoða hlutverk sitt og skyldur varðandi trúaruppeldi. Rannsókn á trúarlegri mótun fólks á Íslandi árið 1986 sýndi að feður gegndu litlu trúarlegu mótunarhlutverki. Mömmurnar voru langmikilvægastar, síðan komu ömmur og afar, svo prestarnir og pabbarnir voru í fjórða sæti. Ástæðurnar voru menningarlegar. Atvinnuhættir og samfélagsgerð bundu marga pabba einhvers staðar fjarri heimilum, svo sem út á sjó. Í heimi þar sem karlar áttu að bíta á jaxlinn í sorgum og áföllum áttu sumir þeirra í vandræðum með náin samskipti, fíngerða samræðu og uppeldi. Og konurnar sáu gjarnan um trúarlega miðlun.

Vöðvastælt víkingaímynd og tilfinningafryst karlmennskuídeöl fyrri ára voru heldur ekki hliðholl kærleiksáherslu og tilbeiðsluiðkun. En hörkunaglarnir detta úr tísku. Feður samtíma okkar eru mun virkari í uppeldi ungviðisins nú en fyrir þremur áratugum. Þáttaka kvenna og karla er jöfn í atvinnulífinu og eðlilegt að karlarnir axli jafna ábyrgð í heimilislífinu.

Gæði fæðingarorlofs

Kynhlutverkin hafa breyst. Lögin um fæðingarorlof (nr. 95/2000) höfðu góð áhrif á íslenska feður. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir með báðum foreldrum. Tilgangur þeirra er m.a. að hvetja karla til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi til jafns við mæður. Skírnarviðtölin hafa sannfært mig um að flestir karlarnir eru afar barnvænir. Þeirra hlutverk er ekki lengur bara á kafi í að byggja eða nota feðraorlof í puð. Þeir eru þvert á móti á kafi í bleyjum og tilfinningalífi barna sinna.

Bónusarnir eru margir. Það er beinlínis heilsusamlegt að taka feðraorlof. Alla vega uppgötvuðu Svíar, að karlarnir sem taka feðraorlof eiga mun síður hættu á að deyja fyrir fimmtugt en hinir sem nýta sér ekki orlofið. Það hefur lengi verið vitað að konur lifa almennt heilbrigðara lífi eftir að þær verða mæður, en rannsóknir leiddu líka í ljós, að þegar feður bindast börnum sínum tilfinningaböndum verða þeir varkárari, passa sig betur gagnvart hættum, drekka minna og heilsa þeirra batnar. Þeir fara að axla fleiri ábyrgðarhlutverk sem konur hafa sinnt áður. Með batnandi heilsu batnar heimilisbragur og líðan heimilisfólksins þar með.

Margir feður hafa nýtt tímann vel og notið þessa tíma. Einn faðir setti þá athugasemd á netið, að föðurorlof hans hefði verið frábær tími, “sjálfsagt skemmtilegasti tími lífs míns. Feðraorlof er mesta snilld”skrifaði hann.

Vilja vera heima en verða að vinna!

Pabbarnir eru á uppleið á Íslandi en atvinnusamhengi feðranna þarf að bæta. Það kemur í ljós að of margir feður telja sér ekki fært að taka sína orlofsmánuði. Af hverju? Vegna þess að aðstæður í fyrirtæki þeirra leyfi ekki fullt feðraorlof. Ef þeir taka allan orlofstímann eru margir hræddir um að búið verði að grafa undan starfi þeirra eða breyta þegar þeir koma til baka. Pabbar í feðraorlofi upplifa það sem konur hafa mátt búa við í áratugi, að barn stefni vinnu í voða. Of margir feður telja sig tilneydda að fara að vinna áður en þeir eru búnir með sinn kvóta. Það er skaði því það eru börnin sem eiga rétt á feðrunum en ekki fyrirtækin.

