Frá því á unglingsárum hef ég notið þess að kveikja upp og horfa í eld. Ég nýt þess að sitja við arinn eða kamínu, finna fyrir hitanum, skoða logana, njóta neistaflugsins og taka við öllum hugmyndunum sem kvikna í eldinum og skjótast síðan í kollinn. Arinn var í sumarbústað móðursystur minnar. Arnar voru í amerískum húsum sem ég var í á námsárunum vestra. Við nutum arinsins í Litlabæ á Grímsstaðaholti. Kamína var í sumarbústað sem við kona mín byggðum í Svarfaðardal og svo er kamína í kotinu okkar í Alviðru. Á liðnu ári breyttum við gasarni í viðararinn í húsinu okkar í Skerjafirði. Við Jón Kristján felldum svo tvö stór aspartré á síðasta ári, klufum viðinn og hlóðum upp til að þurrka til vetrar. Nú erum við eins og bændur sem þurfum að eiga til vetrarins og helst líka fyrningar. Ég stiklaði asparteinunga fyrir mörgum áratugum og feldi tvær aspanna og við njótum nú ljóss og hita. Ég kveiki upp reglulega og stundum fyrir hádegi þegar ég veit að ég á næðisstund fyrir djúp samtöl eða vingott við góða skáldsögu, ljóðabók eða djúpsækna guðfræði. Þetta er föstudagskveikjan í kvöld. Og við sátum fjölskyldan og töluðum um alvöru mál.
Greinasafn fyrir merki: samfélag
Guð hjálpi Trump – og okkur öllum
Eru kirkjur leiktjöld og leikmunir eða heilagir staðir? Eru sum mannslíf minna virði en annarra? Þetta eru meðal mála vikunnar í fjölmiðlum heimsins.
George Floyd var tekinn af lífi í Minneapolis 24. maí. Hvítur lögreglumaður drap svartan mann. Mótmælt var og er í mörgum borgum Bandaríkjanna og reiðibylgjur flæða um heiminn. Morðið og afleiðingar þess varða trú, réttlæti, siðvit, samfélag, kirkju, alþjóðastórnmál og Guð.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ávarp í sjónvarpi til bandarísku þjóðarinnar á öðrum hvítasunndegi, 1. júní, til að koma þeim skilaboðum áleiðis að hann gengi erinda laga og réttar. Á meðan forsetinn talaði í Rósagarði Hvíta hússins fór hópur lögreglu og sérsveitarmanna að kirkju heilags Jóhannesar, sem er skammt frá verustað Trumps og hefur verið bænastaður flestra forseta Bandaríkjanna síðustu tvær aldir. Sérsveitarmennirnir skutu reykbombum og táragasi yfir og á fólk. Trump ætlaði að nota kirkjuna sem bakgrunn fyrir auglýsingamynd af sjálfum sér og því var svæðið rutt. Þegar búið var að reka mannfjöldanum burt gekk forsetinn í gegnum reykinn eins og stríðsherra í kvikmynd. Hann tók sér stöðu við kirkjuna og lyfti Biblíunni yfir höfði sér – með frosinn svip eins og stytta. Þetta var gjörningur á leiksviði. Hver voru skilaboðin? Kirkjan var umgjörð fyrir myndatöku á hasarmynd. Er þetta í lagi? Helgar tilgangurinn meðalið?
