Greinasafn fyrir merki: Porvoo-kirknasamband

Porvoo-kirknasambandið

Fundur höfuðbiskupa Porvoo-sambandsins var haldinn í Kaupmannahöfn 12.-14. október 2017 (sjá skýringu afast í greininni). Ætlunin hafði verið að funda í Litháen, en fundurinn var færður til Danmerkur og var haldinn í Andrésarkirkjunni í Kaupmannahöfn. Helgihald var þar og í Frúarkirkjunni. Tengslahópurinn samtakanna, PCG, hélt fund sinn til undirbúnings og úrvinnslu í húsakynnum biskupsstofu Kaupmannahafnar. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, boðaði forföll og ég var því eini Íslendingurinn á fundinum.

Trúarlöggjöfin

Hans Gammeltoft Hansen sagði frá löggjöf um trúmál í Danmörku og greindi að löggjöf um stofnanir og einstaklinga. Margt hljómaði kunnuglega íslenskum eyrum þegar rætt var um sögu kirkju- og trúarlöggjafar, Grundloven 1849 og löggjöf um trúfélagafrelsi í Danmörk fyrir liðlega öld, sem hafði mikil áhrif á þróun kirkju og trúarlöggjafar á Íslandi. En Danir hafa ekki tekið sömu stóru sjálfstæðisstökk í kirkjumálum og Ísland, Noregur og Svíþjóð og hlustuðu því grannt á reynslu okkar hinna Norðurlandaþjóða. Anglikönunum þótti þetta einnig áhugaverður jús.

Kirkja á tali

Marianne Christensen sagði að brýnasta hætta kirkjunnar nú væri að draga sig í hlé, staðsetja sig utan samfélags og lifa þar í eigin menningarkima. En kirkjan eigi ekki gera forsendur hins veraldlega samfélags sínum nema þær rími við hið kristna erindi. Hún ræddi m.a. um búrkur og fatnað kvenna og sagði að valdamenn sem vildu alltaf líka stjórna tísku og fatnaði kvenna. Þá ræddi hún um pílagrímastaði og minnti á að níu milljónir manna sæktu heimsaltarið í Fatíma. Fólk á ferð væri alltaf fólk í leit að merkingu. Þá ræddi M. Christensen – til upplýsingar anglikönum – um hið jákvæða og gleðilega í lútherskunni. Hún minnti á áherslu lútherana á tónlist, sem ræki burt hið djöfullega og hleypti gleðinni að. Guð væri alltaf gleðimegin – lífsmegin skv. lútsherskunni – og styður hið góða. Hlutverk kirkjunnar er að tala við Guð. Kirkjan á ekki aðeins að starfa í söfnuðunum eins heldur líka að vera í lifandi samvinnu eða samtali við samfélagið. Hún eigi beita sér fyrir velferð fólks, að allir séu virtir og heyrðir. Kirkjan eigi ekki aðeins að vera vörður hinna andlegu og þröng-trúarlegu efna, heldur einnig að sinna samfélagslegri gildavörslu. Hún væri siðferðisvörður hverrar samtíðar. Hún eigi að þora að gagnrýna, rífa niður og byggja svo upp. Í krafti Jesú á kirkjan að þora að vinna í samtíð og í miðju samfélagsins og líka varpa upp gildum og knýja framgang hins góða fyrir framtíð.

Lútherskan

Helga Byfuglien talaði um framlag lútherskunnar í post-modern samfélagi. Á tíma uppþota og gríðarlegra breytinga halda lúthersk upp á fimm hundruð ára afmæli siðbótar. Og nú er fullkomin tími til að vera kirkja – einmitt vegna ástandsins í heiminum. Lútherska fjölskyldan vex í suðri, en í norðri eru allt aðrar aðstæður. En áherslan á öllum tímum er á hið sama, fagnaðarerindið. Frelsuð vegna náðar Guðs. Það er erindið, sem kirkjan á við allt fólk og alla aldurshópa. Frelsuð vegna elsku Guðs. Erindi kirkjunnar er ekki að gera sjálfa sig að forsendu heldur lifa í krafti tengslanna við Guð. Kirkjan hættir ekki að eiga erindi til lífs þó hið opinbera hafi tekið að sér mörg hlutverk sem kirkjan gegndi áður. Enn hefur kirkjan ómengaða skyldu að tala spámannlega – um öll hin jaðarsettu, flóttamenn, öll þau sem líða og eru vanvirt. Það verður bara að hafa það þó nokkrir stjórnmálamenn í Noregi telji kirkjuna vera vinstri sinnaða. Meðan hún er trú hinu kristna erindi munu alltaf einhverjir uppnefna kirkjuna og gera lítið úr málstað hennar.

