Greinasafn fyrir merki: Ragnar

Anna Rögnvaldsdóttir – alltaf lífsins megin

AnnaAnna var fjölhæf og vel tengd. Í henni bjó geta til að kanna hið fjölbreytilega og nýta það til góðs og fyrir lífið. Hún vann ekki aðeins við að fræða um staðreyndir, heldur miðlaði hún mörgu, litríku og skemmtilegu. Hún kenndi börnum en líka þeim eldir og raunar alls konar fólki. Hún lét sér ekki nægja efnisheim heldur var opin fyrir víddum undurs, engla, andlegrar tilveru, söngs og eilífðar.

Anna lét ekki þröngsýni annarra spilla eigin útsýn. Hún hafði gaman af því sem lífið bauð henni, naut þess að skoða hið smáa sem og hið stóra, það sem var nærri og hins einnig sem var í fjarskanum. Næmni, styrkur, tilfinning fyrir hinu heila sem og hinu brostna ófust saman í kærleiksríka persónugerð Önnu, sem var veitul, gjafmild, umhyggjusöm og kærleiksrík. Hún var næm og ræktaði með sér tilfinningu fyrir öllu því sem var aumt og sá þau, sem þörfnuðust aðstoðar og stuðnings.

Anna Rögnvaldsdóttir var alltaf lífsins megin.

Upphaf og æfi

Uppeldisumhverfi Önnu var ævintýralegt, alla vega þótti okkur það sem ólumst upp á Grímsstaðaholtinu á sjötta og sjöunda áratugnum. Á bernskuárum Önnu var Holtið jafnvel litríkari og fjölbreytilegri veröld en nú er. Þar bjó fólk úr flestum stéttum og menningarkimum samfélagsins, fólk með fjölbreytilegan bakgrunn og fólk sem sinnti mjög ólíkum störfum.

Allir stjórnmálaflokkar áttu sér fulltrúa í samtali og átökum. Á Holtinu varð til fyrsta sellan á Íslandi og í hverfinu bjuggu háskólakennararnir. Setuliðið hafði mikil áhrif á mannlífið á stríðsárunum og þegar Anna fór að skokka um svæðið voru þar enn margar herbyggingar. Í hverfinu var ekki bara ein tegund kristni og Neskirkja. Rétt hjá heimili Önnu á Fálkagötunni var trúboðsstöð rekin af hjólandi kristniboða, sem var með biblíuvers á spjaldi á hjólinu. Stutt var í fjöruna, stutt á Reykjavíkurflugvöll, í Tívolí í Vatnsmýrinni og stutt niður í miðbæ. Landleiðir voru með rútuverkstæði sín þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Og miðaldir áttu sér afleggjara í húsbyggingum hverfisins. Stutt frá heimili hennar var torfbær við Suðurgötu. Hann var ekki rifinn fyrr en Anna var komin vel á legg. Mikill fjöldi barna var í flestum húsum við Tómasarhaga, Hjarðarhaga og í húsunum við göturnar sem kenndar voru við fugla; Fálkagötu, Þrastargötu, Smyrilsveg og Arnargötu. Grimsby var nærri heimili hennar. Fjöldi smáfyrirtækja voru í hverfinu.

Inn í þennan litríka og oftast skemmtilega heim fæddist Anna Rögnvaldsdóttir þann 1. nóvember, árið 1953. Foreldrar hennar voru Rögnvaldur Ragnar Gunnlaugsson kaupmaður (1920-1998) og kona hans Hulda Ósk Ágústsdóttir, f. 1931. Ragnar lést fyrir sextán árum, en Hulda lifir dóttur sína og býr enn á bernskuheimili Önnu.

Anna var elst í hópi þriggja alsystkina. Fjórum árum yngri er Ragna, sem fæddist árið 1957. Og Gunnlaugur fæddist svo árið 1961. Áður en þau Ragnar og Hulda hófu hjúskap átti hann af fyrra hjónabandi dæturnar Sigríði Steinu, Sigríði Báru og Þórdísi.

Afi, amma og Maja móðursystir í Lækjargötu tóku þátt í uppeldinu.

