Greinasafn fyrir merki: peningar

Eru eignir einkamál

Hversu miklar eignir áttu? Má spyrja þig svona spurningar? Tilgangurinn er ekki að fá tölur eða upplýsingar um fasteignir heldur biðja þig að íhuga afstöðu þína til eigna þinna og stöðu þinnar. Hver er lífsleikni þín og hvaða afstöðu opinberar peningahyggja þín?

Við megum gjarnan spyrja okkur líka hvort það sé einkamál fólks hversu ríkt það er? Skatturinn telur að svo sé ekki og þú eigir að gefa allt upp, það sem þú átt innanlands en líka í skattaskjólunum – allt þitt. Og hvað gerir þú við þetta fé? Ef þú átt hundrað milljónir er það ekki bara einkamál þitt hvernig þú notar þær? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga?

Til hvers eru eignir? Getur verið að við höfum skyldu að gegna gagnvart einhverjum öðrum en sjálfum okkur varðandi peninga okkar og fjármuni? Það er hagnýtt að draga í þessu sambandi fram andstæðuna og slagorð frá liðinni öld: Löglegt en siðlaust. Það er löglegt að hugsa bara um sjálfan sig í notkun fjár en það er hins vegar siðlaust að hugsa bara um sjálfan sig og gleyma öllum hinum. Börnin, framtíðarkynslóðir, eiga kröfu á hendur okkur um góða meðferð eigna, já hvernig við lifum. Löglegt og siðlegt er andi kristninnar.

Fjármálasnillingurinn Jesús

Guðspjall dagsins er um eignir og og notkun þeirra. Og það hét á gömlu tungumáli Biblíunnar, ráðsmennska. Jesús segir sögu, eina af 38 dæmi- eða líkingasögum sem miðlað er í Nýja testamentinu. Og merkilegt er að Jesús talaði enga lífsfjarlæga himnesku heldur notaði hann ræðutíma sinn og fræðslustundir til að vekja fólk til vitundar um hagnýt mál og að það skipti máli hvernig við lifum, hugsum, tölum og störfum. Mörgum, sem lesa í Biblíunni, kemur á óvart hversu oft Jesús talar um peninga. Helmingur smásagna hans varðar notkun á fjármunum! Jesús hugsaði um peninga, talaði um þá og var merkilegur fjármálaspekulant. Hann vakti athygli á hagfræði og hefði verið flottur í tímum viðskipta- og hagfræðideilda heimsins.  

Í guðspjalli þessa sunnudags segir Jesús frá peningamanni, sem var nappaður að því að fara illa með og fyrirtækið sem hann stýrði var í vondum málum. Honum var sagt upp en mátti vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat því ákveðið með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann gafst ekki upp heldur sýndi snilldartakta, sem ekki voru þó í þágu húsbóndans heldur hans sjálfs. Hann kallaði í alla, sem skulduðu eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Og hver var tilgangurinn. Jú, karlinn gerði sér grein fyrir að staða hans yrði skelfileg þegar vinnutími yrði búinn. Hann yrði atvinnulaus og allir vanvirtu hann og sneru við honum baki. Hann var því fljótur að hugsa og ákvað að nota þennan uppsagnartíma í eigin þágu, láta eigandann blæða en hann sjálfur myndi græða. Tilgangurinn með skuldaafskriftunum var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann greiða inni hjá þeim, hönk upp í bakið á skuldaraliðinu. Ameríkanar hafa löngum notað málsháttinn: „Scratch my back and I´ll scratch yours.“ Merkingin er einföld: „Gerðu mér greiða og ég endurgeld greiðann.“ Og það var og er inngreypt í fólk að þetta sé eðlilegt lögmál í samskiptum. Ég varð einu sinni vitni að því að maður vildi innheimta greiða sem hann hafði gert öðrum en beiðni hans var hafnað. Hann var furðu lostinn yfir að geta ekki sjálkrafa kallað á endurgjaldið eins og það væri í einhverju bandi sem hægt væri að kippa í.