Kölluð til nýs skilnings

Justin Welby talaði um Brexit og breytingar á tengslum Englands og Evrópu. Hann líkti kirkjunni við áhöfn Titatnic eftir að skipið rakst á ísjakann. Brexit verður og verkefnið er ekki að gera hið besta úr ómögulegum aðstæðum, heldur vera blessun í kreppunni. Bretar fara úr Evrópusambandinu en ekki út úr Evrópu. Menningarleg og kirkjuleg tengsl hafa verið mikil og um aldir. Bretar hafa alltaf verið smeykir við meginland Evrópu. Er það ástæðan þess, sem knýr áfram Brexit-ferlið? Guðfræði er oft mótuð af staðsetningum, sérstökum aðstæðum og samhengi. Brexit er hin hliðin á hinu breska. Bretar voru um aldir með augu á fleiru en menginlandi Evrópu. 1/3 heimsins var lengi breskur, þ.e. undir yfirráðum Englands. Bretar réðu stórum hluta hins múslimska heims og hagsmuni og gróðasjónarmið voru hreyfiaflið að baki. Kristindómur og trúboð voru oft aðeins viðhengi við fjármálahagsmuni. Kristnin á nú undir högg að sækja í hinum breska heimi. Aðeins 1,8% sækja kirkju – að vísu 6 milljónir á jólum. En þótt sóknin sé lítil er bergmál kristninnar hljómmikið í menningunni. Kirkjurnar í Evrópu verða að styrkja samstarf – Porvoo er ekki markmið heldur áfangi. Við erum kölluð til að vera með þeim sem eru okkur ósammála. Svo það er eins gott að fólk sætti sig við það og hugi að því hvernig er hægt að umlíða þau sem eru ósammála. Við, guðfræðingar og kirkja, erum kölluð til nýs skilnings á því hvað merkir að trúa, vera andleg vera og þar með að vera kristin kirkja.

Trú í samfélögum Evrópu.

Af þessum upptöktum urðu líflegar umræður. Dæmi voru nefnd úr héraði og undirritaður sagði frá gliðnun og þróun íslenskrar menningar sem á sér hliðstæður víða í hinu evrópska samhengi. Margir hugsuðu síðan upphátt um breytingar kirkjulífs og trúartúlkunar og iðkunar í Evrópu og sögðu sögur úr sínu heimasamhengi. Rætt var um breytingar á mannskilningi, þ.e. aukna einstaklingshyggju í hinum evrópsku samfélögum. Fundarmenn voru sammála um að kirkjustjórnir lútherskra og anglikanskra gætu haft meira samráð um stór siðferðileg, trúarleg og pólitísk mál. Raunar ættu kirkjurnar að koma sér upp samtalsvettvangi.

„Við eigum að hræðast fólk sem ætlar að ýta Guði inn í horn og verja Guð þar fyrir heiminum.“ Við erum vön að vera í miðjunni á samfélögum okkar, en munum þurfa að venja okkur við að vera á grensunni – periferíunni. „Ef ljósið kemur inn up bakdyrnar – þá verum bakdyrnar. Ef ljósið kemur inn um aðaldyrnar. Þá verum aðaldyrnar.“ Minnt var á vanda allra kirkna Evrópu varðandi borgirnar: Fólk er á hreyfingu í borgunum og raunar hverfur kirkjunum í þeytingnum. „Drop-in“ skírnir og giftingar eru tilraunir kirkna á Norðurlöndum til að svara þörfum, lækka þröskulda og tryggja ódýra kirkjulega þjónustu. Þar sem vel er unnið er ekkert “ódýrt” – í merkingunni lágkúrulegt – við þessa „drop-in“ þjónustu.