Það er skylda mín sem prests, skylda okkar sem safnaðar og skylda okkar sem kirkju að standa með börnum og fjölskyldum í að breyta viðhorfum. Það er skylda yfirmanna að tryggja fjölskyldufrið á ungbarnaheimilum. Jesús bað um að börnunum væri leyft að koma til hans. Það þýðir ekki aðeins að börnum verði heimilað að koma í kirkju, heldur að börnin fái notið alls hins besta í lífinu – líka feðra sinna. Þeir eiga að fá næði til tengjast börnum sínum og vera þeim trúarlegar fyrirmyndir. Faðir, sem nær tíma með barni sínu, fær betri möguleika á að leggja traust í sál þess og gefa því styrkari skaphöfn. Það er trúarlegt erindi og trúarlegt verkefni. Góður föðurtími með börnum skilar oft betri trúarþroska. Traust föðurímynd er sumpart forsenda guðstrausts.

Feður eru mikilvægir fyrir uppeldið. Jesús sagði “leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi.” Skírnin er mikilvæg og Jesús minnti á í skírnarskipuninni, að við ættum að kenna líka. Foreldrarnir báðir hafa trúarhlutverki að gegna.

Verndum feðurna, þá eflum við heilsu fólks, eflum heimilislíf – þá blessum við börnin og Jesús gleðst með fangið fullt af hamingjusömu fólki.

Amen

Hallgrímskirkja, 8. janúar 2017, 1. sunnudag eftir þrettánda.

Vatnssósa ást

Lítið barn var fært til skírnar. Fallegur drengur og fyrsta barn foreldra sinna og aðeins eins dags gamall. Drengurinn var ausinn vatni og hvert var nafnið? Ekki nafn úr fjölskyldunni, ekki nafn afa eða frænda. Nei, hann átti að bera nafn dýrlings dagsins. Og hver var dagurinn? Það var 11. nóvember – ekki í ár þó margir drengir verði skírðir í dag. Nei, árið var 1483 og drengurinn var sonur Hans og Margrétar Lúther. Og skírnardagurinn var 11. nóvember og því fékk drengurinn nafn dýrlings dagsins, sem er heilagur Marteinn frá Tours. Það var reyndar góður dýrlingur, rómverskur hermaður sem var svo frómur að hann minnti í framferði sínu á boðskap Jesú. Marteinn dýrlingsefni bjargaði t.d. fátækum manni frá því að verða úti í vetrarveðri með því að skera yfirhöfn sína í tvennt og gefa hinum klæðlitla. Og Marteinsmessa var hin evrópska þakkargerðarhátið þegar uppskera var komin í hús og þá var ærið tilefni til að halda veislu. Þetta var líka tími vinnuskila, fardagar vinnufólks á hausti og þegar leitað var nýrrar vinnu og vistar.

Marteinn Lúther var skírður á þessum degi. Hann fæddist 10. nóvember svo það var ekki verið að bíða með skírn, enda engin ástæða þegar mikil réttindi og dýrmæti eru í boði. Börnin voru rétt komin úr móðurkviði út í þennan litríka heim þegar þau voru líka tekin í ljósheim himinsins. Þau voru þá borgarar í veröldinni og borgarar í himnaríki.

Í Eisleben
Ég kom í ágústlok til borgarinnar Eisleben, fæðingarborgar Marteins Lúthers. Þar lést hann reyndar einnig. Það var heillandi að ganga gamlar götur, snerta veggi lífsreyndra húsa aldanna, fá tilfinningu fyrir lífi og sögu fólks, hugsa um tilfinningar, vonir og örlög, gleði og harma – upplifa stóra festi lífsins. Svo var lækurinn enn ofanjarðar sem rann skammt frá bernskuheimili Lúthers.

