Þetta er ein af mínum uppáhaldsuppskriftum fyrir kjúklinagasteikingu. Ég breyti krydduninni í samræmi við hvað til er í ísskápnum eða laukagarðinum, en grunnurinn er góður og þolir ýmis frávik. Fyrir 4.
1 kjúklingur
3 litlar lúkur af ferskum kryddjurtum, t.d. basilíku, steinselju og salvíu, tætt í matvinnsluvél og sletta af maldonsalti út í
4 matskeiðar ólífuolía
1 sítróna, skorin til helminga
4 lárviðarlaufblöð
2-4 greinar af fersku rósmarín
Saltað og kryddað að smekk.
Forhitið ofninn og ofnskúffu í 200 gráður. Skolið kjúklinginn að innan og utan og þerrið vel með eldhúspappír. Nuddið kviðarholið með salti og takið síðan létt í húðina við endann á kjúklingabringunni og togið hana varlega upp. Notið hina höndina til að skilja húðina varlega frá bringunni. Troðið í bilið söxuðu kryddjurtunum. Látið síðan smávegis ólífuolíu drjúpa niður í kviðarholið, setjið síðan skornu sítrónuna, lárviðarlauf og rósmaríngreinar. Dragið húðina fram fyrir kjúklingabringuna svo ekki glitti í bert kjöt. Bindið síðan kjúklinginn þétt svo hann haldist vel saman. Nuddið húðina á kjúklingnum upp úr ólífuolíu og kryddið hana rækilega með salti og pipar.
Smyrjið ofnskúffuna með olíu. Leggið kjúklinginn með bringuna niður í skúffuna og setjið hana í ofninn. Bakið í 5 mínútur og snúið kjúklingnum yfir á hina hliðina, enn með bringuna niður. Bakið í aðrar 5 mínútur og setjið þá kjúklinginn á afturendann. Bakið í 70- 75 mínútur við 200 gráður.
Salat og uppáhaldsmeðlæti, þess vegna venjulegar eða sætar kartöflur – eða bygg eða hrísgrjón. Þessi er ættaður frá JO, kokki án klæða.
Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu. Amen.