Bænaefni

Thy kingdom come – Gott efni sem Church of England heimilar Porvoo-kirkjunum að nota að vild. https://www.thykingdomcome.global/prayerresources#individuals

https://www.thykingdomcome.global/resources/33

Drop-in á menninganótt

10 þúsund manns fóru í Frúarkirkjuna á menningarnótt. Þetta var opin kirkja. Prestar voru til viðtals, ljósstafir á gólfi til að lýsa upp myrkvaða kirkjuna. Allir gátu komið og verið í sínum bæna- eða íhugunarheimi. http://koebenhavnsdomkirke.dk/event/3513415 Opin kirkja af þessu tagi gæti verið í Dómkirkjunni og Hallgrímskirkju á menningarnótt.

Bænalisti

Porvokirknasambandið er biðjandi samfélag. Beðið er fyrir sambandskirkjum. 11. júní er beðið fyrir kirkjulífi á Íslandi og biskupum þjóðkirkjunnar. 

Porvoo – fundir framundan

2018 verður ráðstefna haldin í Eistlandi um meirihluta og minnihluta.

2019 PCG og Church leaders munu hittast Portúgal. Ungt forystufólk í kirjunum verður boðið til fundarins auk leiðtoga í kirkjunni.

2020 Guðfræðiráðstefna. Um samfélag – Communion. Stefnan verði “úthverf” frekar en “innhverf” – þ.e. rætt um samfélagsköllun kirkjunnar.

2021 Porvoo – 25 ára hátíð kirknasambandsins og fundur höfuðbiskupa.
Porvoo-fundir eru jafnan gefandi þeim sem sækja. Hlutverk og stöður hverfa í opnu flæði og samtali ólíkra einstaklinga. Og þar sem fundarmenn eru úr tveimur kirkjufjölskyldum eru þeir jafnan fjölskrúðugir og ríkulegir. Fundunum er ætlað að þjóna kirkjuleiðtogunum, ekki síst biskupunum. Fullur trúnaður ríkir um viðkvæm mál, en þau eru rædd hispurslaust og farið yfir mismunandi kosti. Anglikanarnir hafa t.d. hlustað vel á reynslusögur lútherskra og lært mikið af norrænu kirkjunum um meðferð mála samkynhneigðra. Brexit-umræðan á Kaupmannahafnarfundinum var mjög opin og hinar ólíku áherslur voru opinberaðar, allt eftir því hvort átt var við hagsmuni Englendinga, Íra, Walesbúa eða Skota. Vandi kirknanna var ræddur, en trúarviskan var ómenguð. Hrædd eða smæðarleg trú kom ekki við sögu heldur styrk, björt og framtíðarleitandi viska af hæðum. Það er því þakkarvert að fá að vera með. Porvoo-samfélagið hefur náð að vera opið og þroskað samfélag, sem á eftir að skila meiri samvinnu á næstu árum.

Peder Skov Jakobsen, Kaupmannahafnarbiskup, er með skemmtilegustu mönnum og tryggði að kvöldsamverur væru gleðilegar. Fólki var raðað saman og svo endurraðað til að tryggja að kynni yrðu margvísleg og sem mest. Við Justin Welby voru t.d. settir saman í hálftíma og áttum djúpsækið og mjög persónulegt samtal en líka skemmtilegt. Welby er kátur sögumaður og fór yfir ekki aðeins eigið upphaf, heldur gaf innsýn baksvið stórmála í enskri pólitík. Kvöldsamverurnar í biskupsgarði voru miklar söngsamverur og anglikanar voru mótmælalaust dregnir í færeyskan hópdans. Þetta var allt gert í lútherskum anda, enda fagnaðarerindið tilefni til fögnuðar og lífsgleði.   

Porvoo-kirknasambandið er kennt við Borgå eða öðru nafni Porvoo í Finnlandi en þar var sambandsaðild undirrituð. 

Sigurður Árni Þórðarson, fulltrúi íslensku þjóðkirkjunnar í tengslahóp Porvoo-kirknasambandsins, Porvoo Contact Group.