Greinasafn fyrir merki: rakaskemmdir

Lífið er svo hlykkjótt – Kristín Sigurðardóttir og lífsafstaðan

Hvað gerist þegar við erum slegin niður, verðum fyrir áfalli eða slysi? Krist­ín Sig­urðardótt­ir, slysa- og bráðalæknir, er fyrirmynd um skapandi lífsleikni. Hún hef­ur starfað sem slysa- og bráðalækn­ir. Hún hefur búið og unnið í Bretlandi, á Kana­ríeyj­um og á Íslandi. En allt í einu varð Kristín fyrir áfalli. Hún þoldi ekki mygluna á Landspítalanum. Eins og margt starfsfólk spítalans varð hún að hætta vinnu þar vegna veik­inda sem rakaskemmdir ollu. Þessi kraftmikla og heilsuhrausta kona hrundi heilsufarslega. Í heilt ár var hún að gera sér grein fyrir að ytri aðstæður á vinnstað hennar ollu heilsubresti hennar. Átti hún að reyna að þrauka til að vinna við það sem henni þótti mikilvægt og skemmtilegt? Valið stóð hjá henni, eins og svo fjölmörgum öðrum, milli heilsu og vinnu. Hún valdi heilsuna, skráði sig í leiðsögumannanám og hóf störf í nýjum greinum. Niðurstaða hennar er að lífið sé hlykkjótt.

Hvað gerist þegar fólk lendir í áfalli. Margir verða reiðir og finna sökudólgana í kringum sig, festast reiðinni. En Kristín sagði: „Ég er svo mik­il Pol­lý­anna í mér að ég hef ekki lagst í reiði. Ég meira að segja neita að hugsa um mig sem veika, held­ur segi ég bara eins og er, að ég þoli ekki sumt hús­næði. Þá forðast ég það bara og geri allt sem ég get til að halda mér hraustri. Ég var líka lán­söm að áður en ég veikt­ist var ég rosa­lega hraust og gat hlaupið upp hvaða fjall sem er. Fyrst var ég mjög svekkt og sorg­mædd að hafa misst þessa hreysti mína. En það breytt­ist og seinna varð ég þakk­lát fyr­ir að hafa í raun verið svona hraust áður, því það hef­ur hjálpað mér að þola veik­ind­in bet­ur. Ég horfi á það sem ég hef og er þakk­lát fyr­ir að vera með svona góða fjöl­skyldu og vini, hreyfigetu og að geta stundað úti­vist.“

Lífsafstaða skiptir máli. Við veljum fæst af áföllum okkar eða slysum. En við höfum alltaf val um hvernig við bregðumst við þeim. Það er þungbært að hrekjast úr vinnu sinni. En þegar valið stendur milli heilsu og vinnu er mikilvægt að flýja ekki heldur horfast í augu við vandann. En í kreppum eru líka tækifæri. Kristín var opin fyrir hlykkjóttum leiðum lífsins. Þakklæti fyrir styrkleikana hjálpar við að bregðast við kreppunum. Þannig opnast framtíð.

Takk fyrir Kristín Sigurðardóttir.

Viðtal við Kristínu í sunnu­dags­blaði Mbl, 3. maí 2020. Ásdís Ásgeirsdóttir. Meðfylgjandi mynd er einnig tekin af Ásdísi, sem er frábær ljósmyndari og líka penni. Takk Ásdís. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/05/03/lifid_er_svo_hlykkjott/