Við, samferðafólkið, gengum á milli helstu húsa og helgidóma. Þegar við höfðum skoðað fæðingarstað Lúthers röltum við að skírnarstaðnum. Ég var að íhuga hvað hefði gengið á í bænum á Marteinsmessu á þessum skírnardegi. Kannski var verið að slátra nauti í einhverjum húsagarðinum til að undirbúa veislu uppskeru og fardaga. Kannski höfðu einhverjir komist í bjórtunnurnar og söngur hljómaði í húsasundum. Með veislu í huga nálgaðist ég kirkju Péturs og Páls sem var skammt frá heimili Lúthersfjölskyldunnar.

Kirkjan var ekki fullbyggð þegar Lúther var skírður og hefur í tímans rás verið endurbætt. En áratugir andkristinnar kommúnistastjórnar voru kirkjuhúsinu vondir. Kirkjurnar í Austur-Þýskalandi voru fórnarlömb tímans eins og fólk og ýmis önnur dýrmæti menningarinnar. En nú var viðgerð hafin. Við fórum inn í kirkjuna og ég var altekin undrun. Ég bjóst við að þegar svo gamalt guðshús væri viðgert væri reynt að gera það sem næst upprunalegu útliti. En ekki aldeilis. Jú, kirkjan var gömul, en haldin hafði verið samkeppni um hvernig ætti að gera við og byltingarkennd tillaga var samþykkt. Þar sem þetta var skírnarstaður Lúthers var ákveðið að skírn fremur en upprunaútlit mótaði viðgerðina.

Þrenna skírnarinnar?

Og hvernig leggur maður áherslu á skírn? Og þá er ráð að spyrja: Hvað er skírn og hvað er samhengi hennar? Í skírninni er tjáð að Guð elskar, elskar börn og allt líf. Guð kallar til athafnar sem tjáir ást, er ástarjátning Guðs og manna, athöfn faðmlags ástarinnar, gagnvirk tenging lífshöfundar og lifenda. Guð gefur orð til þessa veruleika skírnar, orð um að Guði er óendanlega umhugað um þig. Guð vill gefa líf, viðhalda lífi, bjarga lífi og gera það líf undursamlegt og eilíflega hreint.

Og ást er aldrei aðeins huglæg heldur líka efnisleg. Í skírninni eru ekki bara orð sögð heldur er skírn tengd við heim efnis, við raunveruleikann. Þess vegna er vatn notað og það er hið skynjanlega efni umhyggju Guðs. Líf manna er háð vatni. Og svo hefur vatnið einnig margar táknrænar víddir sem skipta líka miklu og tja ýmsar víddir sem vert er að taka eftir. Við lifum ekki án vatns, hvorki bókstaflega né táknrænt.

Og þriðji fléttuþráður skírnarinnar er loforð Guðs um nánd, nærveru, alltumlykjandi gæsku. Ástvinir, sem lyfta barni sínu til skírnar, játast guðlegri blessun og fela hið unga líf góðum Guði. Og skírn á sér líka stórt samhengi í lifandi söfnuði og kirkjunum sem ætlaðar eru helgiþjónstu.

Laugin mikla
Eislebenkirkjan var sláandi fögur í einfaldleika sínum. Kirkjan var öll hvíttuð að innan og afar björt. Þó þessi þýska kirkja sé minni en Hallgrímskirkja er ljósflæðið líkt nema í kórnum. Gólfflöturinn hafði verið endurunninn og vatnsgárur og bylgjur sagaðar í hann. Gólfið er rennislétt en í það hafði verið sagað svo að það var eins og hringbylgjur bærust út frá nokkrum stöðum í kirkunni. Og hringjunum er einnig skírnartúlkun. Skírn er máttarviðburður sem hefur og á að hafa áhrif á allt líf skírnarþegans. Gæska Guðs er ævimál hins kristna manns. Bylgjurnar frá skírn bernskunnar hafa áhrif á okkur og ættu eða mega móta lífsgöngu okkar alla tíð. Og geislar sólar skinu á gólfið og mynduðu mynstur með bylgjuhringjum gólfsins.

