Greinasafn fyrir merki: Sigríður Helga Þorbjarnardóttir

Sigríður H. Þorbjarnardóttir – minningarorð

Sigríður ÞorbjarnardóttirFulltrúar heimsbyggðarinnar ræða fótspor og framtíðarskref í París. Sigríður Helga Þorbjarnardóttir var aldrei í vafa um að við menn bærum ábyrgð. Hún þekkti sitt eigið umhverfisspor og okkar allra. Hún var ábyrg – ekki aðeins gagnvart sjálfri sér heldur umhverfi sínu og verkefnum lífsins.

Á Tröllaskaga

Ég kynntist Siggu á Tröllaskaga í ágúst árið 1998. Reyndar hafði ég séð hana á röltinu í Vesturbænum en við urðum ekki málkunnug fyrr en í Ferðafélagshóp sem kannaði hina norðlensku Alpa. Sigga kom hýreyg í hús í Ytri-Vík á Árskógsströnd þar sem hópurinn gisti í skjóli Sveins í Kálfsskinni. Og enn bjartleitari var hún daginn eftir í morgunbirtunni, sólskininu, við Reistará þegar eftirvæntingarfullur hópur safnaðist saman, hugaði að gönguskóm, herti á stöfum og gegndi kalli fararstjóra Ferðafélagsins. Og þar var Sigga við hlið Helga Valdimarssonar, hins fararstjórans. Svo var lagt í hann, rölt upp hlíðar Kötlufjalls, sem er gott fyrstadagsfjall. Sigga vaktaði allan hópinn, gætti að þeim sem ráku lestina og sérhæfðu sig í Alpagöngulagi. Svo þegar upp var komið herti Sigga á, kátína hópsins jókst og gönguhrólfarnir innlifuðust unaði íslensks sumars. Svo var skokkað niður hrísmóa og heim í náttstað. Slegið var upp veislu. Og þetta voru dýrðardagar, stórkostlegar göngur og ríkulegt félagslíf. Sigga skáskaut augum á samferðafólkið, tók sposk þátt í fjörinu, kættist af einbeittri gleðisókn og safnaði rekasprekum í strandeld. Sigga varð fjallamóðir mín í þessari ferð og við erum mörg sem höfum notið leiðsagnar hennar, fræðslu og félagsskapar í bláfjallageimi. Þar naut hún sín vel, þar átti hún sér friðland, þar var musteri hennar – þar var himinn henni opinn.

Upphafið

Þegar Sigga var komin upp á toppana á Tröllaskaga sá ég hana líta til austurs. Þegar við vorum á Rimum benti hún til Grenivíkur: “Þarna fæddist ég – ég er þaðan,“ sagði hún og ljómaði. Já, Sigríður Helga fæddist á Grenivík -inn í vorið árið 1948, 13. maí. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Guðmundsdóttir og Þorbjörn Áskelsson. Anna var frá Nýjabæ í Kelduhverfi og var ljósmóðir og Þorbjörn var útgerðarmaður á Grenivík. Hún sá um að lífið fæddist og hann um að mannfólkið nyti fæðu. Báðum lánaðist vel.

Þorbjörn var frá Austari Krókum á Flateyjardalsheiði og hafði stofnað útgerðarfyrirtækið Gjögur tveimur árum áður en Sigríður fæddist. Þau Þorbjörn og Anna eignuðust sex börn. Elstur systkina Sigríðar er Guðmundur sem kvæntur er Auðbjörgu Ingimundardóttur. Njáll var næstur í röðinni. Hann er kvæntur Jónu Jónsdóttur. Laufey er gift Jóni Sigurðssyni. Guðbjörg er gift Jónasi Matthíassyni og Guðrún gift Guðmundi Sigurðssyni.

Fjölskylda, flutningur og nám

Dymbilvikan árið 1963 varð Íslendingum þungbær. Þá fórust á þriðja tug Íslendinga í slysum á hafi og á landi. Þorbjörn Áskelsson var einn þeirra. Hann var aðeins 58 ára þegar hann lést þegar Hrímfaxi fórst í flugslysi við Fornebu sem þá var aðalflugvöllur Oslo. Þorbjörn hafði tekið við nýjum fiskibát í Hollandi og var á heimleið. Fráfall hans breytti allri sögu fjölskyldunnar og Anna ákvað að selja Ægissíðu, fjölskylduhúsið á Grenivík, og flytja suður. En útgerðarfyrirtækið lifði áfram og varð í höndum ættingja Siggu Grenvíkingum mikið bjargræðisfélag. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að fráfall föður var öllum í fjölskyldunni mikið högg og unglingnum þungbært.