Trúmennska og heiðarleiki

Jesús minir fólk á með sögu dagsins að gæta raunveruleikans og horfa á fólk með raunsæi. Orð Jesú, boðskapur hans er: Fyrir alla muni verið ekki kjánar, bláeyg börn, heilagir sakleysingjar. Verið vakandi gagnvart fólki! Og eigum við að hlusta á þessa Jesúspeki. Já, margir, jafnvel flestir eru aðeins með hugann við eigin hag, eigin dýrð, eigin fjármuni og velferð og láta sig litlu skipta um aðra. Flestir eru sjálfhverfir. Jesús talar því enga himnesku um eitthvað sem er ótengt lífinu. Trú á að vera raunhæf, með báða fætur á jörð og í veruleika mannlífsins. Ljóssins börn eiga að vera raunsæ á sjálf sig, annað fólk og hve lífið er margslungið. 

Jesús segir merkilega örsögu, sem fólk veit ekki hvort er ýkjusaga, brandari eða spekisaga. Fólk veit ekki hvort á að bregðast við henni með því  að hlægja eða taka hana alvarlega. En af því hún er tvíræð er hún áleitin og umhugsunarverð. Skilaboð Jesú virðast vera: Fylgist vel með hinum undirförulu. Verið það sem þau eru ekki, gerið ekki það sem þau gera. Í stað þess að láta peninga fylla huga og líf notið þá í annarra þágu. Þá verður til fjársjóður á himnum. Fylgist með Donald Trump, með Erdogan, með viðskiptamógúlunum, með stjórnmálamönnunum, hinum ríku, yfirvöldum, stjórnendum, embættismönnum – öllum sem hafa möguleika til að hagnýta sér aðstæður. Er allt gott og farsælt, sem þau gera. Misnota einhver vald sitt? Kunna þau að klóra breiðu bökin?

Markmið eða tæki

Kristnin hefur kennt allt frá tíma Jesú að fólk á að ekki að vera þrælar eigna sinna og aðstöðu heldur nota í þágu lífsins, í þágu allra, ekki síst þeirra sem eru þurfandi. Sannur yfirmaður lætur stjórnast af lífsafstöðu og góðu siðferði. Um allar aldir hefur það verið skýr og einfaldur Jesúleg lífsviska að tengja völd og gott siðferði. Hvort sem höfðingarnir vildu eða ekki. Það var og á að vera yfirmönnum og undirmönnum kristileg skylda að vera kunnáttusöm í lífsleikni og siðferði.

Er siðfræðin vanvirt sem uppistaða þroskaðrar lífsleikni? Við getum efast um að einhver siðferðisvídd sé fólgin í orðunum fjármagnseigandi, fjárfestir og forstjóri. Flestir skilja þó að farsæl stjórn fólks og fjár verður aldrei án gilda. Siðlaus stjórn drepur og veldur aðeins óbærilegri þjáningu. Stórfyrirtæki og stjórnvöld í Evrópu, Ameríku og um víða veröld setja sér því orðið siðareglur vegna þess að siðsemi – í viðskipum, stjórnun hvers konar -borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Siðlaus fyrirtæki tapa alltaf á viðskipum. Stjórnvöld, hreyfingar og fyrirtæki sem ætla að lifa lengur en nokkur ár verða og ættu að setja skýrar reglur um viðmið, ferla og mörk.

Jesús dregur fram hve viðskipti eru lituð af sjálfselsku og að embættismenn geta verið uppteknir af eigin völdum, stöðu og fé og brugðist þar með störfum sínum og hlutverkum. Freisting valdamanna er að gerast egódólgar. Prettavitið getur orðið gríðarlegt, en þjónustan léleg og réttlæti fótum troðið. Guðfræði er til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Og trú er iðkandi lífsafstaða sem leyfir skarpskygni og siðvit varðandi hlutverk fólks í heimi og framtíð. Að trúa merkir ekki að tapa sér í einhverri himneskri glópsku, heldur að trúmaðurinn læri að horfa á heiminn með augum Guðs og vera samverkamaður og Guðs í veröldinni.

Hlutverk okkar er að vera sólarmegin og rækta með okkur líf og gæði. Við erum öll ráðsmenn í lífi okkar, stjórn, peningamálum, kirkju, samfélagi og náttúru.

9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Textaröð A

Umboðsmaður og ráðherra

Er ekki alveg úrelt að auglýsa eftir ráðsmanni? Hefur þú einhvern tíma lesið eða heyrt í atvinnuauglýsingum: Ráðsmaður óskast! Er auglýst eftir slíku fólki. Er það ekki alveg úrelt? Og veit einhver hvað ráðsmaður gerir? Hvernig skilur þú hugtakið?

