Greinasafn fyrir merki: siðferði

Hvenær endar þetta?

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Vatnið og tuttugasta og þyrsta öldin

Framsaga um vatn í Hallgrímskirkju 15. september, 2020. Hljóðskráin er hér.

Af hverju að tala um vatn í kirkju? Hefur vatn eitthvað með trú að gera? Af hverju ætti prestur að tala um vatn? Eigum við ekki að láta stjórnmála- og vísindamennina ákveða nýtingu vatns? Jú, þeir eiga að koma að málum. En vatnsnotkun varðar okkur öll. Trú tengist alltaf stóru málum lífsins. Í kristinni siðfræði eru mál skoðuð skipulega og ígrunduð stefna mótuð á forsendum ábyrgðar og kærleika. Vatn í veröldinni er trúmál og varðar þorsta lífvera heimsins – og þar með þorsta Jesú sem alltaf er líftengdur.

Þegar við skoðum líkan af jarðarkúlunni – eins og mörg okkar áttum í bernsku – getum við snúið hnettinum, skoðað löndin og staði. Við sjáum að megnið af yfirborðinu er ekki með moldarlit, grænt eða sandlitað heldur blátt. 71% af yfirborði jarðar er vatn. Jörðin er ekki brún heldur blá, hún er vatnshnöttur.

Kirkjur eru líka vettvangur vatns. Vatn er í skírnarfontinum, blessað vatnið. Vatn í víni og brauði. Sakramentin eru bæði vatnssósa. Og svo eru ókjör af vatni í fólkinu sem sækir kirkjuna – tveir þriðju-hlutar vatn. Það er því mikið af vatni sem fer um þetta hús, líklega nærri 50 milljón líkamslítrar í meðalári auk alls drykkjarvatnsins og hitaveituvatnsins.

Blái hnötturinn lifir en hvað um framtíð hans? Hvað verður um þessa veröld, samhengi okkar? Hvernig geta kynslóðir lifað í framtíð? Margir eru uppteknir af fortíðinni – en ég er meira með huga við framtíðina. Þegar móðir mín var á tíræðisaldri leiftruðu augu hennar þegar hún talaði um vatn, um kál, um fjöll, um hreinleika og um hve lífið væri heilagt. Lífið er mér líka heilagt, vatnið og allt sem er. Ég lít á það sem skyldu mína að leggja lífinu lið, leggja mitt af mörkum til að lífið haldi áfram. Þessar þriðjudagssamverur eru hluti þeirrar einurðar.

Á þessum næstu þriðjudögum verður fjallað um vatn í lífríki heimsins, hvernig vatn sprettur fram í trúarbrögðum, einkum kristninni. Á þessum fyrsta þriðjudegi geri ég grein fyrir forsendum mínum, vatnsbúskap þínum og veraldar. Og ég ræði í lokin um sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna sem varðar vatn.

Eftir viku mun ég tala um bleytuna í Biblíunni og mun einkum um ána Jórdan, sem ekki aðeins á sér stórmerkilega sögu heldur áfram að vera tilefni átaka og stríða þjóðanna í Miðausturlöndum vegna vatnsskorts á svæðinu.

Í þriðja lestrinum eftir hálfan mánuð tala ég um vatn og konur og merkilegan fund upphafsmanns kristninnar og útlenskrar konu við brunn í norðurhluta Palestínu. Sá fundur opnar margar gáttir þegar fordómum sleppir, fleiri möguleika en mig hafði órað fyrir. Þessi frásaga er klassík fyrir vatnsstressaðan heim í vatnsvanda.

Síðasti lesturinn, 6. október fjallar um hverjir eigi vatn veraldar. Eiga landeigendur vatn eða er vatn utan eignarhalds, lífsréttindi? Fjallað verður um vatnsrétt Rómverja, ríparískan rétt vestrænna þjóða, löggjöf og venjur tengdar vatni. Þingvellir eru gott nálgunardæmi um hver eigi vatn.

Í þessum lestrum í fjóra þriðjudaga verður rætt um vatn, hlutverk og skyldur þjóðkirkjunnar, kirkna heimsins og trúarbragða. Ég mun líka víkja að möguleikum og skyldum þjóðríkis okkar Íslendinga. Ýmsar tillögur verða fluttar.

Vatnsáhuginn – af hverju

Þá er það persónuvíddin. Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum fékk ég gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru stúdentagarðarnir. Ég blés þær upp og batt saman og bjó til fley sem ég síðan sat á og fór út á Skerjafjörðinn við Þormóðsstaðafjöruna til að rannsaka lífríkið, fiska og furður sjávarins. Foreldrar mínir voru ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín fór á flekann, datt í sjóinn og kom holdvot og köld heim. Þá var þetta hafrannsóknarskip mitt tekið úr umferð.

Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom svo hlægjandi fram mót sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn lyppaðist niður í hláku og bunurnar skoppuðu niður brekkurnar og föðmuðu aðrar og af varð mikill vatnadans og vatnsmúsík líka. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá varð stórfljót í vorleysingum og allt undirlendi hins mikla dals fór undir vatn. Stíflumannvirki bændanna voru hrífandi, þessi sem höfðu verið byggð til að geta veitt vatni yfir engi og þar með næringu. Þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég missti næstum stöngina í hylinn. Ég varð síðan ástríðu-veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins urðu tengsl. Ég gekkst við vatninu. Á menntaskólaárunum ákvað ég að ég ætlaði að læra líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir lífsháska og veikindi þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu. Í stað þess að læra um vatnið veraldar fór ég í guðfræðinám og lærði um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, dáðst að því, fundið til þess og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrmæti. Vatnið hefur aldrei farið úr huga mér en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannski hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt fjölda barna. Ég hef útdeilt víni í altarisgöngum og í sakramentunum er mikið vatn. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyft vatni að heilla mig og næra. Kominn af vatni og mun verða að vatni – og síðan upp af vatni rísa. Það er líka merking þess að vera kominn af jörðu.

Vatnið í okkur

Og þá að þér og vatnsbúskap þínum. Hvað var í kringum þig, var þitt nærsamhengi, þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú svamlaðir og fórst kollhnísa í legvökva. Hátíðnihljóðin, sem bárust eyrum þínum alla daga, voru frá hinu hraða rennsli blóðsins, vökvans, í æðum móður þinnar og í takti við slátt hjartans sem dældi. Svo þegar legvatnið fór var ekki lengur hægt að lifa inn í mömmunni – þá fæddist þú. Þegar þú varst kominn í heiminn varstu þrifin(n) í vatni. Síðan varstu baðaður eða lauguð í vatni. Móðurmjólkin var að mestu vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Svo héldu elskuarmar á mörgum okkar við skírnarlaug. Glitrandi vatnið í fontinum eða skálinni var borið að kollinum þínum og orðin um föður, son og heilagan anda voru nefnd með nafninu þínu.

Síðan hefur vatnssagan haldið áfram. Þú hefur verið í vatni og notið vatns. Í þér er mikið vatn. Og það vatn er ekki nýtt heldur gamalt. Það hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Það hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Þegar barn fæðist er nýr einstklingur orðinn til en vatnið í nýburanum er gamall arfur milljóna ára. Vatnið í þér og hinu nýja lífi hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Þingvallavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Meðan þú lifir finnur þú fyrir vatnsbúskap líkama þíns. Við megum gjarnan greina samhengið. Eldgamalt vatn og fyrir alla framtíð. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar ef vatnið hverfur eða fúlnar. Okkar er að helga það og vernda.

Vatnið – eðli, hlutverk og flæði.

Þegar við fæðumst erum við að þremur fjórðu hlutum vatn – og við erum blaut það sem eftir lifir æfinnar.[i] Ef við ofþornum deyjum við og hið sama gildir um flestar lífverur. Líf allra manna á öllum tímum og alls staðar er háð vatni. Ekkert annað kemur í stað vatnsins. Vatnið umlykur Jörðina, er í gufuhvolfinu, andrúmsloftinu. Það er regnið, sem bylur á okkur þegar rignir og snjórinn sem hvíttar tilveru okkar í frostatíð. Vatn flæðir í lækjum, ám, vötnum og neðanjarðar. Það er í hafinu, í jöklum á landi og ísþekjum á hafi og í og á vötnum. Það gufar upp og dansar upp í andrúmsloftið, myndar ský og þar með hina stórkostlegu hringrás lífsvökvans. Vatnið er ekki bara klæði Jarðarinnar, heldur blóðið, fjallamjólkin (sbr. Kjarval), í æðakerfi heimsins sem nærir líf hinnar bláu plánetu.[ii]

Samtals er vatn Jarðarinnar nærri 1,4 milljarðar km3, í sjó, neðanjarðar, í öllu rennandi vatni heimsins, ís og jöklum og andrúmslofti. Vatnskerfi Jarðarinnar minnkar hvorki né stækkar því andrúmsloftið hindrar að vatn flæði út í geiminn. Um 97% vatns á jarðarkúlunni er salt, einkum í sjónum. Ferskvatn er aðeins tæplega 3% af vatni, um 35 milljón km3.[iii] Megnið af ferskvatni er annað hvort neðanjarðar eða frosið. Innan við 1% vatns jarðarinnar myndar hringrás vatns, um 11 milljón km3 eða nærri 0,77% vatns. Það er því fyrst og fremst rigning og snjókoma, sem endurnýja og hreinsa vatnsbirgðir jarðarkúlunnar og til nota fyrir líf á landi. Það er lítið, aðeins 34 þúsund rúmkílómetrar sem nýtast landlífi sem endurnýjanlegar birgðir vatns.

