Greinasafn fyrir merki: Sigrún Inga Magnúsdóttir

Sigrún Inga Magnúsdóttir – minningarorð

Tókstu eftir að það er engin mynd af Sigrúnu Ingu Magnúsdóttur á sálmaskránni? Bara kross – fallegur gylltur kross. Frænkuhópurinn sat í vikunni og talaði um Sigrúnu, líf hennar, ræddi um útförina og líka um sálmaskrána. Þær veltu vöngum yfir hvaða mynd ætti að setja á forsíðuna. Og eftir nokkrar umræður ákváðu þær að setja enga, heldur aðeins krossmarkið. Ábendingin kom frá einni, að þá gætu allir í kirkjunni kallað fram í hugann eigin mynd af Sigrúnu.

Hvernig minnist þú hennar? Eru það fallegu og íhugulu augun hennar, sem þú manst? Er það fína hárgreiðslan? Getur þú samþykkt að hún var alltaf snyrtilega og fallega klædd, flott Reykjavíkurdama? Eða koma fyrst í huga þinn eigindir eða það sem hún gerði þér til góðs? Minnistu þess hve Sigrún var á þönum við að þjóna þér til að þú fengir örugglega nóg – hvort sem það var nú kaffi, kökur, myndakex, cherioos, bland í poka, nú eða appelsín og snakk með andrésblöðunum!

Staldraðu við og leyfðu huganum að fara til baka, vitjaðu þinna eigin tilfinninga, þinna eigin mynda og leyfðu þeim að vinna djúpvinnu í sálinni þér til eflingar.

Myndirnar

Myndir eru merkilegar. Menningin er sneisafull af myndum sem túka, móta, hafa áhrif og skilgreina líf og fólk. Biblían er myndarík. Í fyrsta kafla þeirrar merkustu bókar veraldar segir: “Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.” Mennirnir eru því í mynd Guðs – og sú mynd er ekki eins og afsteypa, heldur varðar það sem er mikilvægara en útlit – varðar dýpt og anda en ekki ásjónu. Að menn séu ímyndir Guðs, tenglar hins guðlega, kemur síðan fram í biblíuefninu. Að menn stóðu sig ekki, fóru villur vega, var túlkað sem skemmd þeirrar myndar Guðs, sem menn væru kallaðir til að vera.

Harmsaga manna, það sem kallast líka synd á máli trúarinnar, var myndbrot og saurgun þeirrar fegurðar, sem Skaparinn hafði gert af smekkvísri visku. Þessi myndaspuni verður áleitin þegar við hugsum um hvern mann sem listaverk, stórbrotið djásn sem fagurkerinn Guð hefur gert til að gæða veröldina fegurð, gleði og lífi. Þegar áföll hafa orðið í veröldinni er þetta listagallerí heimsins flekkað og saurgað. Inn í þá veröld kom síðan hinn hreini og fallegi Jesús Kristur, sem stókostleg ímynd og fegurð, Guð í heimi. Þess vegna töluðu höfundar Nýja testamenntisins um að Jesús Kristur hafi fullkomnað myndina, sem menn voru skapaðir í. Jesús hafi ekki flekkað neitt heldur endurspeglað alla himneskuna með þeim hætti sem honum var ætlað. Því segir postulinn:  “…dýrð Guðs endurspeglast í Kristi og andi hans lætur okkur umbreytast eftir þeirri sömu mynd til enn meiri dýrðar” (2. Kor. 3:18). Og sami postuli, Páll, segir um Jesú líka: “Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.” (Fil. 2.6.) Og það er síðan verkefni allra manna, hvort sem þeir trúa eða ekki, hvort sem þeir sækja kirkju eða ekki, hvort sem þeir eru konur eða karlar, eldri eða yngri, frá Vestmannaeyjum eða Japan að meta og virða sjálf sig sem dýrmæti, mynd Guðs, lifa þannig að lífinu sé vel lifað og í samræmi við fegurð og verkefni Guðsmyndarinnar, lífsins og veraldarinnar. Við erum kölluð til að vera falleg mynd Guðs í veröldinni.