Þegar orðið er gúglað koma nokkur dæmi í ljós og gjarnan í tengslum við að setja einhvern stjóra vegna búskipta eða fjármálauppgjörs. Eins og vænta mátti – af því orðið kemur fyrir í dæmisögum Jesú – kann Google að nefna nokkur dæmi í tengslum við trú og Biblíuna.

Siðferðisþreyta

Þegar farið er að skoða nánar notkun orðsins kemur í ljós að starfsheitið ráðsmaður er að hverfa úr máli og lífi fólks og önnur orð að koma í staðinn. Af hverju skyldi svona merkilegt og gott og merkingarþrungið orð vera að hverfa úr málinu? Mig grunar að ein af ástæðum sé hægfara þróun í vestrænum samfélögum í marga áratugi, þróun sem hægt er að kalla siðferðisþreytu. Atvinnubreytingar skákuðu gömlum viðmiðum og siðferði til hliðar. Þegar auglýst var eftir fólki til vinnu var ekki venjan að vísa til Jesú Krists nema ef ráða átti kirkjulega starfsmenn. Og þar sem ráðsmannshlutverkið var tengt siðferði í Biblíunni þá varð hugtakið smátt og smátt óþjált og varla nothæft. Þegar samfélag tuttugustu aldar var orðið þreytt á siðferði þá datt þetta gamla starfsheiti út og önnur starfsheiti komu í staðinn.

Stjórinn

En hver var hin forna merking hugtaksins ráðsmaður? Hvað gerði ráðsmaður? Jú, ráðsmenn stjórnuðu og tóku ákvarðanir um verk, fjárnotkun o.s.frv. Slíkt fólk er nú nefnt stjórnarmaður, forstjóri, framkvæmdastjóri, deildarstjóri, yfirmaður, staðarhaldari, stjórnarformaður, stjórnmálamaður, umboðsmaður og embættismaður – svo nokkur séu nefnd. Og þetta fólk hefur margvíslegum umsýsluhlutverkum að gegna. Það gætir hagsmuna og stýra málum fyrir hönd þeirra sem eiga. Þessu fólki er auðvitað ætlað að axla ábyrgð og skila vel af sér. En höfum við þá tæmt hlutverk ráðsmanna? Eru þau aðeins umsýsluhlutverk vegna fjármuna og eigna?

Hvernig er með fjölskyldumálin þín? Hvað um vinnuna? Hvernig er með tengslin við annað fólk, líka þau sem eru allt öðru vísi og hinsegin? Kemur ráðsmennskan eitthvað þar við sögu? Hvað með pólitík og stóru siðferðisákvarðanir samtímans, náttúrverndarmál og framtíð jarðarkúlunnar? Og hvað um foreldra ungra barna? Hvað um þau sem sinna mannauðsmálum og starfsmannamálum? Gegna þau einhverju hlutverki ráðsmennsku?

Beint frá Jesú Kristi

Á fyrri öldum voru hlutverk yfirmanna alltaf tengd siðferðisábyrgð. Það var einfaldur kristilegur barnalærdómur að tengja völd og gott siðferði – hvort sem furstar, greifar, kóngar og keisarar vildu eða ekki. Það var kristileg skylda þeirra að vera dygðugir í lífi og verkum. Sálmarnir, bækurnar, guðfræðin og prestarnir minntu á að ráðsmaður ætti samkvæmt boðskap Jesú Krists að nota vald sitt með ábyrgð. Vald og siðvit ættu og skyldu fara saman.

Ef orðið ráðsmennska er orðið lítið notað og þar með að hverfa úr máli þjóðarinnar er íhugunarefni hvort siðferðið rýrnar líka. Við getum t.d. spurt okkur hvort fólgin sé einhver siðferðisvídd í orðinu fjármagnseigandi eða orðunum fjárfestir og forstjóri. Flestir skilja og vita að stjórn fólks og fjár verður aldrei farsæl án gilda. Siðlaus stjórn drepur eða veldur þjáningu. Stórfyrirtæki setja sér siðareglur vegna þess að siðsemi í viðskiptum borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Siðlaus, siðbrengluð eða siðskert fyrirtæki tapa alltaf á viðskipum. Fyrirtæki eins og Boeing og Volkswagen urðu fyrir gífurlegu tjóni vegna þess að þau fóru í störfum sínum á svig við gott siðferði og siðareglur. Stjórnvöld, hreyfingar og fyrirtæki setja sér orðið reglur um viðmið, ferla og mörk. Ráherrar ríkisstjórnar Íslands eru t.d. bundnir í störfum sínum af siðareglum sem settar voru í árslok 2017. Þar kemur t.d. fram að ráðherra má aldrei láta persónulega hagsmuni rugla opinber störf sín, sem alltaf eiga að vera í þágu almennings fyrst og fremst. Ráðsmennskan er sem sé kjarni þjónustu ráðherrans og á að stýra stefnu, já öllum ákvörðunum.