Grunnvatn

Megnið af ferskvatnsbirgðum heimsins er grunnvatn, sem er um sextíu sinnum meira en yfirborðsvatn.[iv]Grunnvatn rennur um jarðveg og gljúpt berg og myndar gjarnan risastór stöðuvötn sem yfirborðsvatn rennur í og fyllir upp ef grunnvatn rennur einhvers staðar úr. Þessi stóru vatnsgímöld eru kölluð grunnvatnshlot. Sum þeirra eru lokuð af neðanjarðar og njóta engrar eða lítillar aðveitu að ofan. Grunnvatn er oftast ósýnilegt en yfirborðsvatn sést. Ef grunnvatn flæðir er það á hægri hreyfingu. Miðað við hreyfingu grunnvatns flæðir yfirborðsvatnið hratt. Um helmingur ofankomu, þ.e. rigning og snjór, fer í læki, ár og fljót, en hinn helmingur ofankomunnar gufar upp. Þegar grunnvatnsgeymar fyllast flæðir vatn út í lindum. Það köllum við uppsprettur. Þegar dælt er úr grunnvatni er hætta á að dælt sé meira en sem nemur áfyllingu ofankomu. Hættan er að vatnstakan breyti því jafnvægi sem náttúran á viðkomandi svæði hefur skapað. Þegar svo verður er hætta á að lífríkið skaddist. Plöntur og lífverur sem aðlagast hafa eða þarfnast flóða geta orðið fyrir skaða af flóðaleysinu. Fæðubúskapur lífkeðjunnar getur skaddast og jafnvel veiklast varanlega. Um fjórðungur mannkyns er háður grunnvatni til drykkjar og heimilishalds.[v] Og víða er gróflega dælt úr grunnvatni og því gengið á vatnsbirgðir heimsins. Það er ekki einkamál heldur varðar alla og framtíð líka.

Vernd vatns

Vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Tveir milljarður manna hafa ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Íslendingar búa yfirleitt ekki við vatnsskort en hins vegar getur komið fyrir, vegna sérstakra aðstæðna eða áfalla, að vatn spillist eins og á Ísafirði árið 2017 og í Gvendarbrunnum 2017 og 2018. En vansskortur er verulegur og ógnvænlegur víða um heim. Þegar hver einstaklingur fær til nota minna en eitt þúsund rúmmetra á ári er um vatnsskort að ræða.[vi] Vatns-streita ríkir á þeim svæðum þar sem vatnsnotkun er umfram 25% hinna endurnýjanlegu vatnsbirgða.[vii] Veigamikil ástæða vatnskreppu er mannfjölgun en líka misnoktun vatns. Á hverju ári fjölgar mannkyni um nærri 80 milljónir. Vatnsnotkun í heiminum jókst mikið alla tuttugustu öldina, tvöfalt á við fjölgun fólks. Ástæðan var stóraukin iðnaður, orkuöflun og óhófleg vatnsnotkun og jafnvel sóun í hinum ríku hlutum jarðarkringlunnar. Á næstu áratugum má búast við, að mannfjölgun verði mest í suð-austur Asíu og Afríku sunnan Sahara. Mannfjöldinn leitar inn í borgirnar og þær munu jafnvel tvöfaldast að mannfjölda á einum áratug frá því í ár, 2020, og til 2030.[viii] Þessi mikla mannföldaaukning mun ganga á vatnsbirgðir heimsins og ef heldur svo fram sem horfir verður gengið freklega á grunnvatnsbirgðir, sem ekki ná að endurnýjast. Ef vatn þverr mun fólk deyja eða halda út í óvissuna og gríðarlegir mannflutningar verða þá inn á vatnsríkari svæði veraldar, t.d. Evrópu og Ameríku. Um 2 milljarðar fólks býr þegar við vatnsskort eða um fjórðungur mannkyns. Í norðurhluta Afríku og vesturhluta Asíu býr um 60% íbúa við vatnsskort. Búast má við miklum áföllum og fjöldadauða á þessum svæðum þegar að sverfur.[ix] Með loftslagsbreytingum hefur ástand vatnsmála heimsins versnað. Sjúkdómar hafa breiðst út og barnadauði hefur aukist. Fráveitumál eru víða í ólestri og menga vatnsból, ár og læki um víða veröld.

Aðgerðir og 6. heimsmarkmiðið

Gríðarleg streita verður þar sem vatnsskortur ríkir. Frekar en að deyja berst fólk fyrir aðgangi að vatni. Á tuttugustu öld ríkti vatnsspenna í Miðausturlöndum nær og skýra má stríð á átök aldarinnar í því samhengi. Í norður-austur-hluta Afríku ríkir t.d. spenna vegna aðgengis að vatni. Eþíópía gæti orðið fyrir hernaði grannþjóða vegna vatnsnotkunar og vatnstöku úr ánni Níl til raforkuframleiðslu. Í Suður-Ameríku eru víða átök um vatn og m.a.s. í Bandaríkjunum er yfirvofandi vatnsskortur. Æ fleiri hafa gert sér grein fyrir að við erum ekki tuttugasta og fyrsta öldin heldur tuttugasta og þyrsta öldin. Við erum hinum megin við vatnaskil menningar og vatnsnotkunar. Nú verðum við að sameinast fremur en berjast um vatn. Fjórðungur mannkyns býr við vatnsskort eða vatnsstreitu og ófullnægjandi salernisaðstæður. Fjöldi þess fólks sem býr við slíka kreppu fer vaxandi. Aðstæður fólks eru ekki aðeins óviðunandi heldur vex sá fjöldi sem deyr vegna vandans og hætta á að heimurinn fari á hliðina þegar vaxandi flaumur fólks streymir frá þessum dauðakreppum til blautari og lífvænlegri aðstæðna. Flóttamenn í Grikklandi verða barnaleikur hjá því sem orðið getur. Covid-19 eins og barnaþula miðað við þær hremmingar sem raunsæir óttast.