Hver er mynd þín af Sigrúnu Ingu Magnúsdóttir? Og hver er þín eigin mynd? Ertu sáttur eða sátt við myndina, sem þú hefur af þér? Er það í samræmi við hvernig þú gætir lifað vel og með visku og fegurð? Myndin af Sigrúnu kallar á að þú hugsir um þína eigin mynd. Þín mynd á að vera góð bæði gagnvart þér og Guði.

Upphaf og fjölskylda

Sigrún Inga Magnúsdóttir fæddist á Jaðri í Vestmannaeyjum 28. febrúar árið 1916. Foreldrar hennar voru hjónin Kristjana Þórey Jóhannsdóttir og Magnús Hjörleifsson. Sigrún var elst þriggja systkina. Kristinn Hjörleifur fæddist liðlega tveimur árum á eftir Sigrúnu og Magnea Dóra vær tæpum fjórum árum yngri en eldri systirin.

Fjölskyldulífið var hamingjuríkt og foreldrarnir dugmikið mannkostafólk. Magnús sótti sjó og Sigrún litla stóð við gluggann heima til að bíða eftir að pabbi kæmi úr róðrum. Hún mundi alla tíð þessa hræðilegu marsdaga árið 1920 þegar pabbi kom ekki til baka. Magnús fórst, Sigrún beið, mamma hennar var ófrísk að Magneu Dóru og áfallið var þungt. Kannski var Sigrún og þau systkini alla ævi að bíða eftir pabba? Á þessum árum var ekki unnið með sorg og sorgarviðbrögð og missirinn settist því að í sálardjúpum. Þau voru öll á jaðri lífsins í margvíslegum skilningi.

Næsti áratugur og raunar áratugir urðu baráttu- og átakatími þessar litlu fjölskyldu við að lifa –  fyrst að lifa af og síðan að lifa til þroska og góðs. Eftir dauða Magnúsar var fjölskyldan í Eyjum en flutti, skömmu eftir að Sigrún var fermd í Sandgerði þar sem þau áttu ættingja og frændgarð. Kristjana fór víða til vinnu og var m.a. ráðskona á Suðurlandi. Stundum var Sigrún með henni og stundum var hún send í vist fjarri sínu fólki. Þetta var því flókinn tími, sem reyndi á móður og börn. Eftir að skóla lauk fór Sigrún að vinna og var alla tíð dugnaðarforkur. Hún var ráðskona um tíma og var líka á síld í Djúpuvík og norður á Sigló, sem var auðvitað heilmikil reynsla.

Vinnuþrenna

Í lok fjórða áratugarins flutti fjölskyldan í bæinn og fékk inni hjá frændfólki í Bergstaðastræti. Kristinn byrjaði stýrimannanám en Kristjana og Sigrún fóru að vinna á saumastofunni Últímu. Sigrún handlék falleg efni, lærði að meta gæði, saumaði flott hnappagöt, efldist sem fagurkeri og hafði áhuga á fegurð lífsins alla tíð síðan. Skömmu fyrir andlát sitt gat hún enn dáðst að fallegum fötum og hafði orð á.

Þær mægður voru í þjónustu Últímu saman, en síðan færði Sigrún sig yfir í prentsmiðjuna Odda og vann við bókagerð, stóð í áratugi 12 tíma vaktir, saumaði bækur, batt inn, vakti yfir að allt væri vandað og gott sem frá Odda kæmi, hvort sem það var nú á íslensku eða færeysku. Sigrún hætti í Odda 67 ára gömul og vildi ekki lengur vinna svo langan vinnudag og annað var ekki í boði í þann tíð.

Þar á eftir vann hún um tíma hjá Sláturfélagi Suðurlands. Vinnuferill Sigrúnar er sem spegilmynd íslenskrar sögu – föt, bækur, matur. Þetta er mikilvæg og miðlæg þrenna menningar Íslendinga.

