Greinasafn fyrir merki: Saknaðarilmur

Límonaði frá Díafani

Ella Stína fór til Köben og síðan áfram til Grikklands, alla leið til Díafani á eyjunni Karpaþos milli Krítar og Rhodos. Hún var átta ára þegar Jóhanna Kristjónsdóttir og Jökull Jakobsson fóru utan með börn sín. Bókin Límonaði frá Díafaní er í hinu ytra um þá ævintýraferð. En hið innra er hún uppgjör roskinnar konu um fjölskyldudrama, tilfinningar, viðbrögð og úrvinnslu stúlkubarnsins hið innra.

Elísabet Jökulsdóttir er búin að skrifa um foreldra sína og fjölskyldu í bókunum, Saknaðarilmi og Aprílsólarkulda. Og nú heldur hún áfram að greina þætti uppvaxtar og óhamingjusamrar fjölskyldu. Ramminn er Grikklandsárið. Í Eyjahafinu var flest með öðrum stíl en á Seltjarnarnesinu. Glóaldin uxu á trjánum, geitur röltu um með bjöllur um hálsinn og litlu guðshúsin virtust sérbyggð fyrir börn. Ella Stína fór víða meðan foreldrarnir voru uppteknir við skriftir, eigið innra líf, Bakkus (eða var það Díonysos) og uppgjör við hvort annað. Löngu seinna kom Ella Stína aftur til Grikklands í rannsóknarferð sálar og uppgjörsferð.

Límonaði frá Díafani er eiginlega nýtt bindi í uppgjöri Elísabetar við foreldra sína og fjölskyldu. Ég hreifst sérstaklega af Saknaðarilmi og skrifaði um þá bók. Nýja límonaðibókin er mun síðri en lyktarbókin. Hún er vissulega lipurlega skrifuð og ferðin rammar inn minningar og uppgjör. Setningar hrífa og íhuganir hitta í mark. Myndin af grísku eyjalífi er vel teiknuð. En ég spurði sjálfan mig ítrekað hve lengi og hversu langt væri hægt að teygja lopa marinnar fjölskyldu. Hve mörg bindi má skrifa um fjarlægan en leiftrandi föður og snjalla móður með útþrá? Þrjár, fimm eða fimmtán? Frægir foreldrar, rithöfundar, stjórnmálamenn, vísindafólk, geta verið höfuðstóll góðra penna en það eru takmörk fyrir hve lengi á eða hægt er að taka af þeim sjóði. Ef farið er of langt er farið að blóðmjólka. 

Með þokkalegri einbeitni er hægt að lesa bókina á rúmlega klukkutíma. Umbrotsaðilinn hefur þurft að hafa talsvert fyrir að teyja bókina í 91 blaðsíðu. Langt er á milli málsgreina, letrið stórt og línubilið talsvert. Margar myndir eru í bókinni og lítið lesefni er á hverri síðu. En bókin slær sítrónuilmi fyrir vit og kallar fram eyjatilfinningar okkar sem elskum Grikkland. Að lestri loknum óskaði ég þess að barnið Ella Stína leysi fjötra konunnar og rithöfundarins Elísabetar. Sólgos sálna í nútíma eru ekki síður áhugaverð en gömul gos.