Greinasafn fyrir merki: Satan

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Mannaborg – Guðsborg

Mannaborg - Guðsborg
Mannaborg – Guðsborg – mynd SÁÞ

Listsýning Rósu Gísladóttur í forkirkjunni og á Hallgrímstorgi nefnist Borg Guðs. Það hefur verið gjöfult að skoða og íhuga þessa sýningu. Borg Guðs – heitið minnir á rit Ágústínusar kirkjuföður, kastalaborgir miðalda og rómantískar draumborgir 19. aldar bókmennta. Og minnir líka á þann rismikla sálm Marteins Lúthers: Þú Guð, ert borg á bjargi traust.

Verk Rósu eru fjölbreytileg. Á einum veggnum er gullglansandi helgiskrín sem vekur margar spurningar. Síðan eru tvær svífandi, samsettar himinborgir eða helgiheimar hangandi í loftinu. Þessar upphöfnu veraldir hafa hrifið ferðamennina sem príla upp tröppur til að skoða og taka myndir.

Annars vegar er tvenna klausturs í Armeníu og bæjarins á Keldum á Rangárvöllum. Nokkrir Armenar komu í heimsókn í kirkjuna fyrir skömmu og spurðu óðamála hvað þetta ætti eiginlega að þýða að setja líkan klaustursins, sem þau þekktu svo vel, með þessum ókunna bæ. Þeir róuðust þegar þeir fengu að vita að ermskir (armennskir?) guðsmenn hefðu komið í kirkjuerindum til Íslands fyrir öldum.

Hinum megin gangsins er þrenna stíliseraðra helgihúsa, mosku og sýnagógu í Berlín og Hallgrímskirkju í Reykjavík. Þessi samsetta þrenna minnir á sameiginlega rót fléttu trúarbragða gyðingdóms, Islam og kristni. Öll hafa sprottið úr hinum hebreska átrúnaði og ritum.

Þegar fólk hefur beðið eftir að komast í lyftuna upp í turn hefur sýningin orðið mörgum þeirra dásamleg uppljómun. Það eru forréttindi að standa í röð með svo elskulega krefjandi listaverk allt í kring.

Spegillinn

Eitt verka Rósu er úti og fyrir framan kirkjuna. Það er hringspegill sem fólk gengur að og sér sjálft sig og alveg sama hvernig það hreyfir sig, sjálfsmyndin er þarna. Eins og Guð væri að horfa: „Þarna ertu, ég sé þig, þú ert fyrir augliti mínu, ég er þér svo nærri sem þú vilt, eða fjarri sem þú óskar.“ Marteinn Lúther notaði setninguna Coram Deo til að minna okkur menn á að við værum alltaf fyrir augum Guðs, frammi fyrir ásjónu Guðs. Og ein bóka Sigurbjarnar Einarssoar, sem einu sinni þjónaði þessum söfnuði, heitir Coram Deo – fyrir augliti Guðs.

Sýning Rósu hefur vakið þanka um návist hins guðlega í lífi fólks, spurningar um hvað geti verið og sé borg Guðs og hvernig. Ég gleðst þegar listaverk vekja viðbrögð en er hvað þakklátastur þegar þau kveikja tilvistarspurningar, bæta í menningarvefinn og stækka veröld fólks.

Fólk á ferð

Fólk kemur í þessa kirkju og sækir landið heim. Íslendingar eru á ferð um land og heimsbyggð. Fólk er á ferð. Söngsveinar, drengir, frá Fjóni í Danmörk koma til að gleðja okkur með söng sínum. Í samræmi við ferðagleði tímans er á dagskrá þessa messudags ferðatexti úr Nýja testamenntinu. Jesús er á ferð til Jerúsalem. Við heyrum lýsingu einhvers sem hafði orðið vitni að biblíulegu uppþoti í ferðahóp Jesú. Ferðafélagarnir höfðu ólíkar skoðanir. Jesús tjáði stefnu sem Pétur, vinur hans, var ósamála. Pétur skammaði m.a.s. Jesú og vildi umsnúa honum. Og hvað var svona skammarlegt? Ekki að Jesús væri á ferð til borgar Guðs, Jerúsalem, heldur ferðarerindið. Jesús talaði um að hann að myndi deyja.

Það var sú dauðastefna sem gekk fram af Pétri. Hann vildi skiljanlega Jesú fremur lífs en látinn. Hann batt vonir sínar við menningarlegan, trúarlegan og pólitískan frama Jesú og skildi hlutverk hans sínum skilningi og vænti mikils. Því bæði reiddist hann og hræddist ferðaplan Jesú Krists. Orð Jesú um að hann færi til borgarinnar til að láta lífið taldi Pétur ekki aðeins lélegan húmor, heldur óábyrgt tal.

