Greinasafn fyrir merki: rifið lambakjöt í pítu

Rifið, fjölkryddað lambakjöt

Lambakjöt er dásamlegur matur. Mikilvægt er að standa með íslenskum landbúnaði og bændum og stuðla að sjálfbærni Íslendinga í matarmálum. Því þarf að halda lambakjöti að uppvaxandi kynslóð og þessi réttur hefur reynst mér vel til þess. Það þarf ofurlitla fyrirhyggju ef hægelda á lambakjöt en það er auðvitað mun betra – bragðlega og tilfinningalega. Best er að bera fram í tortillum en líka hægt að nota með hrísgrjónum og litríku salati. Svo er píta einn valkosturinn. 

Fyrir 4-6

2 rauðar paprikur, skornar í fjórðunga og fræ hreinsuð frá (360-400 gr)
2 rauður chilli. Fræ og stilkar hreinsuð frá
1 heill hvítlaukur – þverskorinn
800 gr lambakjöt – bógur er ljómandi eða læri. Kjötið skorið í nokkur stykki. Sinar og fita hreinsuð frá
3 msk ólífuolía
salt and svartur pipar
3 msk tómatþykkni
2 msk malað kúmmín (cumin)
1¼ tsk malaður kanill
½ msk kóríanderfræ kramið (coriander seeds)
4 lárviðarlauf

1 appelsína – þ.e. safinn
500 ml kjúklingakraftur
1½ msk límónusafi
1½ msk (ca 5gr) grófsaxaður kóríander
1½ msk hlynsíróp
8-10 mjúkar tortillur – hitaðar fyrir notkun. Nota oft grill til snögghitunar. Svo er líka hægt að hita á plötu eða við vægan gashita.
2 vorlaukar, skornir. Mæli með að fín- og lang-skera í ca. 2 cm búta

Ofninn settur á grill-stillingu. Paprikur, chilli og hvítlaukshelmingarnir settir á plötu – mæli með að setja bökunarpappír undir. Baka í ca 12 mínútur og fylgjast með og snúa jafnvel þar til bökunareinkenni koma í ljós.

Setja stóra pönnu á eldavélina og steikingar-ólífuolíu á pönnuna og síðan kjötið. Salta vel og einnig pipra vel með svörtum pipar. Brúna kjötið í 8-10 mínútur.

Hægt er að langsteikja á lágum hita á eldavél en ég set yfirleitt kjötið frekar í ílát sem má vera í ofni. Stundum nota ég fallegan pottjárnspottinn (mér finnst gaman að sjá hann í ofninum J) eða í stórt steikingarfaat. Þá er tómatþykkninu, kúmmín, kanil, kóríanderfræi og lárviðarlaufi smellt yfir kjötið. Þá er bætt við kjúklingasoðinu, bökuðu paprikunum, chilli og hvítlauk (þ.e. mjúka kjarnann úr hvítlauknum en pappírs-hlutanum er hent). Svo má krydda í viðbót með salti og pipar.

Langsoðið á lágum hita í nokkrar klst. Tilbúið þegar auðvelt er að skilja kjötþræði úr stykkjum – sem sé rífa. Ég hef svona rétt oft í ofninum í 5-6 tíma á eitt hundrað gráðum. Þegar komið er að máltíð er lokið tekið af. Appelsínu, límónusafa, kóríanderlaufi og hlynsírópi bætt út í.

Notið tortillur en það er smekksatriði hvernig maturinn er framreiddur, hvort kjötið er tekið upp úr sósunni og rifið og soðið og maukið borið fram með. Notið salat, vorlauk eða annan fínskorinn lauk, fínskornar paprikur og salat. Sýrður rjómi eða majó er ljómandi – líka chilli-majó. Stundum set ég upphitaða hrísgrjónaafganga með. Þetta er glæsilegt næðifæði borið fram sem skyndibiti.

Verði ykkur að góðu og takk íslensk bændastétt.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.