Hulda og Ragnar ráku merkilega verslun á horni Fálkagötu og Suðurgötu og allir í hverfinu vissu hvar Ragnarsbúð var. Nærri voru Stebbabúð, Árnabúð og bakarí við Fálkagötuna og svo var KRON við Dunhaga auk sérvöruverslana. Samkeppnin í verslungeiranum var því hörð í hverfinu og allir vissu að vöruúrvalið var gott í Ragnarsbúð. Og svo var líka þekkt að Ragnar gerði sér ekki mannamun. Prófessorarnir nutu sömu fyrirgreiðslu og alúðar og hin sem stóðu höll í lífsbaráttunni. Í Ragnarsbúð var iðkuð mannvirðing og Anna fékk í arf jákvæða mannsýn og var mannúðleg í samskiptum við fólk.

Anna varð fljótt öflugur foringi og varð systkinum sínum ekki aðeins elskuleg stóra systir heldur eins og lítil mamma. Hún sótti skóla í Melaskóla sem var þá sem nú – öflug menntastofnun. Svo lá leiðin í Hagaskóla og þar á eftir í Kennaraskólann. Anna var félagslega hæf og eignaðist því vini – ekki bara í húsunum í kring heldur líka í skólunum. Svo stækkaði kunningjahópurinn eftir því sem hún eltist.

Anna lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1973 og kenndi við ýmsa grunn- og framhaldsskóla þaðan í frá og til ársins 1996. Eftir að hún lauk kennararprófi hleypti hún heimdraganum og hóf kennslu í Keflavík. Þar var hún í nokkur ár og flutti svo í bæinn og kenndi við Fellaskóla og fleiri skóla.

Önnu hentaði ekki að staðna eða vera í einni rás í lífinu. Hún vildi gjarnan bæta við sig, auka menntun sína og prófa nýtt. Um tíma bjó Anna í Tulsa, Oklahoma í Bandaríkjunum með manni sínu og stundaði nám í háskóla í þeirri borg á meðan bóndi hennar lærði til flugvirkja. Og á árunum1996-98 stundaði Anna nám í listmeðferð í háskólanum í Hartfordshire í Englandi. Eftir að hún útskrifaðist starfaði hún ýmist við almenna kennslu eða listmeðferð fram til ársins 2013 þegar hún lét af störfum vegna veikinda.

Þórarinn, Ragnar og staðirnir

Svo var það Þórarins þáttur Sigurgeirssonar. Þórarinn sá Önnu í fyrsta sinn þegar hún kom á heimili hans á Sólvallagötunni og átti erindi við systur hans. Þórarinn sá hana í sjónhendingu en gerði sér þó grein fyrir að þar fór “flott stelpa” – eins og hann orðaði það. Þórarinn var síðar verkstjóri í Saltvík á Kjalarnesi. Anna kom þangað í heimsókn til að hitta systur sína, Rögnu, sem var í vinnuhópnum hans Þórarins.

Hópur af ferðaglöðu, ungu fólki ákvað að fara saman í Evrópureisu og á árinu 1976, fóru sex af stað til Kaupmannahafnar. Í þeim hópi voru Anna og Þórarinn. Þau fóru utan sem einstaklingar en komu heim sem par. Og þegar hópurinn hafði ekið á Volkswagen rúgbrauði frá Kaupmannahöfn, yfir Þýskaland, farið um Austurríki, Ítalíu, Frakkland og England voru þau Anna og Þórarinn farin að sjá hvort annað mjög vel. Þegar þau voru komin heim til Íslands flutti Þórarinn með tannburstann sinn og sitthvað fleira inn til Önnu. Síðan þá var hann kletturinn hennar, sól og ljósgjafi. Og Anna var Þórarni öflugur stuðningur og í henni átti hann alltaf tryggan bandamann sem hvatti hann til mennta, dáða og starfa.

Um tíma bjuggu þau Anna og Þórarinn á Sólvallagötu, voru sjö ár í Breiðholti og fluttu svo í Selás árið 1987 og bjuggu þar síðan.

Sonur þeirra Önnu og Þórarins er Ragnar. Hann fæddist árið 1980 og er flugvirki eins og faðirinn. Ragnari var Anna hin besta móðir, kennari og vinur.

Kveðjur

Ég hef verið beðin að flytja þessum söfnuði kveðjur þeirra sem ekki geta verið við athöfnina. Helga og Helgi á Akureyri þakka fyrir vináttu Önnu og biðja fyrir samúðarkveðjur til ættingja og vina. Þá þakka Guðrún, Árni og Hjörtur frá Köldukinn fyrir allar góðu samverustundirnar þegar Anna var í sveit hjá þeim.