Venjulegur skírnarfontur var þarna í kirkjunni, stórt fat á hvítum fæti. Það var eðlilegt, en hins vegar var óvænt að framan við kórinn var búið að saga stóran hring í gólfið og koma þar fyrir stórri laug með rennandi vatni. Það var hægt að fara í stóran pott. Við skírnir er hægt að nota niðurdýfingaraðferð, þ.e. láta barn eða fullorðinn fara á kaf í vatnið. Sú er hin gamla kristna aðferð við skírn og við könnumst við af myndum af skírn Jesú í Jórdan.

Innan á gólfbarmana, þ.e. efri barna þessarar stóru skírnarlaugar var skráð skírnarskipunin: „…gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda…“ Líf Jesú, fyrirmynd hans, orð hans er upphaf kirkju í heiminum og bylgjuvaldur menningar um aldir. Síðan hefur boðskapur hans hljómað og haft áhrif. Og enn gildir boðið. Farið – gerið allar þjóðir að vinum Jesú, lærisveinum hans, skírnarþegum, kennið þeim að skynja, skilja, iðka boðskap hans og vera farvegir hans til góðs og lífs. Í hvers krafi? Hans. „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Litli kúturinn sem hrein í kirkju Páls og Péturs í Eisleben átti eftir að glíma við alls konar samtryggingarpólitík tímans og sló í guðfræðihrúður kirkjunnar sem hafði endurmótað boðskap Jesú í eigin þágu. Það var og hefur aldrei verið einfalt eða auðvelt að bjóða stórkerfum valdsins byrginn. Lúther átti eftir að berjast við fordóma, heyja innri baráttu, tilbiðja dýrlinga, biðla til páfa, hlusta á konuna sína og börnin sín sér til visku. En alltaf var ljóst að einn var meistarinn, þessi sem kom sem fulltrúi Guðs, Guð sjálfur í heimi. Og hans er lífið sem drengurinn var skírður til. Hans er líf okkar sem þjónum í kristinni kirkju. Og það er sá veruleiki sem er erindi kirkju Jesú Krists í heiminum, hvort heldur er í Austur Þýskalandi, Vesturbæ Reykjavíkur, í Ossetíu, Kenýju eða Japan. Að lifa í þeim anda er að lifa kristni, vera í sambandi við Guð og vera kristniboði í lífi og starfi. Marteinn frá Tours gaf kyrtil sinn. Við megum gefa hluta af okkar skjóli til gæfu fyrir aðra. Og höldum þakkargerðarhátíð fyrir allt sem við njótum og leyfum öðrum að njóta með okkur. Við erum borgarar heims og himins erum kirkja og megum styðja kristni og gefa til stuðnings kristniboði.

Vatnssósa hjálpræði
Hlustum á inntak lexíu dagsins. Hún er jafn efnisleg, bókstafleg og vatnssósa og annað í erindi þessa sunnudags:
„Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði. Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“
Ég skírði barn í gær og skíri annað í dag. Tugir barna eru skírð þessa helgi á Íslandi og ótrúlegur grúi um heimsbyggðina. Kannski eru einhverjir Marteinar í þeim hópi? Foreldrar þeirra lyfta börnum sínum af elsku til að þiggja ást Guðs. Við erum forréttindafólk að fá að vera aðilar að lífi Jesú Krists. Í lífi og starfi megum við lúta því vatnssósa boði og vita að Jesús Kristur er með okkur, nærri okkur, í okkur, allt til enda veraldar.
Amen.

Prédikun á Marteinsmessu, í Neskirkju 11. nóvember 2012.

Kristniboðsdagurinn – Annar sunnudagur í nóvember

Textaröð: A

Lexía: Jes 12.2-6
Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði. Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Og á þeim degi munuð þér segja: Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina. Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín.

Pistill: Róm 10.8-17
Hvað segir það svo? Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu. Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða. „Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;“ því að hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða. En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu. En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum? Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.

Guðspjall: Matt 28.16-20
En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.