Ráðsmennskan

Guðspjall dagsins er um eignir og ráðsmennsku. Til hvers eru eignir? Ef menn eiga hundruð milljóna er það ekki bara einkamál þeirra hvað þeir gera við peningana? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga? Börnin, framtíðarkynslóðir, eiga kröfu á hendur okkur um góða meðferð náttúru og eigna. Við þurfum að skila af okkur því sem við höfum að láni, fé, verkefni, náttúru. Það skiptir máli hvernig við lifum og hverju við skilum. Við berum siðferðilega ábyrgð, líka gagnvart framtíðinni.

Jesús segir í guðspjalli dagsins sögu. Hún er ein af 38 dæmi- eða líkingasögum sem hafðar eru eftir Jesú. Í ræðum og fræðslu talaði hann gjarnan um hagnýt mál. Mörgum sem fara að lesa í Biblíunni kemur á óvart hversu oft Jesús talar um peninga. Helmingur smásagna hans varðar notkun á fjármunum. Í texta þessa sunnudags segir Jesús frá peningamanni, sem var nappaður því hann fór illa með. Honum var sagt upp en átti að vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat ákveðið sjálfur með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann fékk að ráða hvað hann gerði. Og hann ákvað að vinna lítið fyrir vinnuveitandann en nota tímann aðallega fyrir sjálfan sig. Hann var bara sjálfhverfur en sýndi snilldartakta. Það eru jú engin takmörk fyrir því sem fólk gerir fyrir sjálft sig. Karlinn kallaði í alla, sem skulduðu vinnuveitanda hans eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Tilgangurinn með þessu athæfi var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann greiða inni hjá þeim, hönk upp í bakið á skuldaraliðinu.

Egódólgar eða góð gagnrýni

Hver er nú tilgangur þessarar sögu? Er Jesús að kenna fólki að plata? Kennir Jesús prettavit? Örsaga Jesú er tvíræð, áleitin og umhugsunarverð. Fólk veit ekki hvernig eigi að skilja söguna. Er þetta gamansaga, brandari eða alvörusaga? Á að hlægja að henni eða taka hana alvarlega? Sögur Jesú teygja á og markmið þeirra er að fá fólk til að hugsa, bregðast við, dýpka skilning, rækta lífsleikni og bæta líf fólks. Jesús minnir einfaldlega á að fólk eigi ekki að vera heilagir sakleysingjar heldur með meðvitund gagnvart eigingjörnu fólki. Ljóssins börn eigi að vera raunsæ á sjálf sig, annað fólk og hve lífið er margbreytilegt og tvíbent. Jesús hvetur til að vel sé fylgst með hinum undirförulu. Ekki til að apa eftir þeim heldur til að vera það sem þau eru ekki. Gerið ekki það sem þau gera! Í stað þess að láta peninga fylla huga og líf notið þá í annarra þágu, til að hjápa öðrum. Þá verður til fjársjóður á himnum.

Jesús dregur vel fram, að viðskipti eru oft lituð af sjálfselsku og að embættismenn geta verið lélegir þjónar og uppteknir af eigin völdum, stöðu og fé. Freisting valdamanna er að gerast egódólgar. Prettavitið getur orðið gríðarlegt, en þjónustan léleg og réttlætið fótum troðið. Orð Jesú er því ekki lífsfjarlæg himneska. Kristnum mönnum er vissulega ætlað að tala um það sem vel er gert, benda á framúrskarandi þjónustu, framfarir og samfélagslegar bætur, en hika ekki heldur að ræða hvað fer úrskeiðis og hvað er hugsanlega úr takti við trú, gildi og siðferði í fjármálageiranum, náttúrumeðhöndlun, stríðsrekstri og samfélagi. Trú upplýsir menn um líf og lífsstefnu.