Og vert er – á þessum tímamótum – að þakka öllum þeim sem hafa verið Önnu stuðningur fyrr og síðar, s.s. starfsfólki á Líknardeildinni. Auk eiginmanns og sonar hafa systkini Önnu, Ragna og Gunnlaugur, stutt hana og þjónað umfram alla skyldu. Lof sé þeim og þökk.

Minningarnar um Önnu

Hvernig manstu Önnu? Hvað kemur upp í huga? Manst útlit hennar, glæsileika?

Manstu sálargáfur hennar og eigindir? Manstu hve næm hún var, líka viðkvæm? Hún var tengd sínum innri manni og tók mark á víddum sálar og anda. Hún var jafnvel berdreymin og tók mark á draumförum og átti í engum vandræðum með að kafa í táknmál og tilfinningatengingar.

Manstu skopskyn Önnu, að hún gat haft skemmtilega orð á hinu óskemmtilega – og jafnvel gert hið alvarlega og ógnvænlega ofurlítið léttbærara með því að varpa óvæntu ljósi á málin?

Anna var kona orðsins, las mikið – hafði breiðan bókmenntasmekk. Og svo átti hún líka til að skrifa vísur á blað sem hún setti í kompu sína og skúffur. Manstu hve orðheppin hún gat verið?

Manstu hve þjónustufús hún var ávallt og vildi öllum hjálpa? Manstu hjartalag hennar og umhyggju og að hún var reiðubúin að leggja hart að sér til að létt öðrum lífið. Og manstu hve öflug elsta systir hún var og vildi tryggja velferð sinna?

Og svo veislukonan: Getur þú dregið fram í huga veislurnar í hennar húsi og matargnóttina? Anna skipulagði sínar veislur og vandaði til skreytinga og matar.

Og svo kunni hún að dansa. Vissir þú að hún var virkur þátttakandi í Þjóðdansafélaginu á sínum tíma?

Manstu hve listræn Anna var, drátthög, handlagin og kunnáttusöm á mörgum sviðum sjónlista? Hún var sífellt að bæta kunnáttu sína og þjálfaði sig á nýjum sviðum. Því var hún sífellt að eflast sem skapandi listakona og listmeðferðarmenntunin var ekki aðeins í þágu þeirra sem hún þjónaði heldur einnig henni sjálfri – gaf henni dýpt og túlkun sem styrkti hana á eigin þroskaferli.

Og manstu söngvarann Önnu? Kórsöngurnn varð henni fyrr og síðar gleðigjafi. Hún lærði að syngja í Tónlistarskóla Kópavogs, gekk til liðs við Óperusmiðjuna, söng í Kvennakór Reykjavíkur og svo Vox Feminae. Nú syngja vinkonur hennar yfir henni látinni. Þökk sé vinkonum hennar og Guð styrki þær.

Skilin og ferðin inn í eilífðina

Anna hóf lífsferð sína á Grímsstaðaholtinu og lauk henni við Kópavoginn. Skömmu áður en hún dró andann í síðasta sinn syntu tveir hvítir svanir á voginum fyrir framan gluggann hennar. Svanirnir urðu þeim friðartákn, sem voru nærri. Hulda, móðir Önnu hringdi, og bað um að kysst yrði á enni dóttur hennar. Og svo hvarf Anna frá Þórarni og öllum ástvinunum inn í himininn.

Anna málar ekki meira. Hún passar ekki lengur upp á strákana sína eða dekrar við systurdætur sínar. Hún fær ekki að njóta hússins sem verður smíðað næsta sumar norður í Svarfaðardal. Hún eignast engar hænur þar eða hunda og heldur enga ketti heldur. Hún túlkar enga drauma eða skreytir veisluborð. Nú er hún farin.

Og leyfðu henni að fara inn í himininn. Hún trúði á Guð, hún var viss um að lífið væri ekki búið þegar hinu tímanlega lyki. Hún er farin inn í þá veröld, þar sem litirnir eru stórkostlegir, þar sem þokki formsins færa að njóta sín og þar sem ástvinir hennar syngja í risastórum kór eilífðar. Og þar verður söngur því kristnir menn trúa að líf og upprisa Jesú Krists hafi opnað himinveröldina og boðskapur hans sé merkingarbær – að lífið lifir og því beri að syngja. Anna má lifa því lífi og syngja eilífarsöngva.

Guð geymi Önnu og Guð geymi þig.

Amen

Útför frá Fossvogskirkju, föstudaginn, 19. desember, 2014. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.