Greinasafn fyrir merki: Sigrid Österby

Sól og Sigrid Österby

Sigrid Österby kom oft hingað í Neskirkju. Henni líkaði fjölbreytni kirkjustarfsins, tók þátt í mörgu og kynntist starfsfólki kirkjunnar. Í unglingastarfinu er margt brallað og víða farið. Fyrir tæpu ári efndi unga fólkið til helgistundar í Vesturbæjarlauginni undir heitinu bjartsýnisbusl. Þetta þótti Sigrid skemmtilegt og fannst upplagt að útbúa trúarlegt tákn til að reisa við laugina. Það gæti verið eins og altaristafla, og skapað óvænt helgirými í almannarýminu. Eftir nokkrar umræður varð niðurstaðan, að sólin væri ljómandi tákn um bjartsýni. Sigrid lá ekki á góðum ráðum um handverkið en svo kom í ljós að enginn treysti sér í sólargerð og sólarskorturinn fréttist. Þegar æskulýðurinn kom í sundlaugina kallaði starfsmaður Vesturbæjarlaugarinnar: „Eruð þið ekki frá Neskirkju? Það er poki hérna handa ykkur fyrir buslið.” Þau urðu hissa, tóku við pokanum og sáu að í honum var eitthvað gult. Já, auðvitað var það sól frá Sigrid. Henni hafði runnið til rifja að góð hugmynd kæmist ekki í framkvæmd, fann gult rúmteppi sem hafði þjónað hlutverki sínu, klippti það til og saumaði úr því sól, sem brosti framan í alla sem busluðu til eflingar bjartsýninni. Þegar lífið kallaði heyrði Sigrid og gerði sitt til að tákn birtunnar brostu í veröldinni.

Í sköpunarsögu Biblíunnar, frumljóði allrar verðandi, bjartsýni og alls lífs segir Guð: „Verði ljós. Og það varð ljós.” Það sem Guð segir verður, það sem Guð kallar fram er gott. Þegar myrkur grúfir yfir djúpi er Guð nærri til að lýsa. Sköpunarsagan er ekki orð um fortíð heldur nú hverrar tíðar. Sköpunarsagan er orð um líf og það sem er. Sköpunarsagan er um þig og Sigrid. Hún lifði djúpin og myrkur, en líka líf, ljós, börn, gleði, birtu og von.

Tvenndirnar

Sigrid Österby fæddist á Jótlandi en var Íslendingur. Hún átti íslenska mömmu en danskan pabba, ólst upp í Danmörk en komst til manns á Íslandi. Hún var tvítyngd og eins og margir aðrir á slíkum mærum átti hún rætur í tveimur heimum. Þeir nærðu hana og toguðu líka. Líklega kallaði Danmörk og dönsk menning æ sterkar til hennar því eldri sem hún varð. Sigrid var borgarkona í Reykjavík en líka sveitakona í margvíslegum skilningi. Hún var alin upp í stórum systkinahóp, átti mörg börn sjálf, en átti sér líka leynivíddir og gat alveg hvílt í kyrru og nánd eigin sálar. Sigrid var því kona margra vídda og það varð henni til hjálpar síðar. Hún strandaði aldrei hvað sem á gekk í lífinu.

Sigrid fæddist í Hee þann 6. febrúar 1937 og fékk nafn hinnar íslensku ömmu Sigríðar, sem varð henni sterk fyrirmynd, kannski ekki síst fyrir festu og seiglu. Í minningum, sem Sigrid lét eftir sig, sagði hún frá ljósríkum uppvexti og tjáði djúpa virðingu fyrir foreldrunum. Hún sagði, að Ólöf Hallfríður Sæmundsdóttir, móðir hennar, hafi verið verkamikil listakona, sem hafi mikið fyrir sig gert. Hermann Österby Christensen, pabbinn, hafi verið traustur, sagt fátt en hugsað margt. Hann var kunnastur fyrir störf sín hér á Íslandi sem mjólkurfræðingur og starfaði lengstum hjá Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi.

Sigrid minntist timburhúsanna, sem fjölskyldan bjó í ytra. Bernskan var henni greinilega hamingjutími og síðasta húsið, sem þau bjuggu í áður en þau fluttu til Íslands, var í jaðri furuskógar. Heimsstyrjöld geisaði í nálægð, en þrátt fyrir fátækt og hörmungar er þó birta í bernskuminningunum. Og það er eins og sena í Astrid Lindgren bók, að krakkarnir voru böðuð í balla út í skógi.

