Greinasafn fyrir merki: Sigurður Árni

Trúarspurningar og trúarstyrking

Dr. Rúnar Vilhjálmsson flutti erindið hér að neðan á útgáfuþingi bókarinnar Ástin, trú og tilgangur lífsins. Þingið var haldið í Neskirkju, 11. nóvember, 2023. Rúnar er sóknarnefndarmaður í Hallgrímskirkju, kirkjuþingsmaður og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

   ————————

Ég vissi snemma af Sr. Sigurði Árna en kynntist honum þó ekki að ráði fyrr við hjónin urðum sóknarbörn hans er við fluttum í Hallgrímssókn. Það hafa verið ánægjuleg og gefandi kynni.

Postilla Sigurðar Árna er áhugaverð að utan sem innan. Í lifandi predikunartexta andmælir Sigurður Árni jöfnum höndum bókafstrú og óupplýstum trúarfordómum. Rauði þráðurinn í predikuninni er elska Guðs til mannsins, misjafn sem hann er, og hið gjöfula samband sem hann getur átt við Guð í Jesú Kristi. Guð vill komast í samband við manninn, sem Sigurður kallar ástarsamband.

Sigurður Árni viðurkennir að svo virðist sem menn geti hafnað Guði og komist áfram í lífinu þrátt fyrir það. En þá verða þeir skilningssljóir, því trúin umbyltir allri merkingu hlutanna, sem hefur margs konar þýðingu og afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélag.

Sigurði Árna er það einkar lagið að tengja texta Biblíunnar við daglegt líf mannsins í samtímanum. Sem dæmi er mér minnistæður pedikunartextinn milli nýars og þrettánda sem Sigurður Árni leggur út af. Efnið er leit foreldranna að Jesú, sem eftir svefnlausar nætur finna hann loks í musterinu. Um þetta segir Sigurður meðal annars: „Forsenda þess að við getum gengið inn í guðsreynslu og lifað í guðsveru Jesú er að við viðurkennum okkar eigin leit og förum í musterið með honum … Jesús var í húsi föður síns. Finnur þú Jesú þar?“ Foreldrarnir voru að leita að hinum veraldlega Jesú en fundu annan. Um þetta segir Sigurður: „Að trúa er það persónulega mál að hitta Jesú og verða vinur hans og treysta. María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim. Við leitum að ákveðnum Jesú en svo mætir okkur allt annar.“

Sr. Sigurður leggur ekki áherslu á sérstæða yfirnátturulega reynslu, sem margir raunar leita að, eða sérstaka opinberun, eða langa bið eftir sérstökum skilaboðum eða fyrirmælum frá Guði. Ástæðan er einföld: Guð er hér og nú – andi hans umvefur allt hið hverdagslega líf mannsins og með augum trúarinnar sést greinilega að hann er nálægur og vill vera í stöðugu sambandi við manninn í daglega lífinu, bæði þegar vel og illa gengur. Afstöðu sinni lýsir Sigurður Árni sem pan-en-teisma sem gengur út á að Guð sé yfir og undir og allt um kring, sem þýði þó alls ekki að allt sé guðlegt. „Andi Guðs hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs og kennir þér að sjá guðssoninn. Andinn kennir þér að sjá lífið með nýjum hætti og heyra músík veraldar sem himneska tónlist. Hann kennir þér að tala við Guð og opnar vitund um nærveru hins heilaga í öllu” segir Sigurður Árni. Og hann sér Guð að verki út um allt: Í kossi elskenda og hrósi vinar, í meini sem grær eftir uppskurð, í prédikun sem leiðir til andlegs vaxtar, og í jafnvægi krafta náttúrunnar. 

Einhverjum gæti fundist að það mætti vera meiri alvara á ferð í sumum af predikunartextum Sigurðar – því mikið er í húfi fyrir manninn að játast Kristi sem frelsara sínum og fylgja Guði. Ekki fari heldur mikið fyrir umvöndunum prestsins vegna afstöðu- og sinnuleysis manna í trúarefnum. Og þá gæti einhverjum fundist að fleira mætti segja um siðferðilega ábyrgð játanda Krists í heiminum. En þá er því meðal annars til að svara að Sigurður er ekki að tala sérstaklega inn í  lokað samfélag trúaðra, heldur beinir hann erindi sínu til margslungins samfélags samtímans þar sem gætir alls konar viðhorfa og athafna. En umfram allt þá má hér aftur vísa aftur til elskunnar og þess afls sem hún er í heiminum. Sigurður hefur mikla trú á elsku Guðs og þeim krafti hennar sem styrkir samband okkar við Guð og hvert annað hér í heimi, þó margt kunni að vera ólíkt með okkur við fyrstu sýn. Það má skilja Sigurð Árna svo að lækning heimsins meina sé háð þessu elskuríka Guðssambandi.