Kirkja sem leiktjöld
Fólkið sem stóð við þessa anglikönsku kirkju í Washington var að mótmæla drápi manns og ofbeldi. Það var engin nauðsyn að reka það. Kirkjuleiðtogar í Washington brugðust hart við. Mariann Budde, biskup anglikönsku kirkjunnar í borginni og þar með ábyrg fyrir kirkjunni var misboðið. Í viðtölum við Washington Post, CNN og fleiri fjölmiðla sagði hún, að kirkjan hefði verið notuð sem leikmunur. Stjórnvöld hefðu ekki haft samband við presta eða kirkjuyfirvöld til að upplýsa að kirkjusvæðið yrði rýmt svo forsetinn gæti notað þessa frægu kirkju sem baksvið. Og Budde sagði, að erindi Trumps væri andstætt kærleika og mannúð sem Jesús Kristur hefði sýnt og kennt. Trump notaði kirkju og Biblíu í heimildarleysi til að réttlæta boðskap, sem væri þvert á boðskap kristninnar og köllun kirkjunnar. Erindi kristinna manna væri alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með kúguðum og með þeim sem mótmæltu ofbeldi sem George Floyd hefði orðið fyrir. Aðrir trúarleiðtogar hafa einnig haldið fram, að Trump hafi misnotað helgirit og helgidóm sem leikmuni fyrir sjálfan sig í stað þess að ganga erinda mannhelgi, réttlætis og kærleika Biblíunnar. Tilgangur Trump væri sjálfhverfur og sundrandi í stað þess að friða og sameina. Svo bættist fyrrverandi hershöfðingi og ráðherra í stjórn Trump í gagnrýnendahópinn og sagði að það ólíðandi, að forsetinn beitti bandarískum her á eigin þjóð. Meira segja samtök háskólamanna í Biblíufræðum sendu frá sér harðorða yfirlýsingu um háskaleik forsetans – og slíkt gera samtök Biblíufræðinga afar sjaldan.
Hver er heilagur?
Jóhannesarkirkjan hefur lengi verið kraftmistöð kristni og mannræktar. Ferð Trump var gjörningur til að minna á, að stefna hans væri önnur en kirkjunnar. Hann endurskilgreindi hvað ætti að vera og hvað ekki. En kristnir menn allra alda og um allan heim kunna fyrsta boðorðið. Aðeins einn er Guð. Aðeins einn er heilagur. Táragas, löggur, hermenn, piparúði og að veifa Biblíu gera Trump hvorki guðlegri né trúverðugri. En hann vill að stórtákn þjóni sér, gengur inn í táknin og belgir sig út í kima merkingarsviðs þeirra. En Guð hættir ekki að vera Guð þótt Trump sjái sjálfan sig í trúartáknunum og vilji helst að mynd hans komi í stað Guðs. Þegar helgidómar eru misnotaðir og helgiritin líka glaðvaknar samviska trúmanna eða ætti að gera það.
Samfélag og Ísland
Covid-heimsfaraldurinn hefur opinberað veikleika og styrkleika kerfa og samfélaga heimsins. Fram til þessa höfum við Íslendingar verið svo lánsamir að vit en ekki vald hefur stýrt stefnu og aðgerðum. Skynsamt fólk hefur stýrt sóttvörnum þjóðar okkar. Stjórnmálamenn okkar hafa farið að ráðum fagfólksins en ekki misviturra kóvita. Svo kom líka í ljós menningarlegur styrkur og siðleg dýpt samfélags okkar. Við stöndum saman þegar á bjátar. Við erum mörg og jafnvel flest tilbúin að leggja mikið á okkur til að verja og vernda þau, sem veikust eru í þjóðfélagi okkar. Við erum ekki ein heldur saman, öll almannavarnir. Hin sterku vernda hin veiku. Þannig virkar siðvitið í heilbrigðri heild. Við viljum, að allir njóti lágmarksverndar, réttlætis, heilbrigðisþjónustu og öryggis. Covid-faraldurinn hefur opinberberað styrkleika okkar. Við erum samfélag og það er ríkidæmi að vera hluti slíkrar heildar.
Valdið styrkst en vitið veikst
En á sama tíma hefur faraldurinn opinberað veikleika Bandaríkjanna. Heimilislausum hefur fjölgað á undanförnum árum. Geðfatlaðir njóta ekki verndar, heldur eru reknir út á gangstéttar og torg. Tjaldbúðir þeirra eru að verða eins búðir flóttafólks, táknmyndir um samfélagssjúkleika, sem sker mitt hjarta. Ég bjó i Berkeley fyrir nokkrum árum og þótti hörmuleg átakanleg staða útigangsfólks. Mannréttindabaráttu er ekki lokið í Bandaríkjunum heldur er aðeins að byrja. Vandi mismununar er kerfislægur. Misskipting auðs hefur ekki minnkað heldur aukist. Valdið hefur styrkst en vitið veikst. Bandaríkin eru ekki lengur samfélag heldur vígvöllur hagsmunahópa. Ofbeldi kraumar og stríðsherrarnir láta reykbomba götur borga og ganga svo yfir blóðvöllinn eins og upphafin goð í hasarmyndum. Þegar veikustu hóparnir, eins og svartir, sjúkir, fátækir og innflytjendur missa tekjur og vinnu í COVID-faraldrinum vex spennan. Dráp George Floyd kveikti stórt bál. En eldsmaturinn var þegar til. Öryggin á sprengjunum voru löngu slitin af.