Systkinin Sigrid eru: Ásbjörn (f. 15.9. 1939), Leif (f. 18. 8. 1942), og Eva (f. 5. 1. 1948), sem lifa öll systur sína.

Menntun

Sigrid hóf skólagöngu á Jótlandi sex ára gömul og hélt henni síðan áfram þegar hún fluttist til Íslands. Fyrst fór reyndar fjölskyldan til Akureyrar og þá í hús Sigríðar ömmu í Glerárþorpinu þar nyrðra. Þaðan lá leiðin á Selfoss.

Foreldrarnir voru klókir í þessum breytingaaðstæðum og Sigrid sagði frá, að faðir hennar hefði lofað henni nýju reiðhjóli ef hún yrði hæst í bekknum sínum. Breytingar geta orðið mönnum raun eða tækifæri. Sigrid bjó til sólir úr vandkvæðum í lífinu. Eftir skólagöngu á Selfossi fór hún norður á Akureyri í menntaskólanám, var þar í þrjú ár og eignaðist vini fyrir lífið, en lauk svo stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni.

Alla ævi var Sigrid að læra. Hún var nútímakona hvað símenntun varðar. Hún stundaði nám og lauk prófum við ýmsa skóla og stofnanir og hélt alltaf áfram. Barneignir og hjúskapur hindruðu hana ekki í að halda áfram námi, en hún teygði bara á tímanum og strekkti nám í staðinn. Sigrid var fjölmenntuð hvað varðar mótun og þekkingu, en líka hvað formlega menntun varðar. Auk framhaldsskólanáms og náms í lýðháskóla, stundaði hún nám í HÍ, Myndlista- og handíðaskólanum, Kennaraskólanum og norrænum stofnunum eða skólum í listmeðferðarfræði. Viðfangsefni hennar voru gjarnan á sviði lista, artterapíu, danskrar menningar auk kennslufræði.

Björt og skugginn

Tæplega tvítug og áður en Sigrid lauk stúdentsprófi eignaðist hún dóttur. Trú ljóssókn sinni var hún kennd við birtuna og nefnd Björt. Foreldrar Sigrid voru henni öflug aðstoð, en litla stúlkan dauðveiktist og var að lokum send til Kaupmannahafnar til lækninga en þar slokknaði hennar líf. Allir sem hafa misst gera sér grein fyrir, að það er ekki á nokkurn mann leggjandi að grafa barnið sitt. Og sorgin vistar sig sjálf í djúpi sálar og hverfur ekki fyrr en með hana er unnið. Nú er hringnum náð og Sigrid verður lögð til hinstu hvílu í gröfina við hlið elstu dóttur sinnar. Í fyrstu kastaði Birtumissirinn löngum skugga í veröld Sigrid, en svo gat hún löngu síðar unnið með missinn.

Konráð, börn, hjúskapur

Svo kom Konráð Sigurðsson (f. 13. júní – d. 15. 7. 2003) inn í líf hennar. Skólastýra Myndlistaskólans kynnti hann og Sigrid. Þau voru bæði næm, ör og hvatvís – og það blossaði á milli þeirra. Hennar tilvera fléttaðist inn í hans og þar sem hann hafði atvinnu þar var hún líka, á Raufarhöfn og Kópaskeri, í Reykjavík og í Laugarási í Biskupstungum. Þau eignuðust stóra barnahópinn sinn: Atla, Ólöfu Sif, Huld, Ara og Andra. (Um fæðingardaga, störf, maka, afkomendur og tengslafólk sjá yfirlit í lok minningarorðanna)

Í ástríki, barnríki og litskrúðugt heimilislíf blönduðust vaxandi erfiðleikar í hjúskap. Hópurinn flutti í Kastalagerði við Kópavogskirkjuna. Enn stríkkaði á hjónabandinu og bandið brast að lokum. Sigrid var ein með stóra og kraftmikla hópinn sinn, vann mikið – gjarnan við kennslu, efldi börnin til sjálfstæðis og kom þeim öllum til manns og mennta. Svo sleppti Sigrid, eignaðist sinn eigin tíma, andrúm til að sinna sér og sínum hugðarefnum, skapaði eigin listaverk, hélt æ lengra í listavinnu sinni og kafaði í dýptir sálar og vann með lífsþræði sína og annarra. Hún hélt jafnvel námskeið þegar hún var orðin veik og allt fram að því að hún var lögð inn á sjúkrahús var hún að kenna og þjóna fólki.