Bókin er læsileg og aðgengileg. Hun mun vafalítið verða lesin víða, kveikja trúarspurningar og umræðu og verða mörgum til trúarstyrkingar. Til hamingju með þessa fallegu bók.

Framsaga dr. Rúnars á örþinginu í Neskirkju 11.11. Meðfylgjandi mynd/sáþ er af fyrirlesaranum með barnbarn sitt í aðventuguðsþjónustu í Hallgrímskirkkju 2022. 

 

Heimsborgari og sveitamaður kveður

Sá líflegi vefur Lifðu núna birti viðtalsgrein okkar Ernu Indriðadóttur. Fyrirsögnina dró Erna út úr kveðjuræðu Einars Karls Haraldssonar, formanns sóknarnefndar Hallgrímskirkju. Greinin birtist upprunalega á slóðinni að baki þessari smellu en er hér einnig: 

Það er komið að starfslokum hjá Séra Sigurði Árni Þórðarsyni sóknarpresti í Hallgrímskirkju sem kvaddi söfnuð sinn í messu 26.mars.  Þar talaði Einar Karl Haraldsson formaður sóknarnefndar og sagði meðal annars um klerkinn fráfarandi:

Sigurður Árni er í senn heimsmaður, heimamaður og sveitamaður! Hann kom til okkar fullmótaður af akri kristninnar á Íslandi. Hann hafði eftir embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands  verið sveitaprestur og borgarprestur, rektor Skálholtsskóla og fræðslustjóri á Þingvöllum, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og stundakennari við Háskóla Íslands. Aukin heldur er hann heimsmaður með útsýn til annarra landa eftir kristnifræðinám í Noregi og doktorspróf í guðfræði og hugmyndasögu frá Vanderbiltháskóla í Tennessee í Bandaríkjunum.  Raunar var hann heimamaður í Hallgrímskirkju áður en hann var kjörinn hér sóknarprestur, bæði sem kórsöngvari um skeið og afleysingaprestur árið 2003. Hann er líka sveitamaður í sér með djúpar rætur í svarfdælskum sverði og í ræktunarstarfi móður sinnar kringum Litla bæ á Grímstaðaholtinu. Þeirri hlið á sóknarprestinum höfum við einnig fengið að kynnast.

Blaðamaður náði netsambandi við Sigurð Árna núna fyrir hátíðarnar og spurði hann fyrst hvernig það væri að kveðja Hallgrímskirkju?

Þessa dagana finn ég mest og dýpst fyrir þakklæti. Ég hef notið trúnaðar fólks á stóru stundunum og krossgötum lífsins. Ég hef notið trausts til verka og frelsis til að vera, hugsa og skapa. Samferðafólk mitt var svo elskulegt að umvefja mig, gefa mér gjafir og þau sem hafa notið orða eða prestsverka minna hafa sent mér kveðjupósta og gælt við mig með margvíslegu móti. Ég hef verið lánssamur og er þakklátur fyrir að kveðja Hallgrímskirkju í blússandi vexti.

Séra Sigður Árni skírði þessi þrjú systkini

Hvað hefur breyst mest í kirkjunni síðan þú hófst störf þar og þar til þú lætur af störfum? 

Þjóðkirkjan var fyrir fjórum áratugum stofnun sem rammaði líf fólks. Hún hverfðist um stóratburði lífsins og naut trausts. Samfélagsbreytingar, menningarþróun og brestir nokkurra leiðtoga kirkjunnar urðu til að grafa undan því trausti. Hlutverk kirkjunnar sem lykilstofnunar flestra eða meirihluta landsmanna er algerlega breytt. Nú velur fólk hvort það nýtir þjónustu kirkjunnar, fer í messu, sækir kóræfingar, ræðir við prestinn um djúpu spurningarnar, biður um skírn, vill láta fermast, vera blessað við altari eða kveðja ástvini sína í hinsta sinn í kirkju. Valkostirnir eru fleiri og þá er komið að tækifærum kirkjunnar til að bregðast við. Það er tilgangslaust að efna til auglýsingaherferðar til að auglýsa trú. Einhvers konar kirkjuförðun þjónar engum tilgangi heldur er hlutverk kirkjunnar að iðka trú, hugsa guðsverkið inn í aðstæður samfélagsins, vitja gilda, ganga erinda manngildis og þar með verja þau sem hallað er á, þora að gera tilraunir – þora að vera alvöru kirkja. Kirkjustofnun er eitt en kristni er annað. Þó menn segi sig úr kirkjunni er ekki þar með sagt að þeir hafi sagt sig frá Guði. Guð er ekki bundinn af trúfélagi en kirkja er bundinn af Guði. Nú er tími til að skapa, vera og kveða dýrt.