Sögur Jesú Krists og öll kristin fræði eru fyrir fólk, í þágu lífs fólks og til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Þó ekki sé rædd flokkspólitík eða dægurpólitík í kirkjunni er alltaf rætt um grunnþættina, hið mikilvæga og þar með einnig um skuggahliðar mannlífsins, einstaklinga og kerfa. Já, Jesús vildi ekki að við værum kjánar og sakleysingjar heldur ábyrg og elskurík og þyldum að horfast í augu við og tala um bresti og slæmt siðferði.

Himnesk glópska eða skerpa?

Trú er tengsl sem gefur sýn og hlutverk manna í heimi og framtíð. Að trúa er að tengja við það mesta, besta og stórkostlegasta í tilverunni. Og trú á aldrei að tapa sér í himinglápi, heldur reynir trúmaðurinn að temja sér – alla vega að æfa sig í – að horfa á heiminn með augum Guðs. Það merkir að vera fulltrúi Guðs í veröldinni, samverkamaður, þjónn lífsins í veröldinni og stuðla að góðu lífi.  

Hvort sem þú notar orðið ráðsmaður eða ekki hefur siðferðisdýptin ekki slaknað. Við erum öll ráðsmenn í lífi okkar, stjórn, peningamálum, kirkju, samfélagi og náttúru. Orðið ráðsmaður er kannski týnt en hlutverkið ekki, það er þitt og okkar svo lengi sem við lifum.

Amen

Hallgrímskirkja 9. ágúst.

Meðfylgjandi mynd tók ég á aðalhóteli Santander á Spáni. Þessi gömlu salt og pipar- staukar voru búnir að þjóna mörgum. Þeirra siðferði var skýrt og klárt. 

A-textaröð

Lexían: Orðs. 2.1-6

Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku
og geymir boðorð mín hjá þér,
svo að þú ljáir spekinni athygli þína,
hneigir hjarta þitt að hyggindum,
já, ef þú kallar á skynsemina
og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim sem að silfri
og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er,
og öðlast þekking á Guði.
Því að Drottinn veitir speki,
af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Pistillinn: 1. Pét. 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lk. 16.1-9

Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.

 

 

Núvitund trúarinnar

Biblían er mögnuð og mikilvægt að virða sérleik hennar. Við ættum ekki að lesa Biblíuna eins og lögbók eða náttúrufræði, heldur sem stórbók um lífið, allar víddir þess og bylgjur. Við ættum að reyna að forðast að láta eigin fordóma eða forsendur stýra hvernig við lesum eða nálgust frásögur og viðfangsefni Biblíunnar, heldur leyfa þessu mikla lífslistasafni að tala við okkur og inn í okkar aðstæður. Og sögur Biblíunnar eru um allt sem fólk er að hugsa og reyna, um áhyggjur, vonir, þrá, hatur og ást, dauða og líf. Ekkert í heimi okkar manna fellur utan Biblíuviskunnar því í henni eru allar tilfinningar manna. En Biblían er ekki bara um sigra og sorgir mannlífs eða liti og form náttúrunnar. Biblían er líka um Guð, sem elskar fólk og veröldina sem við lifum í. Í Biblíunni hvíslar Guð til okkar sem viljum heyra. Og sögurnar sem sagðar eru í þessu mikla ritasafni eru um lífið, hvað við megum gera og hvernig við megum vera. Saga dagsins er ein af þessum kjarnmiklu sögum um leit fólks. Þetta er saga um mikinn lífskraft en líka mikil vonbrigði. Í henni eru margir plúsar, alls konar bónusar, sem við megum nýta okkur til velfarnaðar því saga er um okkur. Og endursögn dagsins er svona:

Guðspjallið

Strákur kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum, sem fylgdi honum jafnan. En hann hafði heyrt um, að Jesús væri snjall og var tilbúinn til að hlusta. Og nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf?

Hvað á ég að gera? Það var spurningin. Einlæg og heiðarleg spurning. Svo beið hann eftir svari og stefnu. Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri kennari með nemendur í tíma. Hver er góður? Já, alveg rétt: Það er Guð. Svo fór Jesús yfir efnið sem allir Gyðingar þurftu að þekkja og skilja: Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki og að svindla ekki á öðrum. Við eigum líka að virða ástvinina. Maðurinn kunni þetta auðvitað allt vel og sagði sannfærður: “Ég hef gætt alls þessa.” Jesús horfði á hann og var sannfærður um að maðurinn væri aðgætinn, nákvæmur, vandvirkur og heiðarlegur. Og svo bætti Jesús við og þar kom Salómonsdómurinn: Bara eitt sem vantar upp á hjá þér. Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – og komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.