Sigríður hóf skólagöngu fyrir norðan og lauk fullnaðarprófi frá Barnaskólanum á Grenivík árið 1962. Hún flutti svo suður með fólkinu sínu og settist að í húsi á horni Tómasarhaga og Hjarðarhaga. Hagar og Melar urðu hennar vettvangur á unglingsárunum. Hún fór í Hagaskóla, eignaðist félaga sem hún naut síðan. Henni gekk vel í námi og fór svo í menntaskóla. Þá lá leið flestra þeirra sem fóru úr vesturbænum í framhaldsskóla í MR og þaðan varð hún stúdent.

Háskólanám, störf og félagsmál 

Sigga hafði alla tíð mikinn áhuga á öllum greinum nátturufræði og virti áhugasvið sitt. Hún innritaðist í BS-nám í líffræði sem þá var nýhafið í HÍ. Því námi lauk hún árið 1973 og fór síðan til Englands í mastersnám og útskrifaðist með M.Sc. próf í örverufræði frá háskólanum í Warwick í Englandi.

Sigga var í fyrstu bylgju líffræðinga á Íslandi og var svo lánssöm að hún fékk strax vinnu við hæfi. Nýúskrifaður meistarinn hóf störf hjá Guðmundi Eggertssyni, prófessor, við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og varð hans hægri eða vinstri hönd í rannsóknum og helsti samstarfsmaður. Sigga var ráðin sérfræðingur við Líffræðistofnun háskólans. Rannsóknir hennar lutu að erfðafræði bakteríunnar E. coli. Síðar rannsakaði hún hitakærar bakteríur og kuldavirk ensím.

Kennslustörf urðu hluti af starfsskyldum Siggu. Hún var ekki aðeins fjallamóðir margra heldur einnig fóstraði hún fjölda líffræðinema í fræðunum. Hún kenndi flestum líffræðinemum sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands síðustu fjörutíu ár. Hún var því n.k. ljósa þeirra í fræðum og námsmamma.

Og af því henni mátti alltaf treysta til allra starfa var Sigga eftirsótt í félagsstörfum einnig. Hún var í stjórn Líffræðistofnunar háskólans um árabil og vegna áhuga á mannlegu inngripi í gang náttúrunnar hafði Sigríður huga við eðli og áhrif erfðabreytinga. Hún var í ráðgjafanefnd umhverfisráðuneytisins um erfðabreyttar lífverur. Sigríður tók virkan þátt í starfi Ferðafélags Íslands og var þar í stjórn árin 1992-2001 og hafði mótandi áhrif á nýsköpun í ferðatilboðum félagsins.

Minningar og þakklæti

Og þá er komið að minningunum um Sigríði Helgu Þorbjarnardóttur. Við hefðum viljað njóta hennar lengur, fara fleiri fjallaferðir með henni, njóta fleiri fræðslustunda og sjá hana hverfa, sadda lífdaga, inn í blóðrautt sólarlag ellinnar. Margir hafa sagt við mig að eitt að því ömurlegasta við að eldast sé að sjá á eftir vinunum. Og því yngri sem þeir eru – því dapurlegra. Sorgin er skiljanleg og tilfinningar funa í lifandi fólki. Ekkert okkar á þó tryggt að geta klifið alla tinda sem við viljum eða notið samfylgdar allra til enda.

Í stað þess að harma tindana sem við náum ekki – getum við í frelsi okkar umtúlkað lífsafstöðu. Ef við lifum í afstöðu skortsins missum við vini, líf, möguleika og vegtyllur og ölum á eftirsjá. En þroskuð lífsafstaða nær stóra tindinum því hún staldrar við hrifningu og elsku og nærir þakklæti. Líf í fyllingu elur þakklæti. Þökk er farsælli lífsháttur en hyggja skortsins.

Í stað þess að hugsa um allar stundirnar með Siggu sem við förum á mis við og syrgja þær – gerum við betur með því að þakka það sem hún var og gleðjast yfir því sem við nutum. Við getum hyllt hana og megum lofa hana í huga og sál fyrir það sem hún gaf okkur og var okkur, fjallamóðir, fræðari, vísindakona, traustur vinur, nærgætinn leiðsögumaður, lífsglöð og umburðarlynd frænka eða systir.

Verkefni þitt er að gera upp og leyfa Siggu að fara. Fyrir hvað viltu þakka og hvað getur þú lært af henni þér til lífs og eflingar? Getur þú rifjað upp einhverja dýrmæta minningu um hana? Manstu eftir þegar hún fór á hnén og skoðaði blómjurt með nákvæmni vísindamannsins og í bland við fagurkerann sem elskaði liti, fjölbreytni og lykt? Manstu hve tillitsöm hún var í samskiptum, traust og áreiðanleg, nákvæm og samviskusöm? Manstu að alltaf var hægt að treysta henni og því sem hún ætlaði sér að gera? Hún reyndi alltaf að standa við sitt.

