Ég var beðinn um að skrifa greinarstubb um sorg og fór að skoða nokkra biblíutexta. Löngum hefur mönnum verið ljóst mikilvægi þess að geina á milli þunglyndis og sorgar. Ekki aðeins í hinum klassíska gríska og rómverska heimi heldur líka hebresk/gyðinglega.
Ástæður þunglyndis og sorgar eru yfirleitt ólíkar og úrvinnslan líka. En auðvitað geta þunglyndi og sorg ofta fléttast saman. Davíð konungur var tilfinningavera og hægt er að sjá í sögu hans tvær víddir tilfinningaúrvinnslu. Ég mun ekki ræða sögu Davíðs eða tilfinningaúrvinnslu í Biblíunni í greininni í vinnslu en mér þótti áhugavert að sjá að Biblían er svona kostarík.
Í Davíðssálmi 38 er þunglyndi lýst:
Ekkert er heilbrigt í líkama mínum
vegna reiði þinnar,
ekkert heilt í beinum mínum
sakir syndar minnar.
Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð,
þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.
Ódaun leggur af sárum mínum,
það grefur í þeim sakir heimsku minnar.
Ég er beygður og mjög bugaður,
eigra um harmandi daginn langan.
Brunasviði er í lendum mér
og ekkert er heilbrigt í líkama mínum.
Ég er lémagna og sundurkraminn,
styn í hjartans angist.
Ljóðið hefur oft verið eignað Davíð konungi. Hver höfundur er skiptir ekki máli fyrir túlkunina en Davíðssálmarnir tjáir allar tilfinningar manna. Þunglyndi hefur verið kunnugt og þungbært öllum kynslóðum mankyns. En sorg og sorgarferli er annað en depurð. Þegar Sál konungur og Jónatan vinur Davíðs dóu syrgði hann þá ákaflega og samdi sorgarljóð en ekki þunglyndisljóð. Í 2. Samúelsbók segir svo í fyrsta kafla:
Hetjurnar eru fallnar
mitt í orrustunni,
Jónatan veginn á hæðunum.
Ég harma þig,
Jónatan, bróðir minn.
Þú varst mér mjög kær.
Síðan er unnið úr áfallinu, brugðist við dausföllunum og stefnt fram á veginn. Áfallið var raunverulegt, tilfinningauppnámið mikið, tár féllu og vinna varð úr sorginni. Þunglyndi þarf að vinna með til að ná jafnvægi í lífinu. En sorgarhús verða oft fæðingardeildir visku.
Veit einhver vina minna hvort greint er á milli sorgar og þunglyndis í forn-íslenskum bókmenntum?
Myndina tók ég af pálma við Jaffastræti í Jerúsalem.