Því settu Sameinuðu þjóðirnar meðferð vatns inn sem aðalatriði í markmiðum Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Ábyrg meðferð vatns er sjötta markmiðið af sautján. Og á þessar tuttugustu og þyrstu öld erum við orðin samtengd í bjarga vatni heimsins frá gróðahyggju, sóðafólki heimsins og skammsýni. Vatnið vex ekki eða minnkar. Við verðum að tryggja að börnin sem fæðast verði ekki mettuð mengun og skeytingarleysi okkar kynslóða. Ábyrgðin er okkar allra, okkar sem hér erum. Okkur og samfélögum okkar ber okkur að fara vel með, gæta að vatnið spillist ekki mengandi efnum og saurgerlar berist ekki í vatn. Kristnir söfnuðir þessarar þjóðar geta ekki aðeins lagt mikið til náttúruverndar heldur er trú beinlínis lífblessandi. Þjóðkirkjan ætti að beita sér fyrir að allar systurkirkjur sameinist um að vernda vatn veraldar. Það geta kirkjurnar gert með því að þrýsta á  og beita stjórnvöld heimsins verndi vatn og stuðli að góðum frárennslisaðgerðum. Við ríkari hluti heimsins eigum að beita okkur fyrir að vatnsstressaðar þjóðir fái hjálp við vatnsmál. Við getum líka keypt gjafabréf Hjálparstarfs kirkjunnar. Það kostar ekki nema 180 þúsund krónur að gera brunn í Afríku og aðeins 55 þúsund að gera stóran vatnsgeymi. Sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna er ekki markmið fyrir aðra heldur okkur. Vatn tengir okkur öll.

Hallgrímskirkja 15. september. 12,05 – 12,45.

Spheres showing:
(1) All water (largest sphere over western U.S., 860 miles (1,385 kilometers) in diameter)
(2) Fresh liquid water in the ground, lakes, swamps, and rivers (mid-sized sphere over Kentucky, 169.5 miles (272.8 kilometers) in diameter), and 
(3) Fresh-water lakes and rivers (smallest sphere over Georgia, 34.9 miles i(56.2 kilometers) n diameter).

(©); and Adam Nieman.

[i] https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58906#

[ii] Um vatnið t.d. magn: https://www.usgs.gov/special-topic/water-science-school/science/how-much-water-there-earth?qt-science_center_objects=0#qt-science_center_objects

[iii] Ef vatn Jarðarinnar væri rétthyrndur ferningur myndi hver hlið vera um 1120 km á lengd.

[iv] Barlow og Clarke 2002.

[v] Barlow og Clarke 2002: 12.

[vi] Shiva 2002.

[vii] Palanappian and Gleick 2009, og heimasíða Sameinuðu þjóðanna.

[viii] UNESCO Water Newsletter NO249 2011.

[ix] https://sustainabledevelopment.un.org/sdg6

Jón Vídalín +300

Vídalínspostilla er höfuðrit íslenskrar kristni síðari alda við hlið Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Passíusálmarnir eru enn lesnir og reglulega endurútgefnir. Vídalínspostilla var mikið lesin í nær tvær aldir. En postillan hefur í seinni tíð ekki notið sömu vinsælda og áður. Er Vídalínspostilla aðeins vitnisburður um liðinn tíma eða hefur hún enn eitthvað gildi? Þó viðmið fólks hafi breyst og málfar okkar sé annað er bókin klassík.

Þrjú hundruð ár eru liðin frá dauða Jóns Vídalíns sem samdi postilluna. Hann lést 30. ágúst árið 1720. Æfi Jóns Vídalíns var litrík. Þegar hann lauk námi frá Skálholtsskóla var um hann sagt að hann væri borinn til stórvirkja. Jón var stefnufastur maður mikilla hæfileika og varð einn mesti ræðusnillingur Íslendinga. Hann fæddist á Görðum á Álftanesi, naut góðrar bernsku en missti föður sinn aðeins ellefu ára. Þá tóku við þeytings- og mótunarár. Hann var sendur víða, austur á Fáskrúðsfjörð, undir Eyjafjöll, að Þingvöllum, vestur í Selárdal og út í Vestannaeyjar. Jón mannaðist og menntaðist og fór til náms í Kaupmannahöfn. Eftir að hafa flækst í hermennsku kom hann út til Íslands til prestsþjónustu og varð einn yngsti biskup Íslendinga. Postilluna gaf hann út og af miklum metnaði á árunum 1718-20. Ræðustef postillunnar tengjast reynslu höfundarins. Sjúkdómar herjuðu á landsmennn og stjórnvöld brugðust í mörgu. Jón sá á eftir báðum börnum sínum í dauðann. Vídalínspostilla speglar lífsreynslu hans, háska fólks og þjóðaraðstæður en líka þroskaðan mann sem hafði unnið heimavinnuna sína.

Og hvert er svo gildi Vídalínspostillu? Málfar hennar er safaríkt og inntakið lífshvetjandi. Jón Vídalín hafði gaman af stóryrðum og yddaði til að ná eyrum fólks. Orðfæri postillunnar hafði áhrif á málnotkun tilheyrenda og lifði meðal þjóðarinnar. Ræðurnar eru kraftmiklar, snjallar, vekjandi og skemmtilegar aflestar. Postillan gefur góða innsýn í hvernig klassísk fræði, guðfræði og heimspeki voru nýtt til fræðslu og mannræktar. Hún var því fræðandi og menntandi.

Jón Vídalín talaði ákveðið inn í aðstæður samtíðar sinnar. Hann lifði á upphafstíð einfaldskonungs og notaði konungshugmyndir til að túlka eðli og eigindir Guðs, heims og manna. Í postillunni er skýr siðfræði og hvernig siðferði menn eigi að temja sér. Jón Vídalín dró ekki af sér þegar hann benti á ábyrgð fólks gagnvart öðrum og samfélagi manna. Í postillunni er djúp samfélagsspeki, gagnrýni á vond stjórnvöld og Jesústefna um vernd hinna máttlitlu. Í prédikunum er talað með visku um lífshugmyndir manna. Jón Vídalín skipaði ekki fólki fyrir um trú þess eða afstöðu en hvatti til skynsamlegrar og einlægrar skoðunar fólks á stóru og smáu málunum. Postillan var hvetjandi og eflandi fremur en letjandi eða slævandi. Mannlýsingar Jóns Vídalíns eru litríkar og áhugaverðar. Jón Vídalín lýsti mönnum sjálfselskunnar með sjokkerandi nákvæmni. Hann hafði mikil áhrif á hvernig fólk hugsaði um sjálft sig og varnaði markalausri einstaklingshyggju.  

Gildi Vídalínspostillu? Klassísk verk hafa að geyma plús eða merkingarbónus sem er óháður tíma. Vídalínspostilla varpar upp möguleikum á góðu mannlífi og heilbrigðum sjálfsskilningi sem kallar einstaklinga og samfélag til ábyrgðar. Jón Vídalín lagði siðfræðilegan grunn að samúðarþjóðfélagi okkar Íslendinga. Lof sé honum og lesum postilluna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 29. ágúst 2020, bls. 29.

Nánar um Jón Vídalíns og guðfræði Vídalínspostillu sjá: 

Majesty of God and the Limitation of the World – Vídalínspostilla

Perlufesti heimsins

Jöklarannsóknarmenn komu í Svarfaðardal bernsku minnar á hverju sumri. Þeir leigðu ekki farartæki sín innanlands heldur komu með bílana sjóleiðina. Grænbrúnir Landroverar voru öðru vísi en bændabílarnir og vöktu athygli heimamanna. Bílalestin fór hægt fyrstu ferðina fram Austurkjálkann. Sigurður Kristjánsson, nafni minn og frændi, upplýsti smásveininn að þetta væru breskir jöklarannsóknarmenn sem skoðuðu jöklana á svæðinu og sérstaklega Gljúfurárjökul. „Þessa perlu þarna“ sagði hann og benti á eitt af djásnum Skíðadals. Hópurinn þurfti vistir og varning því oft fóru Bretabílarnir hjá. Við sem vorum við veginn veifuðum og fengum vink til baka. Í hópnum voru nokkrir skeggjaðir karlar, væntanlega lærifeðurnir. En nemendahópurinn var af báðum kynjum og viskan settist að í huga mér að jarðvísindi væru mál beggja kynja.

Oft hugsaði ég á þessum árum hverjar væru niðurstöður mælinganna í Gljúfurárdal. En skýrslurnar bárust ekki í eldhúsin í dalnum. Þegar ég spurði hvort einhverjir hefðu séð eða heyrt um útkomu jöklamælinga svaraði Frændi nei. Hann bætti reyndar við að rannsókn hvilftar-fanna og jöklanna væri mikilvæg fyrir langtímasamanburð. Margt væri hægt að lesa úr tölunum þróun og heilsufar jöklanna, þ.e. ákomu, hitastig og bráðnun. En hvorki frænda né mér datt í hug að mælingar í hálfa öld sýndu byltingarkenndar breytingar í jöklabúskap heimsins eða að mælingar við Gljúfurárjökul gætu orðið öllu mannkyni til gagns varðandi þekkingu á vatni og veðurfarsbreytingum.

Nú eru jöklafræðingar og jarðvísindamenn heimsins búnir að tengja og reikna saman mælingar og rannsóknir á fönnum, jöklum og íshellum veraldar. Háskólar í Leeds, Edinborg og London hafa borið saman rannsóknarmælingar frá öllum heimshornum. Heildarniðurstöðurnar eru sláandi. Á aðeins þrjátíu árum hafa 28 billjónir tonna af jökulís bráðnað. Sá freri hefði nægt til að þekja megnið af Bretlandseyjum með hundrað metra þykkum ís. Með áframhaldi bráðnun og á svipuðum hraða mun sjávaryfirborð hækka um allt að einum metra fyrir aldarlok. Vegna búsetu fólks við sjó um allan heim hefur lítil breyting á sjávarstöðu mikil áhrif. Við hvern sentimeter sem sjór hækkar má búast við að ein milljón manns missi heimili sín. Ígildi þriggja íslenskra þjóða heimilislaus og á flótta – og það á hverju ári. Bráðnun íshellu og fanna minnkar endurkast sólargeislunar og því vex hiti sjávar og þurrlendis. Hækkandi sjávarhiti eykur rúmál hafsins. Breytingar verða á lífríki sjávar, líka nærri pólum. Vatnsbúskapur nærri fönnum og jöklum breytist og vatnsöryggi minnkar þar með. En það er ekki aðeins strandfólkið sem missir heimili sín. Hitabreytingar reka hundruð milljóna manna sem búa á þurrum landsvæðum á flótta undan vatnsstreitunni. Samfélagsbreytingarnar verða miklar og mörgum skelfilegar.

OK er farið og Gljúfurárjökull hefur minnkað mikið. Jöklar um allan heim eru að hverfa. Perlur heimsins bráðna. Hálfri öld eftir mælingarnar nyrðra veit ég nú um niðurstöður varðandi heimsþróunina. Ég veit að breytingar eru ekki lengur skýrslumál í fagtímaritum eða til skemmtunar í eldhúsum í snjóakistu á Tröllaskaga. Bráðnun jökla heimsins er mál allra, alls fólks, á öllum aldri og alls staðar. Þekking í fræðunum þarf að renna inn í vitund og ákvarðanir okkar allra. Bændur, jarðvísindamenn, við öll berum sameiginlega ábyrgð á lífríki heimsins. „Við eigum að skila betur af okkur en við tókum við“ sagði Sigurður frændi. Það varðar líka perlurnar í hlákunni. 

23. ágúst 2020.

Heildir á netinu eru ríkulegar, t.d.:

https://www.theguardian.com/environment/2020/aug/23/earth-lost-28-trillion-tonnes-ice-30-years-global-warming

https://www.climate.gov/news-features/understanding-climate/climate-change-global-sea-level

Myndina tók ég fyrir nokkrum árum og var þá á leið upp á Reykjaheiði, sem er skemmtileg gönguleið milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals. Gljúfárjökull er lengst til vinstri á myndinni. Fyrir miðjum jöklinum er klettahnjúkurinn Blekkill sem er um 1240 m hár. 

Guðlaug

Engin þjóðhátíð, engir sæludagar eða berjadagar þessa helgi. Fával við forsetainnsetningu. Engin altarisganga í messu og engar útihátíðir. Þetta er einkennileg verslunarmannahelgi. Margir hafa líka tjáð sterk vonbrigði með nýjar reglur vegna sóttvarna og tilfinningarnar flæða á samfélagsmiðlunum. Sumt af því sem er látið vaða er talsvert fjarri góðri dómgreind. En það er mikilvægt að staldra við og skoða aðstæður. Við, kristnir menn, megum gjarnan vitja grunngildanna og minna okkur á, að það er meðal hlutverka kristins fólks að standa með lífinu og vernda þau sem þarfnast skjóls. Og við megum sækja í hlið himins og koma til guðsþjónustu. Guð er samur og möguleikarnir á guðsræktinni eru ekki síðri þó samskipti lúti stífari reglum. En samfélagstengslin og reglurnar eru í þágu lífsins.

Þegar hægir á að nýju hefur hugurinn leitað til baka, til vormánaðanna og sumarsins. Og sumt af því, sem við höfum reynt og séð, hefur setið eftir og orðið til íhugunar. Margir landar okkar hafa notað sumarið til ferða um landið. Ég hef fylgst með sumum ykkar og séð myndirnar, sem vinir mínir hafa smellt á facebook. Mínar Íslandsferðir hafa verið gefandi. Ég fór með fjölskyldu og vinum um Suðurland. Ég gekk á nýjar slóðir í Skaftafelli og þaut um áhrifaríkt Fjallsárlón sunnan Vatnajökuls og dáðist að dekurhóteli á Hnappavöllum. Svo fórum við um Snæfellsnes. Þetta voru góðar ferðir og líka ferðirnar, sem við fórum upp á Akranes. Þangað er ég búinn að fara tvisvar og alla leið út að vitunum. Þar eru Skagamenn að skapa dásamlega aðstöðu og ástæða til að hvetja fólk til að fara á Breiðina. En merkilegast fannst mér að fara að Langasandi og í Guðlaugu.

Laugin við Langasand

Hvað er það? Hver er Guðlaug? Það er ný laug, sem búið er að gera í brimgarðinum við Langasand. Glæsilegt mannvirki á þremur pöllum. Fólk kemur um langan veg til að baða sig í þessari dásemdarlaug með himinnafninu.

Guðlaug þessi á sér merkilega sögu, sem hófst í konu sem bjó á Bræðraparti yst á Akranesinunu. Í mörg ár, raunar áratugi, hefur blasað við, að bæta þyrfti aðstöðu og þjónustu við fólk við Langasand. Þessi gullströnd Skagans hefur verið íbúum aðdráttarafl, leiksvæði og útivistarsvæði. Á síðari árum hefur sjósundsfólkið farið þar í sjóinn. Marga hefur því dreymt um, að heitir pottar yrðu settir niður við Langasand. Umræður bárust jafnvel inn í stjórn styrktarsjóðs, sem kona mín stýrði – og til minningar um ömmu hennar og afa. Sjóðsstjórnin ákvað að leggja fé til framkvæmda. Þáverandi bæjarstjóri studdi áætlanir sem og meirihluti bæjarstjórnar Akraness. Frábærir arkitektar voru fengnir til starfa, sem skiluðu frumlegum tillögum að hófstilltri en glæsilegri byggingu. Ferðamálasjóður og Akranesbær lögðu líka til fé til laugarinnar við Langasand.

Bræðrapartshjónin

Styrktarsjóðurinn, sem samþykkti laugarpeningana, var kenndur við hjón sem bjuggu á Bræðraparti nærri vitunum. Þau hétu Guðlaug Gunnlaugsdóttur og Jón Gunnlaugsson. Að þeim látnum var jörð þeirra og eigur gefnar til mikilvægra uppbyggingarmála á Akranesi. Framlag til laugargerðarinnar var það síðasta, sem sjóðsstjórnin greiddi, áður en þessum mikla milljónasjóði var lokað. Minning vitavarðarins og formannsins Jóns Gunnlaugssonar hefur verið vel varðveitt og nýr björgunarbátur slysvarnardeildarinnar ber t.d. nafn hans. En þar sem byggja átti laug fyrir minningarfé úr sjóði um þau hjón lagði ég til að laugin fengi nafn Guðlaugar. Svo varð og allir sem fara í Guðlaugu njóta hennar og þeirra hjóna er minnst.

Guðlaug var tekin í notkun í desmeber 2018 og hefur síðan glatt marga, ekki bara kroppa baðgesta heldur hrífur líka fyrir fegurð og góðan arkitektúr. Guðlaugin byggir á sögu en líka formum, litum, hreyfingu sjávar, grjóts og sands strandarinnar nærri.

Þegar ég kom að Guðlaugu í sumar voru margir á ferð og fjöldi í lauginni. Guðlaug hefur komið Akranesi á kort ferðamennskunnar og orðið sem nýtt og opið hlið að sögu Akraness en líka Skaga nútímans. Fólk nýtur blessunar, líkamlega, félagslega, listrænt og þar með andlega. Þessi laug hefur táknvíddir, sem spanna ekki aðeins steinsteypu og hreinsun, heldur svo margt fleira.

Hið sanna

Þetta er inngangur að texta dagsins og útleggingu. Áhersla guðspjallsins er á sannleika og heilt og gott líf. Silli og Valdi gerðu eitt af versum dagsins úr Fjallræðunni að slagorði. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og það hefur nú löngum verið kennimark góðrar matvöruverslunar að ávextir séu góðir og grænmetið gott. Svo er líka minnt á, að líferni og gerðir mannanna séu birtingarmynd um hið rétta, góða og gefandi. Á þessum álagstíma COVID-19 blasir við í pólitík heimsins að sannleikurinn er ekki við stjórnvöl alls staðar. Sjálfhverfir lukkuriddarar vekja á sér athygli til að ná sem lengst. Sagt hefur verið að narcisistar leiti inn í stofnanir og kerfi þar sem völd eru og peningar. Í Noregi er reiknað með að narcisistar séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar og 4% þeirra sem eru í valdastöðum. Og sjálfhverfungar reyna alltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð. Þeir hika ekki við, að sveigja sannleikann til að kýla andstæðinga sína niður, koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra. Falsfréttir eru tæki sannleiksglæpamanna. Í heimsfréttum þennan morguninn er sagt frá falsfréttaveitum sem valdamenn í Brasilíu halda úti. Hæstiréttur landsins varð að beita sér því þetta eru hópar sem vilja valdarán og skert tjáningarfrelsi. En slíkir hópar eru um allan heim, hópar sem halda úti lygafréttum til að seilast eftir völdum og halda þeim.

Hér á Íslandi er þessa mánuðina sérstakt verkefni íslensku fjölmiðlanefndarinnar, að vekja athygli fólks á því að við þurfum að vera á varðbergi, trúa ekki athugunarlaust því sem sagt er á vefmiðlum eða miðlað á netinu, ekki heldur í stóru fjölmiðlunum, því sannleiksspellvirkjarnir reyna alltaf að búa til nýja veruleika – til hliðar við sannleika og gildi – og skapa sér stöðu í stríðinu um áhrif. Þeir eru ekki aðeins úlfar í sauðargæru heldur fótósjoppaðar grímur. Oscar Wilde skrifaði læsilega bók um slíka í ritinu Myndin af Dorian Grey. Fallegir að utan en hroðalegir að innan. Stoppa, hugsa, athuga. Það er nafnið á átaki Fjölmiðlanefndar sem er ætlað að efla almenning til þess að greina falsfréttir frá öðrum.