Að friða en sundra ekki
Þjóðhöfðingja ber að beita sér í þágu friðar, einingar og heilbrigði og vera sameiningartákn. En aðferð Trump er að splundra, etja fólki og hópum saman í stað þess að sætta og efla réttlætið. Hann fellur á öllum prófum. Vegna þess að kristnin gengur erinda mannúðar og kærleika töluðu kirkjuleiðtogarnir skýrt. Biblían er ekki leikmunur, kirkja er ekki bakgrunnur fyrir sjálfu og narcisista. Michael Curry, sem sló í gegn í hjónavígslu Harry og Megan Markle í fyrra, er yfirbiskup anglikönsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Hann sagði eftir Trump-gjörninginn, að kristni væri ekki pólitískt tæki. „Guð er ekki leiktæki.“
Við erum Trump
Vandi Bandaríkjanna leysist ekki þó Trump fari. Við erum öll Trump inn við beinið. Það heitir á gömlu máli kirkjunnar að við séum syndarar. Við menn sjáum okkur illa í spegli sannleikans, viljum vera meira en við erum sköpuð til. Við missum marks, tökum rangar ákvarðanir og bregðumst öðrum. Ef við lærum ekki af reynslunni og ræktum ekki mannhelgi og visku koma nýir Trumpar fram. Trump er ekki guðstákn heldur lastatákn, jafnvel summa allra lasta. Hann er orðin erkitákn brenglaðrar mennsku. Hvorki ameríkanar né við, vinir Bandaríkjanna, getum framar látið sem ekkert sé að. Við samþykkjum ekki heldur að fólk misnoti trú, Biblíu og helgidóma í eigin þágu, sérhyggju eða sundrandi stjórnmála. Trúmönnum heimsins, líka stjórnmálamönnum, ber að vera farvegir réttlætis í þágu samfélags. Heimsbyggðin þarf að læra hvað er rétt, gott og göfugt. Nú er lærdómstími og við erum að læra námsgreinina Trump101 og hún er um okkur líka. Hin námsgreinin Samfélag101 er um að allir menn eigi að njóta mannhelgi. Og að kirkjur eru ekki leikmunir. Helgirit á að nálgast með virðingu. Guð verður aldrei leiktæki. En Guð hjálpi Trump, Bandaríkjamönnum og okkur öllum.
(Íhugun á þrenningarhátíð 2020. Hluti textans hér að ofan var í hugleiðingu dagsins í gðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sóknarfólkið hafði ýmislegt um þanka dagsins að segja. Í ljósi viðbragða í kirkjukaffinu skar ég niður helming ræðunnar, ma um Nikódemus, þann merka ráðherra Ísraels, en bætti svo við ýmsu öðru. Takk Andrés Narfi og annað sóknarfólk í H.)
Jesús og síðasta kvöldmáltíðin
Síðasta kvöldmáltíð, sem Jesús efndi til, hafði afgerandi áhrif á mótun kristninnar og atferli kristinna manna æ síðan. Skírdagur, dagur þeirrar máltíðar, er mikill tákndagur. Listaverkin og kirkjulegt atferli, sem tengjast deginum, eru táknrík.
Myndin af Jesú í sóttkví, sbr. netmyndin hér að ofan, nýtir myndhefðir kristninnar. Myndlistamennirnir hafa um aldir túlkað veru og starf Jesú og með ólíkum áherslum, stundum kreist og jafnvel misþyrmt til að vekja fólk til vitundar. Myndir getum við skoðað til að vitja okkar eigin innri mynda og þar með afstöðu.
Skírdagur og da Vinci
Flest eigum við í huga okkar einhverja mynd af síðustu kvöldmáltíðinni. Og mynd Leonardo da Vinci hefur orðið sem erkimynd og áhrifavaldur síðari máltíðarmynda.
