Greinasafn fyrir merki: ráðsmaður

Umboðsmaður og ráðherra

Er ekki alveg úrelt að auglýsa eftir ráðsmanni? Hefur þú einhvern tíma lesið eða heyrt í atvinnuauglýsingum: Ráðsmaður óskast! Er auglýst eftir slíku fólki. Er það ekki alveg úrelt? Og veit einhver hvað ráðsmaður gerir? Hvernig skilur þú hugtakið?

Þegar orðið er gúglað koma nokkur dæmi í ljós og gjarnan í tengslum við að setja einhvern stjóra vegna búskipta eða fjármálauppgjörs. Eins og vænta mátti – af því orðið kemur fyrir í dæmisögum Jesú – kann Google að nefna nokkur dæmi í tengslum við trú og Biblíuna.

Siðferðisþreyta

Þegar farið er að skoða nánar notkun orðsins kemur í ljós að starfsheitið ráðsmaður er að hverfa úr máli og lífi fólks og önnur orð að koma í staðinn. Af hverju skyldi svona merkilegt og gott og merkingarþrungið orð vera að hverfa úr málinu? Mig grunar að ein af ástæðum sé hægfara þróun í vestrænum samfélögum í marga áratugi, þróun sem hægt er að kalla siðferðisþreytu. Atvinnubreytingar skákuðu gömlum viðmiðum og siðferði til hliðar. Þegar auglýst var eftir fólki til vinnu var ekki venjan að vísa til Jesú Krists nema ef ráða átti kirkjulega starfsmenn. Og þar sem ráðsmannshlutverkið var tengt siðferði í Biblíunni þá varð hugtakið smátt og smátt óþjált og varla nothæft. Þegar samfélag tuttugustu aldar var orðið þreytt á siðferði þá datt þetta gamla starfsheiti út og önnur starfsheiti komu í staðinn.

Stjórinn

En hver var hin forna merking hugtaksins ráðsmaður? Hvað gerði ráðsmaður? Jú, ráðsmenn stjórnuðu og tóku ákvarðanir um verk, fjárnotkun o.s.frv. Slíkt fólk er nú nefnt stjórnarmaður, forstjóri, framkvæmdastjóri, deildarstjóri, yfirmaður, staðarhaldari, stjórnarformaður, stjórnmálamaður, umboðsmaður og embættismaður – svo nokkur séu nefnd. Og þetta fólk hefur margvíslegum umsýsluhlutverkum að gegna. Það gætir hagsmuna og stýra málum fyrir hönd þeirra sem eiga. Þessu fólki er auðvitað ætlað að axla ábyrgð og skila vel af sér. En höfum við þá tæmt hlutverk ráðsmanna? Eru þau aðeins umsýsluhlutverk vegna fjármuna og eigna?

Hvernig er með fjölskyldumálin þín? Hvað um vinnuna? Hvernig er með tengslin við annað fólk, líka þau sem eru allt öðru vísi og hinsegin? Kemur ráðsmennskan eitthvað þar við sögu? Hvað með pólitík og stóru siðferðisákvarðanir samtímans, náttúrverndarmál og framtíð jarðarkúlunnar? Og hvað um foreldra ungra barna? Hvað um þau sem sinna mannauðsmálum og starfsmannamálum? Gegna þau einhverju hlutverki ráðsmennsku?

Beint frá Jesú Kristi

Á fyrri öldum voru hlutverk yfirmanna alltaf tengd siðferðisábyrgð. Það var einfaldur kristilegur barnalærdómur að tengja völd og gott siðferði – hvort sem furstar, greifar, kóngar og keisarar vildu eða ekki. Það var kristileg skylda þeirra að vera dygðugir í lífi og verkum. Sálmarnir, bækurnar, guðfræðin og prestarnir minntu á að ráðsmaður ætti samkvæmt boðskap Jesú Krists að nota vald sitt með ábyrgð. Vald og siðvit ættu og skyldu fara saman.

Ef orðið ráðsmennska er orðið lítið notað og þar með að hverfa úr máli þjóðarinnar er íhugunarefni hvort siðferðið rýrnar líka. Við getum t.d. spurt okkur hvort fólgin sé einhver siðferðisvídd í orðinu fjármagnseigandi eða orðunum fjárfestir og forstjóri. Flestir skilja og vita að stjórn fólks og fjár verður aldrei farsæl án gilda. Siðlaus stjórn drepur eða veldur þjáningu. Stórfyrirtæki setja sér siðareglur vegna þess að siðsemi í viðskiptum borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Siðlaus, siðbrengluð eða siðskert fyrirtæki tapa alltaf á viðskipum. Fyrirtæki eins og Boeing og Volkswagen urðu fyrir gífurlegu tjóni vegna þess að þau fóru í störfum sínum á svig við gott siðferði og siðareglur. Stjórnvöld, hreyfingar og fyrirtæki setja sér orðið reglur um viðmið, ferla og mörk. Ráherrar ríkisstjórnar Íslands eru t.d. bundnir í störfum sínum af siðareglum sem settar voru í árslok 2017. Þar kemur t.d. fram að ráðherra má aldrei láta persónulega hagsmuni rugla opinber störf sín, sem alltaf eiga að vera í þágu almennings fyrst og fremst. Ráðsmennskan er sem sé kjarni þjónustu ráðherrans og á að stýra stefnu, já öllum ákvörðunum.

