Greinasafn fyrir merki: samkirkjustarf

Karl Sigurbjörnsson og heimskristnin

Útför Karls Sigurbjörnssonar, biskups, var gerð frá Hallgrímskirkju 28. febrúar 2024. Tónlistin var stórkostleg og mikil og almenn þátttaka í söng og bænum. Við sungum sálminn „Nú hverfur sól í haf og húmið kemur skjótt.“ Minningarnar þyrluðust upp við sönginn. Við Karl vorum nokkrum sinnum saman á fundum Porvoo-kirknasambandsins, samtökum lútherskra og anglikanskra kirkna í norður- og vestur-Evrópu. Karl tranaði sér aldrei fram en ávann sér virðingu fyrir leiftrandi getu. Hann var framúrskarandi fulltrúi íslenskrar kristni. Í nokkur ár var hann annar af leiðtogum sambandsins. Í helgihaldi eins fundarins ákvað Karl að nota sálm föður síns: Nú hverfur sól í haf. Lagið hafði Þorkell gert, sá mikli tónsnillingur og bróðir Karls. Organistinn fékk nótnablað og við Karl sungum fyrir og kenndum sálminn – í enskri þýðingu. Það er gott að orna sér við slíkar minningar í kælunni. Meðfylgjandi mynd tók ég af Karli og biskupum frá Uppsala og Newcastle, Ragnar Persenius og Michael Wharton, við upphaf fundar Porvoo-kirknasambandsins sem var haldinn í Hallgrímskirkju og í Skálholti í september 2004. Af hverju verkfærakista? Jú, þemað var tool-box of theology. Karl átti mörg tól í sinni trúarlegu og guðfræðilegu verkfærakistu og kunni að beita þeim. Blessuð sé minning hans.
Þú vakir, faðir vor,
ó, vernda börnin þín
svo víð sem veröld er
og vonarstjarna skín,
ein stjarna hljóð á himni skín.