Myndin var gerð fyrir dóminíska klaustrið Santa Maria delle Grazie í Mílanó á Ítalíu. Da Vinci málaði myndina í þeim tilgangi að hún stækkaði salinn og að Jesús og lærisveinarnir væru nærverandi við enda rýmisins. Svipuð hugmynd er að baki hinum miklu myndverkum Baltasars í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði og Ólafsvallakirkju á Skeiðum. Mílanómynd da Vinci virkjaði áhorfendur. Munkarnir tóku eiginlega þátt í máltíð Jesú, hlýddu á orð hans, heyrðu um svik mannsins og baráttu lærisveinanna. Þeir urðu hluttakandi í sögu og lausnarverki frelsarans.
Myndirnar af máltíðinni
Mörg listaverk eru til af síðustu máltíð Jesú. Myndirnar túlka afstöðu, trúarskilning og líka myndlistarstefnur hverrar tíðar. Jesús hafði undirbúið komu til Jerúsalem vel, sent sveina sína til að taka frá loftsal fyrir samveru og máltíð að hætti Gyðinga þess tíma. Máltíðin var táknmáltíð, minningarsamvera, til að innlífast framhjágöngu engilsins í Egyptalandi, undursamlegri björgun Ísraela úr þrældómi og lausn úr prísund. Og Jesús notaði svo táknmálið til að búa til nýtt táknmál, til að undirbúa sig og vinahóp sinn undir framvindu og átök næstu daga, atburða sem sköpuðu nýjan heim, nýtt líf og nýtt táknkerfi, sem heimsbyggðin hefur aðlagast og endurunnið kynslóð eftir kynslóð.
Þessi mynd Andrea del Castagno frá 1447er eldri en mynd da Vinci. Á henni sést hátignarleg, “ítölsk” bygging. Lærisveinarnir og Jesús eru öðrum megin borðs og geislabaugar eru við höfuð þeirra. En Júdas er hinum megin borðsins með hugann við svik og peninga. Þetta er formföst og frosin mynd og tilgangurinn er að greina hinn vonda frá hinum góðu.
Svo er hér önnur mynd og er uppbyggð í hring. Sveigjur eru í allri myndinni og líkamstjáningu, sem rímar líka við geislabaugana. En Júdas rýfur hringinn, er án baugs og með pyngjuna á lofti. Þessar myndir draga fram illsku hins eina en helgi hinna, sem ekki svíkja. My
Kirkjur tjá með lagi og innri skipan borðsamfélagið sem Jesús stofnaði og bauð að yrði iðkað í samfélagi hans. Að borða saman er mikilvægt, að vilja vera saman um lífsbjörg hefur verið tákn um samfélag og tengsl. Svo er borðsamfélag kirkjunnar, altarisgangan, tákngjörningur á mærum tíma og eilífðar, manna og engla, sköpunar og Skapara, myrkurs og ljóss, dauða og lífs. Borðsamfélag Jesú Krists er brú milli veraldar og himins, leið úr ringulreið syndar inn í fang elsku Guðs.
Táknmál hefur ytri og innri hlið
Kvöldmátíðarmynd Leonardo da Vinci varð táknmynd um skírdagsmáltíð Jesú í Evrópu og norður-Ameríku. En tákn breytast og táknmyndir líka. Tákn geta veiklast innan frá og tæmst og að lokum orðið form án inntaks. Þegar svo er komið taka menn sig oft til og fylla þau jafnvel nýju inntaki. Í miðju da Vinci myndarinnar er Jesús að kveðja vini sína, undirbúa þá, skilgreina inntak siðarins sem borðátrúnaðar. Spenna er í myndinni. Lærisveinarnir eru skelfdir vegna orða Jesú, að einhver þeirra muni svíkja hann. Málarinn undirbjó kvöldmáltíðarmynd sína vel eins og vinnuskissurnar sýna glögglega. Hann reyndi að draga fram spennu milli hins trúarlega og persónulega.
Kvöldmáltíðarmyndin endurunnin
Da Vinci-myndin hefur orðið fyrirmynd síðari mynda. Hér að neðan eru nokkur dæmi um endurnýtingu.