Sátt

Hún kom til baka úr sinni andlegu pílagrímsferð, tjáði að hún hefði náð sátt við flest það, sem hafði orðið henni þungbært og skuggsett í lífinu. Hún bæði sagði við mig og skrifaði niður hjá sér, að hún væri sátt við sig, sátt við Guð og menn, sátt við hjúskap sinn og allar tilraunir lífsins, sátt við áföllin. Hún gerði upp sorgina, og opnaði svo fangið að nýju gagnvart fólkinu sínu.

Sigrid þurfti sinn tíma til að endurvinna lífsefnin, sinn tíma til að sníða nýja sól úr gömlu efni, fara inn í sorgarefnin, sem höfðu vistast hið innra á sínum tíma. Þess nutu barnabörnin ekki síst á síðari árum og fjölskyldan öll í mildi hinna síðustu mánaða. Að lifa vel er æviverk og að vinna úr áföllum er áraun pílagrímsins.

Menning til unaðar

Sigrid hafði víðfeðman, menningarlegan áhuga. Hún ferðaðist víða og lagði sig eftir innsýn í merkingar- og menningarheima. Hún hlustaði gjarnan og hreifst af tónlist, já allt til loka var hún opin fyrir sterkum upplifunum. Hún sótti gjarnan listasamkomur og sýningar og stælti næmi.

En hún hafði jafnframt sterkar skoðanir á málefnum, mönnum og flestu, sem fyrir bar í veröldinni. Hún ræddi fúslega um flest, tjáði hugmyndir sínar um pólitík, gjarnan í ljósi félagshyggju og hvatti til að réttindi kvenna yrðu virt. Hún beitti sér líka í þágu fólks sem hún taldi sig geta liðsinnt. Margir í samtökunum Vin og Ljósinu hafa notið sjálfboðaliðsstarfs Sigrid með svo margvíslegu móti. Hún átti orð um nærpólitík og líka heimspólitík. Og svo var jafnan stutt í húmorinn, sem gat orðið beittur. Hvernig getur jósk-íslensk blanda orðið öðru vísi?  

Lífsgagn

Ákveðin var hún og fylgin sér. Sigrid hafði líka sterkar skoðanir á eigin útför. Hún vildi að minningarræðan um hana yrði stutt. Það fór jafnan illa ef ekki var tekið mark á fyrirmælum hennar! Því verður henni hlýtt, enda minnumst við Sigrid best með því að lifa vel, leyfa því, sem gladdi okkur í lífi hennar að verða okkur til eflingar.

Sólin reis við sundlaugina í fyrra, Sigrid leitaði alla tíð ljóssins og eftir getu brá hún ljósi yfir líf okkar, veitti okkur af því, sem henni þótti skemmtilegt, kryddaði líf okkar.

Fyrir tæpu ári komu Sigrid og dótturdóttir hennar í páskamessu í Neskirkju. Fegurð í samskiptum þeirra var smitandi. Amman var geislandi hamingjusöm í kirkju á þeim táknræna lífsmorgni. Sólin dansar á páskamorgni öllum þeim sem vilja sjá. „Verði ljós“ er orð Guðs um líf allra og líf þitt nú. Hvað ætlar þú að gera í eldsókn þinni? Sigrid mætti vandkvæðum með því að sjá tækifæri en ekki bara ósigra. Hún nýtti gamalt efni til að lýsa lífið. Og nú er líf hennar allt og hún hefur umbreyst í hinni miklu ljósstöð eilífðar. Þar er skapandi elska, þar er ekkert sem letur, slævir, myrkvar eða deyfir. Sigrid og kristinn maður vita, að á bak við tákn er veruleiki, sem er stærri en táknið. Á öllum dögum máttu muna að Guð er lífssól hennar og þín. 

Í nýjárssálmi Matthíasar Jochumssonar segir:

Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.

Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt,
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.