Hvernig undirbjóstu starfslokin?  

Ég gekk síðasta hluta Jakobsvegarins á Spáni fyrir fimm árum og hafði næði til að hugsa, endurskoða stefnumið og áhugaefni. Eftir það fór ég að taka til í tölvunni og huganum. Ég las allar eitt þúsund ræðurnar mínar sem ég hef haldið um dagana og valdi svo úr safninu. Það er meginstef eða rauður þráður í þessum íhugunum mínum – ástin. Ástin í náttúrunni, mannlífinu, listinni, menningunni er að mínum skilningi guðsneistinn í öllu. Þetta ræðusafn verður svo gefið út í haust. Í gamla daga voru kirkjuræður kallaðar postillur og vinnuheitið hefur verið ástarpostilla en eftir er að ákveða heiti bókarinnar. En það verður væntanlega elskulegt. Mér þykir gaman að fást við orð, elda og njóta. Ég hef skrifað mikið um dagana og er með útgáfuröð í tölvunni. Ég tók mikið myndum af kirkjustarfinu í Hallgrímskirkju, af fólkinu mínu og náttúrunni. Ljósmyndun er mér gleðigjafi og ég mun halda henni áfram. Ég fór að elda meira af Biblíumat og læra meira á krydd og kúnstir við eldavélina. Svo fór ég að flokka bækurnar mínar og losa mig við það sem ég hafði ekki pláss fyrir og sá ekki fyrir mér að ég myndi lesa. Þetta varðar allt djúphreinsun sálar og vinnu og varð til þess að ég ákvað að hætta fyrr í vinnu en ég þurfti því mig langar til að fæðast til nýrrar tilveru og geta sjálfur ákveðið hvað ég geri við stundir, daga og ár sem eftir eru. Tíminn er dýrmætur og ég vil nota hann vel. Heilsan er sömuleiðis ekki sjálfgefin og þarf að rækta.

Séra Sigurður Árni og Elín Sigrún Jónsdóttir útdeila við altarisgöngu 26. mars.

Hvernig sérðu næstu árin fyrir þér?

Hver dagur er tækifæri og gjöf sem ég reyni að nota vel. Mér þykir gaman að þjóna fólkinu mínu og er í þeirri skemmtilegu stöðu að eiga stráka í menntaskóla. Ég leyfi mér oft að vera þriðji unglingurinn á heimilinu, detta í sófann og horfa á fótbolta með þeim eða mynd. Ungt fólk á heimili tryggir að maður er betur tengdur við hræringar og breytingar. Ég hef líka alla tíð verið tæknitengdur og hef alltaf sagt að maður verði og eigi að vera á öldufaldi tækninnar – annars skráir maður sig út úr samfélagi og inn í ótímabæra elli. Ég nýt hamingju í heimalífinu og ég er giftur stórkostlegri konu sem kann að gleðjast, hlusta, tala og hlæja. Þegar heimalífið er gott og heilsa leyfir er hægt að njóta. Ég er búinn að skrá mig í nýtt háskólanám og dekurverkefni mín verða að skrifa, ljósmynda og elda. Svo verður að koma í ljós hve lengi heilsa og tími leyfa mér að vera og gera.

Halda prestar oft áfram ákveðnum störfum, athöfnum, eftir formleg starfslok?

Afstaða presta varðandi prestsverk er mismunandi. Einstaka hafa séð gildi sitt í að jarða og gifta eftir að þeir hafa látið af opinberum störfum. Sú breyting er orðin í þjóðkirkjunni að prestar eru hvattir til að sinna ekki prestsverkum eftir starfslok. Það er vel því starfandi prestar eiga að sinna slíku og gera vel. En hlutverki presta er ekki lokið eftir starfslok. Við erum áfram hugsandi og lifandi trúmenn og getum gegnt mikilvægu hlutverki í samtali í samfélaginu, verið fólki til stuðnings, tekið þátt í menningadeiglunni með greinum, hlaðvarpi, listiðju alls konar, haldið ræður og hugsað nýjar hugsanir fyrir framtíðina. Prestur hættir að gifta og jarða en hættir ekki að vera manneskja, tala við Guð, menn og menningu.

Hvernig viltu eldast?

Mig langar að vera kátur kall og fallegt gamalmenni. Mig langar til að rölta með konunni minni sem víðast. Halda líka áfram að hrífast af ljósgangi lífsins, skemmtilegum textum og góðum mat. Hamingjan er alltaf heimagerð.

Sigurður Árni er með skemmtilega heimasíðu þar sem þessa mynd af prestinum í eldhúsinu er að finna

Þú ert með mataruppskriftir á vefsíðunni þinni, hefurðu mikinn áhuga á matargerðarlist?

Já, borðsamfélag er aðalmál í lífinu. Miðjan í öllum alvöru kirkjum heimsins er borð og það merkir að fólk kemur saman til að nærast. Jesús Kristur var veislukall og við erum öll boðin til veislu lífs og veraldar. Vegna aðstæðna í fjölskyldu minni neyddist ég til að elda fyrir fólkið mitt og lærði að kokkhúsið var ekki bara nauðsynlegt heldur líka dásamlegt fyrir samfélag og tilraunir. Ég uppgötvaði svo á sínum tíma að heilsufæði nútímans er líkt fæðu hinna fornu samfélaga við Miðjarðarhafið. Svo ég fór að gera tilraunir með biblíufæði og þegar nýja safnaðarheimili Neskirkju varð til urðu til biblíuveislur. Biblíumatur er langtímaverkefni og mér skilst að það bíði eftir mér í einu forlaginu titillinn Presturinn í eldhúsinu. Mér hefur líka þótt stórkostlegt hve mörg hafa sagt mér að þau fari inn á vef minn sigurdurarni.is og noti mataruppskriftirnar mínar. Mér hefur þótt sérstaklega gott hve margir karlar hafa þorað að elda af því þeir hafa treyst mér til að setja ekki á vefinn nema almennilega rétti, bragðgóða, holla, auðeldaða og hæfilega nútímalega. Ég sé á vefteljaranum að tugir þúsunda hafa farið inn á þessar uppskriftir.

Geturðu miðlað eins og einni þeirra til lesenda Lifðu núna?

Maríukjúklingurinn er skemmtilegur réttur og dæmi um biblíumat. Öll hráefnin voru tiltæk Maríu í Nasaret, móður Jesú.

Uppskriftin er fyrir fjóra:
4 kjúklingabringur
4-6 hvítlauksgeirar pressaðir
1 tsk kúmmín (broddkúmmín)
1,5 tsk túrmerik
1 tsk kanill malaður
salvía, helst fersk og smáskorin annars þurrkuð
1 stór rauðlaukur saxaður
3 skalottulaukar saxaðir (laukurinn fær nafnið frá staðarnafninu Askelon í Ísrael)
sítrónubörkur rifin með rifjárni (notið helst lífræna sítrónu)
safi úr einni sítrónu ca 70 ml. – má líka vera appelsínubland
150 gr spínat (einn fjórði hluti af spínatinu til að dreifa yfir kjötið þegar það er borið fram)
300 ml grænmetiskraftur
10 döðlur langskornar (Medjool-döðlur eru bestar en líka má fíkjur/sveskjur í staðinn).
Maldonsalt
Heslihnetur (flögur eða muldar og við smjörbrúnuðum þær á pönnu í stutta stund)

Bygg (t.d. Vallanesbygg)

Kjúklingurinn er marineraður í sólarhring. Bringurnar eru kryddaðar (hvítlaukur, kúmmín, túrmerik, kanill, salvía og salt) og síðan geymdar í kæli. Þegar eldamennskan hefst er kjötið tekið úr kælinum og leyft að ná húshita fyrir steikingu. Olía á heita pönnu. Kjúklingurinn brúnaður og kjötinu lokað. Skorinn laukurinn settur í ofnfast fat og kjúklingabitunum komið fyrir ofan á lauknum. Grænmetiskraftinum hellt í fatið og sítrónuberkinum stráð yfir. Spínat og döðlur yfir (haldið þó eftir ofurlitlu af spínati til að dreifa yfir kjötið þegar það er borið fram). Látið malla í ofninum (180-200°C) í fjörutíu mínútur. Gæta þess að vökvinn gufi ekki allur upp, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með byggi. Síðan er spínatinu og heslihentum dreift yfir líka. Svo má líka afhýða appelsínu eða mandarínu, þverskera og koma hálfri fyrir á hverjum diski. Litirnir fara fallega með matnum og sætur ávöxtur passar vel með. Takk fyrir mat og gott líf.

Hér er linkur á vefsíðu Sigurðar Árna.

Kennimyndina og altarisþjónustumyndina tók Hrefna Harðardóttir í messu á boðunardegi Maríu 26. mars 2023. Hinar myndirnar eru úr einkasafni.