Börn teikna gjarnan myndir af síðustu kvöldmáltíðinni og altarisgöngumyndir í stíl da Vinci. Þær eru oft gleðiríkar, opnar, litríkar og elskulegar. Formið skiptir mestu en ekki hið spennuþrungna inntak frummyndarinnar.
Margir hafa látið tattóvera trúarleg tákn á líkama sína. Leikarinn Brad Pitt var með eftirmynd da Vinci á bakinu þegar síðast var vitað. Hér er dæmi um hvernig mynd da Vinci hefur ratað á handlegg manns. Kannski er þetta eins og hvert annað trúarlegt tákn í þágu íhugunar. Kirkjan er samfélag um máltíð og líf. Hvaða hlutverki þjóna svona myndir? Eru þær skraut eða ásýnd inntaks handareigandans? Handareigandinn getur notað myndina til að minna sig á að Guð er nærri í hverri máltíð.
Mynd Salvador Dali af hinum upphafna, handantímalega Jesú Kristi er ein kunnasta og áhrifaríkasta trúarmynd í myndlist tuttugustu aldar.
Myndin heldur grunnsniði da Vinci-myndarinnar en er með ýmsar viðbætur eins og vænta mátti af Dali. Skipan við borðið er önnur en í Mílanómyndinni. Sá Jesús, sem þarna talar, er einhvers konar hippalegur gúrú, sem lærisveinarnir lúta. Þarna er borðsamfélagið upphafið, himneskt og rennur inn í ofurjarðneskt landslag. Þessi Jesús er ekki að kveðja vini sína eða á leið í hryllilega aftöku á krossi. Í þessari kvöldmáltíðarmynd er kyrra þjáningarleysis, stilla visku og traust blessunar og myndin er algyðisleg. Þarna eru engin svik, engin spenna, aðeins himnesk upplýsing fræðarans. Þarna ríkir fegurðin ein og ofar allri þjáningu. Þetta er því allt annar Jesús Kristur en í Mílanómyndinni.
Margar pólitískar myndir hafa verið gerðar eftir kvöldmáltíðarmyndinni. Jesús hefur þá orðið, sem tákn um einhverja þjóðmálastefnu. Í einni myndinni hefur Maó komið í stað Jesú. Hann er þá lausnari og ef menn eru hallir undir maóismann eða pólítíska túlkun Jesú er hægt að sætta sig við þennan snúning. Hið trúarlega hefur um aldir verið notað í pólitískum tilgangi. Slík notkun er alltaf á kostnað hins trúarlega. Og þar með einnig pólitíkina og verst fer fyrir þolendum pólískrar trúarnauðungar.
Svo er til mikill fjöldi mynda, sem sýna Jesúgerving sem venjulegan mann meðal venjulegs fólks.
Hér er ein sem sýnir fólk í hvunndagsklæðum, fólk markað lífsbáráttu, við borð, með vín á borði og tvo fiska. Það er reyndar lið úr the Sopranos sem kemur hér við sögu.
Alls ekki síðasta kvöldmáltíðin.
Lærisveinarnir voru karlar og þótt einhverjir hafi viljað sjá konu í mynd da Vinci er ólíklegt að svo hafi verið frá málarans hálfu (þó ýmsar kenningar þar um hafi verið á sveimi). En á þessari mynd eru konur og aðeins einn karlmaður. Hér hefur kvöldmáltíðarmyndin verið kvengerð. Myndin er menningarpólitísk, tjáir að konur eigi að hafa aðgang að hinu djúpa og trúarlega. Í miðju er kona og gegnir þar með lykilstöðu. Konan er hér orðin Jesútýpa.
Svo er Battleship Galactica. Öndvert hinum dökkklæddu, sem eru á myndinni, er konan í Jesúmiðjunni í rauðum kjól. Hún sker sig úr og það eru átök á milli kvenna, fólksins. Hér er að baki í hefðinni form altarisgöngumyndar da Vinci þó lífsskerandi spenna sé allt önnur en í upprunamyndinni.
Margar kvöldmáltíðarmyndir taka á neyslu og afþreyingarmenningu samtíðar og sumar myndanna er gagnrýnar. Þetta eru áhugaverðar myndir og stinga sumar og spyrja hvaða hlutverki trú gegni í samfélagi okkar og hvaða hlutverki Jesús Kristur hefur í lífi okkar og menningu. Er einhver kominn í hans stað? Getur einhver komið í hans stað?
