Greinasafn fyrir merki: Sandgerði

Reynir Sveinsson – herra Sandgerði

Reyn­ir Sveins­son var oft kallaður af vinum sínum herra Sandgerði. Hann elskaði samfélag sitt og þjónaði því sem best  hann gat. Hann var ákveðinn kirkjumaður og varð á síðari árum herra Hvalsnes því svo elskaði hann Hvalsneskirkju og var ávallt reiðubúinn að segja frá kirkjusögu svæðisins og mannlífinu. Ég kom nokkrum sinnum í Hvalsneskirkju og hlustaði á Reyni segja frá og alltaf var ég heillaður af djúpri virðingu og ást hans á stað, sögu og erindi kirkjunnar. Ég var svo lánssamur að njóta margra funda með Reyni. Mér þótti hann alltaf elskulegur í samskiptum, hlýr, áhugasamur, tillitssamur og hugumstór.

Í ágúst 2012 fórum við Elín, kona mín, í ferð um Lútherslóðir sem dr. Gunnar Kristjánsson og Anna Höskuldsdóttir stýrðu. Reynir var með í þeirri för. Hann var kátur, lagði gott til og skemmti ferðafélögum með gáska og snerpu. Reynir var ekki aðeins á Lúthersslóðum til að horfa, læra og njóta. Nei, Reynir andaði með persónu sinni arfi Hallgríms Péturssonar og Hvalsness. Á helstu siðbótarslóðum Þýskalands bar hann íslenskan fána svona til að minna á að Sandgerðingar – já Íslendingar – væru ekki bara þiggjendur heldur virkir aðilar í undri kristni og lífs. 

Reyn­ir fædd­ist 2. júní 1948 í Sand­gerði og þar hann bjó alla tíð. Hann var rafvirki að mennt og rak fyrirtækið Raf­verk yfir þrjátíu ár. Um aldamótin varð hann for­stöðumaður Fræðaset­urs í Sand­gerði sem nefnist Þekk­ing­ar­set­ur Suður­nesja. Hann stuðlaði einnig að eflingu ferðaþjón­ustunnar í Sandgerði. Reyn­ir hafði skoðanir á flestum málum. Hann var lipur og hlýr í samskiptum og var því kjörinn til forystu í mörgum félögum og ráðum Sandgerðinga og sveitarfélaga á Suðurnesjum. Reynir lést 21. janú­ar 2024, 75 ára að aldri. Eftirlifandi börn Reynis og Guðmundínu Þ. Kristjánsdóttur eru Gísli, Sig­ríður og Guðbjörg. Reyr lést 21. janú­ar 2024, 75 ára að aldri.

Nú er lífstafli Reynis lokið en guðsskákin tefld af gáska. Við Elín þökkum fyrir samfylgdina, hlátra og elskusemina. Guð geymi Reyni og styrki ástvini hans.

Meðfylgjandi myndir tók ég í ágúst 2012. Myndaslóðin er að baki þessari smellu.  Sr. Hreinn Hákonarson tók viðtal við Reyni sem birtist á kirkjan.is og er að baki þessari smellu