Greinasafn fyrir merki: porchetta Italiana

Forseti Ítalíu – Porchetta Italiana

IMG_1952Fjölskyldan fór í vikuferð til Noregs og Svíþjóðar – til Kristínar systur og karlanna hennar, Öyvinds og Baldurs. Daginn áður en við fórum duttum við Ísak, níu ára sonur minn, niður á matarmyndband Ragnars Freys, þess ágæta “kokklæknis.” Ragnar eldaði m.a. Porchettu – samansaumaðan svínasíðupoka um svínalund. Við horfðum á bandið andaktugir og hétum hvor öðrum því að við skyldum nú elda þetta góðgæti fyrir stórfjölskylduna þegar allir væru komnir í sumarparadísina – Kristínarskjól – í Strömstad. Vegna flaums Norðmanna til Strömstad eru matarkisturnar þar á heimsmælikvarða og í Strömstad Mat fundum við allt sem Ragnar Freyr mælti með í sinni uppskrift. Kjötmeistarinn skar fyrir mig rifin úr og hló að mér þegar ég vildi fá svínasíðuna heldur jafn-ferkantaðri en sú var sem hann átti í borðinu. En svona eru svínasíðurnar sagði hann en ég var nú á því að hún væri heldur stutt á anan kantinn. Svo ræddum við málin og ég sagði honum að ég ætlaði að ofurkrydda síðuna og setja svínalundina á hana miðja og vefja síðuna utan um allt gúmmulaðið. Og helst hefði ég vilja sauma síðuna saman. Þegar hann gerði sér grein fyrir að íbjúga fótboltanálin mín (rúllupyslunálin) væri heima á Íslandi hjóp hann til og náði í kjötsmokk og gaf mér. Við klæddum súperpylsuna í hann og hann hélt vel allan þriggja klukkutíma steikingartímann.

Hráefnið er þetta:

3 kg svínasíða

1/2 kg svínalund

börkur af einni sítrónu

3 msk jómfrúarolía

3 msk marsala-vín

1 msk fennelfræ

2 msk hökkuð salvía

2 msk hakkað rósmarín

salt og pipar

2 greinar rósmarín

Mirepoix (laukur, sellerí og gulrætur)

3 fennelhausar

Hægt er að nálgast eldunarleiðbeiningar t.d. á slóðinni: http://www.mbl.is/smartland/pistlar/ragnarfreyr/1353916/

IMG_1950

Á vefnum – undir gúglinu porchetta – eru margar aðrar og skemmtilegar útgáfur sem hægt er að nota. Ég bætti við einum lauk og helling af hvítlauk og ekki síðra að mylja ofurlítið af einiberjum með því þau vaxa í breiðum á Nöthomen við Strömstad. Notaði reyndar ofurlítið sherry líka en eitthvað rautt vín færi betur. Rósmarínið kom úr blómabeði heimilismanna, heilbrigt og fallegt. Svo var gaman að elda í sumarhitanum, svuntan var toppurinn. Kláraði kokkaríið fyrripart og smellti í ofninn og steikti meðan fólkið gekk út eða fór að sigla. Þegar allir komu heim var yndislegur ilmur í húsi og lagði út yfir síkið við morgunverðarpallinn.

IMG_1954

Sonur minn var búinn að gleyma ítalska nafninu og íslenskaði það. Með lyktina svona lokkandi spurði hann: Hvenær verður búið að steikja forseta Ítalíu? Öllum var skemmt og síðan gengur þessi réttur undir nafninu forsetinn eða forseti Ítalíu. Porchetta er orðin að forseta – það er við hæfi.

Kjötæturnar í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst en grænhneigða fólkið var ekki eins hrifið af forsetanum – kýs hann ekki aftur og steikir hann ekki heldur. En kokkurinn var kátur með allt ferlið, margir borðuðu mikið. Ég kýs forsetann.