Í fyrsta lagi er mynd, sem tjáir teiknimynda- og neyslusamfélag Bandaríkjanna. Þarna eru lærisveinarnir og Jesús orðnir teiknimyndahetjur. Hvaða hlutverki gegna þessar fígúrur í samfélaginu? Börnin okkar hafa horft á þessar ofurhetjur í sjóvarpinu og séð þær í teiknimyndablöðum. Þetta eru fyrirmyndir og ekki síst drengjanna. Hvað borðar hópurinn annað en bandarískan neyslukost. Þarna er búið að umbylta hinu trúarlega og umhverfa í sjónræna og efnislega neyslu.
Hér er da Vincimyndin notuð í Star Wars samhengi. Lærisveinarnir eru Jediriddarar. Þeir, sem horft hafa á kvikmyndirnar vita að gott og illt eiga þar í stríði. En í þessu samhengi eru það ekki sverð andans heldur ljósasverð sem notuð eru.
Er Jesús Kristur lausnari, vegur til himins, sonur Guðs, leiðtogi og sínálægur? Eða er hann í lífi okkar lítið annað en pakkapési á jólum, góðlátlegur gæji með skegg, sem dregur upp pinkla samkvæmt pöntun ástvina okkar? Hér er mynd sem snýr upp á kvöldmáltíðarmyndina og ýtir við.
Enska landsliðið í fótbolta átti í miklum erfiðleikum um árabil og gekk illa í alþjóðakeppnum og tapaði m.a. fyrir Íslendingum í síðustu Evrópukeppni. Einn teiknarinn sá ástæðu til að minna á fallvaltleika liðsins með því að mála miklar fótboltahetjur í da Vincískt samhengi. Myndin var gerð þegar David Beckham kunni enn að sparka í bolta. Hann er settur í miðju og í stað Jesú. Rooney, Rio Ferdinand, Gerrard og jafnvel Sven Göran Eriksson, hinn sænski þjálfari liðsins, sem þá var. Myndin vakti viðbrögð og var jafnvel birt í íslensku blaði. Áhrifasaga Milanómyndarinnar er skýr.
Síðasta kvöldmáltíðin kemur oft fyrir í myndlist neyslunnar. Hér hefur inntaksríkri máltíð á lengdina verið umhverft í máltíð skyndibitans. Fyrir miðju er “the Colonel,” stofnandi KFC, Kentucky Fried Chicken. Ýmsar kunnar verur úr kvikmynda og teiknimyndabransanum eru þarna með honum.
Hvenær er máltíð trúarleg máltíð? Er hinn trúarlegi kostur samtíma okkar skyndibiti og til lítils gagns? Þegar dýpst er skoðað megum við gjarnan spyrja okkur um okkar afstöðu til hins trúarlega, líka máltíðar Drottins. Þar er komið að inntakinu. Hvarvetna þar sem kristnir menn eru – íhuga þeir líf sitt og sækja í máltíðina sem tjáir Jesú sem gjafara samfélags og lífs.
En hefðir kristninnar eru endurunnar og endurnýjaðar. Síðasta kvöldmáltíðin er endurtúlkuð um allan heim og myndirnar vitna um það.
Þessi mynd hér að ofan er frá Kína, sett í kínverskt byggingarsahengi, rýmisskilgreiningu, fata- og hárgreiðslulínu. Mynd er gerð af Qian Zhu Sheng Tryck.
Þessi mynd er úr kaþólsku, indónesísku samhengi og myndin hefur da Vinci-myndina að baki en höfundurinn er frjáls innan síns menningarramma. Málarinn er Komang Wahyu Sukayasa og nýtir hring og ferning og fjölmörg biblíuleg tákn. Í myndinn er sterk tenging borðs, fólks og sköpunar. Þessi gerð af trúarlegri myndlist tjáir samsemd manna og náttúru í veröld Guðs.
