Greinasafn fyrir merki: Rutarbók

Þessir flóttamenn

ÁvextirGult lauf liggur á götunum. Rauð reyniberin mynda fagurt litaívaf í haustlitasinfóníuna. Tré og runnar hafa náð fullum þroska og fuglar himins uppskera. Menn hafa bjargað forða til hausts og vetrar.

Þótt fæst okkar séum með beinum hætti háð gróðri jarðar lifum við samt í hrynjandi náttúru og megum gleðjast yfir jurtum sem þroskast, í samræmi við köllun sína og skila ávexti sínum til lífkeðju veraldar og fræjum til framtíðar. Rauð ber, fullþroska grænmeti og líka hálfslompaðir, syngjandi þrestir eru fulltrúar lífsins í verðandi veraldar.

Í Biblíunni eru ávaxtaríkar sögur sem ríma við tímann. Það eru ekki úreltar sögur – eins og grunnhyggnir skríbentar halda fram – heldur sögur sem eru svo kraftmiklar og lífseflandi að þær móta og eru erkisögur. Sögur um að við menn megum bera ávöxt í samræmni við eðli okkar og viðmið. Ein þeirra er Rutarsaga í Gamla testamentinu. Texti úr þeirri bók er lexía næsta sunnudags sem er 20. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Í Rutarbók er heillandi frásögn um fólk, um lífið, gildi lífsins, ábyrgð, val, ást, flóttafólk og hvernig hægt er að bregðast við útlendingum. Eru þessi stef nokkuð úrelt, er eitthvað sem minnir þig á vanda og val okkar í nútíma?

Sagan hefst meira en þúsund árum fyrir Kristsburð. Fólk var á ferð, eiginlega á flótta frá Jerúsalem til landsvæðis austan Jórdandals. Þar settist að ísraelsk fjölskylda, kjarnafjölskylda, foreldrar og tveir drengir. Strákarnir uxu upp. Fjölskyldan kom sér vel og aðlagaðist umhverfinu það vel að ungu mennirnir gengu að eiga nágrannameyjar. Heimastúlkurnar gengu hjónaband með útlensku strákunum. En svo urðu hörmungar. Pabbinn og báðir synirnir dóu, konan varð ekkja sem og ungu tengdadæturnar. Í karlstýrðu samfélagi voru þeim flest sund lokuð. Ekkjan ákvað að fara heim og ungu konurnar – sem voru barnlausar – urðu að velja lífsstefnu. Önnur varð eftir og hin fór með gömlu konunni. Hún axlaði ábyrgð umfram alla skyldu.

Sú unga gekk í verk til að bjarga sér og tengdamóður sinni, hreif fólk í nágrenni Jerúsalem og svo varð merkileg ástarsaga, með pólitískum snúningum, siðferðilegum, trúarlegum og menningarlegum pælingum. En Rut var ábyrg í einu öllu, lifði með reisn í ómögulegum aðstæðum og var reynd í flestu. Hún var sem skírð í eldi lífsreynslunnar. Hún var trú yfir litlu sem stóru. Saga hennar er saga hetjunnar. Það var þessi kona sem síðan varð ættmóðir lausnar Ísraels og heimsins – formóðir Davíðs og Jesú Krists. Flóttakona varð formóðir lífsins. Það er djúpgaldur hins guðlega vefs.

Rutarbók er saga um ást, um líf og reisn þrátt fyrir vanda og mótlæti. Saga um að þegar fólk axlar ábyrgð og flýr ekki geta kraftaverk orðið. Ástarjátning Rutar er ekki aðeins dýr lífstjáning heldur hefur verið endursögð um aldir, túlkað tilfinnningar fólk, orðið hvati til þroska og síðan verið tjáð í hjónavígslum fólks af alls konar kynhneigð. Samskipti Bóasar og Rutar eru sem hefðarminni sem ratar til okkar í ýmsum útgáfum s.s. í samskiptum Jesú Krists og konunnar við brunninn. Jesús gaf sig á tal við útlenska konu. Biblíusögur eru lífseigar og til að menn beri ávexti og fræ til framtíðar. Rutarsaga er ástarsaga um landflótta konur en endar sem saga um barn sem fæðist. Og það barn var upphaf sögu um lífið, vonar og hins góða.

Og þá lexíutexti sunnudagsins. Rutarbók, annar kafli. Bóas við Rut:

„Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Útlendingar á nýjum slóðum. Landflótta fólk í veröldinni. Rutarbók segir okkur að aðkomufólk er ekki réttlaust, vont fólk heldur jafn lifandi og við hin. Það þráir öryggi, ást, frið, skilning þrátt fyrir að það sé útlendingar og öðru vísi. Og yfir vakir Guð elskunnar, sem elskar innlenda og útlenda, elskar alla jafnt og vill að við iðkum Guðsástina í samskiptum og tengslum við aðra.

Biðjum:

Fyrir hvert skref sem ég tek í lífi mínu – ver mín leiðarstjarna – þú lífsins Guð

Fyrir allar byrðar lífsins – ver mér styrkur – lífsins Guð

Fyrir allar fjallaferðir ævinnar – gef mér kraft – lífsins Guð

Fyrir allar árnar sem ég þarf að vaða – ver mér styrk hönd, lífsins Guð

Fyrir alla áningarstaði mína ver mér friður – lífsins Guð
Fyrir aftureldingu og sólarlag allra daga ver mér gleðigjafi – þú lífsins Guð

(ensk pílagrímabæn)

Biðjum bæn Drottins: Faðir vor….

Drottinn blessi oss og varðveiti oss, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir oss og sé oss náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir oss og gefi oss frið.

Um Rutarbók sjá ágæta og áhrifaríka prédikun sr. Sigurvins Lárusar Jónssonar.

Íhugun – kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 15. október, 2015.