Vík burt Satan

Pétur var allt í einu kominn í hluverk fjölmiðlaráðgjafa sem bannaði aðalmanninum að tala frjálst. Jesús var á leið til borgar Guðs með dauða í huga og hjarta – en Pétur var hornóttur og skömmóttur. Viðbrögð Jesú eru mikil og hann segir við sinn besta vin og félaga: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Pétur – þessi sem Jesús útvaldi til að verða hornsteinn heimskirkjunnar – er allt í einu kominn í hlutverk djöfulsins – orðinn hið illa. Það er rosalegt, sjokkerandi og íhugunarvert. Eigum við að afskrifa þetta sem pirring Jesú? Var hann bara í örgu skapi og skeytti sér á þeim sem næstur var? Eða var annað og meira að baki?

Ég held ekki að Jesús hafi allt í einu álitið að Pétur væri djöfullinn. Ég held ekki heldur að hann hafi verið fúll og skeytt skapi sínu á vini sínum. Ég álít að þetta hafi verið ígrunduð setning og afstaða, sem varðar ekki einn karl í fornöld heldur líka okkur sem erum á ferð í þesari kirkju öldum síðar, alla ferðalanga sem hingað koma, öll þau sem horfa á Guðsborgarverk Rósu, mannabörn heimsins. „Vík frá mér Satan“ er setning sem á við okkur öll, er eins og sjónskífa Rósu úti fyrir kirkjunni. Við erum fyrir ásjónu Guðs. Viltu vera á réttum vegi? Tekur þú sönsum?

Möguleiki til djöfulskapar

Satan er ekki goðsöguleg vera sem sprettur einstaka sinnum fram í vondu fólki. Við þurfum að temja okkur lifandi sýn varðandi hið illa og veruleika þess. Goðsagan er óþörf en mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir möguleika okkar allra til ills. Satan er tákn, safntákn fyrir allt það sem hindrar líf, gæsku, gleði, hamingju og trú fólks í þessum heimi. Ég get orðið Satan þegar ég set sjálfan mig í gegn Guðs góða vilja og að fólk og líf fái notið sín. Þú getur orðið Satan þegar þú horfir of smátt á sjálfa þig eða sjálfan þig, vilt ekki njóta þess góða sem Guð gefur þér alla daga, hindrar hið góða vegna eigin hags, þegar þú vilt ekki horfast í augu við að Guðsríkið skiptir mestu máli í öllu lífi, öllum heimi – líka þínum.

Val okkar alla daga

Við höfum tilhneigingu til að einfalda orð og verk Jesú Krists og taka einfeldningslega því sem hann sagði. Við gleymum oft að orð hans skírskota til lífs allra manna á öllum öldum, líka mín og þín. Erindi hans í texta dagsins varðar ekki aðeins Pétur í líki örvæntingarfulls fjölmiðlafulltrúa, heldur þig í þínum aðstæðum. Viltu hlusta á erindi Guðs við þig? Ef þú hugsar smátt, vilt bara þínar aðferðir, skilur of þröngt – ertu í svo alvarlegum aðstæðum að þær eru djöfullegar. Við getum í afskiptaleysi eða eigingjörnum aðgerðum orðið Satan í lífi fólks. Hið illa er ekki goðsöguvera heldur lifnar í sjálfhverfu fólks og öllum smásálarskap eða hroka. Guð er Guð lífsins en hið djöfullega eyðir lífi. Guðsborgin er borgin þar sem lífið fær að blómstra.

Verkin hennar Rósu eru hvatar til menningarlesturs og sjálfskoðunar. Orð Jesú eru vakar til lífs. Þú getur gotið augum til listaverkanna, horft á þig í speglinum og skellt skollaeyrum og látið þig litlu varða. Þú getur einnig afskrifað orð Jesú sem pirring og fýlutal – en þá ferðu jafnvel á mis við lífið og þitt eigið sjálf. Má bjóða þér að horfa, hlusta og upplifa hið merkilegasta?

„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“

Þannig mælir Jesús Kristur. Lifir þú í Guðsborginni eða aðeins í mannaborg? Það er hin róttæka spurning hvers dags í lífi okkar.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju, 5. júlí, 2015.

Textar fimmta sunnudags eftir þrenningarhátíð. Textaröð B.

Lexía: Jer 15.19-21

Þess vegna segir Drottinn: Viljir þú snúa við sný ég þér svo að þú getir aftur þjónað mér. Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg skaltu vera munnur minn. Þá leita menn til þín en þú mátt ekki leita til þeirra. Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg til að verjast þessu fólki. Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig því að ég er með þér, ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn. Ég bjarga þér úr höndum vondra manna og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Pistill: Post 26.12-20

Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru. Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki.

Guðspjall: Matt 16.13-26

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“ Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur. Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?