Samfélag og máltíð
Leonardo da Vinci skipulagði mynd sína svo hún væri ávirk og vekjandi. Jesús segir lærisveinum sínum þau ógnvænlegu tíðindi, að einn muni svíkja hann. Lærisveinarnir tjá með viðbrögðum sínum hrylling, ógn, hræðslu og íhugun. Er það ég? Getur það verið ég? Nei, ég vil ekki og get ekki svikið þig, er það sem við getum skynjað í viðbrögðum og máli þeirra.
Hver er okkar kvöldmáltíðarmynd? Hvaða mynd viljum við hafa af Jesú Kristi? Svíkjum við hann eða eru við tilbúin að taka við þeim veruleika sem hann býður okkur, treysta honum?
Guð hefur mynd af okkur og þess vegna kom Jesús Kristur í þennan heim, til að hreinsa mynd mennskunnar, bjóða okkur til samfélags við sig. Viltu þiggja það boð?
Dansandi Guð
Vegna prestsstarfanna hitti ég margt fólk, sem segir mér sögu sína. Enginn hefur sagt mér, að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin, sem skiptu mestu máli á æfi þeirra. Ég hef ekki hitt neinn, sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Margir hafa reyndar sagt að það hafi verið í átökum og sorgardölum sem viskan hafi vaxið. Sigurður Nordal óskaði ungu fólki baráttulífs. Ég tala við fólk þegar það kemur með börnin sín til skírnar, hitti fólk á krossgötum lífsins sem þarf að vinna með áföll eða þegar eitthvað bjátar á, þegar það er undirbýr athafnir stórviðburða lífsins og þegar það kveður ástvini. Það er heillandi að heyra sögur fólksins. Og því oftar sem ég horfi í augu þeirra sem segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég um, að þær eru ástarsögur. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. Fá þeirra hafa sloppið við mikil áföll. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Aðeins þau er elska geta syrgt. Ekkert okkar sleppur við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð. Hvað er það sem gefur lífinu merkingu og gerir það þess virði að lifa því? Svarið er: Ástin – kærleikurinn. Við þörfnumst þess að vera séð, metin og elskuð.
Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef fólk lifir stutt, kannski aðeins til unglingsára er þá líf þessara unglinga lítils virði? Er stutt líf svo lítils virði að best hefði verið að barnið eða unglingurinn hefði aldrei lifað? Hvað þarftu að að reyna í lífinu til að vera sáttur eða sátt við líf þitt? Er langt líf meira virði en stutt? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk glímt við þessar spurningar. Aristóteles og sjáendur Gamla testamentisins einnig. Nikódemus spurði. Jesús Kristur talaði um þá spurningu og svaraði með ýmsu móti. Og við komust ekki undan því að bregðast við henni, jafnvel þó við reynum okkar að forðast hana.
Guðsástin
Í tilfinningum og sögum manna getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En í þeim getum við líka séð meira. Ef við setjum upp trúargleraugun getum við greint ljósbrot þeirra geisla sem Guð sendir um veröldina. Í ástaratolotum manna og orðum eru brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.
Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð. Við erum elskuð.
Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg. En við megum gjarnan stækka þá spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almenna guðsmynd heldur líka setja inn þarfir Guðs, tilfinningar og verðandi Guðs. Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Það er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?
Elskuþrennnan
Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum ekki né megnum að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn, gleðitjáning eða ástarjátning.
Hinar fornu trúarjátningar tjá, að guðdómur kristinna manna sé þrenning, þrjár verur í einingu, faðir, sonur og heilagur andi. Mismunandi tímar hafa lagt í þær persónur mismunandi skilning og mismunandi hlutverk. Þessa kosningahelgi finnum við til að við tilheyrum samfélagi. Við erum í tengslum. Og eins er það með hið guðlega. Guð er Guð samfélags, Guð félagsfjölbreytni, lifandi samfélag persóna í elskuríkri sambúð, í skapandi dansi kærleikans. Faðir, sonur og heilagur andi lifa í hver öðrum, sem sjálfstæðar og frjálsar verur, en þó sameinaðar í elsku og þar með á dýptina. Til forna var dans talinn best tjá innra líf Guðs og samskipti vera guðdómsins. Það er heillandi að leyfa danstaktinum að einkenna trúarlíf nútíma. Við þurfum meiri dans í trú fólks og líf kirkjunnar.
Af hverju varð Guð maður? Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt, hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli eilífðar? Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert í blindgötu? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei, heldur opnar, hrífst, leitar tengsla, viðfangs og faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni og dansi samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar.
Þegar við rýnum í rit Biblíunnar er þar sögð saga um guðselskuna, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Ástarsaga Guðs. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.
Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem stórkostlega ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegum dansi? Í öllu getum við greint – ef við þorum að horfa róttækt – ást. Við megum sjá Guð í ástarsögum heimsins, þinni ástarsögu líka. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Hvað gerir líf þitt þess virði að lifa því? Kemur Guð við þá ástarsögu? Ástin Guðs föður, kærleikskraftur Sonarins og lífsmáttur Heilags Anda sé með þér. Amen.
A summary of the sense of the sermon. What does make the life worth living. One of the benefits of being a pastor is being close to people and I hear a lot of stories, lifestories. The more I hear I do interpret the stories as love-stories. The conclusion of all the listening is that we human beings are love beings. If we use that insight into thinking about God we may comprehend that God enters into this corner of the cosmos because of love. Christians in earlier ages wondered what image of the godhead would be a fitting one. They thought of dance as the best one. If God is love and dance is the best image that also helps us to to grasp the meaning of our own being and love-story. Are you willing to open up to a dancing and loving God? Are you willing to open up closed corners of your love-life? Are you a member of the love story of the world?
Hallgrímskirkja, trinitatis, 27. maí, 2018.
Viðtal um matseld í Fréttablaðinu 15. desember.
„Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju.
Matreiðsluáhuga Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests í Hallgrímskirkju, má rekja til æskuáranna þegar hann gerði sér grein fyrir því að elda mætti silung með mismunandi hætti og að krydd væri undraefni. „Foreldrar mínir ræktuðu fjölbreytilegt grænmeti. Svo var ég á unglingsárum stórveiðimaður norður í Svarfaðardal og týndi marga tugi lítra af berjum á haustin. Það er platveiðimaður sem ekki lærir að gera að fiski og elda.“
Inn á vef sínum www.sigurdurarni.is, birtir Sigurður m.a. greinar, pistla og hugvekjur en líka ýmsar ljúffengar uppskriftir. „Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið og gáfum vinum og fjölskyldumeðlimum í jólagjöf. Þar sem óskirnar héldu áfram og ég var með heimasíðu var auðvelt að smella inn uppskriftum sem eru þarna í bland við hugleiðingar um lífið, prédikanir, þjóðmál og annað sem prestur skrifar um.“
Mikilvægt að borða saman
Eiginkona Sigurðar, Elín Sigrún Jónsdóttir, er að hans sögn betri bakari en hann og líka næmari á uppskriftir. „Hún veit að ég er mikill matfaðir og vil helst elda og hafa marga í kringum mig og gefa mörgum að borða. Því sendir hún mér uppskrift um miðjan dag eða kaupir hráefni og tilkynnir mér að hún hafi fundið þessa góðu uppskrift. Ég verð kátur þegar maturinn er góður, allir borða og standa upp frá borðum með hrós á vörum.“
Starf sóknarprests getur verið mjög annasamt og vinnudagar langir. Góður matur í góðum félagsskap skiptir því Sigurð miklu máli. „Í kirkjunni stöndum við prestarnir við borð, altarið. Og í safnaðarheimilum kirkna eru borð og samfélag. Jesús Kristur var veislukarl. Hann er minn maður. Kirkja er í þágu lífsins. Að borða saman er mikilvægt, samtölin eru mikilvæg og við snertum hvert annað tilfinningalega þegar við eigum samfélag. Það vissi Jesús Kristur og ég tek mark á því, líka heima.“
Áhugi á Biblíumat
Miðjarðarhafsmaturinn, bæði hráefnin og kryddin, eru uppáhald Sigurðar. „Biblíumatur er sértækt áhugaefni og mig langar til að dýpka þekkingu mína á klassísku hráefni fornaldar því það er heilsufæði nútímans. Ég verð í Berkeley í Kaliforníu næstu mánuði og mun örugglega fara á heilsumarkaðina á San Fransisco-svæðinu.“
Uppskriftin sem Sigurður gefur lesendum er Maríukjúklingur sem hann segir vera biblíumat. „Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans.“