Getur það verið? Er Rúnar Reynisson raunverulega sextugur? Það getur varla verið. Hann sem er eins og unglingur! Jú, mikið rétt hann fæddist á árinu 1962. Sextugur og sívökull öðlingur.
Ég vissi af Rúnari frá unglingsaldri en kynntist honum fyrst vel þegar við vorum báðir starfsmenn þjóðgarðins á Þingvöllum. Hann var landvörður, gekk í öll verk og var alltaf jafn brattur og ötull. Honum mátti treysta til smárra verka sem stórvirkja. Ég minnist næturvaktar fyrstu helgar í júlí þegar unglingarnir í Reykjavík fengu fyrstu útborgun sumarsins og ákváðu að breyta þjóðgarðinum í útihátíð. Þá var gott að njóta ráðsnilldar Rúnars. Hann horfði óhræddur í augu drukkinna unglinga og hjálpaði þeim að finna svefnpokana sína. Hann bognaði ekki undan hrópum dekraðs stráks úr bænum sem hótaði okkur að pabbi hans myndi reka okkur úr starfi á Þingvöllum. Pabbinn alvaldi kom og sótti son sinn og bað okkur margfaldlega afsökunar á látunum í syninum. Rúnar hélt húmornum í stórræðunum, lægði öldur, kom fólki til hjálpar og leysti alla hnúta greiðlega og farsællega. Á Þingvöllum varð Rúnar meira en landvörður, nánast landvættur. Þaðan í frá vissi ég að Rúnar væri lífslistamaður.
Það kom mér ekki á óvart að Rúnar varð skapandi kirkjumaður. Guðfræðinámið kom honum að gagni í fræðslustarfi kirkjunnar. Hann þorði að hugsa og spyrja nýrra spurninga um starfshætti kirkjunnar og guðfræði. Hann var í framvarðasveit þeirra sem efldu fjölskyldustarf þjóðkirkjunnar á níunda áratug síðustu aldar og síðan. Það var Nessöfnuði mikið happ að Rúnar kom til starfa í Neskirkju. Hann var og hefur verið burðarás í kirkjustarfi í Vesturbænum. Þegar sóknarnefnd og prestum Neskirkju varð ljóst hve fjölhæfur Rúnar var breyttist starf hans. Auk fjölskyldustarfsins var honum falið að stýra skrifstofu kirkjunnar. Skrifstofustjórinn Rúnar hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Neskirkju á þriðja áratug.
Ég var svo lánssamur að starfa með Rúnari í Neskirkju í áratug. Ég dáðist að geðprýði hans í miklum önnum, fjölþættum gáfum hans, óbrigðulum húmor, æðruleysi gagnvart kjánaskap samferðafólks eða sprikli okkar félaga hans, sköpunarkrafti og einbeittum metnaði hans fyrir hönd starfa sinna og safnaðar og heilindum og helgun í starfi.
Rúnar hefur alla tíð kunnað að tjá sig. Af því hann var frjór og íhugull greinandi hafa margar hugmyndir hans ratað í hugleiðingar og prédikanir presta Neskirkju. Margt af því sem Rúnar lagði til í fermingarfræðslu og öðru fræðslustarfi varð að veruleika af því hann gat útfært og sá leiðir.
Á seinni árum hefur Rúnar haft möguleika á að vinna að listsköpun. Tvær myndlistarsýningar hans í Neskirkju, eins og ólíkar og þær eru, hafa opinberað þroskaðan listamann.
Vegna þess hve náið við unnum saman í áratug fylgdist ég með fjölskyldumanninum Rúnari. Honum hefur alla tíð verið umhugað um að þjóna fólkinu sínu og gert með elskusemi og hlýju. Nú hefur hann komið börnum sínum til manns og manndóms. Ástin á heima hjá Rúnari.
Við sem höfum notið Rúnars Reynissonar eigum honum mikið að þakka – ekki aðeins samverkafólk í Neskirkju heldur söfnuður hennar, vesturbæingar og þjóðkirkjan. Fyrir hönd okkar Elínar Sigrúnar og fjölskyldu segi ég: Takk Rúnar Reynisson fyrir gjöfula samfylgd. Guð laun.
18. nóvember, 2022. Myndir sáþ.