Manstu eftir bernskuleikjum hennar, að hún sótti út í náttúruna, féll í hið risastóra fang landsins, hlustaði á hvísl í sumarþey, fann í lyngi hlé og leikvang í mjöll eða fönn vetrarins? Manstu að hún var snemma klettasækinn? Hún fór á bernskuárum vestur í Skælu og klifraði í klettum.

Og lífið í sjónum átti hug hennar einnig. Hún réri stundum út á víkina og skoðaði fiskana á grunnsævinu. Og hún var tengd Ægissíðu á Grenivík og keypti svo með ættmennum sínum húsið að nýju þegar það var falt.

Mantu tryggðina, fjallstyrka traustið í henni, – kyrrláta skaphöfn eins og hún átti kyn til? Sigga lét ekki þvæla sér eða draga sig í einhver gönuhlaup og mannlífsfen.

Manstu hve annt henni var um að fara vel með og skemma ekki? Manstu meðvitaða og agaða nægjusemi hennar? Sigga velti vöngum yfir umbúðum og matvælum, hvort hún ætti að kaupa þetta eða hitt af því hún tók siðferðilega ábyrgð alvarlega. Hún vissi að þó hún gæti ekki bjargað heiminum ein gæti hún lagt sitt af mörkum. Er það okkur til eftirbreytni.

Þekktir þú hiklaust þor Siggu þegar hún tók stefnu? Hún var t.d. óhrædd við vélar. Hún prílaði snemma upp á Farmal Cub og náði ágætum tökum á græjunni. Vissir þú að hún keypti sér skellinöðru þegar hún var í námi í Englandi? Þegar hún var að þjálfa sig í akstrinum endaði hún reyndar ofan í ruslagám. Sigga hló þegar hún sagði frá þeirri þeysireið og sjálfskaparvíti. Hún gat gert grín að sér.

Áhugasvið Siggu var vítt. Hún hafði breiðan áhuga á menningarmálum, var fjöl- og víðlesin, hlustaði á alls konar tónlist, hafði opin hug til ýmissa greina mannvísinda. Hún virti fegurðar- og sannleiks-leit manneskjunnar í litríkum heimi og fjölbreytilegri náttúru. Hún var alin upp við klassískt og íslenskt menningarlæsi. Manstu hvað Sigga sagði um gildi, heim og ábyrgð manna í umhverfismálum? Það var grundvallað á þeim gildum sem henni voru blásin í brjóst í foreldrahúsum og rímuðu við náttúrujákvæðni og mannást íslenskrar kristni.

Manstu hve Sigga var gætin en þó óhrædd á ferðum í faðmi íslenskra fjalla? Hún gekk og fór um landið sumar sem vetur og í öllum veðrum. Hún fór margar svaðilferðir og stundum sá ekki úr augum í vetrarbyljum en aldrei fór hún sér að voða. Manstu styrka nærveru hennar, stundum orðlausa en hlýja?

Skilin

Og nú er komið að skilum. Og nú hefur hún tekið sín skref – ekki í París heldur inn í Paradís. Þar er mesta og besta umhverfisvitundin og verndarelska, sem er fólgin í Guði. Þar mun Sigga finna sig heima. Við megum kveðja hana með þakklæti, þakka náttúrumömmu, ljósu í fræðunum, þakka nærgætni við ástvini, frænkur og frændur. Þakka fyrir brosið, hláturinn og verkin. Hún slær ekki lengur lúpínu í Skaftafelli, stiklar um Nepal eða Madeira,  smellir ekki á sig sandölum, né mun hún ganga yfir hálendið á skíðum. Hún ver ekki mosató í hættu eða melgrasskúf en við megum minnast hennar með því að verja náttúruna.

Þegar við föllum í fang Bláfjallageims í náttúrumusteri heimsins getum og megum við syngja þakkarsálma fyrir allt það sem hún var okkur og leyfa þeim að verða okkur brýning til að verja lífið, helga lífið með góðri umgengni og með óáreitinni festu Siggu, sem aldrei skemmdi heldur varði og gætti. Hún fer ekki framar norður í Ægissíðu á Grenivík. Nú er hún á tindinum, bendir yfir landið og brýnir okkur – nú er hún komin í Ægissíðu eilífðar.

Guð geymi hana og Guð geymi þig.

Í Jesú nafni – Amen.

Ég hef verið beðin um að bera ykkur kveðju frá Önnu Birnu Jónasdóttur og fjölskyldu í Kanada.

Róbert og Jórunn Eyfjörð biðja einnig fyrir kveðju en þau eru erlendis.

Minningarorð við útför í Neskirkju, miðvikudaginn 2. desember, 2015, kl. 15.

Bálför. Erfidrykkja í Neskirkja. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði.