Hvað merkir friður? Hvað þýða gömul orð eins og fyrirgefning, réttlæting, iðrun og náð? Þau eru stór og fangvíð. En skiljast þau og tengjast þau lífi þínu og lífi fólks almennt? Hafa þau tapað merkingu af því trúfræðin er roskin og úr takti? Hvað þýðir sáttargerð? Er það orð úr upphafinni himnesku sem ekki tengist tilfinningum fólks, reynslu og þrá? Sáttargerð hefur verið orðuð og iðkuð í kristninni í tvö þúsund ár, miðlað því sem Guð gerir og maðurinn einnig.
Í gærmorgun vaknaði ég snemma. Þrátt fyrir stórviðrin opnaði ég tölvuna í kyrru sofandi heimilis og fór að horfa á og hlusta á TED-fyrirlestur Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Tom Stranger sem barst um netheima heimsins í fyrradag og vakti gríðarlega athygli. Þau kynntust árið 1996 þegar Tom var skiptinemi á Íslandi. Hann var átján og hún sextán. Eftir skólaball nauðgaði Tom Þórdísi Elvu. Þau gerðu ekki atburðinn upp á þeim tíma. Hann hélt sína leið til Ástralíu og hún var eftir með sársauka og óuppgerða reynslu. En hún vann með sinn innri mann og eftir mörg ár ákvað Þórdís Elva að senda nauðgaranum bréf. Hún vissi ekki hverju hún ætti von á og vissi ekki hvort hann gæti iðrast. En hann svaraði bréfi hennar og viðurkenndi afbrot sitt. Þau ákváðu að hittast í Höfðaborg í Suður Afríku – miðja vegu milli Íslands og Átsralíu. Í heila viku töluðu þau saman – um sársauka, líðan, hlutverk og unnu úr.
Í Ted-fyrirlestrinum segja þau bæði frá glæpnum, úrvinnslunni og samhenginu. Hún skilaði skömminni, hann gekkst við brotinu og þau tengja við hvað við getum gert til að bregðast við ofbeldi. Þetta er átakanlegur en hrífandi fyrirlestur um hrylling sem ekki á að líða heldur vinna gegn og vinna úr.
Hefði Þórdís Elva bara átt að tala við góða sálfræðing, ná sér í vodkaflösku og detta ærlega í það – eins og hún spurði í fyrirlestrinum? Hefði málið kannski klárast þannig? Nei. Hefði hún verið bættari að hefna sín á honum? Gæti og vildi hún fyrirgefa honum ef hann játaði brotið? Hún sendi bréf, hann gekk í sjálfan sig. Þau skrifðust á í átta ár, greindu flækju glæps, tilfinninga og ferils. Og saman opnuðu þau þessa sögu á TED í fyrradag – 7. febrúar 2017. Þau sögðu blóðríka sögu sem lyktaði með fyrirgefningu og sáttargerð. Og gáfu út bók um glæp og úrvinnslu – Handan fyrirgefningar. Þetta er einstakt mál, einlægnin mikil og hugrekkið stórkostlegt.
Um hvað eru stóru orðin í Biblíunni? Þau eru alltaf um raunverulegt líf. Allir menn verða fyrir einhverjum áföllum. Fólk gerir illt og á fólki er brotið. En hvernig á og er best að vinna úr? Hvernig getum við – eða eigum við – að bregðast við orðum og gerðum fólks sem níðist á okkur? Að vera manneskja varðar að læra að gangast við gerðum sínum. Að vera manneskja varðar að vinna úr áföllum og hrottaskap. Þegar best lætur nær fólk að feta sig upp stiga þroskans og miðla viskunni. Þórdís Elva og Tom náðu að tala saman um hið liðna og opna dýptir sálar og segja okkur hinum. Þau urðu náðarrík í samskiptum við hvort annað af því þau gengust við reynslu sinni og vildu opinbera hið illa. Þau náðu sáttargerð og eru í sólarlandinu handan fyrirgefningar.
Þegar brot hefur verið framið þarf að hreinsa sár, gera upp og gera gott að nýju. Það eru þættir í ofursögu kristninnar. Guð tók af skarið, hafði samband, lét sig varða uppgjörið, elskaði, var tilbúinn að ræða málið í þaula, við alla og gera upp. Tilreiknaði ekki syndir heitir það á máli Biblíunnar. Hitti gerandann og gaf honum nýjan möguleika. Og persóna sáttargerðar í kristninni er Jesús Kristur sem alltaf bendir að baki hefnd og harðneskju til betri niðurstöðu sem elskan stýrir.
Tom og Þórdís Elva hafa sýnt okkur heillandi þráð í kærleiksfesti heims og himins. Saga um glæp varð saga um líf. Þolandi og gerandi leystu hrylling úr fjötrum þöggunar og ofbeldis. Langur föstudagur upplýstist á páskadegi sáttargerðar. Lífið er sterkari en dauðinn. Sáttargerð og fyrirgefning eru ekki úrelt, frekar en hin stóru orðin. Og Guð ekki heldur.
Íhugun í kyrrðarstund Hallgrímskirkju 9. febrúar 2017.
Meðfylgjandi mynd er verk Kristínar Gunnlaugsdóttur og í eigu Hallgrímskirkju.