Ráðsmennskan

Guðspjall dagsins er um eignir og ráðsmennsku. Til hvers eru eignir? Ef menn eiga hundruð milljóna er það ekki bara einkamál þeirra hvað þeir gera við peningana? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga? Börnin, framtíðarkynslóðir, eiga kröfu á hendur okkur um góða meðferð náttúru og eigna. Við þurfum að skila af okkur því sem við höfum að láni, fé, verkefni, náttúru. Það skiptir máli hvernig við lifum og hverju við skilum. Við berum siðferðilega ábyrgð, líka gagnvart framtíðinni.

Jesús segir í guðspjalli dagsins sögu. Hún er ein af 38 dæmi- eða líkingasögum sem hafðar eru eftir Jesú. Í ræðum og fræðslu talaði hann gjarnan um hagnýt mál. Mörgum sem fara að lesa í Biblíunni kemur á óvart hversu oft Jesús talar um peninga. Helmingur smásagna hans varðar notkun á fjármunum. Í texta þessa sunnudags segir Jesús frá peningamanni, sem var nappaður því hann fór illa með. Honum var sagt upp en átti að vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat ákveðið sjálfur með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann fékk að ráða hvað hann gerði. Og hann ákvað að vinna lítið fyrir vinnuveitandann en nota tímann aðallega fyrir sjálfan sig. Hann var bara sjálfhverfur en sýndi snilldartakta. Það eru jú engin takmörk fyrir því sem fólk gerir fyrir sjálft sig. Karlinn kallaði í alla, sem skulduðu vinnuveitanda hans eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Tilgangurinn með þessu athæfi var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann greiða inni hjá þeim, hönk upp í bakið á skuldaraliðinu.

Egódólgar eða góð gagnrýni

Hver er nú tilgangur þessarar sögu? Er Jesús að kenna fólki að plata? Kennir Jesús prettavit? Örsaga Jesú er tvíræð, áleitin og umhugsunarverð. Fólk veit ekki hvernig eigi að skilja söguna. Er þetta gamansaga, brandari eða alvörusaga? Á að hlægja að henni eða taka hana alvarlega? Sögur Jesú teygja á og markmið þeirra er að fá fólk til að hugsa, bregðast við, dýpka skilning, rækta lífsleikni og bæta líf fólks. Jesús minnir einfaldlega á að fólk eigi ekki að vera heilagir sakleysingjar heldur með meðvitund gagnvart eigingjörnu fólki. Ljóssins börn eigi að vera raunsæ á sjálf sig, annað fólk og hve lífið er margbreytilegt og tvíbent. Jesús hvetur til að vel sé fylgst með hinum undirförulu. Ekki til að apa eftir þeim heldur til að vera það sem þau eru ekki. Gerið ekki það sem þau gera! Í stað þess að láta peninga fylla huga og líf notið þá í annarra þágu, til að hjápa öðrum. Þá verður til fjársjóður á himnum.

Jesús dregur vel fram, að viðskipti eru oft lituð af sjálfselsku og að embættismenn geta verið lélegir þjónar og uppteknir af eigin völdum, stöðu og fé. Freisting valdamanna er að gerast egódólgar. Prettavitið getur orðið gríðarlegt, en þjónustan léleg og réttlætið fótum troðið. Orð Jesú er því ekki lífsfjarlæg himneska. Kristnum mönnum er vissulega ætlað að tala um það sem vel er gert, benda á framúrskarandi þjónustu, framfarir og samfélagslegar bætur, en hika ekki heldur að ræða hvað fer úrskeiðis og hvað er hugsanlega úr takti við trú, gildi og siðferði í fjármálageiranum, náttúrumeðhöndlun, stríðsrekstri og samfélagi. Trú upplýsir menn um líf og lífsstefnu.

Sögur Jesú Krists og öll kristin fræði eru fyrir fólk, í þágu lífs fólks og til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Þó ekki sé rædd flokkspólitík eða dægurpólitík í kirkjunni er alltaf rætt um grunnþættina, hið mikilvæga og þar með einnig um skuggahliðar mannlífsins, einstaklinga og kerfa. Já, Jesús vildi ekki að við værum kjánar og sakleysingjar heldur ábyrg og elskurík og þyldum að horfast í augu við og tala um bresti og slæmt siðferði.

Himnesk glópska eða skerpa?

Trú er tengsl sem gefur sýn og hlutverk manna í heimi og framtíð. Að trúa er að tengja við það mesta, besta og stórkostlegasta í tilverunni. Og trú á aldrei að tapa sér í himinglápi, heldur reynir trúmaðurinn að temja sér – alla vega að æfa sig í – að horfa á heiminn með augum Guðs. Það merkir að vera fulltrúi Guðs í veröldinni, samverkamaður, þjónn lífsins í veröldinni og stuðla að góðu lífi.  

Hvort sem þú notar orðið ráðsmaður eða ekki hefur siðferðisdýptin ekki slaknað. Við erum öll ráðsmenn í lífi okkar, stjórn, peningamálum, kirkju, samfélagi og náttúru. Orðið ráðsmaður er kannski týnt en hlutverkið ekki, það er þitt og okkar svo lengi sem við lifum.

Amen

Hallgrímskirkja 9. ágúst.

Meðfylgjandi mynd tók ég á aðalhóteli Santander á Spáni. Þessi gömlu salt og pipar- staukar voru búnir að þjóna mörgum. Þeirra siðferði var skýrt og klárt. 

A-textaröð

Lexían: Orðs. 2.1-6

Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku
og geymir boðorð mín hjá þér,
svo að þú ljáir spekinni athygli þína,
hneigir hjarta þitt að hyggindum,
já, ef þú kallar á skynsemina
og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim sem að silfri
og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er,
og öðlast þekking á Guði.
Því að Drottinn veitir speki,
af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Pistillinn: 1. Pét. 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lk. 16.1-9

Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.