Guð varðveiti þig í ljósi sínu. Guði séu þakkir fyrir Sigrid. Guð varðveiti hana í eilífð sinni.

Útför frá Neskirkju 19. janúar 2008.

Sigrid Østerby, Dunhaga 15, Reykjavík, fæddist í bænum Hee á Jótlandi 6. febrúar 1937. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 12. janúar síðastliðinn. Sigrid var dóttir hjónanna Ólafar Hallfríðar Sæmundsdóttur húsfreyju á Selfossi, f. 1. 4. 1906, d. 19. 2. 1995 og Hermanns Østerby Christensen mjólkurfræðings á Selfossi, f. 10. 3. 1907, d. 1. 8. 1987. Systkini Sigrid eru a) Ásbjörn, prentari í Svíþjóð, f. 15.9. 1939, b) Leif, rakari á Selfossi, f. 18. 8. 1942, maki Svandís Jónsdóttir ljósmóðir og c) Eva hjúkrunarfræðingur, f. 5. 1. 1948,  maki Einar Oddsson læknir. Eiginmaður Sigrid var Konráð Sigurðsson læknir, f. 13. 6. 1931, d. 15. 7. 2003 en þau skildu 1972. Börn þeirra eru a) Atli, líffræðingur, f. 11. 10. 1959, maki Anne Berit Valnes, kennari. Börn þeirra eru Björk f. 9. 6. 1995, Lilja, f. 14. 12. 1996, Hákon, f. 26. 4. 1998, Tryggvi, f. 18. 7. 2000 og Gauti, f. 8. 1. 2002. Fyrir átti Anne Berit börnin Cecilie, f. 4. 6. 1982 og Fredrik, f. 13. 2. 1988. b) Sif, lögfræðingur, f. 4. 12. 1960, maki Ólafur Valsson dýralæknir. Dóttir Sifjar og Þórðar Hjartarsonar er Helga, f. 18. 7. 1997. Fyrir átti Ólafur börnin Baldvin, f. 12. 3. 1985, Sigríður, f. 5. 11. 1992 og Róshildur, f. 23. 3. 1994.  c) Huld flugfreyja og BA í frönsku, f. 5. 8. 1963, maki Sigurður Tómas Magnússon, lögfræðingur. Börn þeirra eru Sigrún Hlín, f. 20. 3. 1988, Margrét Sif, f. 3. 2. 1994 og Magnús Konráð, f. 22. 6. 1998. d) Ari, læknir f. 14. 9. 1968, maki Þóra Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra Sif, f. 13. 4. 2003 og Arnar, f. 27. 1. 2005. Fyrir átti Þóra dæturnar Helenu, f. 20.6. 1995 og Agnesi, f. 23. júlí 1997. e) Andri læknir, f. 16. 9. 1971. Sigrid átti fyrir hjónaband dótturina Björt Nordquist, f. 6. 1. 1957, d. 2. 8. sama ár. Sigrid bjó með foreldrum sínum á Jótlandi fram til 9 ára aldurs en flutti þá með þeim að Selfossi þar sem Herman faðir hennar starfaði sem mjólkurfræðingur. Sigrid stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1957 og lagði síðan stund á nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Hún lauk kennaraprófi 1966 og BA prófi í dönsku frá Háskóla Íslands 1987. Síðar nam hún uppeldis- og kennslufræði og listasögu við Háskóla Íslands. Hún lauk námi sem listmeðferðarfræðingur frá Institut for Kunstterapi í Noregi og Danmörku 2003 og stundaði listmeðferð til æviloka. Sigrid starfaði síðustu áratugina sem framhaldsskólakennari, síðast við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Jafnframt lagði hún stund á myndlist og hélt fjölda einkasýninga og samsýninga hér á landi og erlendis. Sigrid var ötul baráttukona fyrir kvenréttindum og tók virkan þátt í menningarsamskiptum við fjölmargar þjóðir, svo sem, Sovétríkin, Kína, Albaníu og Kúbu. Hún starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, lagði hvers kyns menningar- og mannúðarmálum lið og ferðaðist víða um heim. Sigrid lagði alla tíð sérstaka rækt við hinar dönsku rætur sínar. Útför Sigrid var gerð frá Neskirkju 19. janúar 2008 kl. 14.00.