Stiklur

Sigrún eignaðist hvorki börn né maka. En hún var aldrei einstæðingur í lífinu, sem ég sá best síðustu æviár hennar á Skjóli. Þá kom hennar fólk – ekki síst frænkur hennar – til hennar til að njóta samvista með henni og efla gæði hennar. Þökk sé ykkur. Sigrún var alla tíð afar næm á fólk og lagði sig eftir að fylgjast með líðan, átökum og sigrum fólks. Hún var einstaklega barngóð og hafði í sér hina fágætu gáfu nándar. Henni var hægt að treysta fyrir börnum og þegar hún tók að sér að passa var barninu ekki parkerað fyrir framan sjónvarpsskjá, heldur átti Sigrún allan þann tíma, sem barnið þarfnaðist og gaf þar með af sér ómælda blessun – þetta sem börn meta og muna.

Sigrúnu var gefið óvenju traust minni og skarpskygni. Hún mundi allt það sem hún vildi muna, en hafði ekki á orði það sem var þungbært og sorglegt. Hún var umtalsfróm, talaði vel um, lagði gott til, lyfti hinu góða og hreifst af hinu fallega. Sigrún breiddi út faðminn gagnvart öllum, sem vildu henni vel og hún átti orðastað við. Henni var í mun að efla líf og gæði annarra. Hún hugði að þörfum fólksins síns og rétti hjálparhönd.

Það var merkilegt að verða vitni að hvernig starfsfólk Skjóls vildi kveðja Sigrúnu þegar komið var að leiðarlokum. Það kvaddi hana ekki sem sjúkling, heldur sem náin vin. Og þá vitnaðist að Sigrún fylgdist grannt með fjölskylduhögum starfsfólks, var þeim sumum jafnvel sem ráðgefandi mamma og sálfræðingur, þekkti nöfn maka og barna og hafði geymt í hjarta og huga áhuga og umhyggju gagnvart öllu þessu fólki.

Sigrún var ekki aðeins bókhneigð, heldur líka Danahneigð. Og það var ekki bara Familie Journal og tískublöðin sem hún las, heldur var hún afar vel að sér í kóngahúsum Danaveldis. Það var skemmtilegt að geta sagt henni frá sumarhöll Margrétar Þórhildar sem fjölskylda mín sá í Árósum fyrir liðlega ári. Og Sigrún fyldist eins vel með fjölskyldugleði og fjölskylduraunum í Amalienborg sem sinni eigin fjölskyldu. Það sem hún hafði fest hug við það stóð og hún var ekkert hvikul í sínum málum.

Myndir og bækur

Flestir ættingjar Sigrúnar, sem komnir eru til manns, vita að hún var kortasérfræðingur og kortaconnoisseur. Þegar komið var að afmæli, viðburði eða jólum var Sigrún tilbúin með sérvalið kort til að gefa. Hún vandaði valið handa hverjum og einum og vildi að kortin yrðu til upplifunar og miðlaði einhverju hvort sem það var nú myndefni, glimmer eða stíll. Sigrún hafði fullkomið yfirlit yfir kortasölur og hvað var í boði og allt var vendilega valið og áritað.

Og þekkingin á prentgripum var söm. Hún miðlaði bókum til frændfólksins. Sigrún var ljóðelsk bókmenntakona og vildi gjarnan deila fegurðinni með öðrum. Svo kom hún með bókmenntir heimsins, líka færeyskar, inn á heimili síns fólks. Þannig miðlaði hún menningunni áfram. Fólkið hennar minnist þess þegar Sigrún og Kristjana amma komu í Sandgerði. Þær voru með brúna tösku, sem geymdi gull og djásn veraldar, stórkostlega pakka og falleg kort. Þær urðu því boðberar eða englar  Reykjavíkurmenningar og heimsmenningar.

Búsetustaðir

Sigrún var Reykjavíkurdaman. Hún naut borgarinnar, hafði gaman af bíóferðum, leikhúsi, fylgdist vel með búðum og verslun, fyrirtækjum og borgarþróun. Hún hafði gaman af að bjóða ungum ástvinum sínum í menningarhús og skemmtigarða borgarinnar.

Eftir veru á Bergstaðastræti fluttu þær mægður á Leifsgötu og síðan á Smiðjustíg. Síðan fóru þær í Mávahlíð. Nokkrum árum eftir að Kristjana lést keypti Sigrún síðan íbúð í Teigaseli, fór svo í Bláhamra þar sem hún bjó í áratug eða þar til hún fór á Skjól. Hún átti ekki von á mörgum árum þar en var þó á Skjóli í nær áratug. Þar lést Sigrún Inga Magnúsdóttir 13. október síðastliðinn. Hún verður jarðsett síðar í fjölskyldgrafreitnum í Fossvogskirkjugarði.

Myndin í lífinu

Hver er myndin af lífinu? Sigrún tók myndir og þó engin sé myndin á sálmaskránni verða margar myndir til sýnis í safnaðarheimilinu á eftir og meira segja myndaalbúm Sigrúnar verða þar. Hún var líka ljómandi ljósmyndari! Og myndin af henni sjálfri: Mynd Sigrúnar er falleg engilsmynd. En hún geymdi líka í sínum huga myndina af þér. Hún fylgdist vel með þér, þínu fólki, blessaði þig í huganum, ól önn fyrir þér og fylgdist vel með. Hún var fulltrúi Guðs í mannheimum.

Þegar við kveðjum góða konu höfum við tækifæri til að staldra við og þakka, en líka  spyrja spurninga um eigið líf, okkar eigin mynd. Guðsmynd þín er ekki ásjóna, hvernig þú vilt að lúkkið sé í lífinu. Guðsmynd þín verður aldrei sett í myndaalbúm Guðsmynd er lifuð. Þú ert meira en það sem aðrir sjá. Þú ert það, sem þú gerir úr guðsmynd þinni. Þér eru gefnar gjafir til að fara vel með í þína þágu, en líka annarra. Þínar gáfur eru til fyrir fólk, veröld – og fyrir Guð.

Hvernig viltu lifa? Lærðu af Sigrúnu að lifa vel, efla aðra, brosa við börnum, tala vel um fólk, lifa með reisn, láta ekki harma og afbrot eyðileggja þig. Lærðu að lifa hvern dag í þakklæti og gleði, lærðu að láta ekki sorgir eða áföll gærdagsins skemma þig. Þú ert falleg mynd, sem Guð hefur skapað, þú ert dýrmæti sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Sigrún var það dýrmætasta, sem Guð átti og þú ert það dýrmætasta sem Guðs sér og elskar.

Í gær hitti ég hér frammi í safnaðarheimilinu hjúkrunarfræðing á Skjóli. Hún var á námskeiði í Neskirkju. Við fórum að tala saman og hún sagði mér, að þær Sigrún hefður verið vinkonur. “Það var svo gaman að tala við hana og hún var húmoristi. Hún ætlaði að hitta mig síðar – í himnaríki!” sagði þessi kona um vinkonu sína og bætti svo við: “Hún var alveg tilbúin að fara.” Sigrún var alveg tilbúin, gat rætt um dauðann og för sína og hún tók sjálf ákvörðun um að lengja ekki frekar það sem lokið var. Hún hafði horft út um Jaðargluggan heima í Vestmannaeyjum og skyngst um eftir pabba, sem aldrei kom. Hún hafði séð á eftir mömmu sinni, systur, systurdóttur, bróður og bróðurdætrum, öllu þessu fólki sem hún elskaði. Og nú var hún á leið til þeirra, þar sem allt er gott, engin neyð er til, engin kvöl og engin tár, aðeins elska, gleði, samsemd, hrein viska, himneskt kóngsríki fyrir okkur, fyrir gott líf. Þar á Sigrún heima nú – og nú þarftu að uppfæra og lagfæra myndina af Sigrúnu á himnum – á þeim himneska Jaðri. Það er falleg mynd, ekki aðeins flottasta kortamynd veraldar heldur raunmynd úr Guðsríki.  Og hvernig viltu að myndin þín verði? Farðu vel með lífið og lifðu til eilífðar eins og Sigrún. Guð geymi Sigrúnu Ingu Magnúsdóttur og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Sigrúnar Ingu Magnúsdóttur, Neskirkju 22. október, 2010.