Guðlaug á Akranesi varð í sumar fyrir mér tákn um andstæðu vitleysu, blekkingar og sannleiksflótta samtíðar. Konan Guðlaug Gunnlaugsdóttir á Bræðraparti var hæfileikakona, mikilvirk í störfum sínum, öflug móðir, sem hvíslaði ekki aðeins ástarorð í eyru barna og bónda, heldur beitti sér fyrir menntun síns fólks og ábyrgð í vinnu og lífi. Hún ól upp barnahópinn sinn vel. Þau urðu til mikils hags og gagns í menntunarmálum og útgerð og lögðu margt til mannlífs á Skaganum og víðar. Guðlaug var engin blekkingarkona, heldur beitti sér gegn vitleysum, lagði gildi í líf ástvina sinna og samfélags. Hún kunni að tala við mannfólk en líka við Guð. Guðlaug var sjálf lauguð guðsástinni og lifði í ljósi trúar sinnar og himintengsla.

Persónan Guðlaug er því til fyrirmyndar. En svo er mannvirkið sem nýtur nafns hennar og gjafa hennar svo vel hannað að það er þrenna og minnir á þrenninguna efra. Vatnið í lauginni tengir við vatnið í skírnarfontum kirknanna. Baðferð í Guðlaugu verður flestum inntaksrík því laugin er svo marglaga listaverk og táknverk. Einföld hressingarstund kallar til dýpta og þess sem er æðra. Svo er ljómandi að baðferðin kostar ekkert, hún er gratís eins og allt það besta í lífinu. Eins og fagnaðarerindið

Samfélag okkar er á ferð. Gildi trosna, siðurinn er sprunginn í lífi margra. Við það rofnar siðferði og lífsstefna margra einstaklinga. Þegar gildin fletjast út heldur merkingar- og menningarvefur samfélagsins ekki. Lukkuriddarar hlaupa af stað og reyna að sannfæra okkur um hliðræna veruleika, nýtt gildismat, ný tilbeiðslugoð í pólitík, lífi og menningu. En hvað svo sem okkur finnst um kirkju eða átrúnað er málefni kristninnar hið slitsterka og mikilvæga í samfélagi okkar. Kristinn siður er til verndar lífi, fólki og sköpunarverki. Við þurfum ekki lukkuriddara sem eru sérfræðingar í spuna hliðrænna veralda heldur gildi og ábyrgð gagnvart lífi, samfélagi, náttúru sem Guð gerði svo góða.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Hverjir eru þínir ávextir? Hver eru þín hlutverk? Hvað viltu? Og hvað skiptir mestu máli og er kjarni siðarins? Guðlaug minnti mig á grunngildin. Okkar verkefni er að skola vitleysunni burt og verða samfélagi til heilla í lífinu. Stoppa, hugsa, athuga. Guðlaug skolar af okkur og setur okkur í samband. Kristinn siður setur okkur í samhengi lífsins. Ekkert fals, heldur sannleikur í þágu lífsins, sem Guð kallar okkur til.

Í lífsins tæru lindum 

þú laugar mig af syndum 

og nærir sál og sinni

með sælli návist þinni.

(SE sálmur 701 í sálmabók þjóðkirkjunnar)

Amen

2020 Íhugun í Hallgrímskirkju 2. ágúst, 2020.  8 sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Verslunarmannahelgi. Sóttvarreglur voru mjög hertar föstudaginn 31. júlí. 

Um laugina, gerð Guðlaugar og verðlaun eru ýmsar heimilidir á vefnum og hvernig hún hefur opnað Akranes fyrir mörgum. 

https://www.akranes.is/is/frettir/gudlaug-a-langasandi-formlega-opnud-almenningi

Guðlaug fékk umhverfisverðlaun Ferðamálastofu í desember 2019. Sjá grein í Skessuhorni:

https://skessuhorn.is/2019/12/18/gudlaug-saemd-umhverfisverdlaunum-ferdamalastofu/

Minningargrein Péturs Ottesen um Guðlaugu Gunnlaugsdóttur: https://timarit.is/page/1334124#page/n16/mode/2up

Á annað hundrað milljónum veitt til samfélagsmála á Akranesi. Um framlög úr minningarsjóði Guðlaugar og Jóns: http://skessuhorn.rat.nepal.is/frettir/nr/184945/

Björn Ingi Hrafnsson skrifaði um hvernig Guðlaug hefur komið Skaganum á kortið að nýju í grein í Viljanum: https://viljinn.is/dagbok-ritstjora/af-hverju-er-akranes-komid-aftur-i-alfaraleid/

Best geymda leyndarmál Akraness:

https://www.mbl.is/ferdalog/utivist/2020/02/10/best_geymda_leyndarmal_akraness/

Um árvekniátak Fjölmiðlanefndar er hægt að fræðast á slóðinni: https://fjolmidlanefnd.is/stoppa-hugsa-athuga/

Myndirnar af laugarfólki í frumbaðinu í Guðlaugu tók ég á opnunardegi sem og myndina af undirbúningshópnum. Kennimyndin, þ.e. stóra myndin sem og drónamyndin eru af facebookvef Guðlaugar. Kristjana Jónsdóttir fann til mynd af Guðlaugu. Myndina af Bræðrapartshjónunum fékk ég af þeirri stórmerku síðu haraldarhus.is Takk Haraldur Sturlaugsson.