Var þetta bara smáatriði, eitthvað sem auðvelt væri að gera? Hljóp eignamaðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann varð fyrir fullkomnu áfalli – og guðspjallið skýrir þetta með því að hann hafi átt miklar eignir. Þetta er sagan um að snúa sér að því sem skiptir öllu máli.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég fengið inngang í eilífðina, fengið að lifa áfram alltaf, vinna öll lottó tíma og eilífðar? Hvert er notendanafnið og lykilorðið að himnaríki? Hvernig get ég komist inn? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Þetta var erindi mannsins. Og Jesús horfði á þennan heiðarlega, elskulega auðmann og benti á eina veikleika hans, sem hindraði að hann hakaði í öll box. Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt sem hemur þig. Þær eru eina hindrun þess að þú náir því sem þú þráir.

Af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki, bisnissnillingum? Nei, svo sannarlega ekki. Hann vildi aðeins, að við iðkuðum hamingjuna og létum ekkert hindra. Verkefni manna er stöðugt að greina hvað þvælist fyrir, hindrar fólk á veginum, þvælist fyrir svo fólk kemst ekki á leiðarenda?

Og hvernig eigum við að skilja þennan texta. Er þetta bara spurning um ríkidæmi og peninga. Nei, Jesús var að tala um gildi og það sem er innan í okkur og klúðrar málum okkar og veldur vanlíðan. Er eitthvað sem þú þarft að losa þig við, sem mengar lífsgleði þína. Það er í lagi að breytast. Við megum þora að breytast. Allt tekur breytingum, líka tilfinningar okkar og jafnvel trúarefnni. Ef eitthvað heldur þér niðri eða stoppar þig þarftu að skoða málin. Er það fíkn, einhver reynsla sem hefur sest að þér, misnotkun, einhver kvíði, eitthvað sem þú þráast við að sleppa? Þetta veit AA-fólkið og öll þau sem hafa lifað af þrátt fyrir að skalla botninn.

Ef eitthvað heldur fast í þig og þú þroskast ekki þarftu að sleppa, til að geta verið í sambandi við sjálfa þig og sjálfan þig. Þú getur aldrei verið Guðs í gegnum aðra. Vertu til að vera Guðs, lifa Guði, vera í sambandi við Jesú.

Hvað á ég að gera? spurði maðurinn. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins. Vera og gera svo.

Biðja – iðja 

Við vinnum mikið til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðan ramma. Við bisum við að koma okkur upp góðum aðstæðum og uppgötvum okkur til talsverðar furðu, að börnin okkar vilja mun frekar eiga gæðastund með pabba eða mömmu en glás af peningum eða stórkostlegar aðstæður. Við puðum en gleymum kannski hinu mikilvæga – að vera.

Hvað viljum við? Viljum við kannski hafa veröldina eins og búð og stingum í körfu okkar því, sem okkur líkar best við. Jesús minnir á, að vera er það að vera vinur hans, eiga gott samband við hann og treysta trúnaðarbandið við hann. Viljum við það?

Ora et labora var sagt á miðöldum – biðja og iðja. Að vera í Jesúskilningi er það að innlifast Guði og afleiðingar af því eru altækar. Gera eða að vera? Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Hann hafnaði algerlega, að maðurinn þyrfti að gera þetta og hitt til að Guð elskaði fólk og opnaði himindyrnar. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. En röðin er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er síðan að gera vel. Vertu og gerðu síðan. En ekki öfugt.

Að vera er að vera í essinu sínu, vera með sjálfum sér, tengja við lífið, opna fyrir undrum augnabliksins. Og þessi djúpa núvitund varðar helst og best að vera í góðu sambandi við Guð. Að vera Guðs er að vera sítengdur eilífðaranetinu. Þá fer lífið raunverulega í samband – ekki í samband við sýndarveruleika heldur við raunveruleikann, sem við lifum í og erum af. Þá er lífið gott og við berum ávöxt í lífi okkar. Afstaða elur siðferði. Vera fyrst og gera svo.

Amen.

Hallgrímskirkja 20. október, 2019.

Textaröð:  B

Lexía:  5Mós 10.12-14

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Pistill:  1Jóh 2.7-11

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Guðspjall:  Mrk 10.17-27

Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“